Ferill 64. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 64 . mál.


197. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um félagslegar íbúðir.

    Hvernig skiptast félagslegar íbúðir eftir kjördæmum?
    Á skrá hjá félagsíbúðadeild Húsnæðisstofnunar eru 10.195 íbúðir. Skipting þeirra eftir kjördæmum er eftirfarandi:

Kjördæmi

Íbúðir

Hlutfall



Reykjavík     
4.649
47%
Reykjanes     
2.030
20%
Vesturland     
355
3%
Vestfirðir     
516
5%
Norðurland vestra     
458
4%
Norðurland eystra     
1.199
12%
Austurland     
534
5%
Suðurland     
454
4%
Samtals     
10.195
100%


    Hvert er hlutfall félagslegra íbúða sem standa auðar,
         
    
    í heild á landinu öllu,
         
    
    skipt eftir kjördæmum?
        Hver er ástæða þess að ekki er hægt að selja þær eða leigja?

    Í athugun Húsnæðisstofnunar, sem gerð var í þessum mánuði, var spurst fyrir um auðar íbúðir í viðkomandi sveitarfélagi. Alls bárust svör frá 56 sveitarfélögum. Kom í ljós að í landinu öllu voru samtals 116 félagslegar íbúðir auðar lengur en tvo mánuði, 79 íbúðir lengur en sex mánuði og 32 íbúðir auðar lengur en eitt ár.
    Ef miðað er við auðar íbúðir lengur en tvo mánuði er hlutfall félagslegra íbúða sem standa auðar í landinu öllu 1,14%, ef miðað er við sex mánuði er hlutfallið 0,77% og ef miðað er við íbúðir sem standa auðar lengur en eitt ár er hlutfallið 0,31%.
    Skipting auðra íbúða eftir kjördæmum og hlutfall þeirra af fjölda félagslegra íbúða í viðkomandi kjördæmi er eftirfarandi samkvæmt fyrrnefndri athugun:

Íbúðir auðar

Íbúðir auðar

Íbúðir auðar


lengur en í

lengur en í

lengur en í


Kjördæmi

tvo mánuði

Hlutfall

sex mánuði

Hlutfall

eitt ár

Hlutfall



Reykjavík     
15
0 ,32% 8 0 ,17% 0 0 ,00%
Reykjanes     
6
0 ,30% 3 0 ,15% 0 0 ,00%
Vesturland     
4
1 ,13% 2 0 ,56% 2 0 ,56%
Vestfirðir     
56
10 ,85% 44 8 ,53% 20 3 ,88%
Norðurland vestra     
5
1 ,09% 2 0 ,44% 0 0 ,00%
Norðurland eystra     
7
0 ,58% 3 0 ,25% 0 0 ,00%
Austurland     
8
1 ,50% 6 1 ,12% 2 0 ,37%
Suðurland     
15
3 ,30% 11 2 ,42% 8 1 ,76%


    Rétt er að geta þess að sveitarfélög hafa gripið til þess ráðs að leigja félagslegar eignaríbúðir ef ekki hefur tekist að selja þær. Má sem dæmi nefna að á Akranesi eru 30 íbúðir leigðar út af samtals 115 félagslegum eignaríbúðum.
    Vandi sveitarfélaga vegna erfiðleika við sölu á félagslegum íbúðum verður því ekki metinn út frá tölum um auðar félagslegar íbúðir. Til að gera sér grein fyrir þeim vanda þarf að afla upplýsinga um heildarfjölda íbúða í eigu sveitarfélaga og fjölda íbúða sem sveitarfélög eru að leysa til sín og fyrirsjáanlegt er að ekki muni seljast. Þann fjölda þarf síðan að bera saman við fjölda eiginlegra leiguíbúða í eigu sveitarfélaga.
    Fjárhagslegur vandi sveitarfélaga vegna félagslegra íbúða er mismunur skulda vegna eiginlegra leiguíbúða í eigu sveitarfélaga og heildarskulda sveitarfélaga vegna félagslegra íbúða. Lauslegt mat bendir til þess að hér sé um að ræða 2 til 3 milljarða kr. Dæmi eru um lítil sveitarfélög sem skulda orðið nokkur hundruð milljónir króna vegna félagslegra íbúða.
    Ekki virðist vera erfiðleikum bundið að selja félagslegar íbúðir í Reykjavík og næsta nágrenni, enda er almennt markaðsverð á íbúðum hæst á þessu landsvæði. Hins vegar gætir þessa vanda í svo til öllum öðrum landshlutum og stafar það að mestu af því hversu dýrar félagslegar íbúðir eru í samanburði við íbúðir á almennum markaði á þeim stöðum.

