Ferill 62. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 62 . mál.


62. Frumvarp til lagaum breytingu á höfundalögum, nr. 73 29. maí 1972, sbr. lög nr. 78 30. maí 1984 og lög nr. 57 2. júní 1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)1. gr.


    Við 11. gr. a laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þá skal þeim sem öðlast hafa rétt til notkunar tölvuforrits heimilt án sérstaks leyfis forritshöfundar að skoða, rannsaka eða prófa forritið í því skyni að kanna virkni þess og þær hugmyndir og þau grundvallarsjónarmið sem einstakir þættir forritsins hvíla á að því tilskildu að aðgerðir þessar tengist þeim afnotum sem rétthafa eru heimil í sambandi við nýtingu forritsins.
    Ekki er heimilt að víkja frá ákvæðum greinar þessarar með samningum.
    

2. gr.


    23. gr. a laganna orðast svo:
    Verki, sem er löglega útvarpað beint eða um gervihnött, má endurvarpa til almennings um kapalkerfi óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu, að því tilskildu að sá sem ber ábyrgð á endurvarpinu hafi aflað sér heimildar til þess með samningum við samtök sem annast réttargæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda á sviði viðkomandi verks og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins skv. 23. gr. Höfundar er standa utan samtakanna skulu njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn, sbr. 1. og 3. mgr. 23. gr. Endurvarp um kapalkerfi, sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25 í fjöleignarhúsi eða nærlægum húsum, er þó heimilt án leyfis eða endurgjalds til höfundar.
    Náist ekki samkomulag um leyfisveitingu skv. 1. mgr. eða um skilyrði fyrir henni, þar á meðal um fjárhæð þóknunar, getur hvor aðili um sig skotið því ágreiningsefni til sáttameðferðar hjá úrskurðarnefnd skv. 57. gr. Menntamálaráðuneytið getur sett frekari reglur um framkvæmd þessarar greinar.
    

3. gr.


    Við 42. gr. a laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Einnig er heimil afritun forrits og þýðing eða afþýðing þess þegar slíkt er óhjákvæmilegt til öflunar upplýsinga sem þörf er á til að ná fram rekstrarsamhæfni sjálfstæðs forrits við önnur forrit að fullnægðum eftirgreindum skilyrðum:
    að sú aðgerð sé framkvæmd af þeim aðila sem aflað hefur sér með lögmætum hætti heimildar til notkunar forritsins,
    að slíkar upplýsingar hafi ekki verið tiltækar aðilum sem um getur í 1. tölul. með greiðum hætti,
    að aðgerðirnar takmarkist við þann hluta hins upphaflega forrits sem nauðsynlegar eru til þess að ná fram rekstrarsamhæfni.
    Upplýsingar, sem aflað hefur verið með heimild í grein þessari, verða aðeins notaðar til að auðvelda rekstrarsamhæfni við önnur forrit, en ekki á neinn þann hátt er raski lögmætum hagsmunum hins upprunalega forritshöfundar til eðlilegrar hagnýtingar þess né brjóti gegn höfundarétti hans á annan hátt.
    Ekki er heimilt að víkja frá ákvæðum greinar þessarar með samningum.
    

4. gr.


    43. gr. laganna orðast svo:
    Höfundaréttur helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Nú er um verk að ræða sem ákvæði 7. gr. taka til og skal þá telja greint 70 ára tímabil frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar sem lengst lifir. Höfundaréttur að kvikmyndaverkum helst þó aðeins í 70 ár eftir dánarár þess sem lengst lifir af eftirgreindum höfundum kvikmyndaverks:
    Aðalleikstjórar.
    Handritshöfundar, þar með taldir höfundar samtalstexta.
    Tónhöfundar sé tónlistin sérstaklega samin til afnota í kvikmyndaverkum.
    

5. gr.


    44. gr. laganna orðast svo:
    Þegar verk hefur verið birt án þess að höfundur hafi verið nafngreindur, sbr. 2. mgr. 8. gr., helst höfundaréttur að verkinu uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir birtingu þess. Nú er um verk að ræða sem birt er í einstökum hlutum, svo sem heftum, bindum eða með öðrum hliðstæðum hætti, og gildir þá sjálfstæður verndartími fyrir hvern einstakan hluta.
    Ef höfundur er nafngreindur með þeim hætti sem segir í 2. mgr. 8. gr. áður en framangreint 70 ára tímabil er liðið eða leitt er í ljós að höfundur var látinn er verkið birtist skal um gildistíma höfundaréttar fara eftir ákvæðum 43. gr.
     Sé um verk að ræða sem ekki hefur verið birt og höfundur ókunnur fellur höfundarétturinn niður er 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir tilurð verksins.
    

6. gr.


    Á eftir 44. gr. laganna kemur ný grein, 44. gr. a, svohljóðandi:
    Hafi verk ekki verið birt almenningi innan verndartímabils skv. 43. og 44. gr. skal sá sem fyrst birtir verkið að því liðnu öðlast hliðstæðan rétt til fjárhagsnytja af verkinu og höfundar hafa samkvæmt ákvæðum laga þessara. Verndin helst uns 25 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir birtingu.
    

