Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 229 . mál.


590. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um starfskjör og lífeyrisréttindi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver hafa verið laun og önnur starfskjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands á ári hverju síðustu sjö ár (1990–96), sundurliðað eftir föstum launum, öðrum greiðslum og hvers konar þóknunum og hlunnindum, svo sem ferðakostnaði, risnu og bílahlunnindum? Hversu stór hluti starfskjaranna á ári hverju á þessu tímabili er í formi þóknana fyrir setu á bankaráðsfundum og í stjórnum sjóða og fyrirtækja eða frá dóttur- og hlutdeildarfyrirtækjum bankanna?
    Við hvað hafa launakjör og önnur starfskjör þeirra verið miðuð og hvernig hafa þau breyst á þessum tíma?
    Hver eru lífeyrisréttindi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands, sundurliðað eftir bönkum og stöðum?
    Hverjar hafa verið árlegar lífeyrisgreiðslur til þeirra sem komnir eru á eftirlaun að meðaltali síðustu sjö ár og hverjar eru hæstu lífeyrisgreiðslurnar, sundurliðað eftir bönkum og stöðum? Hve margir njóta nú þessara lífeyrisgreiðslna og hvað kosta þær árlega, sundurliðað eftir bönkum?
    Hve margir núverandi og fyrrverandi bankastjórar og aðstoðarbankastjórar ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands njóta einnig lífeyrisgreiðslna úr öðrum lífeyrissjóðum og þá hve mörgum? Hversu háar hafa heildargreiðslur úr lífeyriskerfinu verið til þeirra á ári hverju síðustu sjö ár, sundurliðað eftir bönkum og stöðum?
    Hverjar eru heildarskuldbindingar bankakerfisins vegna lífeyrisréttinda þessara aðila á komandi árum?
    Eru áform uppi um endurskoðun og breytingar á starfskjörum og lífeyrisréttindum bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands eins og fyrrverandi viðskiptaráðherra lagði til á árinu 1994?


1.    Laun og önnur starfskjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisviðskiptabankanna og Seðlabanka Íslands.
1.1     Laun bankastjóra.
1.1.1     Landsbanki Íslands.
    Laun bankastjóra Landsbanka Íslands, ásamt risnu og bankaráðsþóknun, hafa verið sem hér segir:


Ár

Laun

Bankaráð

Risna

Aukagreiðsla *

Samtals




1990          
3.568.132
471.868 150.000 707.216 4.897.216
1991          
3.820.858
508.701 165.000 1.661.342 6.155.901
1992          
3.917.562
519.501 180.000 1.732.069 6.349.132
1993          
3.938.257
523.939 190.000 1.511.174 6.163.370
1994          
5.700.203
523.939 200.000 6.424.142
1995          
5.460.945
523.939 205.000 6.189.884
1996          
5.465.132
523.939 225.000 6.214.071

* Ekki er tilgreint hvað felst í aukagreiðslunni.


1.1.2     Búnaðarbanki Íslands.
    Laun bankastjóra Búnaðarbanka Íslands, ásamt risnu og bankaráðsþóknun, hafa verið sem hér segir:


Ár

Laun

Bankaráð

Risna

Aðrar greiðslur

Samtals




1990          
3.478.417
467.500 150.000 685.896 4.781.813
1991          
3.720.991
500.100 180.000 1.298.608 5.699.699
1992          
3.939.751
512.098 180.000 1.298.608 5.930.457
1993          
3.844.880
516.750 190.000 1.412.324 5.963.954
1994          
5.374.948
516.750 200.000 6.091.699
1995          
5.343.000
641.160 205.000 6.189.160
1996          
5.538.225
664.560 225.000 6.427.785


1.1.3     Seðlabanki Íslands.
    Laun bankastjóra Seðlabanka Íslands, ásamt risnu og bankaráðsþóknun, hafa verið sem hér segir:


Ár

Laun

Bankaráð

Risna

Samtals




1990          
3.212.022
430.009 150.000 3.792.031
1991          
3.438.937
461.018 165.000 4.064.955
1992          
3.519.450
473.016 180.000 4.172.466
1993          
3.549.120
477.000 190.000 4.216.120
1994          
3.549.120
477.000 200.000 4.226.120
1995          
4.788.676
492.104 200.000 5.480.780
1996          
5.000.464
545.816 225.000 5.771.280


