Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 114 . mál.


122. Tillaga til þingsályktunar



um nýja stefnumörkun í heilbrigðismálum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Sighvatur Björgvinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Ágúst Einarsson, Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson,


Jón Baldvin Hannibalsson, Lúðvík Bergvinsson, Petrína Baldursdóttir,


Svanfríður Jónasdóttir, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa nýja stefnumörkun í heilbrigðismálum með víðtækri endurskoðun og umbótum á íslensku heilbrigðisáætluninni frá 19. mars 1991. Við þá stefnumörkun verði m.a. tekið mið af nýjum aðstæðum, breytingum og þróun sem orðið hefur í heilbrigðismálum á sl. fimm árum og reynslunni af framkvæmd heilbrigðisáætlunarinnar.
    Við nýja stefnumörkun í heilbrigðismálum skal hafa hliðsjón af eftirfarandi atriðum:
     Forvarnastarf.
         
    
    Áhersla verði lögð á auknar slysavarnir, forvarnir, heilsuvernd, endurhæfingu og sjúkdómaleit.
         
    
    Grunnheilsugæsla verði efld og komið á víðtæku fræðslu- og forvarnastarfi til þess að stemma stigu við sjúkdómum og slysum þannig að hægt verði að draga úr dýrum læknisaðgerðum og stofnanavist.
         
    
    Fram fari könnun á árangri slysavarna- og forvarnastarfs og ný stefna verði mótuð í samræmi við niðurstöður hennar.
         
    
    Sérstök áhersla verði lögð á raunhæfar aðgerðir til að draga úr neyslu áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna.
         
    
    Stuðningur verði aukinn við félagasamtök sem sinna viðurkenndum og árangursríkum forvarnaverkefnum á sviði heilbrigðismála.
         
    
    Áhersla verði lögð á aðgerðir til þess að draga úr mengun, útrýma skaðlegum eiturefnum og bæta lífsumhverfi.
     Uppbygging heilsugæslunnar.
         
    
    Viðurkennt verði í reynd lykilhlutverk heilsugæslunnar í heilsuverndarstarfinu, en heilsugæslan á að vera sú grunnþjónusta sem læknisfræðilegt meðferðarstarf byggist á.
         
    
    Heilsugæslu- og heimilislæknirinn verði sá sem gætir hagsmuna sjúklings í kerfinu og á að tryggja að hann fái þar þá þjónustu sem hann á rétt á og að allar upplýsingar um sjúkleika hans, rannsóknir, þjónustu og meðferðarárangur séu tiltækar.
         
    
    Áætlun verði gerð um að ljúka uppbyggingu heilsugæslustöðva um land allt fyrir árið 2000.
         
    
    Heilsugæslustöðvum verði í vaxandi mæli gert kleift að sinna fræðslu og forvarna- og endurhæfingarstarfi með ráðningu sérhæfðs starfsfólks til þeirra verkefna.
         
    
    Við uppbyggingu og rekstur heilsugæslustöðva verði reynd mismunandi fjármögnunar- og rekstrarform þannig að samanburður valkosta fáist, en þó ávallt þannig að fyllstu hagkvæmni sé gætt, þjónustan sé hvarvetna jafngóð og veitt sjúklingum á sömu kjörum og á ábyrgð opinberra aðila.
         
    
    Hlutur heilsugæslunnar verði aukinn sem hlutfall af heildarútgjöldum til heilbrigðismála, jafnframt því sem aukið verði hlutfallslega fjármagn til heilsuverndar og forvarnastarfs.
         
    
    Stefna ber að því að tannheilbrigðisþjónusta verði boðin á heilsugæslustöðvum til jafns við aðra grunnheilbrigðisþjónustu sem þar er veitt og á sömu kjörum.
     Heilbrigðis- og félagsþjónusta utan stofnana.
         
    
    Heimaþjónusta verði efld og heimahjúkrun bætt.
         
    
    Stefnt verði að því að rekstur heilsugæslu og öldrunarþjónustu, þar á meðal heimahjúkrun aldraðra og öryrkja, verði flutt til sveitarfélaganna. Í því sambandi verði gerð sérstök úttekt á þjónustu við aldraða. Lög um málefni aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra verði endurskoðuð í samræmi við niðurstöður þeirrar úttektar.
     Sjúkrahúsin.
         
    
    Unnið verði að einföldun, samhæfingu og/eða sameiningu einstakra rekstrarþátta og þjónustu sjúkrahúsanna í landinu.
         
    
    Þjónustusvið heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa, sérfræðinga með sjálfstæðan rekstur, vistunarstofnana og annarra stofnana í heilbrigðiskerfinu verði síðan skilgreind og afmörkuð. Markmiðið er að ákvarða betur skipulag og verkefnasvið hverrar stofnunar og þjónustuþáttar fyrir sig í samræmi við nýja stefnumörkun og í ljósi breyttra forsendna sem felast í bættum samgöngum og framförum í læknavísindum, svo og að ná meiri hagkvæmni í nýtingu fjármuna.
         
