Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 105 . mál.


111. Fyrirspurn



til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um ökutækjastyrki og hjálpartæki til fatlaðra íbúa á sambýlum.

Frá Sigurði Hlöðvessyni.



    Hver hefur verið þróun fjárveitinga til ökutækjastyrkja til fatlaðra á síðustu fimm árum, á föstu verðlagi í október 1996?
    Mun ráðherra beita sér fyrir því að reglur Tryggingastofnunar ríkisins um úthlutun ökutækjastyrkja til fatlaðra nái einnig til sambýla, þannig að sambýli, þar sem búa einn eða fleiri einstaklingar sem fullnægja skilyrðum um styrk, eigi rétt á styrk?
    Mun ráðherra beita sér fyrir því að reglum Tryggingastofnunar um afgreiðslu hjálpartækja, svo sem baðtækja, baðlyfta, sturtustóla og annarra slíkra hjálpartækja, til íbúa á sambýlum verði breytt þannig að þörf einstaklingsins fyrir hjálpartæki verði metin út frá persónulegum þörfum hans þannig að það komi ekki í veg fyrir úthlutun að aðrir íbúar sambýlisins þurfi ekki á tækjunum að halda?

Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.


    Á sl. árum hefur sambýlum fatlaðra fjölgað mikið. Því ber að fagna en því miður virðast hliðarverkanir þessa stundum vera að réttur fatlaðs fólks sem býr á sambýlum sé skertur af Tryggingastofnun ríkisins.
    Almannatryggingum er ætlað að auðvelda fötluðum að taka þátt í daglegu lífi, m.a. með ökutækjastyrkjum. Fatlaðir, ekki síst þeir sem búa á landsbyggðinni þar sem almenningssamgöngur eru engar, eru háðari einkabílum en aðrir og ökutækjastyrkir geta auðveldað þeim að eignast bíl. Styrkirnir geta skipt sköpum, m.a. gert fötluðum mögulegt að stunda atvinnu og þannig rofið félagslega einangrun þeirra. Á umsóknarárinu 1996 gerir Tryggingastofnun ráð fyrir 50 svokölluðum hærri styrkjum og 355 lægri styrkjum. Samkvæmt reglum stofnunarinnar geta íbúar á sambýli ekki sótt í sameiningu um ökutækjastyrk. Rekstur, mönnun og heimilishald sambýla býður ekki upp á að hver íbúi eignist eigin bifreið, auk þess sem það yrði mun dýrara en að sameinast um einn bíl. Framkvæmdajóður fatlaðra telur það ekki í sínum verkahring að veita fjármagn til bifreiðakaupa til sambýla, þótt hann fjármagni að öðru leyti stofnkostnað þeirra.
    Tryggingastofnun hefur í mörgum tilfellum hafnað beiðni einstaklings á sambýli um hjálpartæki vegna þess að hugsanlegt sé að annar einstaklingur sem ekki á rétt á sama hjálpartæki gæti hugsanlega nýtt það. Slík vinnubrögð eru auðvitað með öllu ótæk. Benda má á að verklagsreglur stofnunarinnar virðast miðast við að sambýli fatlaðra sé stofnun en ekki heimili þrátt fyrir að lagaskilgreiningar kveði á um hitt.

Prentað upp.