Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 135 . mál.


149. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um listamannalaun, nr. 35/1991.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
    Alþingi veitir árlega fé á fjárlögum til þess að launa listamenn í samræmi við ákvæði laga þessara í þeim tilgangi að efla listsköpun í landinu.

2. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
    Starfslaun listamanna skulu veitt úr fjórum sjóðum:
    Launasjóði rithöfunda,
    Launasjóði myndlistarmanna,
    Tónskáldasjóði,
    Listasjóði.
    Þrír fyrstnefndu sjóðirnir eru sérgreindir sjóðir. Listasjóður er almennur sjóður en sinnir einkum öðrum listgreinum en þeim sem falla undir sérgreindu sjóðina. Allir sjóðirnir veita starfslaun, svo og náms- og ferðastyrki.

3. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Þriggja manna stjórn listamannalauna hefur yfirumsjón með sjóðum skv. 2. gr. Stjórnin skal skipuð af menntamálaráðherra til þriggja ára í senn, einum samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna, einum tilnefndum af Háskóla Íslands, en af Listaháskóla Íslands þegar stofnaður verður, og loks einum án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórn listamannalauna skal m.a. annast vörslu sjóðanna og sjá um bókhald, en hún getur falið öðrum aðila að sjá um þessa þætti fyrir sína hönd ef allir stjórnarmenn samþykkja.
    Stjórnin úthlutar fé úr Listasjóði, en sérstakar úthlutunarnefndir fyrir hvern hinna sérgreindu sjóða veita fé úr þeim, sbr. 12. gr.

4. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Starfslaun miðast við lektorslaun II við Háskóla Íslands eins og þau eru á hverjum tíma. Þau sem taka starfslaun skulu vera á skrá hjá stjórn listamannalauna og fá greidd starfslaun mánaðarlega að viðbættu 6% álagi. Þau skulu eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Þau skulu ekki gegna föstu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur. Starfslaunaþegar skulu skila skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Stjórn listamannalauna má fella niður starfslaun sem veitt eru til lengri tíma en sex mánaða ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni.

5. gr.


    5. gr. laganna orðast svo:
    Samanlögð starfslaun miðast við 1.200 mánaðarlaun eða 100 árslaun.

6. gr.


    6. gr. laganna orðast svo:
    Launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 480 mánaðarlauna. Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita. Heimilt er og að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku.
    Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Rithöfundasambands Íslands, úthlutar fé úr Launasjóði rithöfunda. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

7. gr.


    7. gr. laganna orðast svo:
    Launasjóður myndlistarmanna veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 320 mánaðarlauna.
    Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Sambands íslenskra myndlistarmanna, úthlutar fé úr Launasjóði myndlistarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

8. gr.


    8. gr. laganna orðast svo:
    Tónskáldasjóður veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 100 mánaðarlauna.
    Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Tónskáldafélags Íslands, úthlutar fé úr Tónskáldasjóði. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

9. gr.


    9. gr. laganna orðast svo:
    Listasjóður veitir starfslaun og styrki er svara til 300 mánaðarlauna og skal allt að þriðjungi þeirra varið til stuðnings leikhópum svo sem mælt er fyrir um í ákvæðum leiklistarlaga, enda verði því framlagi Listasjóðs einvörðungu varið til greiðslu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna.
    Listasjóður veitir einnig sérstök framlög til listamanna sem notið höfðu listamannalauna nokkur ár fyrir 31. desember 1991 og höfðu þá náð 60 ára aldri.     
    Við úthlutun úr Listasjóði skulu þær umsóknir njóta forgangs sem lúta að viðfangsefnum er ekki falla undir verksvið annarra sjóða, sbr. 2. gr.
    Ákvörðun stjórnar Listasjóðs um úthlutun er endanleg og verður ekki áfrýjað.

10. gr.


    10. gr. laganna orðast svo:
    Starfslaun skulu veitt til hálfs eða eins árs, til tveggja ára eða þriggja. Stjórn Listamannalauna og úthlutunarnefndum er þó heimilt að úthluta starfslaunum til skemmri tíma en hálfs árs, þó aldrei skemur en til þriggja mánaða. Sú upphæð, sem varið er til þessa, sem og til náms- og ferðastyrkja, skal ekki vera hærri en sem nemur 10% þeirra mánaðarlauna sem hver sjóður hefur til úthlutunar árlega. Miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna hvers sjóðs samkvæmt lögum þessum verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í meira en eitt ár.

11. gr.