    
    Viðurkennd verði sérstaða og hlutverk aðalaðgerðasjúkrahúsa landsmanna, stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Akureyri, og fjárhagsgrundvöllur þeirra tryggður.                    Lögð verði sérstök áhersla á hlutverk stóru sjúkrahúsanna í kennslu heilbrigðisstétta, vísindastarfsemi og rannsóknum og tengslin styrkt milli þeirra og háskólanna sem annast kennsluna.
         
    
    Starfsemi minni sjúkrahúsanna verði jafnframt endurskipulögð þannig að þau geti betur sinnt þeim störfum sem eru á þeirra færi og þeim yrðu ætluð eftir slíka endurskipulagningu.
         
    
    Öll eftirmeðferð sjúklinga, sem gengist hafa undir aðgerðir eða meðferð á sjúkrahúsum, verði á vegum göngudeilda sjúkrahúsanna sjálfra og á ábyrgð þeirra.
     Fjárhagsleg stjórnun.
        Fjárhagsleg stjórnun í heilbrigðiskerfinu verði endurskipulögð með það að markmiði að saman fari stjórnun og fjárhagsleg ábyrgð. Á deildaskiptum sjúkrahúsum verði skipulögð rekstrarleg ábyrgð einstakra deilda.
     Launakerfið.
         
    
    Allt launakerfi í heilbrigðisþjónustunni verði endurskoðað með það að markmiði að samræma og einfalda launakerfi sem þar gilda.
         
    
    Skilgreina skal betur en nú er gert starfssvið einstakra heilbrigðisstétta og breytingar gerðar á lögum um heilbrigðisstéttir í samræmi við nýja skilgreiningu.
     Símenntun og vísindi.
         
    
    Áherslu skal leggja á símenntun heilbrigðisstarfsfólks og eflingu vísindastarfsemi og rannsókna í heilbrigðismálum.
         
    
    Kannað verði í því sambandi hvort rétt sé að koma á fót rannsóknastofnun heilbrigðismála sem starfi í tengslum við háskóla og aðra aðila að heilbrigðis- og faraldsfræðirannsóknum, sem og forvörnum og samræmingu þeirra.
     Réttindi sjúklinga.
         
    
    Aukin áhersla skal lögð á réttindi sjúklinga, svo sem með aukinni fræðslu um hver réttur þeirra er til að þiggja meðferð, leita álits annarra sérfræðinga eða hafna meðferð ef svo ber undir.
         
    
    Tryggja ber rétt sjúklings til þess að fá upplýsingar um allt sem að sjúkdómi hans og læknismeðferð lýtur og auðvelda honum að ná rétti sínum sé á hlut hans gengið eða ef mistök hafa átt sér stað í meðferðinni.
         
    
    Gerð samræmdrar sjúkraskrár fyrir heilsugæslu og sjúkrahús verði hraðað og hún tekin í notkun sem fyrst.
     Gæðastjórnun, biðlistar og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.
         
    
    Settir verði samræmdir opinberir staðlar um gæði í heilbrigðisþjónustunni og skilgreind þróun gæðastjórnunar.
         
    
    Skipulega verði unnið að því að nýta upplýsingatæknina í þágu heilbrigðisþjónustunnar.
         
    
    Reglur verði mótaðar og settar um hámarksbiðtíma eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
         
    
    Öll stefnumörkun um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni taki mið af samábyrgð og mannlegri reisn, sem og jöfnum aðgangi að heilbrigðisþjónustu og að allir geti notið hennar. Skýran mun skal gera á pólitískri og stjórnunarlegri ábyrgð og forgangsröðun annars vegar og klínískri forgangsröðun hins vegar.
     Nýjungar í lækningatækjum og lyfjum.
        Mótuð verði samræmd stefna um kaup á nýjum lækningatækjum og lyfjum sem taki mið af þeirri þróun sem hefur orðið í hátækni og nýjum lyfjum til að meðhöndla og fyrirbyggja sjúkdóma, sem leitt getur til aukinna afkasta og lækkunar kostnaðar vegna meðferðar við sjúkdómum.
    Ný stefnumörkun í heilbrigðismálum í samræmi við framangreindar áherslur skal unnin í samráði við samtök sjúklinga, heilbrigðisstéttir og heilbrigðisstarfsfólk og lögð fyrir Alþingi eigi síðar en í byrjun þings haustið 1997.

Greinargerð.


