Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 377 . mál.


662. Tillaga til þingsályktunar



um stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði.

Flm.: Ágúst Einarsson, Lúðvík Bergvinsson, Svanfríður Jónasdóttir.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að skipa nefnd til að vinna að stefnumótun í menntunarmálum landbúnaðarins.
    Nefndina skipi fulltrúar þingflokka, sérhæfðir aðilar úr menntamálaráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti, fulltrúar úr sérskólum landbúnaðarins, m.a. skólastjórnendur, kennarar og nemendur, fulltrúar hagsmunasamtaka í landbúnaði og frá öðrum samtökum á vinnumarkaði, fulltrúar framhaldsskólastigsins og háskólastigsins og aðilar frá rannsóknastofnunum tengdum landbúnaði.
    Nefndin kanni sérstaklega hvernig skipulagi á sérhæfðri menntun í landbúnaði sé best komið fyrir innan skólakerfisins, kynni sér fyrirkomulag í öðrum löndum, skoði námsefni í grunnskólum og framhaldsskólum sem tengist landbúnaði, rannsaki menntunarstig í landbúnaði, athugi skipulag endurmenntunar, fjalli um hvernig sérskólar landbúnaðarins, eins og bændaskólarnir, Garðyrkjuskólinn og búvísindadeildin á Hvanneyri, eigi að tengjast öðru skólastarfi og skoði tengsl rannsókna í landbúnaði við skólastarf.

Greinargerð.


Inngangur.
    Menntun mun skipta mun meira máli á næstu áratugum en á þeim síðustu. Þjóðfélag okkar og nágrannalandanna hefur tekið stórstígum breytingum á undanförnum áratugum, ekki síst á sviði tækni, viðskipta og samskipta. Það er því mjög mikilvægt fyrir sérhverja atvinnugrein að endurmeta stöðu sína reglulega og vinna að stefnumótun þar sem meðal annars eru lögð drög að framtíðarsýn greinarinnar.
    Líklega hefur engin atvinnugrein breyst eins mikið á þessari öld hérlendis og landbúnaður. Ísland breyttist á örfáum áratugum úr hefðbundnu landbúnaðarsamfélagi í iðnvætt borgarasamfélag og gerðist sú þróun á skemmri tíma en víðast annars staðar. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að umræða hérlendis um landbúnaðarmál hefur oft einkennst af mjög skörpum skilum í skoðunum manna.
    Veruleg umskipti hafa orðið í umsvifum í landbúnaði í þjóðfélaginu. Í upphafi aldarinnar höfðu flestir landsmenn framfæri sitt af landbúnaði eða tengdum greinum. Nú sýna síðustu hagtölur að vinnuafl í landbúnaði er um það bil 5% af heildarvinnuafli landsmanna og hefur störfum í hefðbundnum landbúnaði fækkað mikið á undanförnum árum. Árið 1940, eða fyrir tæpum sextíu árum, voru 32% af vinnuafli landsmanna í landbúnaði.
    Hafa verður í huga að fjölmörg störf hafa skapast í kringum landbúnað, svo sem við verslun og viðskipti, auk þess sem nýjar atvinnugreinar hafa byggst upp sem tengjast annarri starfsemi í landbúnaði. Hér má nefna ferðaþjónustu, fiskeldi, landgræðslu og skógrækt, svo fátt eitt sé nefnt.
    Landbúnaður hefur breyst verulega á undanförnum árum og orðið sífellt fjölbreyttari. Sú staðreynd krefst þess að hugað sé vel að menntamálum vegna nýrra áherslna, t.d. margvíslegra möguleika í lífrænni ræktun, loðdýrarækt eða kornrækt.
    Hins vegar er mjög mikilvægt að möguleikar í landbúnaði séu ekki ofmetnir. Flutningsmenn telja að aukin áhersla á menntamál þýði betri líkur fyrir því að nýttir séu möguleikar sem fyrir hendi eru.
    Þessi þingsályktunartillaga fjallar um afmarkaðan þátt, þ.e. stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði. Flutningsmenn telja mjög mikilvægt fyrir atvinnugreinina að gera sér glögga grein fyrir þróun á þessu sviði, huga vel að skipulagi þannig að sem bestur árangur náist og að æskilegar breytingar næstu áratuga falli vel að öðrum þjóðfélagsbreytingum.