1.2     Laun aðstoðarbankastjóra.
1.2.1     Landsbanki Íslands.
    Laun aðstoðarbankastjóra Landsbanka Íslands, ásamt risnu og bankaráðsþóknun, hafa verið sem hér segir:


Ár

Laun

Bankaráð

Risna

Aukagreiðsla

Samtals




1990          
2.870.916
471.868 120.000 617.714 4.080.498
1991          
3.173.791
508.701 132.000 586.147 4.400.639
1992          
3.184.031
519.501 144.000 867.881 4.715.413
1993          
3.202.043
523.939 152.000 910.950 4.788.932
1994          
3.736.767
523.939 160.000 675.522 5.096.220
1995          
3.641.421
523.939 164.000 462.486 4.791.846
1996          
3.645.608
523.939 180.000 460.272 4.809.819
1.2.2     Búnaðarbanki Íslands.
    Laun aðstoðarbankastjóra eru 80% af launakjörum bankastjóra, þ.e. af launum, risnu og aukagreiðslu meðan hennar naut við, auk greiðslu fyrir setu á bankaráðsfundum. Sjá töflu í kafla 1.1.2 hér að framan.

1.2.3     Seðlabanki Íslands.
    Laun aðstoðarbankastjóra Seðlabanka Íslands, ásamt risnu og bankaráðsþóknun, hafa verið sem hér segir:


Ár

Laun

Bankaráð

Risna

Samtals




1990          
2.569.413
430.429 120.000 3.119.842
1991          
2.751.359
461.018 132.000 3.344.377
1992          
2.815.560
473.016 144.000 3.432.576
1993          
2.839.296
477.000 152.000 3.468.296
1994          
2.839.296
477.000 160.000 3.476.296
1995          
3.100.216
492.104 160.000 3.752.320
1996          
3.391.436
545.816 180.000 4.117.252


1.3     Ferðakostnaður bankastjóra og aðstoðarbankastjóra.
    Bankastjórar Landsbankans fá greiddan ferða- og dvalarkostnað erlendis á sama hátt og ráðherra, sbr. 10. gr. reglna fjármálaráðuneytisins frá 3. febrúar 1992. Í því felst að greiddir eru fullir dagpeningar, en einnig ferða- og gistikostnaður, risnukostnaður og símtöl. Sama gildir um aðstoðarbankastjóra, en þeir fá 80% af dagpeningum bankastjóra. Ferðakostnaður innan lands greiðist samkvæmt framlögðum reikningum.
    Bankastjórar Búnaðarbankans fá greiddan ferða- og dvalarkostnað með sama hætti og bankastjórar Landsbankans. Aðstoðarbankastjórar Búnaðarbankans fá fulla dagpeninga greidda fyrir ferðir erlendis, en ekki hótelkostnað. Ferðakostnaður innan lands greiðist samkvæmt framlögðum reikningum.
    Bankastjórar Seðlabankans fá fargjöld greidd eftir reikningi vegna ferða erlendis. Bankastjórar fá greiddan kostnað við gistingu, risnukostnað og símtöl eftir framlögðum reikningum og dagpeninga, sem skulu vera 80% af dagpeningum bankastarfsmanna. Aðstoðarbankastjóri fær greiddan kostnað við gistingu, símtöl eftir framlögðum reikningum og 65% af dagpeningum bankastarfsmanna. Samkvæmt fyrri reglum fengu bankastjórar 100% dagpeninga bankastarfsmanna og aðstoðarbankastjórar 80%. Þeim reglum var breytt til lækkunar á árinu 1991 samkvæmt tilmælum viðskiptaráðherra. Ferðakostnaður er breytilegur frá ári til árs og á milli einstakra bankastjóra.
    Samkvæmt gildandi reglum um greiðslu ferðakostnaðar er bankastjórum Seðlabankans, eins og öðrum starfsmönnum bankans, greiddur ferðakostnaður eftir reikningi á ferðalögum innan lands, enda fylgi fullnægjandi frumgögn. Heimilt er að greiða gisti- og fæðiskostnað með dagpeningum, en svonefnd Endurskoðunarnefnd ferðakostnaðar ákveður dagpeninga, sbr. gr. 5.8.1. í kjarasamningi starfsmanna bankanna.

