Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 43 . mál.


99. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um verðtryggingu lána og skuldir heimilanna.

    Hverjar voru skuldir heimilanna í árslok síðustu tíu árin á sambærilegu verðlagi, hve stór hluti þeirra voru óverðtryggðar skuldir og hve stór hluti verðtryggðar?
    Eftirfarandi tafla sýnir skuldir heimilanna við lánakerfið árin 1986–95 og hlutfall verð- og óverðtryggðra skulda. Tölur eru í millj. kr. í lok hvers árs.

Á verðlagi

Á föstu verði

Verðtryggður

Óverðtryggður


Ár

hvers árs

1995 með lkv.

hluti í %

hluti í %




1986          
55.773
122.594 83 ,6 16 ,4
1987          
76.983
138.433 86 ,3 13 ,7
1988          
101.428
153.099 87 ,4 12 ,6
1989          
135.744
168.517 87 ,0 13 ,0
1990          
170.726
197.810 87 ,1 12 ,9
1991          
211.270
227.399 86 ,9 13 ,1
1992          
237.367
251.553 87 ,4 12 ,6
1993          
262.518
270.135 87 ,9 12 ,1
1994          
289.054
293.751 90 ,7 9 ,3
1995          
315.834
315.834 90 ,8 9 ,2


    Hve mikinn hluta af hækkun skulda heimilanna á sl. tíu árum má rekja til verðtryggingar?
    Ekki er unnt að svara því með neinni vissu hve mikinn hluta af hækkun skulda heimilanna á sl. tíu árum má rekja til verðtryggingar. Það stafar af því að ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig breyting á útlánum lánastofnana skiptist í nýjar lánveitingar, endurgreiðslur lána og verðbætur. Ekki liggja heldur fyrir upplýsingar um það hvenær endurgreiðslur lána og nýjar lánveitingar falla til innan hvers árs.
    Rétt er að geta þess í þessu sambandi að mestu máli skiptir fyrir lántaka að raunvextir af lánum séu sem lægstir. Frá árinu 1990 hefur meðalraunávöxtun óverðtryggðra skuldabréfalána banka og sparisjóða reyndar verið talsvert hærri en verðtryggðra skuldabréfa. Útlit er fyrir að þessi munur verði um 1,5 prósentustig á yfirstandandi ári að óbreyttum vöxtum og spám um verðlagshorfur til aldamóta. Það er ljóst að á tímum vaxtafrelsis munu lánastofnanir leitast við að hafa raunvexti óverðtryggðra lána hærri en verðtryggðra lána þar sem ætíð hlýtur að vera fólgið nokkurt áhættuálag í vöxtum óverðtryggðra lána vegna óvissu um verðlagsbreytingar. Raunkjör verða því ljósari og yfirleitt lægri á verðtryggðum markaði, a.m.k. af lánum til lengri tíma.

    Hvernig er háttað verðtryggingu fjárskuldbindinga í einstökum ríkjum OECD?
    Erlendis hefur verðtryggingu einkum verið beitt á skuldabréf til langs tíma, sem er í samræmi við stefnu stjórnvalda hér á landi um að afnema verðtryggingu á skammtímaskuldbindingum. Vaxandi áhuga hefur gætt erlendis að undanförnu á notkun verðtryggingar. Verðtryggingu hefur þó ekki verið beitt í útlánum lánastofnana til heimila í ríkjum OECD, að Íslandi undanskildu, heldur hefur notkun hennar einskorðast við ríkisskuldabréf.
    Verðtryggingu ríkisskuldabréfa er að finna í átta OECD-ríkjum: Ástralíu, Bretlandi, Danmörku, Írlandi, Íslandi, Kanada, Nýja-Sjálandi og Svíþjóð. Hlutdeild verðtryggingar er hins vegar mjög mismunandi í einstökum löndum. Heildarfjárhæð verðtryggðra ríkisskuldabréfa er mest í Bretlandi, jafnvirði um 4.800 milljarða kr. borið saman við um 70 milljarða kr. hér á landi. Hlutfall verðtryggingar á ríkisskuldabréfum er hins vegar hæst hér á landi, um 86%, í Bretlandi er það um 18%, í Svíþjóð rúm 7%, í Ástralíu um 4% en lægra annars staðar. Auk þessara landa stefna bandarísk stjórnvöld að útgáfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa á næsta ári.