    12. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara, m.a. um skilgreiningu á því hvað teljist fast starf, sbr. 4. gr., og um tilhögun tilnefninga af hálfu tilnefningaraðila í úthlutunarnefndir, sbr. 6.–8. gr. Þá skal enn fremur setja nánari ákvæði í reglugerð um skilmála fyrir veitingu starfslauna, þar með talið um endurgreiðslu þeirra ef gegn þeim skilmálum er brotið.
    Við framkvæmd þessarar greinar skal haft samráð við Rithöfundasamband Íslands, Samband íslenskra myndlistarmanna, Tónskáldafélag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna eftir því sem við á hverju sinni.

12. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 31. desember 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er að meginhluta samið af stjórn listamannalauna í samráði við úthlutunarnefndir annarra sjóða samkvæmt lögum nr. 35/1991 með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laganna. Jafnframt var rætt við fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna, Félags íslenskra leikara, Hagþenkis, Félags íslenskra tónlistarmanna, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Rithöfundasambands Íslands, Sambands íslenskra myndlistarmanna og Félags íslenskra leikstjóra. Í frumvarpinu eru lagðar til fáeinar breytingar á lögum um listamannalaun, í þeim tilgangi að sníða af þá vankanta á lögunum sem stjórnin telur að þörf sé á að lagfæra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að kveðið verði með skýrari hætti á um markmið laganna.

Um 2. gr.


    Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða heldur er orðalagi breytt þannig að orðið „starfslaun“ kemur í stað „almenn listamannalaun“ í samræmi við anda laga þessara.
    Þá er kveðið á um að Listasjóður skuli einkum sinna þeim listgreinum sem ekki falla undir hina sérgreindu sjóði, svo sem verið hefur í raun.

Um 3. gr.


    Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á 3. gr. núgildandi laga, eru annars vegar að skýrt sé kveðið á um heimild stjórnar sjóðsins til að fela öðrum aðila að annast vörslu sjóðanna og sjá um bókhald þeirra fyrir sína hönd ef það þykir hagkvæmt af einhverjum ástæðum, hins vegar að varamenn skuli skipaðir, sbr. 32. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 4. gr.


    Á undanförnum árum hefur reynslan verið sú að starfslaun listamanna hafa verið greidd þeim sem verktökum en ekki sem launþegum, enda samrýmist það betur því markmiði að veita listamönnum starfslaun til tiltekinna verkefna.
    Orðalagi greinarinnar er breytt til þess að taka af vafa um að starfslaunaþegar teljist ekki launþegar í almennum skilningi, enda eru þeir sjálfráðir um störf sín meðan á starfslaunatímanum stendur og lúta ekki verkstjórn eða vinnuskipulagningu annars aðila en sjálfs sín. Starfslaun samkvæmt lögum þessum eru því ekki laun í þeim skilningi að um sé að ræða vinnusamning heldur er tilteknum listamönnum greidd þóknun með sérstökum skilyrðum til þess að standa straum af kostnaði við störf að list sinni. Nær undantekningarlaust hafa listamenn einhvern kostnað af listsköpun sinni á móti þessari þóknun. Álagið, 6%, sem bætast á við lektorslaun II er ígildi þess iðgjalds sem launagreiðendur almennt greiða í lífeyrissjóð. Veiting starfslauna felur ekki í sér rétt til handa starfslaunaþega að teljast opinber starfsmaður í skilningi t.d. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, með síðari breytingum. Hvað varðar skilgreiningu á hvað teljist fast starf í skilningi þessara laga er tekið fram að litið hefur verið svo á að listamönnum, sem njóta starfslauna, sé heimilt að gegna hálfu starfi í allt að 12 mánuði meðan á starfslaunatímanum stendur. Nánari skilgreiningu á því hvað teljist fast starf skal setja í reglugerð, sbr. 11. gr. frumvarpsins.
    Hvað varðar niðurlag greinarinnar er ljóst að erfitt kann að vera í framkvæmd að framfylgja eftirliti með því hvort listamenn sinni list sinni. Ekki þótti þó ástæða til þess að fella ákvæði þetta niður, enda þótt ekki hafi reynt á það í framkvæmd, þar sem heppilegt kann að reynast að hafa varnagla af þessu tagi.

Um 5. gr.


    Eðlilegt þykir að uppfæra ákvæði núgildandi 5. gr. laga um listamannalaun í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á fjölda mánaðarlauna og árslauna frá gildistöku laganna.

Um 6.–8. gr.