1.4     Bifreiðar.
    Bankastjórar bankanna hafa til umráða bifreið í eigu bankanna og greiða bankarnir jafnframt rekstrarkostnað þeirra.
    Aðstoðarbankastjórum bankanna er ekki lagður til bíll en þar á móti eru bifreiðastyrkir greiddir. Bifreiðastyrkir til aðstoðarbankastjóra svara nú til 22.000 km á ári í Landsbankanum, 24.000 km á ári í Búnaðarbankanum og 700 km á mánuði í Seðlabankanum.
    Bankastjórar bankanna greiða skatta af bifreiðahlunnindum, en árlegur tekjuauki vegna þessa er nú samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra reiknaður 20% af kostnaðarverði bifreiðar sem tekin var í notkun árið 1995 og síðar, en 15% af verði eldri bifreiðar. Akstursgjald vegna bifreiðastyrks er ákveðið af nefnd á vegum Sambands íslenskra bankamanna og samninganefndar bankanna.

1.5     Þóknanir fyrir stjórnunarstörf.
    Á því tímabili sem fyrirspurnin tekur til hafa bankastjórar og aðstoðarbankastjórar Landsbanka Íslands átt sæti í stjórnum ýmissa sjóða, fyrirtækja, dóttur- og hlutdeildarfyrirtækja og samstarfi bankanna sem Landsbanki Íslands hefur átt aðild að. Mismunandi er hverjir hafa gegnt þessum störfum úr hópi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra, hvort um formennsku hefur verið að ræða, hversu lengi þeir hafa setið í þessum stjórnum og hvort þessar stjórnir hafi verið starfandi allt tímabilið. Af þessu leiðir að mismunandi er hversu miklar þessar greiðslur hafa verið árlega og hvernig þær hafa skipst, en stjórnarlaun hafa á þessu tímabili verið frá 20.170 kr. til 47.500 kr. á mánuði (vegna setu í hverri stjórn). Hafi viðkomandi gegnt formennsku hefur greiðslan verið tvöföld. Um hefur verið að ræða eftirtaldar stjórnir: Landsbréf hf., auk þriggja sjóða sem starfa á vegum Landsbréfa hf., Hömlur hf., Lýsing hf., Lind hf., Greiðslumiðlun hf., Kreditkort hf., Reiknistofa bankanna, RAS-nefnd, Samband íslenskra viðskiptabanka og samninganefnd bankanna um kjaramál, Fiskveiðasjóður Íslands, Útflutningslánasjóður, Þróunarfélag Íslands hf. Þá hafa bankastjórar átt sæti í stjórnum dótturfélaganna Regins hf., Kirkjusands hf. og Rekstrarfélagsins hf., en ekki hafa verið greidd stjórnarlaun vegna þessara félaga.
    Búnaðarbankinn hefur á tilgreindu tímabili átt aðild að stjórnum eftirtalinna félaga og fyrirtækja: Stofnlánadeild landbúnaðarins, Greiðslumiðlun hf., Kreditkort hf., Reiknistofa bankanna, Lýsing hf., Samband íslenskra viðskiptabanka, Samninganefnd bankanna, Tryggingarsjóður viðskiptabanka, Þróunarfélag Íslands hf. og Kaupþing hf. Mismunandi er hverjir sitja í einstökum stjórnum og hversu há stjórnarlaun eru greidd en þau nema frá um 20.000 kr. á mánuði upp í um 51.000 kr. á mánuði. Ef um formennsku hefur verið að ræða eru yfirleitt greidd tvöföld laun.
    Í 2. mgr. 28. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, segir: „Bankastjórum og aðstoðarbankastjórum er óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að.“ Í samræmi við ákvæði þessarar málsgreinar sitja bankastjórar Seðlabankans í stjórnum Fiskveiðasjóðs Íslands, Verðbréfaþings Íslands, Reiknistofu bankanna, Tryggingarsjóðs innlánsdeilda kaupfélaga og í samstarfsnefnd um bankaeftirlit. Fyrir setu í þessum stjórnum er greidd þóknun sem ákveðin er af stjórnum viðkomandi stofnana og/eða viðkomandi ráðuneyti og er þóknun frá um 6.000 kr. upp í um 45.000 kr. á mánuði. Aðstoðarbankastjóri situr ekki í neinni stjórn fyrir hönd bankans.