    Samfélagið hefur þá grundvallarskyldu að draga úr sjúkdómum og slysum eftir því sem best verður gert með löggjöf, hvatningu, stuðningi og skipulagðri og markvissri heilbrigðisþjónustu. Samfélagið hefur líka þá skyldu að veita þeim sem veikjast eða slasast nauðsynlega aðstoð óháð efnahag þeirra, auk þess að sjá um endurhæfingu og félagslega aðstoð eftir því sem þörf krefur. Heilbrigðisþjónustan skal umfram allt grundvallast á samábyrgð og jöfnum aðgangi allra að þjónustunni.
    Það markmið sem að er stefnt með þessari þingsályktunartillögu er að mótuð verði ný stefna í heilbrigðismálum sem feli í sér aukna áherslu á forvarnir, slysavarnir og heilsuvernd til að bæta heilsufar þjóðarinnar og til að stuðla að meiri hagkvæmni í útgjöldum til heilbrigðismála. Þannig verði lögð aukin áhersla á frumheilsugæsluna og á öflugri heilbrigðis- og félagsþjónustu utan stofnana. Með því mætti auka fjölbreytni í þjónustunni og gera hana þar með markvissari og betri. Einnig væri hægt að draga úr dýrari úrræðum í heilbrigðisþjónustunni eins og sérfræðilæknisþjónustu og innlögnum á sjúkrahús, stofnanir eða vistheimili.

Íslenska heilbrigðisáætlunin frá 1991.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að undirbúin verði ný stefnumörkun Alþingis í heilbrigðismálum með víðtækri endurskoðun og umbótum á íslensku heilbrigðisáætluninni sem samþykkt var á Alþingi 19. mars 1991. Áhersla er lögð á að við þá stefnumörkun verði m.a. tekið mið af nýjum aðstæðum, breytingum og þróun sem orðið hefur í heilbrigðismálum frá því að áætlunin var samþykkt fyrir fimm árum og af framkvæmd hennar. Ljóst er að sú áætlun fól ekki í sér heildstæða stefnumörkun á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar heldur náði aðallega til þátta sem falla undir heilbrigða lífshætti og manneldis- og neyslustefnu til að bæta heilsufar þjóðarinnar. Þar var þó með sama hætti og hér lögð áhersla á frumheilsugæsluna þannig að heilsugæslustöðvar væru hornsteinar hennar. Reynslan sýnir engu síður að það markmið hefur ekki náðst og nægir að benda á að fyrirætlanir um að ljúka uppbyggingu heilsugæslustöðva fyrir árið 1995 hafa ekki gengið eftir. Áætlunina átti að endurskoða að þremur árum liðnum frá gildistöku eða á árinu 1994 sem ekki hefur heldur orðið.
    Sú stefnumörkun sem hér er lögð til er þar að auki mun víðtækari en íslenska heilbrigðisáætlunin frá 1991.

