Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 327 . mál.


591. Tillaga til þingsályktunar



um notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans.

Flm.: Hjálmar Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason, Ólafur Örn Haraldsson,


Stefán Guðmundsson, Guðni Ágústsson, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna möguleika þess að vélar íslenskra fiskiskipa verði knúnar vetni í stað olíu.

Greinargerð.


    Í fiskiskipaflota Íslendinga eru um 2.400 skip, allt frá krókabátum til stórra frystiskipa. Skip þessi eru knúin áfram af olíu. Áætlað er að við það dreifist út í andrúmsloftið um 772 þúsund tonn af koldíoxíði árlega eða sem svarar um 33,5% af áætlaðri koldíoxíðmengun Íslendinga. Til samanburðar má benda á að eftir stækkun álversins í Straumsvík er reiknað með að það losi um 237.000 tonn árlega út í andrúmsloftið af koldíoxíði.
    Íslenski fiskiskipaflotinn er talinn brenna olíu árlega fyrir rúma 4 milljarða kr., þar af eru tæpir 2,5 milljarðar kr. fyrir olíu á togara og frystiskip. Varla þarf að taka fram að um innflutning er að ræða og þar af leiðandi eyðslu á erlendum gjaldeyri.
    Tæknilega mun lítið því til fyrirstöðu að Íslendingar geti framleitt vetni til brennslu véla. Erlendis er þegar farið að líta til vetnis sem fýsilegs orkugjafa fyrir vélar. Þannig munu strætisvagnar á nokkrum stöðum í Þýskalandi vera knúðir orku úr vetni. Framleiðendur bifreiða leggja mikla áherslu á að skoða möguleika þess að fjöldaframleiða bíla með búnaði sem knúinn er vetni. Af þessu má sjá að ýmislegt bendir til þess að vetni gæti í framtíðinni orðið mikilvægur orkugjafi.
    Olíulindir eru, enn a.m.k., ekki þekktar hér á landi. Hins vegar eiga Íslendingar yfir mikilli orku að ráða í fallvötnum. Vatnsbúskapurinn er ríkuleg auðlind. Framleiðsla á vetni mun tiltölulega einföld aðgerð og hafa Íslendingar alla tæknilega burði til þeirrar framleiðslu. Þar sem þjóðin byggir afkomu sína mjög á rekstri fiskiskipaflotans er rökrétt að kannað verði til hlítar hvort ekki megi koma málum þannig fyrir að sá floti noti að mestu vetni, þ.e. innlendan orkugjafa. Margt mælir með því. Fyrst skulu nefnd vistvæn rök. Vetni er einn vistvænasti orkugjafi sem til er. Gildir það hvort tveggja um framleiðslu þess og ekki síður um nýtingu í vélum. Með því að fiskiskipaflotinn nýtti vetni í stað olíu mætti draga allverulega úr koldíoxíðmengun. Þar með væru Íslendingar búnir að leggja verulega af mörkum til að uppfylla ákvæði Ríó-sáttmálans um aðgerðir gegn losun koldíoxíðs. Í öðru lagi má benda á þau efnahagslegu rök að þjóðin sparaði verulegar fjárhæðir í gjaldeyriskaupum með því að draga úr notkun innfluttrar olíu. Þá gæfist möguleiki á að þróa framleiðslu þessa vistvæna orkugjafa hér innan lands, reyna notkun hans og jafnvel flytja út síðar meir. Erlendir bílaframleiðendur hafa þegar sýnt þessari þróun áhuga. Þá má geta þess að framleiðendur flugvéla líta hýru auga til vetnis sem orkugjafa framtíðar. Með þessu móti mætti snúa vörn í sókn, bæði með tilliti til umhverfisins og innlendrar verðmætasköpunar og útflutnings, í stað þess að nota innfluttan mengandi orkugjafa.
    Tillagan gerir ráð fyrir að umhverfisráðherra skipi nefnd til að skoða vandlega möguleika á því að vetni verði tekið upp sem orkugjafi fiskiskipaflotans. Skulu þar höfð í huga hagkvæmnissjónarmið, umhverfisrök og áframhaldandi þróun.