Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 27 . mál.


27. Tillaga til þingsályktunar



um varðveislu ósnortinna víðerna.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að marka stefnu um varðveislu ósnortinna víðerna landsins. Stofnaður verði starfshópur, skipaður fulltrúum Náttúrufræðistofnunar, Náttúruverndarráðs, Skipulags ríkisins og Landmælinga Íslands undir forustu fulltrúa umhverfisráðuneytis, sem falið verði það hlutverk að skilgreina hugtakið ósnortið víðerni og kortleggja þau svæði á Íslandi sem falla undir það. Engar framkvæmdir verði ákveðnar eða hafnar á miðhálendi landsins eða öðrum stórum óbyggðum svæðum fyrr en að þessu verki loknu og settar hafa verið reglur um varðveislu og nýtingu ósnortinna víðerna landsins.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á síðasta þingi og er hér flutt að nýju með lítillega breyttri greinargerð.
    „Náttúra Íslands er ein mikilvægasta auðlind og gersemi þjóðarinnar. Því skiptir miklu að við nýtum hana og verndum af framsýni og fyrirhyggju í þágu þeirra kynslóða sem erfa munu landið.
    Það er eitt af mikilvægustu verkefnum nútíðar og framtíðar að vernda landið og lífríki þess gegn mengun og öðrum umhverfisspjöllum. Flestum er nú ljósara en áður hve mikils virði þau lífsgæði eru sem felast í óspilltu umhverfi, hreinu lofti, tæru vatni og óheftum samvistum við náttúruna í hennar margbreytilegu mynd.“
    Þannig kemst Gunnar G. Schram prófessor að orði í formála nýútkominnar bókar sinnar „Umhverfisréttur. Verndun náttúru Íslands.“ (Háskólaútgáfan. Landvernd. 1995.) Orð hans eru dæmigerð fyrir þau viðhorf sem góðu heilli njóta vaxandi skilnings og fylgis meðal þjóðarinnar. Æ fleirum er orðið ljóst að „í óspilltri náttúru Íslands felst gífurleg eign íslensku þjóðarinnar, mesta eignin ásamt auðlindum hafsins og ekki auðvelt að meta hvor eignin er verðmeiri“ eins og komist var að orði í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 14. janúar sl. Þar var eindregið hvatt til víðtækra stefnumarkandi umræðna á Alþingi og meðal almennings um það hvernig standa beri að verndun öræfa og óbyggða á næstu árum og áratugum.
    Framangreint var einmitt efni ráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands og Skipulags ríkisins sem haldin var 8. mars sl. og fjallaði fyrst og fremst um nýtingu hálendisins með tilliti til ferðaþjónustu. Frummælendur og þátttakendur á ráðstefnunni virtust á einu máli um mikilvægi þeirrar auðlindar, sem miðhálendið er, en höfðu mismunandi hugmyndir um hversu langt mætti ganga til að greiða för um það og til að njóta þess sem þar er að finna. Sumir vildu markvissa uppbyggingu og betri vegi á hálendinu, en aðrir töldu vonda vegi hálendinu beinlínis til tekna. Ýmsir urðu til að minna á eftirfarandi ályktun sem samþykkt var á fjölmennri ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs árið 1991: „Nauðsynlegt er að miðhálendi Íslands verði sett undir eina skipulagsstjórn og svæðið skýrt afmarkað og skilgreint. Ferðamálaráðstefnan telur að stefna beri að því að gera hálendið allt að einum þjóðgarði.“
    Um þessar mundir vinnur samvinnunefnd héraðsnefnda að svæðisskipulagi fyrir miðhálendi Íslands. Nefndin hefur kynnt starf sitt og hugmyndir víða á undanförnum vikum og stefnir að skilum tillagna fyrir árslok. Hugtakið ósnortið víðerni hefur verið til umræðu, en þegar leitað er eftir skilgreiningu kemur í ljós að hún er ekki fyrir hendi.
    Brýnt er að skilgreina þetta hugtak, ósnortið víðerni, sem fyrst og má leita til annarra þjóða að fyrirmyndum í því efni, t.d. til Norðmanna. Þeir hafa sett sér ákveðnar viðmiðanir og reglur um ósnortin víðerni, sem þeir kalla „villmark“, og hafa þegar kortlagt svæði sem falla undir þær viðmiðanir. Þeir eru nú að vinna nánari úttekt á þessum svæðum og kortleggja þau enn frekar. Slík svæði verða að vera í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum á borð við uppbyggða vegi, járnbrautir, orkuver og raflínur. Miðað við þá skilgreiningu geta aðeins um 12% landsins talist til ósnortinna víðerna og varð mörgum Norðmanninum hverft við þær upplýsingar í lok síðasta árs. Þeir höfðu talið sig ríkari af þeirri auðlind en raun er orðin og mætti það vera okkur til varnaðar.