Núverandi staða í heilbrigðisþjónustunni.
    Í engum málaflokki er eins mikil þörf á skýrri og markvissri stefnumótun og í heilbrigðismálum en áætlað er að útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála muni á næsta ári nema rúmum 52 milljörðum kr. eða um 46% af útgjaldalið fjárlaga. Til að nýta fjármagn sem best og ná fram hámarkshagkvæmni er brýnt að fylgt sé markvissri stefnumótun og ekki síður er hún nauðsynleg til að ná fram öflugri og skipulegri þjónustu sem allir hafa jafnan aðgang að óháð efnahag.
    Á undanförnum áratugum hafa útgjöld til heilbrigðismála vaxið hröðum skrefum. Hlutfall heilbrigðisútgjalda var 7,94% af vergri landsframleiðslu á árinu 1990 en 8,14% árið 1995, en þá eru ekki meðtalin útgjöld til almannatrygginga og annarra velferðarmála. Hlutur heimilanna í útgjöldum til heilbrigðismála hefur einnig vaxið. Á árinu 1990 voru útgjöld þeirra 13,24% af öllum heilbrigðisútgjöldum en 15,86% árið 1995. Í fylgiskjali kemur einnig fram hver þróun útgjalda hins opinbera til heilbrigðismála hefur verið á árabilinu 1980–95, svo og útgjöld heimilanna til heilbrigðismála á sama tímabili.
    Mikil uppbygging hefur átt sér stað í sjúkrahúsþjónustu og er fjöldi sjúkrarúma hér á landi á hvern íbúa með því mesta sem gerist ef treysta má tölfræðilegum upplýsingum og samanburðargildi þeirra við sams konar erlendar upplýsingar. Sama má segja um vistrými fyrir aldraða. Þrátt fyrir langa biðlista á stofnanir aldraðra eru vistrými hér hlutfallslega fleiri en gengur og gerist meðal nágrannaþjóða. Skýringa má m.a. leita í því að hjá nágrannaþjóðunum hefur meira verið lagt upp úr aðgerðum til að koma í veg fyrir stofnanavist, svo sem með víðtækri heimahjúkrun og heimaþjónustu fyrir aldraða. Einnig má telja næsta öruggt að öldrunarþjónustan hér á landi sé mun dýrari en hún þyrfti að vera ef hún væri á einni hendi, en öldrunarþjónustunni er nú skipt milli ríkis og sveitarfélaga.
    Þótt heilsugæslustöðvum hafi víða verið komið á fót hefur aukið fjármagn til heilbrigðismála, eða um 75–80%, runnið til rekstrar sjúkrahúsa. Meiri áhersla hefur verið lögð á meðferð sjúkdóma en forvarnastarf. Á því sviði hefur ríkt hálfgert máttleysi. Auk þess hefur kostnaður við sérfræðiþjónustu vaxið gífurlega þó að talið sé að heimilislæknar geti sinnt 75–80% þeirra sem þurfa að leita sér læknisaðstoðar.
    Uppbygging heilsugæslunnar í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu á langt í land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Talið er að á næstu árum þurfi að veita 700–800 millj. kr. til að ljúka byggingu heilsugæslustöðva í Reykjavík á sama hátt og gert hefur verið annars staðar á landinu. Eitt mikilvægasta verkefnið á sviði heilbrigðisþjónustu er að efla frumheilsugæsluna sem fyrsta stig þjónustunnar, þar með talið víðtækar forvarnir, svo og fræðslu um ábyrgð einstaklinga á eigin heilsu. Það hefur að mestu tekist á landsbyggðinni, en öðru máli gegnir um höfuðborgarsvæðið.
    Þróunin hefur orðið sú á umliðnum árum að sérfræðilæknisþjónustan hefur þanist út en þjónusta heimilis- og heilsugæslulækna hefur nánast staðið í stað. Því hefur m.a. verið haldið fram af heimilislæknum að sérfræðingar vinni meira og meira á sviði frumþjónustu í heilbrigðiskerfinu þótt slíkt sé bannað samkvæmt samningi þeirra við ríkið. Benda þeir á að þetta geti kollvarpað núverandi skipulagi og að heilsugæslukerfið í núverandi mynd hrynji ef stjórnvöld grípi ekki strax í taumana og tryggi skipulagða verkaskiptingu. Í þessu sambandi er einnig vitnað til þess að á árunum 1991–94 hafi komum sjúklinga til heimilis- og heilsugæslulækna fækkað um 11% en til sérfræðinga um 3% á sama tíma. Einnig að á árunum 1993–94 fækkaði komum til heimilis- og heilsugæslulækna um 0,6%, en fjölgaði um 6% hjá sérfræðilæknum á sama tíma. Erlendar rannsóknir sýna að kostnaður heilbrigðisþjónustunnar er allt að þriðjungi lægri í ríkjum þar sem verkaskipting lækna er skýr. Þannig dregur öflug frumþjónusta og skýr mörk milli sérfræði- og frumþjónustu verulega úr útgjöldum og ekki ólíklegt að hér sé um að ræða sparnað sem skiptir hundruðum milljóna kr.
    Þróunin frá 1991, þegar samþykkt var þingsályktun um íslenska heilbrigðisáætlun, hefur heldur ekki verið í samræmi við þá stefnu sem þar var mörkuð. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir auknum forvörnum og heilsuvernd, en ef bornar eru saman nokkrar tölur úr fjárlögum áranna 1991 og 1996 kemur í ljós að hlutur heilsuverndar og forvarnastarfs heilsugæslunnar hefur rýrnað en sjúkrahúskostnaður aukist. Það markmið, sem sett var fram í heilbrigðisáætluninni frá 1991 um að ljúka uppbyggingu heilsugæslustöðva fyrir árið 1995, hefur enn ekki náðst. Það ásamt öðru sýnir hve brýnt er að móta heildarstefnu í heilbrigðisþjónustunni sem markvisst verði farið eftir í forgangsröðun, framkvæmd og fjármögnun.
    Margt bendir til þess að fjármögnun til heilbrigðismála stuðli ekki að hagkvæmni, en hún er margþætt og greiðsluleiðir fjölmargar. Mikið vantar á að saman fari ákvörðunarvald og stjórnunarleg og fjárhagsleg ábyrgð.
    Þá ber einnig að leggja áherslu á að það skipulag heilbrigðisþjónustu sem er fjárhagslega hagkvæmast — aukin heilsugæsla og forvarnir — gefur einnig mestan ávinning í bættu heilsufari.
    Á það ber einnig að líta að öldruðum mun fara mjög fjölgandi á næstu áratugum jafnframt því sem allt bendir til að verulega muni draga úr fólksfjölgun. Í þessu felst mikil fjölgun fólks á lífeyrisaldri í hlutfalli við starfandi fólk. Talið er að árið 2030 verði hlutfall 67 ára og eldri hér á landi um 30% þeirra sem eru á aldrinum 20–67 ára, samanborið við um 16% nú. Árið 2030 munu því einungis þrír einstaklingar á vinnufærum aldri standa undir útgjöldum til hvers lífeyrisþega, samanborið við sex til sjö einstaklinga nú. Ljóst er því að hlutfallslega færri verða á vinnumarkaðinum til að standa undir útgjöldum til heilbrigðismála. Í töflu 1 í fylgiskjali kemur einmitt fram hver þróunin hefur verið varðandi útgjöld hins opinbera til öldrunar- og endurhæfingarmála en þau hafa nær þrefaldast frá árinu 1980. Því fyrr sem ráðist verður í markvissa stefnumörkun í heilbrigðismálum þeim mun betur verður þjóðin fær um að bregðast við þessari þróun.