    Mun ráðherra beita sér fyrir því að verðtrygging lána verði bönnuð á þessu eða næsta ári í ljósi langvarandi stöðugleika og lágrar verðbólgu, en nú er bannað að verðtryggja lán til skemmri tíma en þriggja ára, 1. janúar 1998 lengist sá tími í fimm ár og 1. janúar árið 2000 í sjö ár, jafnframt því sem bannað verður að verðtryggja innlán frá 1. janúar árið 2000?
    Ekki stendur til að banna verðtryggingu lána umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. Þessar breytingar hafa að yfirlögðu ráði verið gerðar á löngum tíma og tilkynntar með góðum fyrirvara, enda eru miklir hagsmunir bundnir notkun verðtryggingar og óvarlegt að raska með skömmum fyrirvara reglum um verðtryggingu þar sem þær eru afar mikilvægur þáttur í starfsumhverfi banka- og lánastofnana.
    Á undanförnum árum hefur farið fram mikil umræða um framtíð verðtryggingar og hlutverk hennar á lánamarkaðnum hér á landi. Niðurstaðan hefur verið sú að verðtrygging hentaði í skuldbindingum til langs tíma en stefna bæri að því að draga úr notkun hennar á skammtímaskuldbindingum. Það stafar m.a. af því að verðtrygging á skammtímaskuldbindingum skapar mikla rekstraráhættu fyrir lánastofnanir og hefur óæskileg áhrif á vaxtamyndun. Auk þess hefur verðtrygging þau áhrif að einangra innlendan lánamarkað þar sem erlendir fjárfestar eru lítt kunnugir verðtryggingu, sérstaklega á skammtímaskuldbindingum.
    Á hinn bóginn hefur verðtrygging á langtímaskuldbindingum margvíslega kosti sem njóta nú æ meiri alþjóðlegrar viðurkenningar. Þegar lán er veitt til langs tíma með óverðtryggðum vöxtum þarf lánveitandinn að mynda sér einhverja skoðun á verðbólguhorfum á öllum lánstímanum. Það segir sig sjálft að það kann að vera erfitt þegar t.d. er um að ræða tíu ára lán eða lengra. Fjárfestar hafa einnig mismunandi skoðanir á verðbólguhorfum. Af þessum ástæðum áskilja þeir sér því áhættuálag í vöxtum. Því hærri sem þeir telja að verðbólgan verði þeim mun hærri verða nafnvextirnir og því hræddari sem þeir eru um að verðbólgan geti orðið enn meiri en þeir reikna með þeim mun hærra verður verðbólguálagið og þar með vextirnir. Áhættuálagið veldur því ótvírætt að raunvextir verða hærri en ella. En þeir verða einnig hærri en ella, eftir á reiknað, ef verðbólga verður lægri en vænta mátti. Það er aðeins ef óvæntur verðbólguskellur á sér stað að raunvextir verða lægri en fjárfestar ætluðu í upphafi. Aukinn verðbólguótti getur einnig valdið því að lánstími óverðtryggðra lána sem í boði eru styttist.
    Að öðru jöfnu er greiðslubyrði verðtryggðra lána léttari en á sambærilegum óverðtryggðum lánum framan af lánstímanum. Þetta snýst hins vegar við þegar líður á lánstímann. Þegar til viðbótar kemur að óverðtryggð lán hafa yfirleitt hærri raunvexti og lánstími er að öðru jöfnu styttri á óverðtryggðum lánum er hætt við að afnám verðtryggingar á langtímalánum geti þyngt mjög verulega greiðslubyrði nýrra lána.
    Niðurstaðan af framangreindu er því sú að hætt er við að afnám verðtryggingar á langtímaskuldbindingum mundi hafa í för með sér allt í senn, hærri raunvexti, styttri lánstíma og þyngri greiðslubyrði af lánum. Þessu til viðbótar kynni skyndilegt afnám verðtryggingar að valda usla á fjármagnsmarkaði með tilheyrandi óvissu og vaxtahækkun. Heillavænlegast er því að halda áfram á þeirri leið sem þegar hefur verið mörkuð, þ.e. að draga úr verðtryggingu í áföngum án þess að rýra traust á fjármagnsmarkaðnum.