Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 247 . mál.


403. Beiðni um skýrslu



frá samgönguráðherra um starfsemi Póst- og símamálastofnunar og formbreytingar sem verða á stofnuninni um áramótin 1996–97 þegar hún verður gerð að hlutafélagi í eigu ríkisins.

Frá Guðmundi Árna Stefánssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur, Gísla S. Einarssyni,


Jóni Baldvini Hannibalssyni, Lúðvík Bergvinssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur,


Sighvati Björgvinssyni, Össuri Skarphéðinssyni, Ágústi Einarssyni,


Jóhönnu Sigurðardóttur og Svanfríði Jónasdóttur.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að samgönguráðherra flytji Alþingi skýrslu um starfsemi Póst- og símamálastofnunar og formbreytingar sem verða á stofnuninni um áramótin 1996–97.
    Í skýrslunni verði m.a. gerð ítarleg grein fyrir eftirtöldum atriðum:
    Hefur öllum starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar verið boðið starf hjá Pósti og síma hf.? Ef ekki, hvers vegna og hversu margir fengu ekki slíkt tilboð? Hafa verið gerðir starfslokasamningar við marga starfsmenn Póst- og símamálastofnunar? Ef svo er, hafa þá einhverjir þessara starfslokasamninga falið í sér ákvæði þess efnis að viðkomandi væri óheimilt að starfa hjá hugsanlegum samkeppnisaðila í ákveðinn tíma? Hversu margir slíkir starfslokasamningar hafa verið gerðir, við hverja, hvers vegna og hvert var innihald þessara samninga? Hversu margir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar hafa undirritað ráðningarsamninga við Póst og síma hf.? Hafa orðið einhverjar breytingar á högum þeirra og kjörum við undirritun nýrra ráðningarsamninga eða verða þær breytingar um næstu áramót? Ef svo er, hverjar helstar? Hefur ráðning nýrra yfirmanna í stað annarra sem hætt hafa á síðustu vikum og mánuðum leitt til breytinga á launakjörum hjá yfirmönnum fyrirtækisins? Ef svo er, hvaða breytingar er um að ræða?
    Hvaða upplýsingar um tillögur og/eða ákvarðanir um breytingar á stjórnskipan fyrirtækisins liggja fyrir? Opinbert er að leggja skal af svokallaðar umdæmisskrifstofur. Óskað er eftir ítarlegum skýringum á hugmyndafræði þeirra breytinga. Er fyrirhugað að loka strandstöðvum? Er ætlunin að loka póststöðvum nú eða á næsta ári? Ef svo er, þá hverjum? Hvað verður um starsfólk þessara stofnana og annarra þar sem breytingar eru fyrirhugaðar?
    Stendur til að skipta fyrirtækinu Pósti og síma hf. upp í aðskilin fyrirtæki, tvö eða fleiri, þegar á næsta ári?
    Lýst hefur verið yfir þeirri ákvörðun ráðherra að bjóða út aðra rás fyrir GSM-kerfið. Hvaða meginmarkmið eru höfð að leiðarljósi í því útboði? Óskað er eftir útboðsskilmálum vegna þessa.
    Pósti og síma hf. er heimilt lögum samkvæmt að kaupa hluti í öðrum fyrirtækjum og selja aftur eftir efnum og ástæðum. Eru slík viðskipti fyrirhuguð?
    Hverjir eru að mati ráðherra framtíðarmöguleikar Pósts og síma hf. í síharðnandi samkeppnisumhverfi, sbr. frumvarp til laga um fjarskipti? Hvert er hlutverk ráðherra sjálfs í ljósi hæfisreglna sem getið er um í frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu þegar henni hefur verið útbýtt meðal þingmanna.