Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 151 . mál.


422. Frumvarp til laga



um póstþjónustu.

(Eftir 2. umr., 19. des.)



    Samhljóða þskj. 166 með þessum breytingum:

    6. gr. hljóðar svo:

Einkaréttur ríkisins til póstmeðferðar.


    Íslenska ríkið hefur einkarétt á póstmeðferð eftirfarandi póstsendinga:
    Lokaðra bréfapóstsendinga hvert svo sem innihald þeirra kann að vera.
    Annarra lokaðra sendinga sem uppfylla skilyrði til þess að vera veitt viðtaka í póst, að svo miklu leyti sem innihald þeirra er ritaðar orðsendingar eða prentaðar tilkynningar, útfylltar með skrift, að undanskildum vörureikningum, fylgiseðlum, farmskrám og svipuðum fylgiskjölum með sendingum.
    Ríkið hefur einnig einkarétt til póstmeðferðar á póstsendingum skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr., öðrum en hraðsendingum, sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi. Hefur ríkið enn fremur einkarétt til póstmeðferðar á slíkum póstsendingum sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum.
    Einkarétturinn nær ekki til póstmeðferðar með verðlista, bæklinga, blöð og tímarit með utanáskrift sé innihald allra sendinga eins og án umbúða eða um þær búið í gagnsæjum umbúðum.
    Sérhverjum er heimilt að sinna póstþjónustu innan eigin starfsemi.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um takmörkun eða afnám einkaréttar vegna póstmeðferðar póstsendinga sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi, svo og á póstsendingum sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum.

    13. gr. hljóðar svo:

Skilyrði.


    Póst- og fjarskiptastofnun setur skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingu skv. 11. og 12. gr. Skulu skilyrðin vera skýr og þannig að gætt sé jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa.
    Rekstrarleyfi skulu að jafnaði vera tímabundin.
    Skilyrði fyrir leyfisveitingu geta verið eitt eða fleiri, þar með talið:
    að greitt sé leyfisgjald og rekstrargjald í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs,
    að uppfylltar séu þjónustu- og gæðakröfur,
    að tryggt sé að almenningur njóti aðgengis að grunnpóstþjónustu,
    að skylt sé að annast sérstök verkefni, þótt þau séu ekki arðbær, sbr. 4. gr. laganna,
    að gjaldskrá einkaréttarhafa sé háð samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar og að gjaldskrár fyrir einkaréttarþjónustu sæti eftirliti hennar, sbr. VI. kafla laganna,
    að virtar séu uppgjörs- og bókhaldsreglur, sem settar kunna að vera,
    að sett sé trygging fyrir greiðslu kostnaðar vegna skila á póstsendingum til viðtakenda ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar rekstrarleyfishafa kemur,
    að rekstrarleyfishafi sæti eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar að því er varðar fjárhagslega stöðu á hverjum tíma, með tilliti til hættu á rekstrarstöðvun,
    að alþjóðasamningar á sviði póstmála séu virtir,
    að rekstrarleyfishafi taki þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði póstmála.
    Heimilt er að breyta skilyrðum fyrir rekstrarleyfi, enda hafi forsendur fyrir því breyst eða þær brostið. Skilyrðum má einnig breyta til samræmis við breytingar á lögum og reglum og þegar alþjóðasamningar gefa tilefni til slíks.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur, auk skilyrða skv. 3. mgr., sett einkaréttarhafa almenn skilyrði sem varða skyldur ríkisins skv. 4. gr. Þá getur stofnunin gert einkaréttarhafa að gefa út frímerki og nota sérstakt auðkenni fyrir starfsemi sína, t.d. póstlúður, með eða án stjörnu og örvum, eða öðrum táknum. Einkaréttarhafi getur heimilað þriðja aðila að nota auðkennið, enda starfi hann í hans þágu.