2.     Viðmiðun um launakjör og önnur starfskjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra.
    Bankaráð bankanna þriggja ákveða laun og önnur ráðningarkjör bankastjóra, sbr. lög nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, og lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Á árunum 1990–93 tóku laun bankastjóra Landsbankans mið af launum hæstaréttardómara að viðbættu 17% starfsaldursálagi. Auk þess fengu bankastjórar sérstakar greiðslur vegna ýmissa sérverkefna. Í nóvember 1993 var ákveðið að fella niður greiðslur vegna sérverkefna, en jafnframt að hækka laun sem þeim svaraði. Fyrrgreind viðmiðun hefur ekki verið notuð síðan. Grunnlaun bankastjóra á mánuði eru 411.000 kr. frá 1. nóvember 1993 og hafa verið óbreytt síðan.
    Svipaður háttur mun hafa verið hafður á í Búnaðarbankanum. Grunnlaun bankastjóra á mánuði eru nú 426.017 kr. á mánuði.
    Frá árinu 1990 til 1994 voru laun bankastjóra Seðlabankans þau sömu og laun hæstaréttardómara að viðbættu allt að 17% starfsaldursálagi, eins og hjá öðrum bankastarfsmönnum, og 10% álagi á laun formanns bankastjórnar. Launum bankastjóra Seðlabankans var breytt til samræmis við laun bankastjóra ríkisviðskiptabankanna frá 1. janúar 1995. Laun þeirra eru nú 411.297 kr. á mánuði, auk bankaráðsþóknunar og tvöfaldrar þóknunar til formanns bankastjórnar. Laun aðstoðarbankastjóra eru nú 329.038 kr. á mánuði, auk þóknunar fyrir setu í bankaráði. Þar að auki fær hann jafnháa þóknun fyrir að vera ritari bankaráðs.
    Bankastjórum og aðstoðarbankastjórum bankanna er greidd ársuppbót í desember, eins og öðrum bankastarfsmönnum, og samsvarar hún einum mánaðarlaunum. Jafnframt greiðist orlofsframlag og orlofsuppbót með júnílaunum í samræmi við kjarasamning bankamanna.

3.     Lífeyrisréttindi.
    Bankastjórar Seðlabankans, sem komið hafa til starfa við bankann eftir gildistöku núgildandi laga um bankann frá 1986, búa við reglur er bankaráðið setti í apríl 1989. Bankastjórarnir greiða iðgjöld til og eru aðilar að Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og vinna sér inn 5% lífeyrisrétt á ári upp í 90% launa á átján árum. Þeir geta búið við skerðingu vegna áunninna lífeyrisréttinda í fyrri störfum þar sem samanlögð eftirlaun skulu ekki vera hærri en 90% af launum í viðkomandi bankastjórastarfi. Fyrri reglur um eftirlaun bankastjóra gáfu 90% eftirlauna eftir 12 ára starf í bankanum, án skerðingar vegna aðfluttra réttinda og án aðildar að lífeyrissjóði. Við andlát bankastjóra fær eftirlifandi maki lífeyri sem nemur helmingi áunnins hlutfalls hins látna af bankastjóralaunum. Aðstoðarbankastjórar, eins og aðrir starfsmenn Seðlabankans, greiða iðgjald af launum sínum til Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka.
    Um eftirlaun bankastjóra Landsbanka gilda sambærilegar reglur og um eftirlaun bankastjóra Seðlabanka Íslands, frá 18. apríl 1989, sbr. hér að framan. Aðstoðarbankastjórar eru aðilar að eftirlaunasjóði bankans og taka eftirlaun samkvæmt reglum hans.
    Um lífeyrisréttindi bankastjóra Búnaðarbankans er farið samkvæmt ákvörðun bankaráðs frá 25. janúar 1980 en samkvæmt henni var gert ráð fyrir að full eftirlaun yrðu 90% af grunnlaunum og áynnust á 15 árum. Með breytingum á reglum samþykktum í bankaráði 17. desember 1993 ávinnast full réttindi nú á 18 árum. Aðstoðarbankastjórar fá greitt í Eftirlaunasjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands sem svarar 80% af réttindum bankastjóra. Þeir eru þó ekki beinir aðilar að eftirlaunasjóði bankans.

4.     Árlegar lífeyrisgreiðslur bankanna til aðila sem komnir eru á eftirlaun.
4.1     Landsbanki Íslands.
    Lífeyrisgreiðslur greiddar af Landsbanka árin 1990–96 (í kr.):


1990     til 5 aðila     
10.744.491

1991     til 6 aðila     
15.310.514

1992     til 5 aðila     
12.775.922

1993     til 5 aðila     
11.878.170

1994     til 4 aðila     
16.069.811

1995     til 4 aðila     
15.315.432

1996     til 4 aðila     
15.310.523


    Hæsta lífeyrisgreiðsla til eins aðila er 5.337.666 kr. á ári.