7. gr.


    45. gr. laganna orðast svo:
    Listflytjandi hefur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt þessu eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem hér eru taldar:
    Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
    Útvarp á beinum listflutningi.
    Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
    Eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. Sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu hennar.
    Nú hefur listflytjandi veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks og getur hann þá ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg, hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverksins.
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu gilda eftir því sem við á ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr. og 53. gr. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. gilda þó aðeins um upptökur sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Standi fleiri en 12 listflytjendur að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi greiðsla fyrir flutninginn.
    

8. gr.


    Á eftir 45. gr. laganna bætist við ný grein, 45. gr. a., svohljóðandi:
    Listflutningi, sem er löglega útvarpað beint eða um gervihnött, má endurvarpa til almennings um kapalkerfi óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu að því tilskildu að sá sem ber ábyrgð á endurvarpinu hafi aflað sér heimildar til þess með samningum við samtök sem annast réttargæslu fyrir verulegan hluta íslenskra listflytjenda og framleiðenda og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins, sbr. þó ákvæði 47. gr., varðandi flutning efnis á markaðshljóðritum. Rétthafar, er standa utan samtakanna, skulu njóta sama réttar og félagsmenn, sbr. 1. og 3. mgr. 23. gr. Endurvarp um kapalkerfi, sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25 í fjöleignarhúsi eða nærlægum húsum, er þó heimilt án leyfis eða endurgjalds til rétthafa samkvæmt grein þessari.
    Náist ekki samkomulag um leyfisveitingu skv. 1. mgr. eða um skilyrði fyrir henni, þar á meðal um fjárhæð þóknunar, getur hvor aðili um sig skotið því ágreiningsefni til sáttameðferðar hjá úrskurðarnefnd skv. 57. gr. Menntamálaráðuneytið getur sett frekari reglur um framkvæmd þessarar greinar.
    

9. gr.


    46. gr. laganna orðast svo:
    Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 2.–6. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 2. mgr. 23. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. gilda þó aðeins um upptökur sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

10. gr.


    47. gr. laganna orðast svo:
    Nú er hljóðrit, sem út hefur verið gefið, notað á því tímabili sem í 46. gr. getur til flutnings í útvarpi eða til annarrar opinberrar dreifingar listflutnings, hvort heldur með beinni notkun eða eftir útvarpi, og ber þá notanda að greiða framleiðanda þess og listflytjanda sameiginlega þóknun fyrir afnotin.
    Krafa til endurgjalds skv. 1. mgr. verður aðeins gerð af innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjendafélaga. Samtökunum skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og vera háðar staðfestingu þess. Í samþykktum þessum skal m.a. kveða á um skiptingu tekna með aðildarfélögum samtakanna.
    Þegar framleiðandi hljóðrits eða listflytjandi á rétt til þóknunar samkvæmt þessari grein skal hún fara eftir heildarsamningi milli innheimtusamtaka skv. 2. mgr. og notanda eða samtökum hans. Ágreiningi um þóknun geta aðilar skotið til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. Nefndin getur gert notanda að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu þóknunar þar til hún hefur verið ákveðin en ella mælt fyrir um stöðvun á notkun verndaðra markaðshljóðrita uns trygging hefur verið sett. Innheimtusamtökunum skal þó heimilt að setja gjaldskrár um flutning af hljóðritum utan útvarps. Slíkar gjaldskrár skulu háðar samþykki menntamálaráðuneytisins.
    Beita skal, eftir því sem við á, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 21. gr. og 54. gr. Sama gildir um 27.–31. gr. að því er listflytjendur varðar. Ákvæði þessi gilda ekki um kvikmyndir og myndbönd.
    

11. gr.


    Á eftir 2. mgr. 60. gr. laganna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði 44. gr. a gilda um birtingu verka sem framkvæmd er af ríkisborgurum eða mönnum búsettum í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    

12. gr.


