Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 90 . mál.


92. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    59. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði þessa kafla gilda um vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Ákvæði kaflans gilda ekki um tilfallandi vinnu eða vinnu sem varir í skamman tíma að því er varðar heimilisaðstoð á einkaheimilum eða vinnu í fjölskyldufyrirtækjum sem hvorki telst skaðleg né hættuleg ungmennum.
    Ungmenni merkir í lögum þessum einstakling undir 18 ára aldri. Barn merkir í lögum þessum einstakling sem er undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi. Unglingur merkir í lögum þessum einstakling sem er minnst 15 ára að aldri en hefur ekki náð 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi.
    

2. gr.

    60. gr. laganna orðast svo:
    Börn má ekki ráða til vinnu.
    Heimilt er að víkja frá meginreglu 1. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
    Börn er heimilt að ráða til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Hafi þau ekki náð 13 ára aldri skal aflað leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur.
    Heimilt er að ráða börn 14 ára og eldri til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi og í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.
    Heimilt er að ráða börn sem náð hafa 14 ára aldri til starfa af léttara tagi. Börn, sem náð hafa 13 ára aldri, má ráða til starfa af léttara tagi í takmarkaðan stundafjölda á viku, svo sem léttra garðyrkju- og þjónustustarfa og annarra hliðstæðra starfa. Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um hvað teljist störf af léttara tagi og við hvaða skilyrði þau skuli unnin.
    

3. gr.

    61. gr. laganna orðast svo:
    Unglinga er heimilt að ráða til vinnu með þeim takmörkunum sem greinir í kafla þessum.

4. gr.

    62. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að ráða ungmenni til vinnu sem unnin er við eftirfarandi aðstæður:
    Vinnu sem talin er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra.
    Vinnu sem getur valdið varanlegu heilsutjóni.
    Vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun.
    Vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun.
    Vinnu sem getur stofnað heilsu þeirra í hættu vegna mikils kulda, hita, hávaða eða titrings.
    Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði þegar það er nauðsynlegt vegna starfsnáms unglinga. Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um framkvæmd greinar þessarar.

5. gr.

    63. gr. laganna orðast svo:
    Virkur vinnutími barna, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., er takmarkaður með eftirfarandi hætti:
    Átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku ef vinnan er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
    Tvær klukkustundir á skóladegi og 12 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma. Daglegur vinnutími má þó aldrei vera lengri en sjö klukkustundir. Þó má daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri vera átta klukkustundir.
    Sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á tíma sem skólinn starfar ekki. Daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri má þó vera átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
    Sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu af léttara tagi sem unnin er af börnum sem eru ekki lengur í skyldunámi.
    Virkur vinnutími unglinga er takmarkaður við átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
    Heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. greinar þessarar í sérstökum tilvikum eða ef réttmætar ástæður leyfa. Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja reglur m.a. um skilyrði og takmörk vegna frávika samkvæmt málsgrein þessari.
    Ef daglegur virkur vinnutími er lengri en fjórir tímar á barn og unglingur rétt á minnst 30 mínútna hléi á hverjum degi sem skal vera samfellt ef kostur er.
    

6. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 63. gr. a, er orðast svo:
    Óheimilt er að láta börn, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6. Óheimilt er að láta unglinga vinna á tímabilinu frá kl. 22 til kl. 6.
    Heimilt er að víkja frá ákvæði 2. málsl. 1. mgr. þessarar greinar á sérstökum starfssviðum, enda skal fullorðinn einstaklingur hafa umsjón með unglingnum ef þörf er á slíkri umsjón til verndar honum. Þó er óheimilt að láta ungling vinna á tímabilinu frá kl. 24 til kl. 4.
    Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. greinar þessarar þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Undanþága þessi á við þegar um er að ræða vinnu á sjúkrastofnunum eða sambærilegum stofnunum og störf á sviði menningarmála, lista, íþrótta eða auglýsinga.
    Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um frávik skv. 2. og 3. mgr.
    Unglingar eiga, áður en þeir hefja næturvinnu og með reglulegu millibili eftir það, rétt á heilbrigðisskoðun og athugun á vinnuhæfni sinni sér að kostnaðarlausu, nema þeir vinni einungis í undantekningartilvikum á þeim tíma sem vinna er bönnuð. Framkvæmd slíkrar skoðunar er á ábyrgð viðkomandi atvinnurekanda.
    

7. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 63. gr. b, er orðast svo:
    Börn, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., skulu fá minnst 14 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Unglingar skulu fá minnst 12 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring.
    Á hverju sjö daga tímabili skulu börn sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr. laga þessara og unglingar fá minnst tveggja daga hvíldartímabil sem skal vera samfellt ef kostur er. Lágmarkshvíldartími þessi skal að jafnaði taka til sunnudags.
    Heimilt er að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. greinar þessarar þegar um er að ræða vinnu sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni.
    Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. greinar þessarar þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Undanþága þessi á við þegar um er að ræða vinnu á sjúkrastofnunum eða sambærilegum stofnunum, störf á sviði landbúnaðar, ferðamála eða í hótel- og veitingarekstri og vinnu sem er skipt upp yfir daginn.
    Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um frávik skv. 2.–4. mgr.

8. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 63. gr. c, er orðast svo:
    Heimilt er í óviðráðanlegum tilvikum sem atvinnurekandi fær ekki stjórnað að víkja frá ákvæðum laga þessara um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga að því tilskildu að um sé að ræða tímabundna vinnu sem þolir enga bið, ekki sé unnt að fá fullorðna starfsmenn til starfans og unglingarnir fái samsvarandi uppbótarhvíldartíma á næstu þremur vikum. Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um framkvæmd greinar þessarar.

9. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 63. gr. d, er orðast svo:
    Börn í skyldunámi, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., eiga rétt á að fá leyfi árlega einhvern tíma á meðan á skólafríi stendur.
    

10. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 63. gr. e, er orðast svo:
    Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og heilbrigði ungmenna með gerð mats á áhættu sem starf getur skapað þeim. Þetta mat skal fara fram áður en ungmenni hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum. Sýni matið að öryggi, líkamlegri eða andlegri heilsu eða þroska ungmennis geti verið stofnað í hættu skal atvinnurekandi sjá til þess að reglulega fari fram viðeigandi skoðun og eftirlit með heilsu ungmennanna þeim að kostnaðarlausu. Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Hinn 22. september 1995 skipaði félagsmálaráðherra nefnd sem var falið að vinna að undirbúningi þess að Ísland geti framfylgt tilskipun ESB 94/33 um vinnuvernd barna og ungmenna en gefið íslenskum unglingum áfram möguleika til atvinnuþátttöku. Í nefndinni sátu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir félagsfræðingur, tilnefnd af Vinnueftirliti ríkisins, Guðmundur Stefánsson bóndi, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Halldór Grönvold skrifstofustjóri, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Jón Rúnar Pálsson lögfræðingur, tilnefndur af Vinnumálasambandinu, Linda Rós Michaelsdóttir kennari, tilnefnd af menntamálaráðuneyti, Ólöf Sigurðardóttir sérkennari, tilnefnd af Kennarasambandi Íslands, Ragnar Árnason lögfræðingur, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, og Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Sesselja Árnadóttir, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, vann með nefndinni við samningu frumvarps þessa.
    Nefndin skilaði félagsmálaráðherra skýrslu sinni hinn 22. febrúar 1996. Í skýrslunni er fjallað um ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB, um vinnuvernd barna og ungmenna, og gerð grein fyrir ákvæðum í öðrum alþjóðasamningum sem snerta vinnu barna og ungmenna, en þeir eru eftirtaldir: Samþykkt ILO nr. 138 og tillaga nr. 146, um lágmarksaldur við vinnu, yfirlýsing allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns frá 20. nóvember 1959, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns frá 1989, samningur Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 1976, yfirlýsing og framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna um afkomu, vernd og þróun barna frá 1990, yfirlýsing þings Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 1995 um þróun félagsmála og félagsmálasáttmáli Evrópu frá 1961. Loks er fjallað í skýrslunni um ákvæði íslenskra laga og kjarasaminga sem snerta vinnu barna og unglinga.
    Jafnframt aflaði nefndin ýmissa gagna um vinnu barna og unglinga. Af þeim má draga þær ályktanir að vinna barna undir 13 ára í leyfum frá skólanámi fari minnkandi. Hún hefur fyrst og fremst takmarkast við blaðburð og barnagæslu. Sumarvinna barna eldri en 13 ára er almenn. Í yngri aldurshópunum takmarkast hún að verulegu leyti við þátttöku í vinnuskólum sveitarfélaga. Sjaldgæft er að börn yngri en 14 ára séu ráðin til almennra starfa á vinnumarkaði.
    

