Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 151 . mál.


376. Nefndarálitum frv. til l. um póstþjónustu.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneyti. Þá komu til fundar frá Samkeppnisstofnun Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs, og Ásgeir Einarsson lögfræðingur, Guðmundur Björnsson aðstoðarpóst- og símamálastjóri, Pétur Reimarsson, formaður undirbúningsnefndar um stofnun Pósts og síma hf., Jónas Fr. Jónsson aðstoðarframkvæmdastjóri og Birgir Ármannsson lögfræðingur frá Verslunarráði, Jón Jarl Þormóðsson, Eggert Þormóðsson og Hjörtur Bragi Sverrisson frá Póstdreifingu ehf. og Helgi Jónsson og Maríus Ólafsson frá Interneti á Íslandi hf. Nefndinni bárust umsagnir frá Póstdreifingu ehf. og Verslunarráði.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til sú breyting á 6. gr. að miðað verði við að einkaréttur ríkisins til póstmeðferðar verði skilgreindur áfram með sama hætti og gert er í gildandi lögum. Breytingin er lögð til vegna framkominna athugasemda og í ljósi þess að skilgreining frumvarpsins getur falið í sér aukinn rétt ríkisins í þessum efnum. Þá er rétt að taka fram að miðað er við að skilgreining á einkarétti taki síðar mið af skilgreiningu EES-löggjafar á einkarétti á sviði póstþjónustu. Slíkar reglur hafa hins vegar ekki enn verið settar formlega.
    Þá er lögð til breyting á 13. gr. til samræmis við ákvæði frumvarps til laga um fjarskipti og við það miðað að skilyrði fyrir veitingu rekstrarleyfis geti verið önnur en þau sem talin eru upp í ákvæðinu. Með þessu er t.d. leitast við koma í veg fyrir að það skilyrði að bera verði út póst á ákveðnum svæðum með ákveðnu millibili, t.d. fimm sinnum í viku, verði ófrávíkjanleg skylda.

Alþingi, 16. des. 1996.Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.Kristján Pálsson.

Stefán Guðmundsson.

Árni Johnsen.