Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 206 . mál.


511. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um innstæður í ríkisbönkunum.

    Hverjar eru innstæður (fjárupphæðir) á gömlum sparisjóðsbókum sem bera vexti undir almennum lægstu vöxtum?
    Á hve mörg nöfn eru þessar innstæður skráðar?
    Hvaða vaxtaprósentur er um að ræða?

    Engar innstæður á gömlum sparisjóðsbókum í Landsbankanum og Búnaðarbankanum bera vexti undir almennum lægstu vöxtum.

    Hve margir reikningar hafa ekki verið hreyfðir sl. 15 ár og um hve háa fjárhæð er að ræða?
    Almennar sparisjóðsbækur sem ekki hafa hreyfst sl. 15 ár eru 3.608 og innstæður samtals 30.163.954 kr. Að auki eru sparisjóðsbækur sem ekki hafa verið hreyfðar í 20 ár fluttar á svonefndan biðreikning. Á biðreikning eru einnig fluttar sparisjóðsbækur með mjög lágar innstæður sem ekki hafa verið hreyfðar um margra ára skeið. Fjöldi bóka á biðreikningi er um 216.000 og heildarupphæð hans nemur 66.035.868 kr.

    Hverjar eru reglur bankanna um óhreyfðar innstæður? Hvað verður um þær innstæður?
    Almennt flytjast innstæður á biðreikning ef sparisjóðsbókin hefur ekki hreyfst í 20 ár en gerð er undantekning frá þeirri reglu ef um mjög lágar fjárhæðir er að ræða. Tilgangurinn með því að flytja bækur á biðreikning er að spara í rekstri því kostnaður fylgir hverjum reikningi. Innstæður bíða á biðreikningi þar til þeirra er vitjað og eru reiknaðir vextir með almennum sparisjóðsbókarvöxtum. Haldin er nafnaskrá yfir allar bækur sem fluttar hafa verið á biðreikning og jafnframt er eigendum gert viðvart ef unnt er að ná til þeirra.