II.


    Í niðurlagi skýrslunnar er greint frá tillögum nefndarinnar og eru þær eftirfarandi:
    Samkvæmt 17. gr. tilskipunar ESB um vinnuvernd barna og ungmenna er heimilt að hrinda ákvæðum hennar í framkvæmd með tvennum hætti. Með lögum eða stjórnsýslufyrirmælum eða samningum aðila vinnumarkaðarins. Nefndin hefur fjallað um þetta atriði. Nefndin vekur athygli á því að ýmis frávik frá meginefni tilskipunarinnar eru háð heimildum í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum. Með hliðsjón af skipunarbréfi hennar hefur hún komist að þeirri niðurstöðu að breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, sé nauðsynleg þannig að hægt verði að nýta það svigrúm sem felst í tilskipuninni til að heimila unglingum hæfilega atvinnuþátttöku. Í ljósi þessa er það álit nefndarinnar að heppilegra sé að markmiðum tilskipunarinnar verði hrundið í framkvæmd með lögum og reglugerðum í stað þess að sett verði almenn lagaákvæði sem síðan verði útfærð í almennum kjarasamningum. Með þeim hætti er strax tekin efnisleg afstaða til ákvæða tilskipunarinnar og útilokuð hugsanleg óvissa sem gæti leitt af nánari framkvæmd á einstökum atriðum með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins.
    Nefndin telur ástæðu til að vekja athygli á ákvæði í 2. mgr. 32. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Samkvæmt ákvæðinu skulu aðildarríki samningsins gera ráðstafanir til að hrinda ákvæðum greinarinnar í framkvæmd, einkum með því að kveða á um lágmarksaldur eða aldursmörk til ráðningar í starf, en einnig með því að setja viðeigandi reglur um vinnutíma og vinnuskilyrði. Loks ber aðildarríkjum að mæla fyrir um viðeigandi refsingar eða önnur viðurlög til að tryggja virka framkvæmd.
    Með hliðsjón af ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um vinnuvernd barna og ungmenna leggur nefndin til breytingar á X. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Í skýrslunni er gerð grein fyrir breytingunum og eru þær útfærðar í formi frumvarps sem er fylgiskjal með henni.
    Nefndin telur nauðsynlegt að ákvæði í kjarasamningum um vinnu ungmenna verði skoðuð með tilliti til reglna tilskipunar ESB.
                  Í þeim starfsgreinum, þar sem vinna barna og unglinga verður áfram heimil, er nauðsynlegt að meginefni tilskipunarinnar komi fram í viðkomandi kjarasamningi eða í þeim verði vísað til ákvæða gildandi laga og reglugerða. Við endurskoðun kjarasamninga verði reynt að tryggja með sem bestum hætti að ungmenni séu tryggð við vinnu sína eins og aðrir starfsmenn samkvæmt almennum skilmálum um slysatryggingar launafólks.
    Í skýrslu sinni setur nefndin fram ábendingar um breytingar á öðrum lögum, t.d. grunnskólalögum. Auk þess er vakin athygli á því að vera kunni að breyta þurfi ákvæðum sjómannalaga um lágmarksaldur við vinnu á skipum.
                  Þá mælir nefndin með því að kannað verði hvort unnt sé að fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu og hvort Ísland geti undirgengist skuldbindingar samkvæmt ákvæðum 7. gr. félagsmálasáttmála Evrópu um vernd barna og ungmenna.
    

III.