    61. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði laga þessara skulu einnig taka til bókmenntaverka og listaverka sem orðið hafa til fyrir gildistöku laganna. Sama gildir um listflutning, hljóðrit og myndrit, sbr. V. kafla laganna.
    Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki um ráðstafanir sem hafa átt sér stað eða áunnin réttindi þriðja aðila á grundvelli eldri laga. Heimil er áframhaldandi dreifing til almennings eða opinber sýning á eintökum verks eða listflutnings ef gerð eintakanna var frjáls á þeim tíma er dreifing eða sýning þeirra fór fram, þó þannig að ákvæði 24. gr. um bann við leigu og útláni á verkum haldi gildi sínu.
    Ef eintakagerð verks eða listflutnings, sem ekki nýtur verndar samkvæmt áðurgildandi lögum, er hafin fyrir gildistöku laganna eða verulegur undirbúningur slíkrar eintakagerðar er hafinn er heimilt að ljúka áætlaðri, nauðsynlegri og venjubundinni eintakagerð, þó í síðasta lagi 1. janúar árið 2000. Heimilt er að dreifa eintökum sem þannig eru gerð til almennings eða sýna þau opinberlega.
    Nú er verk eða listflutningur hluti upptöku til flutnings í útvarpi sem gerð er meðan verkið eða listflutningurinn nýtur ekki verndar eða fer fram á grundvelli heimildar í 3. mgr. og er þá heimilt að nýta slíkar upptökur til útvarpsflutnings fram til 1. janúar árið 2000. Sama á við um opinbera birtingu kvikmyndaverka.
    Ef verndartími verks eða listflutnings verður styttri á grundvelli breytts verndartíma samkvæmt lögum þessum en hann hefði verið samkvæmt áður gildandi lögum fer um verndartíma samkvæmt áðurgildandi lögum. Þetta gildir þó ekki ef ákvæði 3. mgr. 44. gr. eiga við.

13. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 119. og 120. löggjafarþingi og er nú lagt fram að nýju, nánast óbreytt. Það var samið að tilhlutan menntamálaráðherra af sérstakri nefnd sem hefur fylgst með þróun höfundaréttarmála á vegum ráðuneytisins á síðustu árum og unnið að endurskoðun höfundaréttarlöggjafarinnar. Samdi nefndin m.a. tillögur til breytinga á höfundalögum sem samþykktar voru sem lög nr. 57 2. júní 1992.
    Með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum) skuldbatt Ísland sig til þess að aðlaga löggjöf landsins að hinu almenna verndarstigi hugverka í Evrópusambandslöndunum. Vísast um þetta efni til 65. gr. samningsins, sbr. viðauka XVII, bókun 28. Í 3. tölul. 1. gr. bókunar 28 segir: „ . . .  munu EFTA-ríkin samkvæmt beiðni og að höfðu samráði við samningsaðila aðlaga löggjöf sína um hugverk til þess að ná að minnsta kosti því almenna stigi í verndun hugverka sem er í Evrópubandalaginu við undirritun þessa samnings“.
    Allt frá árinu 1984 hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sýnt mikinn áhuga á samræmingu hugverkalöggjafar innan markaðssvæðisins og lagt fram ýmsar tillögur að tilskipunum á þessu sviði sem auk samræmingarmarkmiða miða að háu verndarstigi hugverka innan sambandsins. Þegar hafa verið samþykktar fjórar tilskipanir ráðsins á sviði höfundaréttar, þ.e. um vernd tölvuforrita, um leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti, um samræmingu á tilteknum reglum varðandi útsendingar um kapal og gervihnetti og um lengd verndartíma.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar í samræmi við tilskipun ráðsins um vernd tölvuforrita frá 14. maí 1991 (91/250/EBE), en ákvæði íslenskra höfundalaga um tölvuforrit, sbr. lög nr. 57/1992, falla í höfuðatriðum að fyrirmælum tilskipunarinnar, enn fremur tilskipun ráðsins frá 19. nóvember 1992 um leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti (92/100/EBE), tilskipun ráðsins frá 27. september 1993 um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og hliðstæð réttindi tengdum höfundarétti um útsendingar um gervihnött og endurvarps um kapal (93/83/EBE) og að síðustu tilskipun ráðsins frá 29. október 1993 um samræmingu reglna um verndartíma höfundaréttinda og hliðstæðra réttinda tengdum höfundarétti (93/98/ EBE).
    Í tilskipun ráðsins um leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti er aðalreglan sú að kveða skuli á í lögum um rétt til að heimila eða banna leigu eða útlán verka sem njóta höfundaréttar eða hliðstæðra réttinda (grannréttar). Með hliðstæðum réttindum er átt við réttindi listflytjenda og framleiðenda (grannréttindi). Skv. 5. gr. tilskipunarinnar er heimilt að víkja frá þessum ákvæðum um einkarétt til útlána til almennings að því tilskildu að a.m.k. höfundur fái þóknun vegna slíkra útlána. Í greininni segir um þetta atriði að aðildarríkjum sé heimilt að ákveða þóknunina með hliðsjón af markmiðum þeirra til stuðnings menningarstarfsemi. Verði frumvarp þetta að lögum gildir framangreind undanþága eingöngu um bókmenntaverk, en höfundar annarra verka, svo og flytjendur, geta bannað útlán og leigu verka sinna. Tilskipunin krefst þess ekki að vikið verði frá núverandi skipan á greiðslum fyrir útlán hugverka í bókasöfnum samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976, en þar segir m.a. í 11. gr. að ríkissjóður greiði tiltekna fjárhæð árlega í Rithöfundasjóð Íslands fyrir afnot bóka íslenskra höfunda í söfnum þeim sem lögin gilda um, en þau taka ekki til sívaxandi starfsemi skólabókasafna. Þar sem höfundar bókmenntaverka njóta að þessu leyti takmarkaðri verndar á höfundarétti sínum en aðrir höfundar og listflytjendur er vakin athygli á nauðsyn þess að endurskoða ákvæði um greiðslur til höfunda fyrir afnot verka í bókasöfnum og verði greiðslurnar látnar renna til allra höfunda sem hagsmuna eiga að gæta vegna verka á bókasöfnum. Jafnframt verði höfð hliðsjón af endurgjaldi fyrir slík afnot með útlánum bóka á almenningsbókasöfnum annars staðar á Norðurlöndum.
    Það sem skilur milli leigu og útlána samkvæmt tilskipuninni er hvort verkinu er ráðstafað í þeim tilgangi að hagnast á því fjárhagslega, beint eða óbeint. Hvað varðar rétt til leigu kveður tilskipunin á um það að höfundur eða annar rétthafi eigi rétt til endurgjalds fyrir leigu og að þann rétt sé ekki hægt að takmarka með samningum. Með tilskipuninni er verndarstig á listflutningi hækkað þar sem listflytjendum er veittur einkaréttur til flutnings í útvarpi og annarrar dreifingar á listflutningi til almennings. Listflytjendum og framleiðendum er með tilskipuninni veittur réttur til dreifingar á upptökum, þ.e. einkaréttur til þess að gera upptökur aðgengilegar fyrir almenning með sölu eða á annan hátt. Listflytjendur og framleiðendur skulu eiga rétt til að krefjast einstaklingsbundinnar þóknunar vegna dreifingar efnis af hljóðritum til almennings með flutningi í útvarpi eða með öðrum hætti.
    Samkvæmt gildandi höfundalögum er kveðið svo á að hafi höfundur að undanskildum kvikmyndaleikstjórum, tónhöfundum, handritshöfundum og höfundum samtalstexta veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks geti hann ekki án sérstaks áskilnaðar hindrað eintakagerð, útbreiðslu, opinbera sýningu, hvers konar dreifingu eða aðra notkun á verkinu. Í 1. mgr. 4. gr. tilskipunar ráðsins frá 19. nóvember 1992 um leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti (92/100/EBE) er kveðið svo á að höfundar skuli engu að síður halda rétti sínum til sanngjarnrar þóknunar fyrir nýtingu verksins. Í 2. mgr. sömu greinar tilskipunarinnar segir að höfundur geti ekki afsalað sér rétti þessum með samningum. Skv. 8. tölul. 13. gr. tilskipunarinnar má fresta framkvæmd þess ákvæðis til 1. júlí 1997 og er endurskoðunarnefnd höfundalaga sammála um að rétt sé að fresta gildistöku ákvæðisins með vísan til þessarar greinar tilskipunarinnar.
    Með tilskipun ráðsins um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og kapal er leitast við að samræma vernd höfunda, listflytjenda, framleiðenda og útvarpsstöðva þegar um er að ræða gervihnattasendingar eða endurvarp í kapalkerfum á hugverkum eða listflutningi yfir landamæri. Með því að samræma lagareglur er unnt að komast hjá því að koma upp „fríhöfnum“ (clearing centers) þar sem gerðar yrðu upp greiðslur vegna afnota hugverka og listflutnings í gervihnattasendingum yfir landamæri. Þessi tilskipun krefst ekki breytinga á íslenskri höfundalöggjöf, nema að því er varðar endurvarp um kapal. Slíkt endurvarp er því aðeins heimilt að verki sé endurvarpað óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu. Jafnframt er það skilyrði endurvarps að fyrir liggi um það efni samningar milli einstaklinga eða samtaka handhafa grannréttinda annars vegar og dreifenda efnis um kapal hins vegar. Í gildandi höfundalögum, 23. gr. a, er að finna ákvæði um afnotakvöð í þessu sambandi, þ.e. að endurvarp efnis sé heimilt án leyfis rétthafa en gegn greiðslu þóknunar. Jafnhliða þeirri breytingu, sem lagt er til að gerð verði á gildandi ákvæðum um afnotakvöð, er lagt til að ákvæði gildandi laga um allsherjarinnheimtustofnun fyrir alla rétthafa vegna endurvarps efnis um kapal komi ekki til framkvæmda en dreifingaraðilar semji við lögformlega viðurkennd samtök rétthafa hvert á sínu sviði.
    Með tilskipun ráðsins um samræmingu reglna um verndartíma höfundaréttinda og hliðstæðra réttinda tengdra höfundarétti er gert ráð fyrir umtalsverðri lengingu verndartíma frá því sem tíðkast almennt, þar á meðal hér á landi, eða úr 50 árum frá næstu áramótum eftir lát höfundar í 70 ár. Þá er það og nýmæli samkvæmt tilskipuninni að sé um verk að ræða sem ekki hafa verið birt áður og höfundur er ókunnur er höfundarétturinn látinn haldast í 70 ár frá tilurð verksins, en birting slíkra verka er talin með öllu óheimil samkvæmt gildandi lögum. Að því er varðar listflytjendur og framleiðendur gerir tilskipunin ráð fyrir 50 ára verndartíma, en hliðstæð ákvæði voru lögfest hér á landi með lögum nr. 57/1992. Tilskipunin gerir þó ráð fyrir þeirri breytingu frá áður gildandi reglum að sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skuli verndin haldast í 50 ár frá fyrstu dreifingu hennar. Getur hér verið um verulega verndarauka að ræða. Þá er það eftirtektarverð nýjung í tilskipuninni að sé verk í fyrsta sinn löglega birt, að loknum verndartíma, öðlast sá er verkið birtir hliðstæðan rétt til fjárhagsnytja af því og höfundur hefur samkvæmt ákvæðum höfundalaga. Helst þessi vernd í 25 ár frá næstu áramótum eftir birtingu.
    Breytingar þær, sem hér er lagt til að gerðar verði á höfundaréttarlöggjöfinni, takmarkast eingöngu við það markmið að aðlaga hana tilskipunum Evrópusambandsins varðandi höfundavernd. Þótt segja megi að íslensku höfundalögin séu í flestum greinum mjög fullkomin miðað við löggjöf annarra þjóða eru þó ýmis ákvæði í henni sem þurfa endurskoðunar við á næstunni, einkum vegna hinna stórstígu framfara á sviði eintakagerðar og miðlunar hugverka. Má í því sambandi nefnda stafræna (digital) miðlun og eintakagerð og rekstur gagnabanka. Frekari lagabreytingar á höfundaréttarlöggjöfinni eru því aðkallandi og er nú unnið að nauðsynlegum lagabreytingum í því sambandi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæði greinar þessarar eru að orðalagi og efni því sem næst algerlega í samæmi við ákvæði 3. tölul. 5. gr. tilskipunar ráðsins um tölvuforrit (91/250/EBE) frá 14. maí 1991. Tekin eru af öll tvímæli um það að sá er öðlast hefur rétt til notkunar tölvuforrits hafi heimild til að brjóta til mergjar þau grundvallarsjónarmið sem forritið hvílir á, en eingöngu í þeim tilgangi að það nýtist honum í vinnslu. Í þessu sambandi er rétt að árétta þann skilning sem lagður er til grundvallar í tilskipuninni að einungis framsetning tölvuforritsins í ytra formi þess er vernduð, en hugmyndir og grundvallarforsendur sem liggja þar að baki, þar með taldar þær sem fólgnar eru í skilflötum þess, njóta ekki verndar sem hugverk samkvæmt tilskipuninni. Er sá skilningur almennt lagður til grundvallar í íslenskri löggjöf um höfundarétt. Segir svo orðrétt um þetta efni í forsendum tilskipunarinnar: „Til að taka af allan vafa skal það koma skýrt fram að einungis framsetning tölvuforrits er vernduð en hugmyndir eða grundvallarforsendur, sem liggja þar að baki, þar með talið þær sem viðmót þess byggist á, njóta ekki verndar sem hugverk samkvæmt tilskipun þessari.“

