Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 376 . mál.


661. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu samnings milli Grænlands/Danmerkur og Íslands um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Grænlands/Danmerkur og Íslands um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu sem gerður var í Nuuk 20. febrúar 1997.

Greinargerð.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Grænlands/Danmerkur og Íslands um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu sem gerður var í Nuuk 20. febrúar 1997. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Samkvæmt samningnum er grænlenskum nótaskipum heimilt að veiða í efnahagslögsögu Íslands allt að 8.000 lestir af loðnu af loðnukvóta Íslands á loðnuvertíð þeirri sem lýkur 30. apríl 1997. Heimild þessi er óháð þeim svæðatakmörkunum sem um getur í 8. gr. samnings milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen frá 29. júní 1994 (hér eftir nefndur loðnusamningurinn) og er grænlenskum nótaskipum því einnig heimilt að veiða umrætt magn sunnan 64°30´N í íslensku efnahagslögsögunni. Heimilt er að landa aflanum til vinnslu á Íslandi. Óheimilt er að vinna eða frysta aflann um borð og utan Íslands er einungis heimilt að landa aflanum til bræðslu.
    Á móti verður íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af loðnu úr þeim kvóta, sem kemur í hlut Grænlands, á loðnuvertíð þeirri sem hefst 1. júlí 1997. Þá verður íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af heildarkvóta Íslands í tilraunaskyni í fiskveiðilögsögu Grænlands sunnan 64°30´N, en samkvæmt loðnusamningnum hafa loðnuveiðar verið íslenskum skipum óheimilar á því svæði.
    Um veiðar samkvæmt samningnum og stjórn þeirra gilda að öðru leyti ákvæði loðnusamningsins og reglur sem settar eru samkvæmt honum.
    Samningurinn tók gildi til bráðabirgða við undirskrift hans og mun öðlast gildi endanlega þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt.



Fylgiskjal.


Samningur milli Grænlands/Danmerkur og Íslands um


fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu.



1. gr.


    Grænlenskum nótaskipum, þ.e. nótaskipum sem skráð eru á Grænlandi og fullnægja skilyrðum grænlenskra fiskveiðilaga um eignaraðild, er heimilt, á loðnuvertíðinni er lýkur 30. apríl 1997, að veiða allt að 8.000 lestir af loðnu af loðnukvóta Íslands innan íslenskrar efnahagslögsögu. Heimild þessi er óháð þeim svæðatakmörkunum sem um getur í 8. gr. samnings milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen frá 29. júní 1994 (hér eftir nefndur loðnusamningurinn).
    Heimilt er að landa aflanum til vinnslu á Íslandi. Óheimilt er að vinna eða frysta aflann um borð og utan Íslands er einungis heimilt að landa aflanum til bræðslu.

2. gr.

    Íslenskum skipum er heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af loðnukvóta þeim sem Grænland fær í sinn hlut á loðnuvertíð þeirri sem hefst 1. júlí 1997.

3. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. loðnusamningsins um svæðatakmarkanir er íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af loðnukvóta Íslands í tilraunaskyni innan grænlenskrar fiskveiðilögsögu sunnan 64°30´N á loðnuvertíð þeirri sem hefst 1. júlí 1997.     Samkvæmt beiðni af hálfu Grænlands skal heimila líffræðingi að vera um borð við tilraunaveiðarnar.

4. gr.

    Að öðru leyti gilda um veiðarnar og stjórn þeirra ákvæði loðnusamningsins og reglur sem settar eru samkvæmt honum.

5. gr.

    Samningur þessi skal taka gildi til bráðabirgða við undirskrift hans og endanlega þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hefur verið endanlega fullnægt.

    Gjört í Nuuk 20. febrúar 1997 í fjórum eintökum, tveimur á dönsku og tveimur á íslensku.


Fyrir hönd Grænlands/Danmerkur,

Fyrir hönd Íslands,


Bent Buch.

Jóhann Sigurjónsson.