Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 193 . mál.


541. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.

    Hvert er umfang geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga hérlendis miðað við það sem tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við?
    Samanburður milli landa á umfangi þjónustu á þessu sviði er í raun mjög erfiður. Þjónusta við börn og fjölskyldur sem þarfnast hjálpar getur verið með margvíslegum hætti og hún er veitt af stofnunum sem heyra m.a. undir menntamálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, auk heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Öflug þjónusta á vegum skóla og sveitarfélaga fyrir börn sem eiga við andleg og geðræn vandamál að stríða ætti að hafa í för með sér minni þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu.
    Í Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að um 1,0–2,0% barna þurfi á sérhæfðri barnageðheilbrigðisþjónustu að halda á hverjum tíma. Hér á landi er um 0,4–0,5% barna veitt geðheilbrigðisþjónusta á vegum heilbrigðiskerfisins, en auk þess fá börn sálfræðiþjónustu á vegum skóla eða félagsmálakerfis.
    Umfang þjónustunnar hefur aukist á undanförnum árum. Frá árinu 1990 hefur stöðuheimildum verið fjölgað um 14,6 á barna- og unglingageðdeild og heildarfjárveitingar árið 1996 voru rúmlega 137 millj. kr. sem er töluverð aukning frá fyrri árum.
    Eins og kunnugt er ákvað ríkisstjórnin fyrir tæpu ári að verja 12 millj. kr. á árinu 1996 til þess að efla barna- og unglingageðdeildina og koma á fót upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda í samvinnu við aðra þá er vinna í málaflokknum, og hefur þessi fjárveiting m.a. gert barna- og unglingageðdeildinni kleift að taka á móti og greina börn með ýmiss konar hegðunarvandamál sem á stundum eru undanfari neyslu áfengis- og annarra vímuefna.

    Hvert er hlutfall stofnanaþjónustu annars vegar og þjónustu utan sjúkrahúsa hins vegar á sviði geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga til 18 ára aldurs, eða þriðjung þjóðarinnar?
    Á árinu 1995 voru 68 börn og unglingar lögð inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans en 348 fengu meðferð á göngudeild. Á þessum áratug hefur vaxandi áhersla verið lögð á meðferð án innlagnar og á styttingu legutímans. Meðallegutími er nú um 45 dagar en var árið 1992 nær tvöfalt lengri. Árið 1995 voru tæplega 60% af innlögnum bráðainnlagnir, og um helmingur sjúklinga deildarinnar kom frá Reykjavík. Áfram er stefnt að því að sem flest börn fái meðferð án innlagna, og því hefur göngudeildarþjónustan verið aukin markvisst á síðustu árum.
    
Hér á landi starfa sérmenntaðir barna- og unglingageðlæknar nær eingöngu á stofnunum og þá fyrst og fremst á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Á síðasta ári var þjónusta á þessu sviði bætt og aukin með fastráðningu barnageðlæknis til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Aðeins tveir barnageðlæknar starfa að hluta á einkastofum, annar aðeins nokkra tíma á viku.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um umfang þjónustu sálfræðinga eða annars fagfólks við börn og fjölskyldur þeirra á einkastofum. Nú er í athugun hvort ekki sé rétt að sálfræðingar sem sérþekkingu hafa í meðferð barna og unglinga fái samning um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins, a.m.k. í sérstökum tilvikum.

    Hvernig er háttað samvinnu félagsmála- og heilbrigðisyfirvalda um þjónustu við ungmenni með hegðunartruflanir?
    Samvinna yfirvalda á þessu sviði er með ýmsum hætti. Sett hefur verið á laggirnar samstarfsnefnd heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins sem fjallar um ýmis mál er liggja á mörkum starfssviða ráðuneytanna. Til þeirrar nefndar hefur m.a. verið vísað umfjöllun um misþroska börn, en ákveðið var á síðasta ári að umsjá þeirra flyttist frá heilbrigðisstofnunum til hins félagslega kerfis. Til þess að tryggja að Greiningarstöð ríkisins hefði bolmagn til að taka við auknum verkefnum á þessu sviði veitti félagsmálaráðherra 1,5 millj. kr. af ráðstöfunarfé sínu til stofnunarinnar. Teymi skipað starfsmönnum frá félagsmálakerfinu og heilbriðgiskerfinu ræða mál sem m.a. koma upp hjá barnaverndarstofu.
    Þá er í undirbúningi samstarfsverkefni heilbrigðismálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og Reykjavíkurborgar um vímuefnavarnir barna og unglinga í borginni. Verkefnið er viðamikið og mun m.a. geta komið til góða börnum með hegðunartruflanir.