Um 2. gr.


    Í 23. gr. a gildandi höfundalaga, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 57/1992, er viðstöðulaust endurvarp um kapal heimilað án samþykkis höfundaréttarhafa, en gegn gjaldi sé endurvarpað til færri samtengdra íbúða en 25. Skv. 8. gr. tilskipunar ráðsins um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og kapal (93/83/EBE) frá 27. september 1993 er slík afnotakvöð óheimil og aðildarríkjunum gert skylt „að taka tillit til höfundaréttar og skyldra réttinda þegar dagskrárefni frá öðrum aðildarríkjum er endurvarpað um kapal á yfirráðasvæði þeirra“, eins og segir orðrétt í tilskipuninni, og enn fremur „að slíkt endurvarp eigi sér stoð í samningum einstaklinga eða heildarsamningum milli handhafa höfundaréttar eða skyldra réttinda og dreifenda efnis um kapal“.
    Í samræmi við þessi ákvæði tilskipunarinnar og reynslu annarra þjóða í þessu efni er lagt til í frumvarpinu að horfið verði frá afnotakvöð og þess í stað tekin upp svokölluð samningskvöð þannig að dreifingaraðilar efnis um kapal semji við lögformlega viðurkennd samtök höfundaréttarhafa, hvert á sínu sviði, og að ráðgerð stofnun allsherjarinnheimtustofnunar fyrir alla rétthafa skv. 3. mgr. 23. gr. a höfundalaga komi ekki til framkvæmda. Jafnframt er haldið ákvæði um frjálsa kapaldreifingu sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25. Sjálfgefið er að þau samtök rétthafa, sem þegar hafa fengið lögformlega viðurkenningu til að annast samninga vegna flutnings verka í útvarpi, annist það einnig vegna endurvarps um kapal.
    2. mgr. er samin með hliðsjón af 11. gr. tilskipunarinnar um að einn eða fleiri milligöngumenn veiti aðstoð í samningaviðræðum og leggi tillögur fyrir samningsaðila. Þykir heppilegt að tengja úrræði þetta við störf úrskurðarnefndar skv. 57. gr. þar sem þar er að finna sérþekkingu á þessu sviði. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt grein þessari yrði þó einvörðungu að leita sátta með aðilum en ekki fella úrskurði í deilumálum á grundvelli 23. gr. a.
    Rétt er að taka fram að samkvæmt tilskipuninni merkir „endurvarp um kapal“ samtímis, óbreytt og óstytt endurvarp til almennings um kapalkerfi eða örbylgjukerfi frá upprunalegri útsendingu á hljóðvarps- eða sjónvarpsdagskrám um þráð eða þráðlaust, þar með taldar útsendingar um gervihnött frá öðru aðildarríki. Er þessi skilgreining lögð til grundvallar í lögum þessum.
    