    Frumvarp þetta er í öllum meginatriðum í samræmi við tillögu nefndarinnar, sbr. 3. tölul. hér að framan. Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
    Bannað verður að ráða börn til vinnu nema með nánar tilgreindum undantekningum.
    Heimilt verður að ráða unglinga til vinnu.
    Heimilt verður að ráða börn 14 og eldri til vinnu enda sé vinnan hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
    Heimilt verður að ráða börn 13 ára og eldri til að vinna störf af léttara tagi.
    Sérstakar reglur gilda um vinnu barna sem tengist menningarstarfsemi, listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi.
    Skýrar reglur verða um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma barna og unglinga.
    Kveðið er á um skyldur atvinnurekenda til að gera ráðstafanir sem tryggja öryggi og heilbrigði barna og unglinga sem hjá þeim starfa.
    Um einstaka efnisþætti er fjallað nánar í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er fjallað um gildissvið X. kafla laganna. Þær undanþágur, sem tilgreindar eru í 2. málsl., eru grundvallaðar á 2. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB. Rétt er að taka fram að orðið „fjölskyldufyrirtæki“ er ekki til í íslensku lagamáli. Leitað var eftir upplýsingum hjá Evrópusambandinu um hvaða fyrirtæki teljist til þeirra, þ.e. „family undertaking“ samkvæmt enskum texta tilskipunarinnar. Samkvæmt upplýsingum þaðan er aðildarríkjunum látið það eftir að gefa orðinu inntak. Nefndin, sem samdi frumvarp þetta, gerir tillögu um að orðið verði skýrt með hliðsjón af vanhæfisreglum stjórnsýslulaga og réttarfarslaga. Orðið „fjölskyldufyrirtæki“ mætti skýra þannig að það taki til rekstrar sem er að verulegum hluta í höndum einstaklinga eða einstaklings sem er skyldur eða mægður barni eða unglingi í beinan legg eða öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB gildir hún um alla einstaklinga undir 18 ára aldri sem hafa ráðningarsamning eða ráðningarkjör (employment relationship) sem eru skilgreind í gildandi lögum aðildarríkis og/eða falla undir gildandi lög aðildarríkis. Vakin er athygli á að lagt er til að gildissvið X. kafla laganna verði víðtækara en gildissvið tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. eru skilgreind þau hugtök sem notuð eru í lögunum. Skilgreiningarnar eru efnislega samhljóða skilgreiningum í a–c-liðum 3. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er skýrt tekið fram að börn megi ekki ráða til vinnu, sbr. 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB. Í tilskipuninni er tilgreint að aðildarríkin skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að banna vinnu barna. Hér er farin sú leið að nota það rðalag að ekki megi ráða börn til vinnu, en með því er skýrt hver bera skuli ábyrgð skv. 99. gr. laganna ef brotið er gegn lögunum, þ.e. atvinnurekandi.
    Í 2. mgr. eru tilgreindar undanþágur frá banni við að ráða börn til vinnu. Þær undanþágur eru sams konar og undanþágur sem tilgreindar eru í 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Um vinnu þá, sem fjallað er um í a-lið 2. mgr., eru nánari ákvæði í 5. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB. Þar eru enn fremur fyrirmæli um starfsskilyrði barna í viðkomandi störfum og hvað hafa skuli við viðmiðunar þegar leyfi skv. a-lið 2. mgr. eru veitt.
    Í c-lið 2. mgr. eru ekki tæmandi talin þau störf sem 13 ára börn mega vinna, en létt garðyrkju- og þjónustustörf eru nefnd í dæmaskyni. Gert er ráð fyrir að ráðherra skuli að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr., m.a. um hvað teljist vera störf af léttara tagi. Þar til gilda m.a. leiðbeinandi skilgreiningar Vinnueftirlits ríkisins um hvað telja skuli létt störf.
    

Um 3. gr.


    Eðlilegt þykir í framhaldi af ákvæði um vinnu barna að taka fram að almennt sé heimilt að ráða unglinga til vinnu. Þó er gerður sá fyrirvari að í þessum kafla laganna eru tilgreindar ákveðnar takmarkanir á vinnu unglinga.
    

Um 4. gr.


