Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 109 . mál.


478. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um áhrif vísitöluhækkana á skuldir heimilanna.

    Hvaða útgjaldaflokkar og undirflokkar þeirra samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar í vísistölu neysluverðs hafa helst haft áhrif til hækkunar á skuldir heimilanna frá því að hún tók gildi 1. mars 1995?
    Hve mikið hefur hver og einn flokkur, sbr. 1. tölul., hækkað skuldir heimilanna (í fjárhæðum) frá 1. mars 1995 til 1. október 1996?

    Vísað er til meðfylgjandi töflu Hagstofu Íslands um breytingar á einstökum útgjaldaflokkum og áhrifum þeirra á neysluverðsvísitölu. Í aftasta dálki, sem sýnir breytinguna frá mars 1995 til desember 1996, koma fram upplýsingar um hvaða flokkar hafa helst haft áhrif til hækkunar á vísitölutengdar skuldir heimilanna. Heildarhækkun vísitölu neysluverðs á tímabilinu nemur 3,4%.
    Af einstökum liðum má nefna hækkanir á matvöru um 0,6%, hækkun á bifreiðakostnaði um 0,7%, hækkun á tómstundaiðkun, menntun um 0,5% og hækkun vegna vöru og þjónustu ót.a., o.fl. um 0,6%.

    Hvaða útgjaldaflokkar og undirflokkar í eldri lánskjaravísitölu höfðu helst áhrif til hækkunar á skuldir heimilanna?
    Hve mikið hefur hver og einn flokkur í eldri lánskjaravísitölu hækkað skuldir heimilanna (í fjárhæðum) á árunum 1993 og 1994?

    Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands má ætla að verðtryggðar skuldir heimilanna í mars 1995 hafi numið 267 milljörðum kr. Á tímabilinu frá mars 1995 til desember 1996 hækkaði vísitala neysluverðs um 3,4% og má því ætla að verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað um 9 milljarða kr. í heild. Af einstökum útgjaldaflokkum vegur hækkun matvæla um 0,6% en það svarar til 1,6 milljarða kr., um 1,8 milljarða kr. má rekja til hækkunar á rekstrarkostnaði eigin bifreiðar og um 1,3 milljarða kr. til hækkunar á liðnum tómstundaiðkun, menntun.
    Frá febrúarmánuði 1989 til mars 1995 var lánskjaravísitalan samsett að jöfnu úr vísitölu neysluverðs, vísitölu byggingarkostnaðar og launavísitölu. Þessa samsettu vísitölu er ekki unnt að sundurgreina í útgjaldaflokka með líkum hætti og neysluverðsvísitöluna. Þess í stað verður að líta á ósundurgreinda vísitölu, en frá ársbyrjun 1993 til ársbyrjunar 1995 hækkaði lánskjaravísitalan um 4,3%. Verðtryggðar skuldir heimilanna í ársbyrjun 1993 voru um 230 milljarðar kr. og því má ætla að skuldirnar hafi hækkað um 10 milljarða kr. vegna verðtryggingarinnar.

    Í framhaldi af svörum við þessum spurningum er rétt að benda á nokkur atriði eða fyrirvara sem hafa þarf í huga. Hæpið er að líta eingöngu á verðtryggð lán í þessu sambandi. Ef lán væru ekki verðtryggð hefði breyting á verðlagi iðulega í för með sér breytingu nafnvaxta þannig að fullt eins væri ástæða til þess að líta á allar skuldir í þessu samhengi. Verðtrygging þarf ekki að vera slæmur kostur fyrir lántakann. Nægir í því sambandi að nefna að í uphafi lánstímans er greiðslubyrði verðtryggðra lána ávallt léttari en óverðtryggðra lána. Það getur skipt lántakann afar miklu máli af því að greiðslugetan er að jafnaði erfiðust þá.
    Því má heldur ekki gleyma að á móti skuldum heimilanna standa að meginhluta fasteignir sem tíðast hækka í takt við almennnt verðlag. Aukning skulda vegna verðtryggingarinnar þarf því ekki að þýða rýrnandi efnahag þeirra sem skulda. Auk þess má nefna að verðtryggingin kemur í veg fyrir verðrýrnun á öðrum peningalegum eignum eins og sparnaði í lífeyrissjóðum og frjálsum sparnaði heimilanna.
    Loks má nefna að hækkun á skuldum verður vart skoðuð einangruð og án samhengis við almenna launaþróun í landinu. Nefna má sem dæmi að á árinu 1994 er talið að ráðstöfunartekjur á mann hafi hækkað jafn mikið og almennt verðlag eða um 1,5%, á árinu 1995 er talið að ráðstöfunartekjur á mann hafi hækkað um 4% umfram verðlag og í ár benda áætlanir til 4,5% hækkunar ráðstöfunartekna umfram verðlag.

(Tafla 1 síða.)