Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 243 . mál.


378. Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á hávaða- og hljóðmengun.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Lúðvík Bergvinsson,


Kristín Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ragnar Arnalds.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram víðtæka úttekt á hávaða- og hljóðmengun hérlendis og leggja fyrir næsta þing niðurstöður hennar og tillögur til úrbóta.

Greinargerð.


    Hávaði og hljóðmengun af margvíslegu tagi fer vaxandi ár frá ári. Þar er ekki aðeins um að ræða hávaða frá umferð og atvinnurekstri heldur einnig tónlist og talað orð úr hátölurum á almannafæri, í almenningsfarartækjum, verslunum, veitinga- og samkomuhúsum, líkamsræktarstöðvum og á útivistarsvæðum ætluðum almenningi. Hljóðmengun yfir ákveðnum mörkum getur verið heilsuspillandi, valdið skemmdum á heyrn auk truflunar og margvíslegra sálrænna áhrifa sem valdið geta andlegri vanlíðan. Því er brýnt að af opinberri hálfu sé unnið skipulega gegn óþörfum og truflandi hávaða til verndar heilsu manna og til að tryggja rétt einstaklingsins til ómengaðs umhverfis. Hávaði frá tólum og tækjum er röskun sem halda ber í lágmarki og enginn á að þurfa að þola síbylju úr hátölurum í formi talaðs orðs eða hljómflutnings sem hann kærir sig ekki um. Þar sem margir koma saman á réttur minni hluta gagnvart hljóðmengun að vera jafn ríkur og meiri hluta, jafnt á vinnustað sem á almannafæri.
    Undanfarið ár hafa orðið miklar umræður um hávaðamengun frá umferð. Talið er að allt að 1.700 íbúðir í Reykjavík séu þannig staðsettar að hávaði við húsvegg sé óleyfilegur og dæmi eru um svo mikinn hávaða í íbúðarhúsnæði að heilu fjölskyldurnar sofa ekki á nóttunni nema með því að taka sterkar svefntöflur.
    Yfirvöld eru nú orðin mun meðvitaðri en áður um skaðsemi hljóðmengunar og má í því sambandi nefna að 16. júlí sl. samþykkti borgarráð að veita aukið fé til embættis borgarverkfræðings til að flýta gerð tillagna um hvernig megi bregðast við umferðarhávaða í ýmsum hverfum Reykjavíkur.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hollustuvernd ríkisins hefur aldrei verið gerð heildarúttekt á hávaða á Íslandi, en talið er víst að hérlendis búi margir við hávaða sem er langt yfir settum viðmiðunarmörkum. Telja verður mjög brýnt að gerð verði úttekt á hávaða þannig að unnt sé að leggja grunn að úrbótum. Þar við bætist þörfin á að settar verði reglur til að vernda fólk fyrir hávaða á almannafæri, en í því skyni getur einnig verið þörf á könnun á ríkjandi aðstæðum.
    Um hávaðamengun hefur áður verið fjallað og ályktað á Alþingi. Á 110. löggjafarþingi var samþykkt svohljóðandi þingsályktunartillaga sem flutt var af Ragnari Arnalds og fleiri þingmönnum: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta semja frumvarp til laga um varnir gegn hávaða- og hljóðmengun.“ Í greinargerð með tillögunni var vitnað til blaðagreinar sem Steingrímur G. Kristjánsson ritaði í Morgunblaðið 24. september 1987.
    Þann 30. apríl 1992 svaraði forsætisráðherra fyrirspurn á Alþingi um hvað liði samningu frumvarps um þetta efni. Í svarinu kom fram að ekki væri talin þörf á nýrri löggjöf á þessu sviði. Í því sambandi vísaði ráðherra til laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og mengunarvarnareglugerðar, nr. 386/1989, með síðari breytingum, sem og heilbrigðisreglugerðar, nr. 149/1990, með síðari breytingum.
    Samkvæmt þessu hefur það verið mat framkvæmdarvaldsins að ekki skorti lagaheimildir til að bregðast við hávaða- og hljóðmengun. Það breytir ekki þeirri staðreynd að í íslenskum rétti er ekki að finna um þetta efni heildarlöggjöf sem kann að vera æskileg til að tryggja betur en nú er réttarstöðu manna gagnvart hávaða- og hljóðmengun og auðvelda um leið framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit.
    Flutningsmenn hafa látið kanna hvar er að finna helstu laga- og reglugerðarákvæði um hávaðamengun (sjá fylgiskjal).
    Á þessu stigi er brýnast að aflað verði glöggra upplýsinga um ástand þessara mála hér á landi til að undirbúa aðgerðir og réttarbætur til að verjast óæskilegri og sívaxandi hávaða- og hljóðmengun á almannafæri.