    Þá má sækja fyrirmyndir til Bandaríkjamanna sem hafa verið brautryðjendur í svæðisbundinni náttúruvernd. Þeir hafa víða tekið frá svæði sem flokkast undir ósnortið víðerni eða „wilderness“ eins og þeir kalla slík verndarsvæði. Þessi svæði eru orðin yfir 500 talsins og eru vernduð með lögum þannig að í hvert sinn sem ætlunin er að hrófla við einhverju þarf umræðu um málið á þingi. Eftirfarandi skilgreining á „wilderness“ er frá árinu 1964 (í íslenskri þýðingu): „Ósnortið víðerni, öndvert við land sem mótast af umsvifum mannsins, er hér með skilgreint sem landsvæði þar sem landið og lífríki þess er upprunalegt og maðurinn kemur þar aðeins sem gestur. Ósnortið víðerni er frekar skilgreint í þessum kafla sem landsvæði í eigu Alríkisstjórnarinnar, svæði með sínum upprunalegu einkennum og áhrifum og án varanlegra breytinga af völdum manna eða mannlegrar búsetu, svæðið nýtur verndar og stjórn þess miðar að því að vernda náttúrulegar aðstæður þess, það á 1) í meginatriðum að bera svip af náttúruöflunum einum saman og mannleg ummerki að vera tæpast merkjanleg; 2) að fela í sér einstaka möguleika til einveru eða frumstæðrar og óhindraðrar afþreyingar; 3) að vera hið minnsta fimm þúsund ekrur (um tvö þúsund hektarar) að stærð eða nægilega stórt til þess að framkvæmanlegt sé að vernda það og nýta í óbreyttri mynd; og 4) að búa einnig gjarna yfir vistfræðilegri eða jarðfræðilegri sérstöðu eða öðrum einkennum sem gefa því vísindalegt gildi, fræðslugildi eða gildi sem felast í landslagi eða sögu svæðisins.“ Löggjöf og reynsla Bandaríkjamanna gæti reynst notadrjúg við það starf sem nauðsynlegt er til þess að marka stefnu um varðveislu og nýtingu ósnortinna víðerna hér á landi.
    Um allan heim hefur maðurinn breytt landi og náttúru í sína þágu eftir þörfum og vexti og til skamms tíma óvitandi og áhyggjulaus um afleiðingar gjörða sinna. Óbætanlegt tjón hefur verið unnið á umhverfi og náttúru, og víða er svo komið að ósnortið land og villt náttúra telst fágætur munaður. Í mörgum löndum er nú unnið að verndun slíkra svæða og víst er að möguleikar Íslendinga í þeim efnum eru ýmsum öfundarefni.
    Sérstaða Íslands felst fyrst og fremst í einstæðri náttúru og því hve strjálbýlt landið er og stórir hlutar þess enn óbyggðir og lausir við mannvirki og rask. Í þeim svæðum felast möguleikar sem flestar aðrar þjóðir hafa alls ekki og geta aldrei öðlast. Íslendingar hafa enn tækifæri sem engin önnur þjóð í Evrópu hefur og þótt víðar væri leitað. Á Íslandi er enn hægt að taka frá stórar víðáttur, náttúrulegar heildir, og varðveita þær þannig að komandi kynslóðir fái notið þeirra, geti leitað sér þangað lífsfyllingar og þekkingar.
    Nauðsynlegt er að skilgreina hvað átt er við með hugtakinu ósnortið víðerni og gera sér grein fyrir hvaða landsvæði geta fallið undir slíka skilgreiningu. Að svo búnu þarf að vinna nánari úttekt á þeim svæðum og setja ákveðnar reglur um varðveislu þeirra og umgengni um þau. Þetta verkefni er nauðsynleg viðbót við það skipulagsstarf sem unnið er að og fyrr er getið. Tillagan sem hér er borin fram hefur það markmið að efla umræðu um þessi mál og tryggja nauðsynlegan undirbúning fyrir stefnumótun um verndun og nýtingu ósnortinna víðerna landsins.