Lykilhlutverk heilsugæslunnar.
    Í þingsályktunartillögu þessari er ítarlega fjallað um hvernig tryggja á lykilhlutverk heilsugæslunnar í heilsuverndarstarfinu og skilvirkar forvarnir, heilsuvernd og endurhæfingu. Í því sambandi er m.a. lögð áhersla á að hlutur heilsugæslunnar verði aukinn og fjármagn til heilsuverndar og forvarnastarfa verði aukið sem hlutfall af heildarútgjöldum til heilbrigðismála. Mikil áhersla er lögð á heilbrigðis- og félagsþjónustu utan stofnana, svo sem með öflugri heimilisþjónustu og bættri heimahjúkrun, og það markmið sett að teknar verði upp viðræður við sveitarfélögin um að rekstur heilsugæslu og öldrunarþjónustu, þar á meðal heimahjúkrun aldraðra og öryrkja, verði fluttur til sveitarfélaganna. Það er skoðun flutningsmanna að með því að öldrunarþjónustan sé á einni hendi, en ekki bæði hjá ríki og sveitarfélögum, auk þess sem aukin áhersla verði lögð á heilbrigðis- og félagsþjónustu utan stofnana, verði hún bæði skilvirkari, hagkvæmari og betri. Það sýnir reynsla annarra þjóða.
    Þessi nýja stefnumörkun tekur einnig til tannheilbrigðisþjónustu. Þannig verði það hlutverk heilsugæslustöðva að sinna tannheilsugæslu til jafns við aðra grunnheilbrigðisþjónustu sem þar er veitt og á sömu kjörum. Staðreyndin er sú, eins og fram kemur í töflu 2 í fylgiskjali, að enginn einn liður í útgjöldum heimilanna til heilbrigðisþjónustunnar hefur vaxið eins mikið og útgjöld til tannlækninga. Þau hafa rúmlega þrefaldast á 15 árum frá 1980–95. Sú leið sem hér er lögð til gæti verulega dregið úr þeim útgjöldum. Tannheilsugæsluþjónusta gæti falist í fyrirbyggjandi aðgerðum og minni háttar viðgerðum og yrði veitt á sömu kjörum og önnur þjónusta heilsugæslustöðvanna. Tannlæknar og tannfræðingar verði ráðnir sem starfsmenn heilsugæslustöðva til þess að sinna slíkri grunnþjónustu á sambærilegum kjörum og aðrir starfsmenn. Á sama hátt ber að leggja áherslu á að ráða starfsfólk að heilsugæslustöðvum til að sinna forvarnastarfi, sjúkraþjálfun og fræðslu í meira mæli en nú er gert. Þetta er eitt af hlutverkum heilsugæslunnar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, en mannafli hefur ekki verið til þess að sinna því eins og ætlast er til.

Skipulag sjúkrahúsanna.
    Nýja stefnumörkunin tekur einnig til skipulagsmála sjúkrahúsanna þar sem m.a. er lögð áhersla á að viðurkennd verði í reynd sérstaða og hlutverk aðalaðgerðasjúkrahúsa landsmanna, en fjárveitingar til þeirra hafa ekki verið í neinu samræmi við þá þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Það hefur síðan valdið árvissum lokunum deilda og lengt biðlista en m.a. Ríkisendurskoðun telur að slíkar aðgerðir hafi skilað litlum sparnaði.
    Lögð er áhersla á að hlutverk heilbrigðisstofnana verði skilgreind miklu nánar en nú er gert. Það á við um þjónustusvið heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa, vistunarstofnana og sérfræðinga með eigin rekstur. Einnig er lagt til að unnið verði að einföldun, samhæfingu eða sameiningu einstakra rekstrarþátta og þjónustu sjúkrahúsanna. Ljóst er að þetta víðfeðma svið heilbrigðisþjónustunnar hefur á liðnum árum lítið tekið mið af breyttum forsendum, svo sem framförum í læknavísindum og bættum samgöngum, í þeim tilgangi að ná meiri hagkvæmni í nýtingu fjármuna og betri þjónustu. Töluvert vantar líka á að saman fari stjórnun og fjárhagsleg ábyrgð í heilbrigðiskerfinu sem er grundvallarþáttur í hagkvæmni, bættri stjórnun og betri þjónustu sem hér er lagt til að tekið verði á með markvissum hætti.