Sérskólar landbúnaðarins.
    Menntunarmál í landbúnaði tengjast fyrst og fremst ýmiss konar sérskólum, en fræðsla um landbúnað hefst þegar í grunnskólum. Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að skipuð sé nefnd til að vinna að þessari stefnumótun. Meðal verkefna nefndarinnar er að skoða það námsefni sem lagt er til grundvallar í fræðslu um landbúnaðarmál í grunnskólum og framhaldsskólum. Að mati flutningsmanna er mikilvægt að fræðsla um atvinnugreinar sé ljós og skýr strax í upphafi skólanáms, en útgáfa á kennsluefni á íslensku er mikilvægur þáttur á því sviði á öllum stigum menntunar.
    Sérnám í landbúnaði fer einkum fram í þremur skólum hérlendis, í bændaskólunum á Hólum og á Hvanneyri og í Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi, en einnig í búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri sem er eina kennslustofnunin á háskólastigi í landbúnaði hérlendis. Þessir skólar hafa samvinnu sín á milli og eitt af hlutverkum nefndarinnar er að kanna með hvaða hætti slík samvinna verði best skipulögð.
    Í Bændaskólanum að Hólum hefur þróast sérhæft nám, svo sem á sviði hrossaræktar og fiskeldis. Bændaskólinn á Hvanneyri býður einkum upp á almennt búfræðinám og Garðyrkjuskólinn í Hveragerði er sérhæfð menntastofnun á sviði garðyrkju. Sérstakt matsatriði er hvort gera eigi búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri formlega að sjálfstæðum skóla og/eða tengja hana öðrum skólum á háskólastigi.
    Þessir sérskólar landbúnaðarins heyra stjórnsýslulega undir landbúnaðarráðuneyti en ekki menntamálaráðuneyti. Hér er mikilvægt álitaefni sem nefndin verður að skoða. Langflestir skólar og þættir sem tengjast menntakerfi okkar eru stjórnsýslulega tengdir menntamálaráðuneytinu. Þó var sérstök starfsfræðsla í sjávarútvegi á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Þannig er það ekki einboðið að öll menntamál eigi að heyra undir menntamálaráðuneytið, en vissulega verður að skoða stjórnsýslulega stöðu skólakerfis landbúnaðarins.
    Vitaskuld kemur til greina að grunnmenntun í landbúnaði verði innan almennra framhaldsskóla í stað sérskóla eða í formi eins konar samstarfs sérskóla og framhaldsskóla og/eða sem sérstakar deildir innan framhaldsskóla. Sem dæmi um slíkt er Hótel- og veitingaskóli Íslands sem er deild í Menntaskólanum í Kópavogi. Það fyrirkomulag hefur reynst mjög vel.
    Eitt mikilvægasta atriðið varðandi menntun og framhaldsmenntun nemenda er að þeir geti auðveldlega tengst öðru námi, þ.e. að nemendur lendi ekki inn á blindgötu í námi sínu. Það er mjög mikilvægt, einmitt vegna stjórnsýslulegrar stöðu menntunar í landbúnaði, að nemendur geti haldið áfram námi innan almenna skólakerfisins þegar þeir hafa lokið afmörkuðu námi í málefnum tengdum landbúnaði.
    Fjölmargir þættir í menntamálum landbúnaðar geta aukið tekjur greinarinnar verulega, svo sem endurbætur í bútæknirannsóknum, líftækni, landnýtingu, orkunýtingu og jarðnýtingu. Aukin áhersla á menntun í matvælaiðnaði, gæðstjórnun og hagfræði mun leiða til framfara innan landbúnaðar.
    Nefndin mun m.a. kanna framhaldsnám á háskólstigi hérlendis, en styrkjakerfi Norðurlanda og Evrópusambandsins hefur opnað nýjar leiðir fyrir íslenska vísindamenn á sviði matvælarannsókna.