    Hefur fjöldi félagslegra íbúða í einstökum sveitarfélögum haft áhrif á markaðsverð íbúða á almennum markaði?
    Nefnd, sem skipuð var til að kanna stöðu húsnæðismála á landsbyggðinni, skilaði skýrslu til félagsmálaráðherra í júní sl. Nefndin gerði athugun á því hvort finna mætti tengsl milli umfangs félagslegra íbúða og markaðsverðs á landsbyggðinni. Samkvæmt athugun nefndarinnar virðist fjöldi félagslegra íbúða í einstökum sveitarfélögum ekki hafa áhrif á markaðsverð íbúða. Stærð sveitarfélagsins og þar með fasteignamarkaðar hefur hins vegar áhrif ásamt fjarlægð frá Reykjavík. Verðmyndun á fasteignamarkaði er háð mörgum þáttum sem tengjast saman á mismunandi hátt. Staðsetning og atvinnuástand er lykilatriði.

    Hverjar eru helstu ástæður greiðsluerfiðleika fólks í félagslega íbúðakerfinu og hvernig skiptist þessi hópur eftir kjördæmum, tekjum og félagslegri stöðu?
    Íbúðareigendur í félagslega íbúðakerfinu geta sótt um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Stofnunin hefur heimild til að skuldbreyta vanskilum til allt að 15 ára og/eða fresta greiðslum lána í allt að þrjú ár (lánstíminn lengist ekki). Stofnunin hefur haft þessar heimildir frá því í október 1993. Það sem vegur þyngst í greiðslubyrði hjá umsækjendum um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika eru bankalán og önnur skammtímalán sem algengt er að stofnað sé til eftir kaup á félagslegri eignaríbúð.
    Meðalskuldir umsækjenda í félagslegum eignaríbúðum sem sótt hafa um aðstoð hjá Húsnæðisstofnun:
Hjón:
    Heildarskuldir um 9.200.000 kr.
    Byggingarsjóður verkamanna um 7.500.000 kr., um 82% af heildarskuldum.
    Skammtímalán um 1.700.000 kr., um 18% af heildarskuldum.
Einstætt foreldri:
    Heildarskuldir um 6.960.000 kr.
    Byggingarsjóður verkamanna um 5.960.000 kr., um 86% af heildarskuldum.
    Skammtímaskuldir um 1.000.000 kr., um 14% af heildarskuldum.
    Ástæðum greiðsluerfiðleika umsækjenda er skipt í eftirfarandi fjóra meginflokka og skiptast umsóknir þannig:
    Atvinnuleysi     
27%

    Tekjulækkun     
28%

    Veikindi     
17%

    Önnur óvænt atvik     
28%

    Skipting umsókna um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika eftir kjördæmum:

Kjördæmi

Umsóknir

Hlutfall



Reykjavík     
302
54%     
Reykjanes     
168
30%
Vesturland     
6
1%
Vestfirðir     
14
2%
Norðurland vestra     
11
2%
Norðurland eystra     
37
7%
Austurland     
12
2%
Suðurland     
12
2%
Samtals     
562
100%

    Skipting umsókna um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika eftir félagslegri stöðu þar sem umsækjandi á félagslega eignaríbúð:
    Hjón/sambýlisfólk     
52
,6%
    Einstæðir foreldrar     
38
,0%
    Einhleypir     
9
,4%
    Laun umsækjenda er sótt hafa um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og eiga félagslega eignaríbúð:

Hjón/sambýlisfólk,

Einstæðir foreldrar,

Einhleypir,


Ár

þús. kr.

