Ferill 249. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 249 . mál.


587. Svarmenntamálaráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um málefni heyrnarskertra og heyrnarlausra.

    Hvenær má vænta þess að íslenska táknmálið, sem er eina mál margra Íslendinga, verði viðurkennt sem móðurmál þeirra?
    Viðurkenning á íslensku táknmáli sem móðurmáli heyrnarlausra og heyrnarskertra felur ekki einungis í sér aukinn rétt heyrnarlausra til táknmálskennslu og táknmálstúlkunar í skólakerfinu heldur er um að ræða víðtækan rétt til þjónustu og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. Hér má t.d. nefna dómskerfi og heilbrigðiskerfi. Viðurkenning á táknmáli sem móðurmáli heyrnarlausra og heyrnarskertra snýr því ekki eingöngu að menntamálaráðuneytinu heldur er hér pólitískt mál sem vinna þarf í samvinnu ráðuneyta og á vettvangi ríkisstjórnar. Í nágrannalöndum okkar hefur víðast verið farin sú leið við viðurkenningu á táknmáli að setja í áföngum lög sem tryggja rétt heyrnarlausra og heyrnarskertra til táknmáls og túlkunar á ýmsum sviðum. Opinber stefna hefur ekki verið mörkuð í þessum málum hér á landi en almennt hefur verið talið farsælla að tryggja smám saman með lagasetningu rétt heyrnarlausra og heyrnarskertra til þjónustu. Í ríkisstjórn er nú unnið að því að samhæfa aðgerðir í málefnum fatlaðra og er að vænta tillagna í þeim efnum. Fyrir dyrum stendur einnig endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra og um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Þótt þróun í átt til viðurkenningar táknmáls hafi verið hægari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum hafa þó verið stigin mikilvæg skref sem fela í sér opinbera viðurkenningu:
    Í árslok 1990 voru sett lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Markmið laganna er að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra. Með stofnun Samskiptamiðstöðvarinnar, en hún heyrir undir menntamálaráðuneytið, var stórt skref stigið í átt til aukinnar þjónustu og réttinda til handa heyrnarlausum og heyrnarskertum.
    Hlutverk Samskiptamiðstöðvarinnar er samkvæmt lögum að annast:
    rannsóknir á íslensku táknmáli,
    kennslu táknmáls,
    táknmálstúlkun,
    aðra þjónustu.
    Í Samskiptamiðstöðinni er m.a. veitt túlkaþjónusta og haldin námskeið fyrir táknmálskennara og táknmálsnámskeið fyrir almenning, fjölskyldur heyrnarlausra, fólk sem missir heyrn, þroskahefta, daufblinda og fleiri. Unnið hefur verið námsefni í táknmáli fyrir táknmálsnámskeið, framhaldsskóla og Háskóla Íslands, m.a. margmiðlunarnámsefni og orðabók á táknmáli fyrir PC-tölvur, og þýddar barnabækur á táknmál á myndbönd. Einnig hefur verið veitt ráðgjöf og fræðsla um samskipti við heyrnarlausa og heyrnarskerta og gerðar hagnýtar og fræðilegar rannsóknir á táknmáli.
    Árið 1994 gerðu Samskiptamiðstöðin og Háskóli Íslands með sér samning um kennslu í táknmálsfræði og táknmálstúlkun í heimspekideild. Fyrstu túlkarnir verða brautskráðir vorið 1997 og annar hópur lýkur námi ári seinna.
    Lög um grunn- og framhaldsskóla fela í sér rétt allra nemenda til kennslu og skal skólinn stuðla að alhliða þroska allra nemenda. Í lögum um framhaldsskóla er enn fremur ákvæði um að í reglugerð skuli kveðið á um rétt heyrnarlausra nemenda til íslenskukennslu. Í menntamálaráðuneytinu er nú unnið að setningu reglugerða vegna nýrra framhaldsskólalaga og að gerð námskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla og verður þar sérstaklega tekið til skoðunar hvernig tryggja megi að heyrnarlausir og heyrnarskertir nemendur fái þjónustu við hæfi.
    Í Menntaskólanum við Hamrahlíð hefur um nokkurt skeið verið boðið upp á kennslu í íslensku táknmáli og íslensku og ensku fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Jafnframt hafa heyrnarlausir og heyrnarskertir nemendur getað stundað nám í öðrum námsáföngum með aðstoð táknmálstúlks.
    Fé til túlkunar í grunn- og framhaldsskólum er greitt af fjárveitingu til sérkennslu.
    Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um réttindi sjúklinga. Þar er skýrt kveðið á um rétt heyrnarlausra til túlkunar í heilbrigðiskerfinu.
    Árið 1995 skipaði félagsmálaráðherra nefnd um túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda. Hlutverk nefndarinnar var að skoða stöðu túlkaþjónustu og gera tillögur um framtíðarskipan. Í áliti nefndarinnar er lagt til að skýrt verði kveðið á um rétt heyrnarlausra til túlkunar í lögum. Þar til það verður gert er hugmynd nefndarinnar að opinberar stofnanir, sem heyrnarlausir sækja þjónustu til, beri kostnað af túlkun vegna þjónustunnar. Nefndin leggur til að framkvæmdasjóður fatlaðra veiti aftur fé til túlkunar í samræmi við reglur frá 1. mars 1995 og að lokum að sveitarfélög veiti fé til túlkunar vegna þátttöku í menningarlífi og tómstundastarfi.