4.2     Búnaðarbanki Íslands.
    Lífeyrisgreiðslur greiddar af Búnaðarbanka árin 1990–96 (í kr.):


1990     til 5 aðila     
13.562.073

1991     til 7 aðila     
18.563.888

1992     til 6 aðila     
17.190.155

1993     til 6 aðila     
17.346.290

1994     til 6 aðila     
17.362.797

1995     til 6 aðila     
19.026.963

1996     til 6 aðila     
21.308.925


    Ekki hafa fengist upplýsingar um hæstu lífeyrisgreiðslu til eins aðila.

4.3     Seðlabanki Íslands.
    Lífeyrisgreiðslur greiddar af Seðlabanka árin 1990–96 (í kr.):


1990     6 aðilar í 62 mánuði     
15.238.209

1991     6 aðilar í 64 mánuði     
15.503.445

1992     6 aðilar í 60 mánuði     
14.334.332

1993     6 aðilar í 66 mánuði     
15.759.809

1994     7 aðilar í 84 mánuði     
21.609.106

1995     8 aðilar í 84 mánuði     
21.311.493

1996     7 aðilar í 84 mánuði     
22.762.943


    Ekki hafa fengist upplýsingar um hæstu lífeyrisgreiðslu til eins aðila.

5.     Lífeyrisgreiðslur bankastjóra eða aðstoðarbankastjóra úr öðrum lífeyrissjóðum.
    Engar upplýsingar eru fyrirliggjandi um önnur lífeyrisréttindi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra en hér hefur áður verið fjallað um.

6.     Heildarskuldbindingar bankanna vegna lífeyrisréttinda bankastjóra.
    Heildarskuldbinding Landsbankans vegna lífeyrisréttinda núverandi og fyrrverandi bankastjóra er 350 millj. kr. í árslok 1996.
    Skuldbindingar Búnaðarbankans vegna fyrrverandi og núverandi bankastjóra og ekkna þeirra nema tæpri 341 millj. kr. og hefur sú fjárhæð þegar verið lögð til hliðar af bankanum.
    Heildarskuldbinding Seðlabankans vegna lífeyrisréttinda bankastjóra, fyrrverandi bankastjóra og bankastjóraekkna var 287 millj. kr. í árslok 1996.

7.     Áform um endurskoðun og breytingar.
    Ákvæði Seðlabankalaga og laga um viðskiptabanka og sparisjóði um stöðu og stjórnun bankanna hafa verið túlkuð svo að ráðherra hafi ekki beint boðvald gagnvart þessum stofnunum umfram það sem beinlínis er kveðið á um í lögum. Samkvæmt gildandi lögum eru ráðherra ekki veittar heimildir til að taka ákvarðanir um þau atriði sem hér eru til umfjöllunar. Hins vegar er í lögum mælt fyrir um að bankaráð viðskiptabanka og Seðlabanka Íslands skuli ákveða laun og önnur ráðningarkjör bankastjóra. Eins og kunnugt er eru bankaráð ríkisviðskiptabankanna og Seðlabankans kjörin af Alþingi.
    Hafa verður í huga í þessu sambandi að viðskiptaráðherra hefur í hyggju að leggja fram frumvarp til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Þegar þær breytingar hafa náð fram að ganga má ætla að þróunin verði sú að ákvarðanir um laun og starfskjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra viðkomandi stofnana verði í takt við það sem almennt gerist í hliðstæðum fyrirtækjum utan ríkisgeirans. Þá er líklegt að við slíkar formbreytingar gefist bankaráðum nýrra hlutafélagsbanka færi á að endurskoða starfskjör bankastjóra í nýju ljósi og til framtíðar.
Neðanmálsgrein: 1
Í Seðlabankanum var hluti bifreiðastyrks færður inn í laun á árinu 1996 og skýrir það hluta launahækkunar á því ári.
Neðanmálsgrein: 2
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var sú breyting gerð í kjölfar þess að fram hafði komið verulegt misræmi á launakjörum bankastjóra Seðlabankans annars vegar og bankastjóra ríkisviðskiptabankanna hins vegar, og er um það vísað til fréttatilkynningar iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta frá 14. janúar 1994, um athugun á starfskjörum helstu yfirmanna ríkisbanka og sjóða sem heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.