Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 29 . mál.


256. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (barnaklám).

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein A. Jónsson, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Ágúst Þór Árnason frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Kristínu Jónasdóttur frá Barnaheillum og Þórhildi Líndal, umboðsmann barna. Þá hafa nefndinni borist erindi frá Lögmannafélagi Íslands, umboðsmanni barna, Barnaheillum og Mannréttindaskrifstofu Íslands, auk þess sem stuðst var við umsagnir frá 120. löggjafarþingi.
    Í frumvarpinu felst að varsla barnakláms er gerð refsiverð. Með því er jafnframt mótuð afstaða gegn hvers konar kynferðislegri misnotkun á börnum. Í texta frumvarpsins er talað um börn án þess að aldur þeirra sé tilgreindur. Nokkur umræða varð í nefndinni um aldursmörkin, bæði hvort setja ætti slík mörk inn í texta frumvarpsins og hvort miða ætti við 16 eða 18 ára aldur. Niðurstaðan varð að eðlilegast væri að miða við 16 ára aldur sem er sjálfræðissaldur. Í athugasemdum með frumvarpinu er miðað við lög um vernd barna og ungmenna, en þar er skilgreining á börnum miðuð við 16 ár. Nefndin vekur athygli á ábendingu frá Barnaheillum um mikilvægi þess að lagasetningu þessari verði fylgt eftir með stuðningi og fræðslu við löggæslumenn og dómstóla og að lögð sé áhersla á alþjóðlega samvinnu um þessi efni.
    Nefndin leggur til að gerð verði sú breyting á 1. gr. frumvarpsins að það varði refsingu að sýna börn nota hluti á klámfenginn hátt en slíkt verði ekki bundið við grófan klámfenginn hátt. Þá leggur nefndin til að gerð verði breyting á gildistöku laganna þannig að þau öðlist gildi 1. janúar 1997 í stað 1. júlí sama ár. Telur nefndin að það sé nægilegur frestur.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGUM:


         
    
    Orðið „grófan“ í síðari málslið 1. gr. falli brott.
         
    
    Í stað orðanna „1. júlí“ í 2. gr. komi: 1. janúar.

Alþingi, 3. des. 1996.Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir.


form., frsm.Kristján Pálsson.

Ögmundur Jónasson.

Einar Oddur Kristjánsson.Guðný Guðbjörnsdóttir.

Ólafur Örn Haraldsson.
Prentað upp.