Um 3. gr.


    Með grein þessari er fullnægt ákvæðum 6. gr. tilskipunar ráðsins um vernd tölvuforrita. Það er meginreglan varðandi tölvuforrit að afritun, þýðing, aðlögun eða breyting á framsetningu forritsins í því formi sem aðrir hafa aðgang að telst brot á einkarétti höfundarins. Hins vegar geta komið upp aðstæður sem krefjast þess að forrit verði afrituð og þýdd á annað form til að unnt verði að afla upplýsinga um vinnslumáta þeirra þannig að unnt verði að nota þau með öðrum forritum. Af þeim sökum er nauðsynlegt við þessar sérstöku aðstæður að heimila þeim sem hefur rétt til að nota afrit af tölvuforriti að afrita eða þýða forrit án þess að samþykki rétthafans komi til. Tilgangur þessarar undanþágu er að gera mönnum kleift að tengja alla íhluti í tölvukerfi, þar með talda íhluti frá ólíkum framleiðendum, svo að unnt verði að nota þá í sameiningu. Óheimilt er að beita þessari undanþágu þannig að hún skaði löglega hagsmuni höfundarins eða stríði gegn eðlilegri hagnýtingu forritsins.
    

Um 4.–6. gr.


    Svo sem vikið er að í almennum athugasemdum við frumvarpið er í tilskipun ráðsins hér að lútandi (93/98/EBE), sjá 1.–6. mgr. 1. gr., gert ráð fyrir umtalsverðri lengingu verndartíma hugverka frá því sem nú tíðkast almennt eða úr 50 árum í 70 ár frá næstu áramótum eftir lát höfundar eða lát þess höfundar sem lengst lifir séu tveir menn eða fleiri höfundar að sama verki. Að því er kvikmyndaverk varðar miðast verndartíminn þó einvörðungu við andlát helsta höfundar, þ.e. aðalkvikmyndaleikstjóra, handritshöfundar, höfundar samtalstexta og tónhöfundar sé tónlist sérstaklega samin til afnota í kvikmyndaverkum. Þá ber að miða verndartíma verka, án þess að höfundur sé nafngreindur og verkin gefin út í heftum, bindum eða á hliðstæðan hátt, við birtingu hvers einstaks hluta um sig. Þá er það nýmæli, að sé um verk að ræða sem ekki hafa verið birt og höfundur er ókunnur er höfundarétturinn talinn haldast í 70 ár frá tilurð verksins en birting slíkra verka var talin óheimil samkvæmt gildandi lögum. Loks er það mjög umtalsverð nýjung, svo sem áður er vikið að í athugasemdum við frumvarpið, sbr. 4. gr. tilskipunarinnar, að útgefendum verka, sem fyrst eru birt að liðnum verndartíma, er veitt sérstök 25 ára vernd til fjárhagsnytja af verkum. Mun þetta ákvæði sett af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi til að hvetja menn til útgáfu slíkra verka og í öðru lagi til þess að verja þá aðila sem leggja í slíka útgáfu fjárhagslegum áföllum vegna hugsanlegrar birtingar annarra útgefenda á sama verki.
    Ákvæðum 4.–6. gr. frumvarpsins er ætlað að aðlaga íslenska löggjöf framangreindum fyrirmælum tilskipunar ráðsins varðandi verndartíma.
    

Um 7. gr.


    Ákvæði þetta er í flestum greinum hliðstætt 45. gr. gildandi höfundalaga um vernd listflytjenda. Þó eru í samræmi við 9. gr. tilskipunar ráðsins frá 19. nóvember 1992 tekin af öll tvímæli um að auk einkaréttar til eintakagerðar skuli listflytjandi hafa einkarétt til dreifingar listflutnings til almennings, þó þannig að listflytjendur hafi einvörðungu þóknunarrétt þegar um er að ræða flutning af hljóðritum skv. 47. gr. Er það í samræmi við 2. mgr. 8. gr. framangreindrar tilskipunar. Þá er og verndartímaákvæðinu breytt, sbr. umsögn í almennum athugasemdum við frumvarpið. Þá er lagt til í samræmi við 5. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar að lögfest verði löglíkindaregla um afsal leiguréttar þegar listflytjandi hefur veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks, þó þannig að sérstakt endurgjald komi fyrir leiguna. Loks er bætt við ákvæði þess efnis að tæmingarregla 24. gr. gildi aðeins um upptökur listflutnings sem fyrst eru markaðssettar innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    

Um 8. gr.


