Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 60 . mál.


60. Fyrirspurn



til samgönguráðherra um opinbera fjárstyrki til eflingar markaðsstarfi heilsárshótela á landsbyggðinni.

Frá Lúðvík Bergvinssyni.



    Eftir hvaða reglum og sjónarmiðum vann sú nefnd sem samgönguráðherra skipaði til þess að gera tillögur að úthlutun á 20 millj. kr. sem Alþingi veitti á fjárlögum ársins 1995 til eflingar markaðsstarfi heilsárshótela á landsbyggðinni? Byggðist úthlutunin á langtímastefnumótun ráðuneytisins í ferðamálum? Var kannað sérstaklega hvort einstök hótel gætu frekar aukið nýtingu sína utan háannatímans en önnur og hvaða hótel á landsbyggðinni væru betur en önnur til þess búin að halda fundi og ráðstefnur? Hvernig var rekstrareiningin heilsárshótel skilgreind? Hvaða gögn þurftu styrkþegar að leggja fram áður en styrkur kom til útborgunar?
    Hvaða rök lágu að baki styrkveitingu til hvers hinna ellefu hótela og því að viðkomandi hótel fékk þá fjárhæð sem því var úthlutað?
    Hvernig fylgdist ráðuneytið með því að féð væri notað eins og til var ætlast?
    Er Ferðamálasjóður hluthafi í einhverju þeirra hótela sem fengu styrk og þá hverra? Hversu hátt hlutfall hlutafjár á Ferðamálasjóður í viðkomandi hótelum? Hvernig var greiðslustaða þeirra hótela sem fengu styrk gagnvart Ferðamálasjóði þegar styrkirnir komu til útborgunar?
    Er lokið úthlutun á þeim 15 millj. kr. sem heimilt er að verja á árinu 1996 til heilsárshótela á landsbyggðinni og ef svo er, til hvaða hótela runnu þeir styrkir? Ætlar ráðherra að fara að tilmælum samkeppnisráðs, sem fram koma í áliti þess nr. 7/1996, um að við framkvæmd styrkveitinga á vegum ráðuneytisins verði tekið mið af ákvæðum samkeppnislaga?
    Hvers vegna var gert upp á milli heilsárshótela í Vestmannaeyjum við úthlutun styrkja fyrir árið 1995, en þar eru starfandi tvö heilsárshótel, hvort um sig með átján herbergjum og góðri fundaaðstöðu? Telur ráðherra að sú úthlutun sé í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga?


Skriflegt svar óskast.