Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 134 . mál.


466. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Tómasar Inga Olrich um greiðslur í lífeyrissjóði og almannatryggingar.

    Er fylgst með því að allir launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eigi aðild að lífeyrissjóði eins og skylt er samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda?
    Samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði. Er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsfólks og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á iðgjaldahluta þess ásamt mótframlagi. Sömuleiðis ber sjálfstætt starfandi mönnum að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs. Ekki er fylgst með því af opinberri hálfu hvort farið er að tilvitnuðum ákvæðum og gera lögin ekki ráð fyrir slíku eftirliti.

    Er misbrestur á því að lagaskyldan sé virt? Hve margir greiða ekki í lífeyrissjóði?
    Eins og svar við síðustu spurningu ber með sér er ekki haft eftirlit með því hvort lagaskyldan til að greiða til lífeyrissjóðs er virt eða ekki. Upplýsingar um það eru því ekki fyrir hendi né heldur upplýsingar um hversu margir greiða ekki í lífeyrissjóði.
    Leggja má gróft mat á skil á iðgjöldum til lífeyrissjóða á grundvelli upplýsinga um tekjur sjóðanna samkvæmt skýrslu bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og upplýsingum um laun og reiknað endurgjald samkvæmt skattframtali. Iðgjöld sjóðfélaga og framlög launagreiðenda til sjóðanna voru samtals tæplega 17 milljarðar kr. á árinu 1995. Sé gert ráð fyrir að iðgjöld og framlög séu að jafnaði um 10% af iðgjaldsstofni ætti hann að vera um 170 milljarðar kr. Samkvæmt skattframtali fyrir árið 1995 eru laun og aðrar starfstengdar greiðslur að viðbættu reiknuðu endurgjaldi samtals um 197 milljarðar kr. Munurinn er 27 milljarðar kr. Nokkur hluti launagreiðslnanna á ekki að mynda iðgjaldsstofn, svo sem ýmsar aukagreiðslur sem ekki eru greiddar samkvæmt kjarasamningum svo og hluti launa þeirra sem þegar hafa hafið töku lífeyris úr sjóðum sínum. Þær fjárhæðir sýna þennan mismun ekki að fullu og má því ætla að all nokkuð sé um að iðgjaldaskyldu sé ekki fullnægt.

    Getur það ekki valdið miklum árlegum útgjöldum fyrir almannatryggingar á komandi árum og áratugum ef menn sinna ekki tryggingarskyldu sinni? Hve mikill gæti sá útgjaldaauki orðið að mati ráðuneytisins?
    Eins og ákvæðum um lífeyristryggingar almannatrygginga er nú háttað ræðst ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins af tekjum manna, bæði hinn almenni ellilífeyrir og tekjutrygging og heimilisuppbót. Við ákvörðun þessara greiðslna er höfð hliðsjón af tekjum viðkomandi, þar á meðal þeim tekjum sem þeir kunna að hafa úr lífeyrissjóðum. Samkvæmt núgildandi reglum skerðir lífeyrir úr lífeyrissjóðum tekjutryggingu og heimilisuppbót um 45% af lífeyristekjum umfram tæp 27 þús. kr. á mánuði. Séu engar aðrar tekjur til staðar getur skerðingin orðið 43.658 kr. á mánuði. Er því ljóst að vanræksla á því að greiða til lífeyrissjóðs, sem leiðir síðar til þess að tekjur manna verða lægri en viðmiðunarmörk almannatrygginga, veldur því að útgjöld almannatrygginga verða hærri en ella. Vegna skorts á upplýsingum um hugsanleg vanhöld á greiðslum til lífeyrissjóða er ekki unnt að meta þennan útgjaldaauka.

    Falla stjórnar- og nefndalaun undir framangreind lög?
    Iðgjöld til lífeyrissjóða fara eftir ákvæðum í reglugerð viðkomandi sjóðs. Í þeim er jafnan miðað við laun samkvæmt kjarasamningum viðkomandi verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Má því reikna með að fátítt sé að greitt sé af stjórnar- og nefndarlaunum til lífeyrissjóða.

    Getur það reynst hagkvæmara fyrir einstakling, skattalega séð og með tilliti til ráðstöfunarfjár á eftirlaunaaldri, að kaupa sér fremur t.d. spariskírteini eða tryggja sig með söfnunartryggingu hjá einkatryggingafélagi en að greiða lögbundið iðgjald í lífeyrissjóð?
    Með tilliti til skatta má segja að almennt muni hagkvæmara að greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs og tryggja þannig lífeyrisgreiðslur en að leggja sömu fjárhæð í kaup á spariskírteinum eða verja henni til kaupa á söfnunartryggingu hjá tryggingarfélagi. Hjá einstaklingi sem hefur laun sem liggja fyrir ofan skattleysismörkin eru iðgjöld til lífeyrissjóða, bæði hluti launamanns og launagreiðanda, frádráttarbær frá tekjuskatti. Fé sem slíkur aðili ver til kaupa á spariskírteini eða til kaupa á söfnunartryggingu hefur borið skatt. Miðað við sömu fjárhæð sem annars vegar er greidd sem iðgjald og framlag til lífeyrissjóðs og hins vegar sem skattskyld laun verður sá höfuðstóll sem lagður er inn í lífeyrissjóð nálægt 60% hærri en sá höfuðstóll sem lagður er í söfnunartryggingu eða varið til kaupa á spariskírteinum. Ávöxtun söfnunartrygginga er skattfrjáls sé hún tekin út í einu lagi. Ávöxtun og verðbætur af spariskírteinum bera 10% skatt og lífeyrir úr lífeyrissjóði ber fullan skatt, hvort tveggja að því gefnu að tekjurnar séu umfram skattleysismörkin. Ljóst er að í flestum tilvikum, þ.e. hjá venjulegu launafólki og öðru með sambærilegar tekjur, er þessi munur á skattlagningu við útborgun ekki nægilegur til þess að vega upp það skattalega hagræði sem stafar af því að iðgjöld og framlög til lífeyrissjóða eru undanþegin skatti.