    Í grein þessari er fjallað um réttindi listflytjenda vegna viðstöðulauss endurvarps listflutnings um kapal. Í samræmi við ákvæði tilskipunar um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og kapal (93/83/EBE) er hér lagt til að tekin verði upp svokölluð samningskvöð vegna slíkrar dreifingar á listflutningi, þó þannig að áfram gildi afnotakvöð á dreifingu markaðshljóðrita á grundvelli 47. gr.
    

Um 9. gr.


    Samkvæmt 46. gr. gildandi laga er eftirgerð hljóðrita án samþykkis framleiðenda óheimil. Í samræmi við 9. gr. tilskipunar frá 19. nóvember 1992 er einnig óheimil án samþykkis framleiðenda hvers konar dreifing til almennings á eintökum hljóðrita og myndrita. Er hér um að ræða verndarauka til handa framleiðendum. Ákvæði þetta ber að skilja með þeim fyrirvara að réttur framleiðenda til dreifingar skerði á engan hátt rétt höfunda eða listflytjenda yfir efni sem upp hefur verið tekið. Þá er mörkum verndartíma breytt eins og vikið er að í almennum athugasemdum við frumvarpið. Loks er bætt við ákvæði þess efnis að tæmingarregla 24. gr. gildi aðeins um upptökur sem fyrst eru markaðssettar innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    

Um 10. gr.


    Þessi grein er efnislega í samræmi við 47. gr. gildandi laga og 2. mgr. 8. gr. tilskipunar frá 19. nóvember 1992 um þóknunarrétt listflytjenda og framleiðenda fyrir flutning í útvarpi eða aðra opinbera dreifingu. Þóknunarréttur er hér víkkaður þannig að hann tekur til allra útgefinna hljóðrita, en ekki einvörðungu til markaðshljóðrita sem gildandi ákvæði kveða á um. Þykja ekki fullnægjandi forsendur fyrir slíkri aðgreiningu. Greinin kveður á um það að krafa til endurgjalds verði aðeins gerð af innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjenda fyrir öll vernduð hljóðrit að íslenskum lögum, enn fremur að slíkum samtökum sé heimilt að setja gjaldskrá um þóknun vegna flutnings efnis af hljóðritum utan útvarps að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis. Greinin girðir ekki fyrir að fleiri en ein sameiginleg innheimtusamtök framleiðenda og listflytjenda geti gert kröfu til endurgjalds samkvæmt greininni, enda hafi þau hlotið staðfestingu menntamálaráðherra, þó að það sé ríkjandi skipan í öðrum löndum að aðeins ein innheimtusamtök annist þessa réttargæslu í því skyni að koma böndum á réttarframkvæmdina og hefur svo einnig verið hér á landi.
    

Um 11. gr.


    Hér er skýrt kveðið á um að hin nýja regla um 25 ára verndartíma til handa útgefendum gildi aðeins um birtingu verka sem framkvæmd er af ríkisborgurum eða mönnum búsettum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sú takmörkun helgast af því að hér er um að ræða almennt lagaákvæði til verndar útgefendum eingöngu (sui generis) þannig að hin almenna regla Bernarsáttmálans um þegnlega vernd (national treatment) er ekki skuldbindandi í þessu tilviki.
    

Um 12. gr.


    Þegar við setningu íslensku höfundalaganna 1972 voru tekin inn í íslensku lögin skýlaus ákvæði þess efnis að ákvæði laganna gildi einnig um eldri verk sem orðið hafi til fyrir gildistöku laganna. Var hér gengið lengra til verndar eldri verkum en víðast hvar, t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Nú eru bein fyrirmæli um þessi afturverkandi áhrif tekin inn í tilskipun Evrópusambandsins um verndartíma. Slík ákvæði valda því að verk, sem kunna að hafa verið fallin úr vernd, geti „endurlífgast“ til verndar og vaknar þá sú spurning hvernig fari um ráðstafanir sem gerðar hafi verið eða áunnin réttindi þriðja aðila á grundvelli eldri laga þegar afnot verksins voru frjáls. Í íslensku lögunum frá 1972 er ekki tekið nánar á þessu ákvæði og það eftirlátið dómstólunum að túlka í hverju einstöku tilviki hvernig með skuli fara og þá gengið út frá því að við slíkum ráðstöfunum á réttindum verði ekki hróflað. Í 12. gr. frumvarps þessa er hins vegar horfið að því ráði í samráði við aðrar Norðurlandaþjóðir að skilgreina hver réttarstaðan sé í einstökum tilvikum.
    