    Hafa verið gerðar, eða eru í undirbúningi, ráðstafanir af hálfu Ríkisútvarpsins til að mæta þörfum þeirra rúmlega 20.000 heyrnarskertu og heyrnarlausu Íslendinga sem talið er að þurfi texta með öllu sjónvarpsefni?
    Í svari Ríkisútvarpsins til menntamálaráðuneytisins við þessari fyrirspurn, dags. 8. janúar 1997, kemur fram að Ríkisútvarpið, sjónvarp hafi engar tímasettar áætlanir um sérstaka textun á innlendu efni fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa. Helstu dagskrárliðir í jóla- og áramótadagskrám hafa verið textaðir í textavarpinu, svo sem jólamessa, áramótaskaup, fréttaannálar og ávörp forseta, forsætisráðherra og útvarpsstjóra auk kvikmynda. Neðanmálstextar eru kallaðir fram á sérstakri síðu í textavarpi þannig að textinn truflar ekki þá sem vilja ekki sjá texta á myndfletinum. Upplýsingar um notkun þessarar þjónustu liggja ekki fyrir.

    Hefur verið tekin afstaða til þess að áríðandi fréttir í sjónvarpi séu bæði textaðar og túlkaðar?
    Í svari Ríkisútvarpsins til menntamálaráðuneytisins við þessari fyrirspurn, dags. 8. janúar 1997, kemur m.a. eftirfarandi fram:
    „Helstu fréttir útvarps og sjónvarps eru aðgengilegar í styttri útgáfu í textavarpi auk þess sem sjónvarpið kemur til móts við heyrnarlausa með flutningi daglegra táknmálsfrétta.
    Það sem átt er við í fyrirspurninni með orðunum „áríðandi fréttir“ gæti til að mynda átt við um upplýsingar sem varða almenningsheill, svo sem skilaboð frá Almannavörnum ríkisins sem nauðsynlegt er að nái til allra landsmanna. Í slíkum tilfellum yrði vitaskuld reynt að sjá til þess í samvinnu við Almannavarnir að upplýsingar kæmust til allra landsmanna með tali, í rituðu máli og á táknmáli.
    Textun frétta í beinni útsendingu fyrir heyrnarskerta er afar kostnaðarsöm og því ekki á döfinni í nánustu framtíð. Ef til slíkrar sérþjónustu kemur síðar koma tvær leiðir helst til álita. Önnur leiðin er hefðbundin textun sem krefst töluverðrar forvinnu, en slík aðferð er notuð hjá norska sjónvarpinu. Hin leiðin er hraðtextun sem að verulegu leyti fer fram í beinni útsendingu, en sænska sjónvarpið hefur valið þá aðferð.“
    Enn fremur segir í svari Ríkisútvarpsins:
    „Framtíðin í þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta hlýtur fyrst og fremst að felast í textun og fréttaflutningi í textavarpi. Auk almennrar textavarpsþjónustu hefur Félag heyrnarlausra 20 textavarpssíður til eigin nota. Ákveðið hefur verið að textavarpi sjónvarpsins verði dreift á internetinu og er nú unnið að tæknilegri útfærslu þess máls.“