Fylgiskjal.


Helstu reglur sem gilda um hávaðamengun samkvæmt íslenskum rétti.


    Í lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, er að finna skilgreiningu á mengun. Þar kemur fram að til mengunar teljast m.a. óþægindi vegna hvers konar hávaða. Þá kemur einnig fram í lögunum að í heilbrigðisreglugerð skuli vera almenn ákvæði um hávaða, m.a. frá hvers konar starfsemi og farartækjum. Í lögunum eru einnig fyrirmæli um að setja skuli í mengunarvarnareglugerð ákvæði um hávaða og titring þar sem fram komi viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða með hliðsjón af umhverfinu.
    Í 7. kafla mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. reglugerð nr. 378/1994, er að finna ákvæði um varnir gegn hávaðamengun. Þar kemur fram að mengun af völdum hávaða skal vera undir ákveðnum viðmiðunarmörkum sem koma fram í 5. viðauka með reglugerðinni og að enn fremur skuli leitast við að uppfylla þau leiðbeiningarmörk sem fram koma í viðaukanum.
    Þá kemur fram í reglugerðinni að forráðamönnum fyrirtækja og stofnana er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir óþægindi af völdum hávaða. Einnig ber eigendum vélknúinna ökutækja að sjá svo um að farartæki þeirra valdi ekki óþarfahávaða. Loks kemur fram að við allar framkvæmdir, svo sem byggingar, gröft og gatnagerð, skuli þess sérstaklega gætt að ekki verði óþægindi af völdum hávaða. Ef sérstakar óviðráðanlegar aðstæður eru fyrir hendi er mögulegt að fá leyfi fyrir því að hávaði sé yfir viðmiðunarmörkum.
    Eins og áður segir koma viðmiðunarmörk fyrir hámarkshávaða fram í 5. viðauka mengunarvarnareglugerðarinnar, en þar er að finna reglur um hávaða utan húss. Var viðaukanum breytt með reglugerð nr. 378/1994. Í þessum reglum koma fram viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi fyrir hljóðstig í og við íbúðarhúsnæði, kennslu- og sjúkrastofur, hljóðstig frá fyrirtækjum og annarri starfsemi og hljóðstig frá umferð. Við nýskipulag hverfa skal taka mið af þessum viðmiðunargildum, en ef um er að ræða svæði þar sem skipulag eða starfsemi er fyrir má veita undanþágur varðandi umferðarhávaða. Ef upp koma tilvik sem reglurnar ná ekki yfir skal velja viðurkennda hávaðareglu sem stuðst er við í slíkum tilvikum á einhverju Norðurlandanna.
    Í 22. kafla heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 er að finna ákvæði um hávaða og titring. Þar kemur fram að forráðamönnum stofnana og fyrirtækja er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr eða koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða eða hávaða sem veldur óþægindum. Einnig kemur fram í sömu reglugerð að unnt er að krefjast sérstaks búnaðar á veitinga- og samkomuhúsum til að fyrirbyggja að gestir verði fyrir óþægindum eða heyrnarskaða af völdum hávaða.
    Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, er að finna ákvæði er stuðla eiga að öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi, m.a. er í lögunum mælt fyrir um setningu frekari reglna um varnir gegn hávaða á vinnustöðum. Frekari fyrirmæli um hávaðavarnir er að finna í ýmsum reglugerðum. Má þar nefna reglur nr. 500/1994, um hávaðavarnir á vinnustöðum og heyrnareftirlit starfsmanna, en þeim reglum er ætlað að koma í veg fyrir heyrnarskemmdir og skaðleg áhrif af völdum hávaða.
    Í 35. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, kemur fram að ökumaður vélknúins ökutækis skuli haga meðferð þess og akstri þannig að frá því stafi ekki hávaði að óþörfu.
    Þá er einnig að finna ákvæði í flestum lögreglusamþykktum sem banna hvers konar hávaða á almannafæri, sem líklegur er til að valda ónæði eða truflun.