Endurmenntun.
    Kennsla og nám fer víðar fram innan landbúnaðarins en í hinum fyrrgreindu sérskólum. Þannig er starfsemi ráðunauta í leiðbeiningarþjónustu víðs vegar um landið, en mikil fræðsla og endurmenntun á sér stað fyrir tilstuðlan þeirra.
    Endurmenntun er nú orðinn einn mikilvægasti þáttur í menntun sérhverrar þjóðar og hún er umfangsmikill þáttur í starfi sérskólanna þriggja. Það sem nemendur læra í skóla nýtist þeim í fæstum tilfellum beint eftir nokkur ár í atvinnulífinu vegna hinna öru breytinga sem eiga sér stað. Sú staðreynd gerir nauðsynlega vel skipulagða og sérhæfða endurmenntun sem snýr bæði að fræðilegri undirstöðu, sem sífellt tekur breytingum, og nýjum lausnum á daglegum vandamálum atvinnugreinarinnar.
    Í þessu sambandi er athyglisvert að fleiri nemendur sækja nú endurmenntunarnámskeið Háskóla Íslands en eru í sjálfum skólanum. Þetta sýnir að endurmenntun, sem er byggð á frjálsu vali nemenda, er mjög mikilvæg í nútímaþjóðfélagi.
    Eitt af verkefnum nefndarinnar, sem skipuð verður ef þingsályktunartillagan verður samþykkt, er að fjalla um með hvaða hætti endurmenntun innan landbúnaðarins sé best skipulögð og hvernig auka megi áhuga á henni.

Starfsmenntun og æðri menntun.
    Mikilvægt er að skoða vandlega hvernig menntun og kennslu í landbúnaði er háttað í samanburði við iðnmenntun og/eða starfsmenntun í öðrum atvinnugreinum. Flutningsmönnum er ekki kunnugt um að nákvæm greining á stöðu menntunar í landbúnaði innan íslenska menntakerfisins hafi farið fram, en það er einmitt eitt af hlutverkum nefndarinnar.
    Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um starfsmenntun í atvinnulífinu og skipulag hennar en að mati flutningsmanna hefur sú umræða oft og tíðum farið fram hjá landbúnaðinum og hagsmunum hans.
    Æðri menntun innan landbúnaðarins er nokkuð mikil hér á landi miðað við margar aðrar atvinnugreinar. Þannig eru tiltölulega fleiri háskólamenntaðir einstaklingar starfandi í landbúnaði en í sjávarútvegi. Nemendur úr búvísindadeildinni hafa staðið sig vel í framhaldsnámi erlendis.
    Vel menntaðir einstaklingar í landbúnaðarfræðum eru víða í íslensku þjóðfélagi, bæði innan menntastofnana, rannsóknastofnana og samtökum tengdum landbúnaði. Ekki er óalgengt að innan landbúnaðarkerfisins starfi einstaklingar sem hafa lokið doktorsprófi í fræðum tengdum landbúnaði. Eitt af því sem nefndin þarf að rannsaka er menntunarstig í landbúnaði, m.a. í samanburði við aðrar starfsgreinar hérlendis og erlendis.
    Tengsl sérmenntunar í landbúnaði við aðra skóla eru vitaskuld mjög mikilvæg og á það ekki hvað síst við búvísindadeildina á Hvanneyri, sem starfar á háskólastigi, og samstarf hennar við aðra skóla á háskólastigi hérlendis, m.a. við Háskólann á Akureyri. Að mati flutningsmanna er mjög brýnt að þessi tengsl séu efld, þar með talið við Háskóla Íslands, sem er miðstöð grunnrannsókna á háskólastigi hérlendis.
    Til álita kemur að skipuleggja háskólanám í landbúnaðarfræðum þannig að nemendur stundi nám í Háskóla Íslands og í búvísindadeildinni að Hvanneyri. Búvísindanámið yrði þannig hluti af samræmdri háskólamenntun.
    Marka þarf stefnu í háskólakennslu í landbúnaði hérlendis, þ.e. hvort áhersla verði einkum lögð á hagkvæma þætti til skemmri tíma eða grunnrannsóknir til lengri tíma. Landbúnaður er vitaskuld á sviði matvælafræði og virk þátttaka landbúnaðarins í þeirri umræðu sem nú á sér stað um kennslu og rannsóknir í matvælagreinum er mjög mikil-væg.
    Eitt af vandamálum íslensks menntakerfis er skortur á samráði milli skóla á sama eða mismunandi skólastigum. Fámenn þjóð hefur ekki efni á því að ekki sé gætt nauðsynlegs samráðs í þeim stofnunum sem settar eru á laggirnar til að sinna sameiginlegum verkefnum.