    Er vitað hve stór sá hópur ungmenna er sem á í vanda en fær enga aðstoð?
    Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um áætlaða þörf fyrir sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu hér á landi. Ýmsar kannanir á undanförnum árum gefa þó vísbendingar um að þörfin fari vaxandi.
    Samkvæmt upplýsingum frá yfirlækni barna- og unglingageðdeildar Landspítalans er sá hópur sem ekki fær aðstoð en þyrfti á henni að halda stór. Þrátt fyrir að aldrei hafi verið fleira starfsfólk á deildinni en nú og á síðasta ári hafi verið bætt við sérfræðingum koma upp bráð tilvik öðru hverju sem vísa verður frá að sögn yfirlæknis.
    Því ákvað heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í desembermánuði síðastliðnum að veita 3 millj. kr. af ráðstöfunarfé ráðherra til þess að stytta bið eftir þjónustu á barna- og unglingageðdeildinni í samræmi við áætlanir stjórnenda Landspítalans.

    Hvaða áform eru um að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga til 18 ára aldurs?
    Á alþjóðageðheilbrigðisdaginn 10. október sl. kynnti heilbrigðisráðherra stofnun nefndar sem gera skyldi tillögur um mótun stefnu í málefnum geðheilbrigðisþjónustu hér á landi. Nú hafa flestar tilnefningar í nefndina borist og er áætlað að hún hefji störf von bráðar. Að sjálfsögðu munu málefni barna vega þungt í umfjöllun nefndarinnar.
     Úttekt var gerð af hálfu Norræna heilsuverndarháskólans á barna- og unglingageðdeildinni fyrir örfáum árum, og þróunaráætlanir hafa verið unnar af stjórnendum deildarinnar. Nú er á lokastigi vinna við heildarstefnumótun á Ríkisspítölum og verður hún kynnt innan skamms. Þar verða lagðar línur um framtíðarþróun deildarinnar innan Ríkisspítala.
    Á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum er brýnt að auka áhersluna á forvarnir, en vandamál sem leiða til áfengis- og fíkniefnaneyslu barna og unglinga eru knýjandi auk þeirra vandamála sem neyslan skapar. Þar kemur Forvarnarsjóður að góðum notum en fjárveitingar til hans hafa aukist um 25 millj. kr. á tveimur árum. Jafnframt er minnt á að í frumvarpi til laga um áfengis- og vímuvarnaráð er gert ráð fyrir bættri samræmingu á þeirri þjónustu sem veitt er á sviði forvarna og mun það styrkja þau úrræði sem börnum og unglingum í vanda standa til boða.
    Nýleg könnun á neyslu ungs fólk á áfengi og vímuefnum bendir til þess að aldur yngstu neytendanna hafi færst upp um allt að tvö ár. Þetta er mjög mikilsverður árangur og sýnir að hægt er að ná árangri og er hvatning til að láta ekki staðar numið.
    Nú á haustmánuðum var héraðslæknum falið að sjá um að efla þekkingu í heilsugæslunni á fyrstu viðbrögðum við geðsjúkdómum og fengu þeir til þess fjárveitingu. Þessi leið var farin vegna ábendinga héraðslækna á fundum með heilbriðgisráðuneytinu og landlækni um að til heilsugæslustöðva leituðu í auknum mæli fjölskyldur í vanda vegna geðrænna truflana eða áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga. Fljótlega verður kannað hvernig þessi fjárveiting hefur nýst, en hún endurspeglar þá stefnu að styrkja frumheilsugæsluna í greiningarhlutverki á þessu sviði.

    Verður geðdeildarþjónusta veitt á nýjum barnaspítala?
     Nú þegar hillir undir nýjan barnaspítala skapast væntanlega nýjar forsendur og nýjar aðstæður fyrir veik börn. Staðreyndin er sú að allstór hluti veikra barna með svokallaða líkamlega sjúkdóma þarf á geðheilbrigðisþjónustu að halda. Í nýja barnaspítalanum er gert ráð fyrir mikilli göngudeildarþjónustu en lágmarkslegu og er af mörgum talið eðlilegt að veik börn, án tillits til eðlis veikindanna, njóti slíkrar þjónustu.
    Eins og málum er nú háttað heyrir barna- og unglingageðdeildin undir geðsvið Landspítalans en ekki undir Barnaspítala Hringsins. Þetta fyrirkomulag er talið hafa bæði kosti og galla, og er fagfólk á þessu sviði nú að fjalla um með hvaða hætti starfseminni verði best fyrirkomið í framtíðinni.
    Um þetta hafa þó ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir en þær munu væntanlega verða teknar á næstu mánuðum.