    Vísað er til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins auk þess sem tekið er sérstaklega fram með hliðsjón af 32. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að skipa skuli varamenn með sama hætti og aðalmenn. Þá er með hliðsjón af 2. mgr. 2. gr. núgildandi laga áréttað að Tónskáldsjóður, Launasjóður rithöfunda og Launasjóður myndlistarmanna skuli veita náms- og ferðastyrki auk starfslauna.

Um 9. gr.


    Sú orðalagsbreyting, sem gerð er á niðurlagi 9. gr., byggist á þeirri reynslu, sem fengist hefur af úthlutun starfslauna, að óeðlilegt sé að binda helming úthlutunarfjár við einn hóp án tillits til þess hversu margir sækja um. Hefur það sýnt sig miðað við innbyrðis skiptingu á fjölda umsókna að þessi skipting skerðir óeðlilega hlut annarra listgreina. Engu að síður er hér lagt til að leikhúslist verði sérstakur gaumur gefinn við úthlutun starfslauna. Leikhúslistgreinar hafa nokkra sérstöðu miðað við aðrar listgreinar, einkum með tilliti til þess að yfirleitt er um að ræða viðfangsefni sem unnin eru af fleiri en einum listamanni. Með hliðsjón af því að á grundvelli leiklistarlaga starfar sérstakt leiklistarráð, sem skipað er fulltrúum leiklistarinnar í landinu og hefur því hlutverki að gegna að fjalla um styrkumsóknir leikhópa til uppfærslu leiksýninga, er hér lagt til að um veitingu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna vegna þátttöku í uppfærslu leiksýninga á vegum leikhópa verði fjallað af leiklistarráði og allt að þriðjungi fjárveitingar Listasjóðs varið til þess. Þessi skipan mála er nýmæli. Ef um er að ræða umsóknir einstakra leikhúslistamanna um starfslaun, sem ekki tengjast uppfærslu leiksýninga, geta þeir eftir sem áður komið til greina við úthlutun úr Listasjóði.
    Jafnframt þykir eðlilegt að taka sérstaklega fram í lögunum að ákvörðun stjórnar listasjóðs um úthlutun starfslauna sé endanleg og verði ekki áfrýjað með sama hætti og gert er í 6.–8. gr. núgildandi laga um úthlutanir einstakra úthlutunarnefnda.

Um 10. gr.


    Í ákvæði þessu er gert ráð fyrir breytingu á lengd starfslaunatímans þannig að framvegis verði ekki um það að ræða að veita starfslaun í fimm ár. Hins vegar verði heimilað að veita starfslaun í tvö ár og er það nýjung.
    Með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af úthlutun starfslauna frá því að lög um listamannalaun, nr. 35/1991, tóku gildi hefur stjórn listamannalauna tekið mið af sjónarmiðum Rithöfundasambands Íslands um að rétt sé að hafa heimild til þess að veita starfslaun úr Launasjóði rithöfunda til skemmri tíma en nú er kveðið á um. Hér er lagt til að slíka heimild sé að finna við úthlutun úr öllum þeim sjóðum sem þessi lög fjalla um, þó þannig að starfslaun til skemmri tíma en sex mánaða auk náms- og ferðastyrkja nemi aldrei hærri hluta af heildarfjárveitingu hvers sjóðs en 10%. Tekið skal fram að hér er um heimild að ræða en ekki skyldu.

Um 11. gr.


    Hér er ekki lögð til efnisleg breyting á reglugerðarheimild núverandi 12. gr. laganna, en til þess að tryggja rétta stjórnsýsluframkvæmd þykir nauðsynlegt að heimild ráðherra í samráði við viðkomandi félög til þess að setja reglur um tilhögun tilnefninga í úthlutunarnefndir sé ótvíræð, auk nánari skilgreininga þar sem þeirra er þörf.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum


um listamannalaun, nr. 35/1991.


    Í frumvarpinu er lagt til að skýrar verði kveðið á um tilgang með starfslaunum listamanna, hlutverk Listasjóðs og heimild sjóðstjórnar til að fella niður starfslaun komi í ljós að viðkomandi listamaður sinnir ekki list sinni en í gildandi lögum. Einnig er lagt til að lagaákvæðum verði breytt til samræmis við þá framkvæmd sem hefur gilt frá upphafi varðandi skrifstofustörf og réttarstöðu styrkþega. Menntamálaráðuneytið hefur veitt sjóðstjórninni skrifstofuaðstoð og Ríkisbókhald fært bókhald og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Þá hafa styrkþegar fengið greitt sem verktakar með 6% álagi á viðmiðunartaxta eins og lagt er til í frumvarpinu, en ekki sem launþegar eins og segir í gildandi lögum. Ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.