Endurskoðun launakerfa í heilbrigðisþjónustu.
    Launakerfið í heilbrigðisþjónustunni hefur ásamt öðru orðið þess valdandi að skipulag þjónustunnar er ekki eins gott og skyldi og mörkin milli einstakra þátta í þjónustunni óljós. Skilin milli einkarekstrar og opinbers rekstrar eru ekki nægilega skýr, t.d. er launakerfi lækna sambland af fastlaunakerfi og kerfi einkarekstrar. Þannig getur einn og sami aðili sinnt sama sjúklingi bæði sem fastur starfsmaður á föstum launum hjá ríkisstofnun og á einkarekinni stofu sinni úti í bæ eða jafnvel sem einkarekstraraðili í húsnæði stofnunarinnar og þá gegn greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins og beint frá sjúklingi. Þetta leiðir til óeðlilegra hagsmunaárekstra og mikils launamunar í kerfinu milli þeirra sem vegna aðstöðu sinnar sem fastlaunamenn á ríkisstofnun eiga möguleika á því að stunda sjálfstæðan rekstur til hliðar við „aðalstarf“ sitt í þjónustu við sömu sjúklinga og hinna sem ekki eiga þess kost. Dæmi eru um að menn geti verið í föstum störfum hjá fleiri en einni heilbrigðisstofnun sem hið opinbera rekur en hafi svo stærstan hluta tekna sinna af einkarekstri. Af þessu tvöfalda kerfi leiðir að fastlaunasamningar hafa setið á hakanum þannig að samræmi er ekki á milli föstu launanna og þeirrar menntunar og ábyrgðar sem krafist er af þeim sem gegna vandasömum sérfræðistörfum í opinberri þjónustu.
    Sú nýja stefnumörkun í heilbrigðismálum, sem áhersla er lögð á í þessari tillögu, getur ekki orðið nema launakerfið í heilbrigðisþjónustunni verði tekið til rækilegrar endurskoðunar og samræmingar. Flutningsmenn telja að sjálfstæðum stofurekstri sérfræðinga beri að fá sinn réttmæta sess í lögum um heilbrigðisþjónustu með þeim hætti að sérfræðiþjónusta, sem rekin er utan hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu, verði aðgreind þannig að þessum tveimur mikilvægu þáttum sé ekki blandað saman eins og nú er gert. Það getur hins vegar ekki orðið nema til komi endurskoðun á launakerfum í heilbrigðisþjónustunni eins og hér er lagt til. Jafnframt þeirri endurskoðun þarf að búa svo um hnútana að starfsfólk í heilbrigðisþjónustu eigi greiða leið að framhaldsmenntun og símenntun, en það er undirstaða þess að íslensk heilbrigðisþjónusta geti nýtt sér vísindalegar og tæknilegar framfarir og nýjungar.

Efling vísinda og rannsókna.
    Í tillögunni er lögð áhersla á hlutverk aðalaðgerðasjúkrahúsa landsmanna í kennslu heilbrigðisstétta, vísindastarfsemi og rannsóknum og að tengslin milli þeirra og háskólanna, sem annast kennslu heilbrigðisstéttanna, verði styrkt. Enn fremur er lagt til að kannað verði hvort rétt sé að koma á fót rannsóknastofnun heilbrigðismála sem starfi í tengslum við háskóla landsins og aðra aðila að heilbrigðis- og faraldsfræðirannsóknum, sem og forvörnum og samræmingu þeirra.
    Samfara þeirri þróun, sem hér hefur verið lýst, hefur sú skoðun verið ríkjandi að heilsufar Íslendinga fari batnandi. Til merkis um það eru vaxandi lífslíkur og minni ungbarnadauði. Uppbygging sjúkrahúsaþjónustunnar og aukin umsvif og útgjöld í heilbrigðisþjónustu þurfa ekki að jafngilda betra heilsufari þjóðarinnar þó að nútímalæknavísindi hafi orðið til þess að lengja líf manna og auka lífslíkur þeirra sem haldnir eru langvinnum sjúkdómum. Það er mat margra að upplýsingar og rannsóknir um heilsufarsmál séu alls ónógar og því byggist sú skoðun að heilsufar Íslendinga sé gott fremur á ágiskunum en niðurstöðum beinna rannsókna. Heilbrigðis- og faraldsfræðirannsóknir eru mikilvægur þáttur og nauðsynlegar forsendur í allri heilbrigðisþjónustunni. Það þarf því að verða hluti af auknum forvörnum í nýrri heilbrigðisstefnu að efla upplýsingasöfnun og rannsóknir á öllum sviðum heilbrigðismála. Í tillögunni er m.a. lagt til að fram fari könnun á árangri slysavarna- og forvarnastarfs og ný stefna verði mótuð í samræmi við niðurstöður slíkrar könnunar. Með úrvinnslu upplýsinga, sem safnað er skipulega, gefst kostur á að meta einstaka þætti og skipuleggja betur heilbrigðisþjónustuna, svo og allt forvarnastarf. Má í því sambandi benda á að erlendar rannsóknir sýna að óbein útgjöld, þ.e. kostnaður sem stafar af fjarvistum úr vinnu vegna sjúkdóma, örorku og dauða fyrir aldur fram, eru mun meiri en bein útgjöld.