    Hver er áætluð þörf fyrir táknmálstúlka á næstu árum, hvaða menntunarkostir bjóðast þeim sem vilja læra táknmálstúlkun og hversu margir eru við slíkt nám nú?
    Framboð á túlkaþjónustu hér á landi hefur aldrei verið svo mikið að það hafi fullnægt þörf. Erfitt er því að áætla þörf fyrir túlkun í framtíðinni. Annars staðar á Norðurlöndum, þar sem túlkaþjónusta hefur verið veitt lengur en hér, hefur túlkaþjónusta stóraukist frá því að byrjað var að veita hana. Hér á landi hefur stærstur hluti þess fjár sem veitt hefur verið til túlkunar komið frá menntamálaráðuneytinu og hefur fram til þessa frekar verið skortur á túlkum en að fé hafi hamlað túlkun í skólum.
    Í skýrslu um túlkaþjónustu sem gefin var út í Svíþjóð árið 1989 af Handikapputredningen er gert ráð fyrir að einn túlkur geti þjónað 12 heyrnarlausum eða heyrnarskertum einstaklingum. Þar er enn fremur gert ráð fyrir að daufblindir þurfi túlk að meðaltali átta tíma á viku. Samkvæmt upplýsingum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra þyrfti sautján túlka til þess að þjóna um 200 heyrnarlausum einstaklingum og þrjá túlka þyrfti fyrir tíu daufblinda einstaklinga eða samtals 20 túlka, ef sömu viðmiðunartölur eru notaðar.
    Samskiptamiðstöðin og Háskóli Íslands gerðu árið 1994 með sér samning um tilraun með kennslu í táknmálsfræði og táknmálstúlkun. Um er að ræða þriggja ára nám í málvísinda- og bókmenntaskor heimspekideildar. Tveir hópar hafa hafið námið, annar haustið 1994 og hinn haustið 1995. Táknmálsfræði er kennd til 60 eininga. Táknmálstúlkun er viðbótarnám til 40 eininga. Unnt er að stunda nám í táknmálsfræði hvort heldur sem aukagrein eða aðalgrein til BA-prófs. Þrír hafa lokið BA-prófi í táknmáli með viðskiptafræði, bókasafnsfræði eða málvísindum. Fyrstu túlkarnir verða brautskráðir frá Háskóla Íslands vorið 1997 og annar hópur 1998.

    Hefur verið skoðað sérstaklega við endurskoðun á lögunum um LÍN að sjóðurinn geti lánað heyrnarlausum þegar þeir eru komnir á tiltekinn aldur og hafa ekki getað lokið framhaldsskóla á tilsettum tíma vegna skorts á táknmálstúlkun?
    Við endurskoðun á lögum um LÍN hefur ekki verið fjallað sérstaklega um málefni heyrnarlausra og heyrnarskertra. Eins og að framan greinir í svari við fyrsta lið fyrirspurnarinnar er hér um að ræða málaflokk er snertir mörg svið samfélagsins sem vinna þarf í samvinnu ráðuneyta og í ríkisstjórn er nú unnið að því að samhæfa aðgerðir í málefnum fatlaðra og er tillagna að vænta í þeim efnum.