þús. kr.

þús. kr.



1993     
169
107 85
1994     
171
98 96
sl. þrjá mánuði     
177
102 82

    Í útreikningi launa umsækjenda er um að ræða heildarlaun samkvæmt launaseðlum sl. þriggja mánaða, barnameðlög, mæðralaun og aðrar bætur frá tryggingakerfinu.
    Þegar umsókn er lögð inn um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika þurfa umsækjendur að leggja inn skattskýrslur sl. tveggja ára og launaseðla sl. þriggja mánaða. Er þetta gert til að sjá hvort breytingar hafa orðið á tekjum og eignastöðu.
    Eftirtektarvert er að í áfangaskýrslu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem út kom í október 1996 er vakin sérstök athygli á að nærri fjórði hver umsækjandi hjá Ráðgjafarstofunni býr í félagslegri eignaríbúð.

    Hvaða áhrif hefur mikill niðurskurður ríkisframlaga á þessu og næsta ári á stöðu Byggingarsjóðs verkamanna?
    Í stjórnsýsluendurskoðun á Húsnæðisstofnun ríkisins, sem gerð var af Ríkisendurskoðun í október 1996, kemur fram að eiginfjárstaða Byggingarsjóðs verkamanna hélst nokkurn veginn í horfinu fram á árið 1994. Í fjárlögum fyrir árið 1995 voru hins vegar einungis veittar 608 millj. kr. til sjóðsins. Jafnframt varð þá ljóst að fyrri forsendur um endurskoðun vaxta, lækkun meðallána, sparnað í rekstri o.fl. stóðust ekki nema að hluta. Ákvarðanir, sem teknar voru við afgreiðslu fjárlaga í desember 1994, leiddu þannig til þess að eiginfjárstaða sjóðsins tók að veikjast verulega. Þessi þróun hefur síðan haldið áfram.
    Að mati Ríkisendurskoðunar er brýnt að stjórnvöld grípi tafarlaust til aðgerða til lausnar yfirvofandi fjárhagsvanda sjóðsins. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar varðandi stöðu Byggingarsjóðs verkamanna eru nú til athugunar í félagsmálaráðuneytinu, ásamt öðrum athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi rekstur Húsnæðisstofnunar ríkisins á undanförnum árum.
    Framlög ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna í fjárlögum miðast við að viðhalda eiginfjárstöðu sjóðsins í ljósi áforma um ný útlán og aðhaldsaðgerðir. Í fjárlögum 1996 er framlag ríkisins til sjóðsins 400 millj. kr. og miðuðust lánsheimildir við 230 nýjar íbúðir, en úthlutað var til 250 nýrra íbúða. Í fjárlagafrumvarpi 1997 er framlag til Byggingarsjóðs verkamanna 300 millj. kr. og miðast lánsheimildir við 180 nýjar íbúðir.
    Að mati fjármálaráðuneytis hefur eiginfjárstaða Byggingarsjóðs verkamanna styrkst um allt að 1 milljarð kr. frá árinu 1991, en þá var gerð úttekt á fjárhagsstöðu sjóðsins.
Neðanmálsgrein: 1
Umsóknir þar sem skuldbreyting hefur verið samþykkt, afgreiddar á tímabilinu janúar–september 1996.
Neðanmálsgrein: 2
Umsóknir afgreiddar á tímabilinu janúar–júní 1996.
Neðanmálsgrein: 3
Meðaltalstölur afgreiddra umsókna á tímabilinu janúar–júní 1996.