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal I.
    

Bréf til menntamálaráðherra frá endurskoðunarnefnd höfundalaga.


(17. maí 1995.)    Hjálagt sendast yður formlega herra menntamálaráðherra tillögur endurskoðunarnefndar höfundalaga að frumvarpi til breytinga á höfundalögum, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum.
    Endurskoðunarnefndin stendur einhuga að þessum tillögum.
    Tilgangur lagafrumvarpsins er sá að samræma íslenska höfundalöggjöf ákvæðum tilskipana Evrópusambandsins á sviði höfundaréttar. Meginefni frumvarpsins er að lengja verndartíma höfunda úr 50 árum miðað við næstu áramót eftir andlát í 70 ár. Listflytjendur njóta nú þegar 50 ára verndartíma, sbr. ákvæði laga nr. 57/1992, og er það í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins. Tillögur nefndarinnar fela það einnig í sér að inntak listflytjendaverndar verður nánast hið sama og höfunda og að réttarstaða samtaka listflytjenda og framleiðenda er bætt með tilliti til opinbers flutnings markaðshljóðrita. Þá er með tillögum nefndarinnar skýrð réttarstaða notenda tölvuforrita í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við tillögur nefndarinnar að frumvarpi til laga.
    Undirbúningur ofangreindrar tillögugerðar hófst þegar á síðasta ári og fól nefndin þeim Tómasi Þorvaldssyni hdl. og Gunnari Guðmundssyni hdl. ásamt Þórunni J. Hafstein að undirbúa tillögugerð vegna tilskipana um leigu og útlánarétt og hliðstæð réttindi annars vegar og tilskipunar um samræmingu reglna um höfundarétt og hliðstæð réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og kapal hins vegar. Formaður nefndarinnar, Sigurður Reynir Pétursson hrl., sat einnig fundi vinnuhópsins.
    Á síðari stigum vann formaður nefndarinnar, Sigurður Reynir Pétursson hrl., frumdrög að tillögugerð vegna ofangreindra tilskipana, auk tilskipunar um samræmingu reglna um verndartíma höfundaréttinda og hliðstæðra réttinda sem tengd eru höfundarétti. Þá voru ákvæði tilskipunar um vernd tölvuforrita yfirfarin, en ákvæði íslenskra höfundalaga, sbr. lög nr. 57/1992, falla nú þegar í höfuðatriðum að fyrirmælum tilskipunarinnar. Þau Sigurður Reynir Pétursson hrl. og Þórunn J. Hafstein yfirfóru síðan í sameiningu þessi frumdrög áður en þau voru lögð fram til umfjöllunar í nefndinni m.a. í ljósi lagasetningaráforma á Norðurlöndum um þetta efni.
    Endurskoðunarnefndin hittist á þremur vinnufundum þar sem ofangreind drög að lagafrumvarpi og greinargerð voru yfirfarin og rædd og þeim breytt í einstökum atriðum. Þessum hluta nefndarstarfsins lauk föstudaginn 12. maí sl. með samhljóða niðurstöðu. Ritara fundarins, Þórunni J. Hafstein, var falið að koma tillögum nefndarinnar jafnskjótt til ráðherra.
    Með bréfi þessu vill nefndin skila þessum hluta nefndarstarfsins formlega til ráðherra með von um að tillögur nefndarinnar nái fram að ganga á yfirstandandi þingi.

    Fyrir hönd endurskoðunarnefndar höfundalaga í fjarveru formanns.
    
    Ragnar Aðalsteinsson hrl. (sign.).     Eiríkur Tómasson prófessor (sign.).
    
    Knútur Bruun hrl. (sign.).     Gunnar Guðmundsson hdl. (sign.).
    
    Tómas Þorvaldsson hdl. (sign.).     Þórunn J. Hafstein (sign.).

Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum.


    Tilgangur frumvarpsins er að samræma íslenska höfundalöggjöf ákvæðum í tilskipunum Evrópusambandsins á sviði höfundaréttar. Í frumvarpinu eru ákvæði um verndartíma höfunda, réttarstöðu notenda tölvuforrita, höfundarétt vegna leigu og útlána hugverka og höfundarétt vegna endurvarps hugverka og listflutnings um gervihnött eða kapal.
    Frumvarpið kann að hafa í för kostnaðarauka fyrir stofnanir og fyrirtæki sem miðla hugverkum með útsendingu, sýningu, leigu eða útlánum. Tekjur rétthafa að hugverkum og listflutningi munu þá aukast að sama skapi, en ógerningur er að áætla fjárhæðir í þessu sambandi. Gera má ráð fyrir að kostnaðarauki geti einkum komið fram vegna lengingar á verndartíma höfundaréttar úr 50 í 70 ár. Leiði frumvarpið til aukins kostnaðar ríkisins mun hann væntanlega einkum koma fram hjá menningarstofnunum og sem kostnaður við úrskurðarnefnd skv. 57. gr. höfundalaga, með síðari breytingum.