Rannsóknir.
    Einn mikilvægasti þáttur í menntamálum landbúnaðarins eru tengsl skóla, atvinnulífs og rannsókna. Nú eru starfandi hérlendis margar rannsóknastöðvar á sviði landbúnaðar. Þar má einkum nefna Rannsóknastofnun landbúnaðarins og rannsóknastarfsemi sem fer fram hjá Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Veiðimálastofnun og fleiri aðilum.
    Að mati flutningsmanna er mikil gróska í rannsóknum á sviði landbúnaðar og tengsl eru nokkur milli einstakra rannsóknastöðva. Það er þó nauðsynlegt að huga enn frekar að samhæfingu í rannsóknum, ekki síst í ljósi þess að takmarkað fjármagn er til ráðstöfunar í þennan málaflokk.
    Tengsl rannsókna við háskólanám eru vitaskuld mjög mikilvæg en því hefur stundum verið varpað fram, hvort þær rannsóknir sem nú eru stundaðar innan Rannsóknastofnunar landbúnaðarins ættu betur heima í umsjón búvísindadeildarinnar á Hvanneyri. Það er ekki víst að svo sé, en a.m.k. er náið formlegt og óformlegt samráð mjög mikilvægt. Rannsóknir innan bútæknideildar búvísindadeildar nýtast nemendum og bændum mjög vel og eru gott dæmi um atvinnulífstengdar rannsóknir sem skila mikilli arðsemi.
    Hægt er að færa mjög sterk rök fyrir því að aukið fjármagn til rannsókna, einnig í landbúnaði, muni skila sér mjög fljótlega aftur í auknum tekjum þjóðarbúsins.
    Marga þætti þarf að skoða sem tengjast menntamálum í landbúnaði. Þannig hafa verið birtar tölur um að framleiðni í mörgum vinnslugreinum landbúnaðarins hefur ekki aukist og jafnvel minnkað á undanförnum árum. Þetta krefst vitaskuld endurmats og endurskipulagningar víða þar sem aukin menntun getur komið að verulegu gagni.
    Hins vegar er ljóst er að margir vel menntaðir starfsmenn starfa innan landbúnaðarkerfisins. Fagmennska í úrvinnslu fjölmargra matvælaafurða er glöggt vitni um það. Benda má á ostaframleiðslu hérlendis, en íslenskir ostagerðarmenn hafa margoft fengið verðlaun erlendis fyrir framleiðslu sína. Sama á við um ýmiss konar matreiðslu úr íslenskum afurðum. Hún hefur hlotið lof erlendis sem er vitaskuld góður mælikvarði á getu atvinnugreinarinnar.
    Athyglisvert er að hinir margverðlaunuðu íslensku ostagerðamenn eru nær allir menntaðir erlendis, langflestir í Danmörku. Danir leggja mikla áherslu á menntun í landbúnaði og uppskera eftir því.
    Á menntun hvíla mjög margir þættir landbúnaðar, t.d. kynbætur sem geta aukið tekjur verulega hvort sem um er að ræða jurtir eða dýr. Einnig skiptir góð þekking á sjúkdómum mjög miklu máli en íslenskur landbúnaður er mjög háður ytri aðstæðum hvað þann þátt varðar.
    Hafa ber í huga að þótt hægt sé að sjá ýmsa möguleika í íslenskum landbúnaði, byggða á góðri, sérhæfðri menntun, þá er samkeppni mjög mikil á heimsmarkaði með landbúnaðarafurðir. Fyrir okkur Íslendinga skiptir því meginmáli að laga okkur að þeim aðstæðum sem náttúra landsins skapar.

