Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 229 . mál.


309. Fyrirspurn



til viðskiptaráðherra um starfskjör og lífeyrisréttindi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



    Hver hafa verið laun og önnur starfskjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands á ári hverju síðustu sjö ár (1990–96), sundurliðað eftir föstum launum, öðrum greiðslum og hvers konar þóknunum og hlunnindum, svo sem ferðakostnaði, risnu og bílahlunnindum? Hversu stór hluti starfskjaranna á ári hverju á þessu tímabili er í formi þóknana fyrir setu á bankaráðsfundum og í stjórnum sjóða og fyrirtækja eða frá dóttur- og hlutdeildarfyrirtækjum bankanna?
    Við hvað hafa launakjör og önnur starfskjör þeirra verið miðuð og hvernig hafa þau breyst á þessum tíma?
    Hver eru lífeyrisréttindi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands, sundurliðað eftir bönkum og stöðum?
    Hverjar hafa verið árlegar lífeyrisgreiðslur til þeirra sem komnir eru á eftirlaun að meðaltali síðustu sjö ár og hverjar eru hæstu lífeyrisgreiðslurnar, sundurliðað eftir bönkum og stöðum? Hve margir njóta nú þessara lífeyrisgreiðslna og hvað kosta þær árlega, sundurliðað eftir bönkum?
    Hve margir núverandi og fyrrverandi bankastjórar og aðstoðarbankastjórar ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands njóta einnig lífeyrisgreiðslna úr öðrum lífeyrissjóðum og þá hve mörgum? Hversu háar hafa heildargreiðslur úr lífeyriskerfinu verið til þeirra á ári hverju síðustu sjö ár, sundurliðað eftir bönkum og stöðum?
    Hverjar eru heildarskuldbindingar bankakerfisins vegna lífeyrisréttinda þessara aðila á komandi árum?
    Eru áform uppi um endurskoðun og breytingar á starfskjörum og lífeyrisréttindum bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands eins og fyrrverandi viðskiptaráðherra lagði til á árinu 1994?


Skriflegt svar óskast.