Réttur sjúklinga.
    Áherslan á grunnheilsugæsluna kemur skýrt fram í þessari stefnumörkun með því að kveðið er á um að heilsugæslu- og heimilislæknirinn verði sá sem gætir hagsmuna sjúklings í kerfinu og á að tryggja að hann fái þar þá þjónustu sem hann á rétt á og að allar upplýsingar um sjúkleika, rannsóknir, þjónustu og meðferðarárangur séu tiltækar.
    Í tillögunni er lögð áhersla á að réttindi sjúklinga verði tryggð og liggi ljós fyrir. Þá er lögð áhersla á aukna fræðslu um rétt sjúklinga til að þiggja meðferð eða hafna ef svo ber undir. Einnig að réttur sjúklinga til að fá upplýsingar um allt sem að sjúkdómi þeirra og læknismeðferð lýtur verði tryggður og að sjúklingum verði auðveldað að ná rétti sínum sé á hlut þeirra gengið eða ef mistök hafa átt sér stað í meðferð.
    Í undirbúningi hefur verið að koma á sjúkraskrám sem nái til flestra þátta heilbrigðisþjónustunnar. Það er vandasamt og viðkvæmt verk. Því ber að vanda vel til verka og tryggja að aðgangur að sjúkraskrám verði þannig að ekki sé hægt að misnota þær. Sjúkraskrár hafa mikið notagildi og auka yfirsýn yfir heilsufar einstaklinga og ættu þar með að bæta þjónustu við sjúklinga og tryggja betri skipulagningu hennar. Hér er lagt til að gerð samræmdrar sjúkraskrár fyrir heilsugæslu og sjúkrahús verði hraðað og hún tekin í notkun sem fyrst.

Gæðastjórnun.
    Ekki hafa verið settir opinberir staðlar eða viðmið um gæði heilbrigðisþjónustunnar þó að í vöxt hafi færst að fagfólk innan heilbrigðisstofnana taki mið af erlendum stöðlum í því skyni að reyna að auka gæði þjónustunnar. Slíkir staðlar þjóna mikilvægu hlutverki við að meta gæði þeirrar þjónustu sem veitt er sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun. Það bæði bætir þjónustuna og gerir vinnubrögðin skilvirkari og árangursríkari og leiðir einnig til ýtrustu hagkvæmni í heilbrigðisþjónustunni. Hér er því lagt til að settir verði samræmdir opinberir staðlar um gæði heilbrigðisþjónustunnar, auk þess sem skipulega verði unnið að því að nýta upplýsingatæknina til að bæta þjónustuna og gera hana hagkvæmari.

Biðlistar.
    Biðlistar eftir þjónustu, ekki síst langir biðlistar eftir aðgerðum á sjúkrahúsum, t.d. á bæklunardeildum, hafa einkennt heilbrigðiskerfið hér á landi, ekki síst í tengslum við sumarlokanir á deildum sjúkrahúsanna. Í nýlegri úttekt á biðlistum eftir aðgerðum á stóru sjúkrahúsunum kom fram að sparnaðaraðgerðir hafa valdið því að þeir eru sífellt að lengjast. Í mars sl. voru á fjórða þúsund manns á biðlistum, þar af um 1.300 manns á biðlistum bæklunardeilda sjúkrahúsanna.
    Draga verður í efa að sífellt lengri biðlistar leiði til sparnaðar. Þvert á móti er líklegt að bið sjúklinga eftir nauðsynlegum aðgerðum skapi gríðarleg útgjöld. Ekki bara fyrir ríkissjóð, heldur einnig sjúklingana sem bíða og fjölskyldur þeirra. Sjúklingar þurfa iðulega að vera undir læknishendi og á dýrum lyfjum meðan þeir bíða eftir aðgerð, kannski mánuðum eða árum saman. Sjúklingar á biðlistum þurfa líka oft á heimahjúkrun og heimaþjónustu að halda og jafnvel vistunarplássi meðan á biðinni stendur. Sá kostnaður bætist því ofan á kostnað við aðgerðina þegar að henni kemur. Biðin kostar því ríkissjóð fjármuni og er einungis frestun á þeim útgjöldum sem aðgerðinni fylgja. Ætla má að aðgerðin geti líka orðið umfangsmeiri og erfiðari og þar með kostnaðarsamari eftir því sem hún dregst lengur. Biðin kostar fyrirtækin einnig fjármuni vegna fjarvista og vinnutaps sjúklinganna. Verst er þó biðin fyrir sjúklinginn sjálfan og fjölskyldu hans. Mörg heimili eru þannig stödd fjárhagslega að ekkert má út af bera til að fjármálin fari ekki úr skorðum. Þannig getur það stefnt heimili í gjaldþrot ef framfærandi þess, þótt ekki sé nema annar þeirra, er frá vinnu langtímum saman. Sé viðkomandi algjörlega óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda verður hann fljótlega fyrir miklu tekjutapi. Sjúkradagpeningar, um 17 þús. kr. á mánuði, taka við af föstum launum, en það getur bitnað mjög harkalega á framfærslu heimilisins. Þjáningum sjúklingsins fylgir því ekki einungis mikið álag fyrir heimilið heldur einnig miklar fjárhagsáhyggjur.
    Nauðsynlegt er að fram fari ítarleg úttekt á því hvað sífellt lengri biðlistar kosti ríkissjóð, heimilin og samfélagið allt. Hvaða áhrif hefur löng bið á sjúkdóminn og sjúkdómseinkennin? Hvar liggja öryggismörkin í þessu efni? Víða erlendis hafa verið settar reglur um hámarksbið eftir aðgerðum og heilbrigðisþjónustu. Má nefna að í Svíþjóð voru settar reglur um þriggja mánaða hámarksbiðtíma eftir aðgerðum á sjúklingum með tiltekna sjúkdóma. Svipaðar reglur voru settar í Danmörku. Í Noregi var miðað við að sjúklingar með alvarlega sjúkdóma ættu rétt á nauðsynlegri meðferð eða aðgerð innan sex mánaða.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að settar verði reglur hér á landi um hámarksbiðtíma eftir þjónustu. Slíkar reglur geta bæði auðveldað skipulagningu í heilbrigðisþjónustunni og leitt til sparnaðar fyrir samfélagið allt. Að ekki sé minnst á að eyða þeirri óvissu sem margir sjúklingar sem bíða eftir aðgerðum hafa þurft að búa við.