    Greinin er grundvölluð á 7. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB. Þar er gert ráð fyrir að börn og unglingar séu varin fyrir öllum þeim hættum sem öryggi þeirra, heilsu og þroska eru búnar og rekja má til ungs aldurs þeirra og reynsluleysis, grandvaraleysis þeirra gagnvart þeirri hættu sem er eða kann að vera fyrir hendi eða þess að þau hafa ekki náð fullum þroska.
    Í 1. mgr. eru tilgreindar aðstæður þar sem ekki er talið eðlilegt að börn og unglingar vinni. Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 1. mgr. þegar það er nauðsynlegt vegna starfsnáms unglinga, sbr. 3. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar. Þau skilyrði eru sett að öryggi þeirra og heilbrigði sé tryggt með því að láta vinnuna fara fram undir eftirliti hæfs einstaklings, sbr. 7. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 89/391/EBE, um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum. Jafnframt verður að tryggja að sú vernd, sem kveðið er á um í þeirri tilskipun, sé til staðar. Ráðherra er ætlað að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins að setja nánari reglur um framkvæmd greinar þessarar.
    

Um 5. gr.


    Í þessari grein er fjallað um vinnutíma barna sem falla undir b- og c-liði 2. mgr. 60. gr. (2. gr. frumvarpsins) og unglinga og er ákvæðið sams konar og 1., 2. og 5. mgr. 8. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB. Um er að ræða virkan vinnutíma, þ.e. þann tíma sem ungmenni er við störf eða er atvinnurekanda innan handar og innir af hendi störf sín eða skyldur í samræmi við lög og/eða venju.
    Virkur vikulegur dagvinnutími íslensks launafólks samkvæmt kjarasamningum er 37 stundir og 5 mínútur. Þegar reiknaður er út samanlagður vinnutími ungmennis skal miða við að þegar vinnan er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi sé sá tími sem námið tekur talinn til vinnutíma. Ef ungmenni starfar hjá fleiri en einum atvinnurekanda skal miða við samanlagðan vinnudaga- og vinnustundafjölda.
    Í 3. og 4. mgr. greinarinnar er um að ræða þrengingu frá þeim heimildum sem tilgreindar eru í 8. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB.
    Í 3. mgr. er heimiluð undanþága frá 2. mgr. í tilteknum tilfellum, en samkvæmt tilskipuninni er einnig heimilt að setja undanþágu vegna a-liðar 1. mgr. Ekki eru talin vera rök til að veita slíkar undanþágur þegar um börn er að ræða.
    Í 4. mgr. er lagt til að réttur til að fá 30 mínútna hlé skapist þegar daglegur vinnutími er lengri en fjórir tímar, en samkvæmt tilskipuninni skapast slíkur réttur eftir fjóran og hálfan tíma. Eðlilegt þykir að miða frekar við fjóra tíma þar sem það samræmist betur því sem almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði.
    

Um 6. gr.


    Í þessari grein er fjallað um hvernig hátta skal næturvinnu barna sem falla undir b- og c-liði 2. mgr. 60. gr. (2. gr. frumvarpsins) og unglinga, sbr. 9. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB.
    Í 4. mgr. er tekið fram að heilbrigðisskoðun og athugun á vinnuhæfni unglings sem er ráðinn til að vinna í næturvinnu skuli vera honum að kostnaðarlausu. Atvinnurekandinn skal sjá til þess að slík skoðun fari fram.
    

Um 7. gr.


    Í þessari grein er fjallað um hvíldartíma barna sem falla undir b- og c-liði 2. mgr. 60. gr. (2. gr. frumvarpsins) og unglinga. Ákvæðið er sams konar og 10. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra skuli að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um frávik skv. 2.–4. mgr. greinarinnar. Um slík frávik getur t.d. verið að ræða þegar það er réttlætanlegt af tæknilegum eða skipulagslegum ástæðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar.
    

Um 8. gr.


