Suðurlandsskógar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 22:12:13 (6774)

1997-05-16 22:12:13# 121. lþ. 128.20 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[22:12]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé að enginn vilji er af hálfu forustu landbn. til að koma til móts við þau sjónarmið sem liggja fyrir og ég verð að harma það. Hver getur skorið úr um og fullyrt það hér og nú að tekið verði tillit til sjónarmiða ef þess er ekki gætt að mótaður farvegur sé ráðandi um máls\-tökin? Hver getur fullyrt það hér og nú að þannig verði á málum haldið? Ekki nokkur einasti maður. Og þetta er alveg ótrúleg meinbægni og skammsýni sem kemur fram í þessum viðhorfum, alveg með ólíkindum. Það er alveg furðulegt að þannig skuli á málum haldið varðandi málefni af þessum toga, þar sem gert er ráð fyrir að nota stórar upphæðir af almannafé, að ekki sé alveg skýrt hvernig eigi að halda á undirbúningi málsins. Það hlýtur að draga dilk á eftir sér ef þannig á að halda á málum. Ég vara mjög eindregið við því að þannig sé staðið að verki og verið sé að ala stöðugt á tortryggni og vera með einhver skúmaskotavinnubrögð í sambandi við svona mál. Á meðan þetta fer ekki eftir almennum reglum, þá er ekki hægt að treysta vinnunni. Þá er enginn sem segir til um það að almenningur komist að málinu, undirbúningi þess á þann hátt sem gildir í sambandi við mat á umhverfisáhrifum og tryggt er með þeim hætti. Það er alveg greinilegt á þeirri tregðu að verða við slíkum sjónarmiðum sem hljóta þó stuðning Sambands sveitarfélaga á svæðinu sem staðið er gegn slíku og beinlínis tekið fram í áliti landbn. að ekki sé fallist á þetta sjónarmið. Ég verð því að lýsa miklum vonbrigðum með afstöðu af þessum toga og ég er ansi hræddur um að það geti dregið dilk á eftir sér varðandi það málefni sem hér er til umræðu.