Forgangsröðun.
    Aukin útgjöld til heilbrigðismála hafa víða erlendis kallað á umræðu um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum og hafa verið mótaðar tillögur þar að lútandi.
    Hér á landi hefur þessi umræða einnig komið upp og á vegum heilbrigðisráðuneytisins er nefnd að störfum til að fjalla um þessi mál. Forgangsröðun er mjög vandmeðfarin og óráðlegt að ráðast í hana nema um skilgreiningu og markmið hennar náist breið samstaða. Segja má að forgangsröðun í íslenskri heilbrigðisþjónustu hafi á síðustu áratugum annars vegar birst í áherslu á uppbyggingu einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma og hins vegar hafi klínísk forgangsröðun að einhverju leyti komið fram vegna mikils niðurskurðar á fjármagni til heilbrigðisþjónustunnar, m.a. með sumarlokunum deilda. Í tillögunni er ekki tekin afstaða til þess hvort ráðast eigi í forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Þar sem slík stefnumótun er í burðarliðnum af hálfu heilbrigðisráðuneytis telja flutningsmenn rétt að setja fram grundarvallarmarkmið sem hafa ber að leiðarljósi verði niðurstaðan sú að forgangsröðun verði tekin upp. Annars vegar er lagt til að öll stefnumörkun um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu taki mið af samábyrgð og mannlegri reisn, sem og af jöfnum aðgangi til þjónustunnar og að allir geti notið hennar. Hins vegar þurfi að gera skýran mun á pólitískri og stjórnunarlegri ábyrgð og forgangsröðun og klínískri forgangsröðun.

Nýjungar í lækningatækjum og lyfjum.
    Þær gífurlegu framfarir sem orðið hafa í læknavísindum og þróun lyfja kalla á að mótuð verði markviss og samræmd stefna um kaup á dýrum lækningatækjum og lyfjum sem sífellt eru að verða fullkomnari. Mótun slíkrar stefnu er líkleg til að skila sér í því að Íslendingar geti með hagkvæmum hætti fylgt eftir þessari öru þróun í læknavísindunum og tileinkað sér nýjungar og hátækni í meðferð sjúkdóma og ekki síður til að fyrirbyggja sjúkdóma. Ljóst er að ýmsu er ábótavant í því efni og sparnaður í heilbrigðiskerfinu hefur komið í veg fyrir eðlilega endurnýjun á brýnum tækjabúnaði heilbrigðisþjónustunnar, en Íslendingar verja miklu minna til endurnýjunar tækja en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Slíkt er ekki rétta leiðin til að tryggja sparnað í heilbrigðiskerfinu heldur dregur það þvert á móti úr öryggi, afköstum og gæðum heilbrigðisþjónustunnar og leiðir oft til aukins kostnaðar.
    Því er hér lagt til að mótuð verði samræmd stefna um kaup á nýjum lækningatækjum og lyfjum sem taki mið af þeirri þróun sem orðið hefur í hátækni- og lyfjameðferð til að meðhöndla og fyrirbyggja sjúkdóma.

Lokaorð.
    Af framansögðu má ljóst vera að brýnt er að nú þegar verði ráðist í mótun nýrrar stefnumörkunar í heilbrigðismálum eins og þingflokkur jafnaðarmanna leggur hér til.
    Flutningsmenn leggja ríka áherslu á að sú stefnumörkun verði unnin í samráði við samtök sjúklinga, heilbrigðisstéttir og heilbrigðisstarfsfólk sem gerst þekkir til mála.
Fylgiskjal.


Gögn frá Þjóðhagsstofnun.



Tafla 1.

(Repró, tafla 1.)




Tafla 2.

(Repró, tafla 2.)