    Í þessari grein er tilgreint að heimilt sé við ákveðnar kringumstæður að víkja frá ákvæðum laganna um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga. Skv. 13. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB er um að ræða vinnu sem um getur í 4. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 89/391/EBE, en það ákvæði fjallar um svokölluð force majeure tilvik. Ákvæði 4. mgr. 5. gr. hljóðar svo: „Tilskipun þessi skal ekki takmarka möguleika aðildarríkjanna til að létta ábyrgð af vinnuveitanda eða takmarka hana, sé orsaka atvika að leita í óvenjulegum og ófyrirsjáanlegum kringumstæðum sem vinnuveitandi fær ekki stjórnað, eða í atburðum er til undantekninga teljast og hafi ekki verið gerlegt að forðast afleiðingarnar þótt ýtrasta aðgát hafi verið sýnd.“ Skilyrði er að ekki sé unnt að fá fullorðna starfsmenn og að unglingarnir fái samsvarandi uppbótarhvíldartíma á næstu þremur vikum.
    

Um 9. gr.


    Í ákvæði þessu er tekið fram að börn í fullu skyldunámi eigi rétt á að fá leyfi árlega einhvern tíma á meðan á skólafríi stendur. Í samræmi við 11. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB á ákvæðið ekki við um börn sem ráðin eru til vinnu skv. a-lið 2. mgr. 60. gr. (2. gr. frumvarpsins). Tilskipunin gerir jafnframt ráð fyrir að börn skuli fá leyfi að svo miklu leyti sem hægt er , en sá fyrirvari er ekki tekinn upp í frumvarpið.
    

Um 10. gr.


    Í greininni er tekið fram að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og heilbrigði barna og unglinga með gerð mats á áhættu sem starf getur valdið þeim. Kveðið er á um að matið fari fram áður en börn eða unglingar hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar verða gerðar á starfsskilyrðum. Fyrirmæli þessi eru í samræmi við 2. mgr. 6. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/33/EB, en sú grein fjallar um almennar skyldur atvinnurekanda. Í tilskipuninni er nánar kveðið á um hvaða atriði skulu einkum skoðuð. Rétt er talið að tilgreina þau í reglum sem ráðherra setji að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins ásamt öðrum atriðum sem varða framkvæmd greinar þessarar.
    

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti


og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum.


    Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt. Það er samið með það að markmiði að Ísland geti framfylgt tilskipun ESB nr. 94/33, um vinnuvernd barna og ungmenna, en á sama tíma gefið íslenskum unglingum áfram möguleika til atvinnuþátttöku. Með hugtakinu barn er átt við einstakling undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi. Til unglinga teljast hins vegar einstaklingar sem eru minnst 15 ára að aldri en hafa ekki náð 18 ára aldri og eru ekki lengur í skyldunámi. Efnisatriðum frumvarpsins má skipta í tvennt eftir því hvort um barn eða ungling er að ræða.
    Í fyrsta lagi er í frumvarpinu kveðið á um að bannað verði að ráða börn til vinnu nema í undantekningartilfellum. Í því sambandi má nefna að heimilt verður að ráða börn 13 ára og eldri til að vinna störf af léttara tagi í takmarkaðan stundafjölda á viku og að sérstakar reglur gilda um vinnu barna sem tengist menningarstarfsemi, listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Í öðru lagi er í frumvarpinu kveðið á um að heimilt verði að ráða unglinga í vinnu en með ákveðnum takmörkunum. Settar eru skýrar reglur um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma barna og unglinga. Einnig er atvinnurekenda gert skylt að gera ráðstafanir sem tryggja öryggi og heilbrigði barna og unglinga sem hjá þeim starfa.
    Lögfesting frumvarpsins mun leiða til aukinna umsvifa hjá Vinnueftirliti ríkisins við setningu reglna og kynningar þeirra. Gert er ráð fyrir að kostnaður stofnunarinnar aukist um 1 m.kr. vegna þessa og skiptist aukningin þannig að um 700 þús. kr. fara til setningar reglugerða og 300 þús. kr. til fræðslu og kynningar. Þessi aukni kostnaður rúmast innan núgildandi fjárhagsramma stofnunarinnar en skv. 77. gr. núgildandi laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ber fyrirtækjum þeim er lögin gilda um að fjármagna rekstur Vinnueftirlits ríkisins. Því verður ekki séð að lögfesting frumvarpsins hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.