Breyttar áherslur á alþjóðavettvangi.
    Heimurinn er sífellt að minnka í þeim skilningi að viðskipti aukast og sífellt stærri hluti hagvaxtar er vegna aukinnar verslunar milli landa. Alþjóðlegir samningar sem gerðir hafa verið á undanförnum árum miða að því að minnka hindranir í viðskiptum og auka frjálsræði.
    Íslendingar eru aðilar að þessari þróun, m.a. með samþykkt GATT-samningsins og vænta má fleiri skrefa á þessu sviði á alþjóðlegum vettvangi á næstu árum. Þetta breytta umhverfi skapar meiri samkeppni við íslenskan landbúnað erlendis frá, en er jafnframt tækifæri fyrir íslenskan landbúnað til að hasla sér völl erlendis. Heimsmarkaður er hins vegar erfiður viðureignar og þá gildir miklu að menn komi vel undirbúnir og vel menntaðir til leiks.
    Möguleikar íslensks landbúnaðar eru einnig á sviðum sem fengu ekki mikla athygli fyrir nokkrum árum. Benda má á garðyrkjurækt, sem er vaxandi atvinnugrein, og ferðaþjónustu. Landbúnaðurinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í umhverfismálum, m.a. við mótun stefnu í þeim málaflokki, sem hefur hagrænt gildi auk þess að bæta mannlíf.
    Ein af meginbreytingum síðustu ára er aukin vitund almennings um umhverfi sitt. Vaxandi máli skiptir í samskiptum fólks í þéttbýli og dreifbýli að hugað sé að þáttum eins og gróðurvernd, jarðvegseyðingu, stóriðju, hreinni náttúru, mengun og umgengni í óbyggðum. Þannig eru fjölmörg álitamál sem skipta máli gagnvart stöðu landbúnaðar í þjóðlífinu. Það er skoðun flutningsmanna að aukin menntun í landbúnaði og annars staðar auðveldi samskipti milli atvinnugreina og einstaklinga.

Álit bænda.
    Nú er starfandi nefnd sem landbúnaðarráðherra skipaði til að vinna að stefnumótun um framtíðarverkefni Bændaskólans á Hvanneyri. Sú nefnd hefur unnið gott starf, en skýrsla hennar er ekki enn komin út. Ekki er að efa að niðurstöður hennar verða mikilvægur þáttur í þeirri stefnumótun sem þessi þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir. Tillagan nær yfir mun stærra svið en nefnd landbúnaðarráðherra var falið.
    Nefnd ráðherra fól Gallup að gera könnun meðal bænda um marga þætti sem eru mikilvægir fyrir stefnumótun í menntamálum landbúnaðarins. Úrtakið var mjög stórt og m.a. kom fram að flestir bændur telja að almenn menntun skipti einna mestu máli í framtíðinni, að endurmenntun sé mjög mikilvæg, að leiðbeiningarþjónusta ráðunauta ætti að vera áfram hjá Bændasamtökunum en ekki flytjast til Bændaskólans á Hvanneyri, að stofna ætti sjálfstæðan bændaháskóla og að grunnfræðsla í búfræðum ætti frekar að vera í sérstökum bændaskólum en í almennum framhaldsskólum.
    Athyglisvert er að í könnuninni kemur fram að 23% bænda telja að búskap verði hætt á jörð þeirra þegar þeir láta af búskap. Þetta á einkum við um bændur sem eru komnir á efri ár, eru ekki með mikla menntun og stunda sauðfjárbúskap. Þetta staðfestir þá búsetubreytingu sem átt hefur sér stað um árabil en meðalaldur bænda er nú um 50 ár.
    Heildarverðmæti í hefðbundum greinum landbúnaðarframleiðslu standa að mestu leyti í stað og fækkun búa í þeim þýðir betri afkomu þeirra sem eftir eru. Þetta sýnir mikilvægi þess að byggt sé á atvinnu í öðrum greinum en hefðbundnum sauðfjárbúskap og mjólkurframleiðslu, atvinnu sem fellur vel að búsetu í sveitum í nálægð við öfluga þéttbýliskjarna.

Lokaorð.

    Mikilvægt er að íslenskur landbúnaður skynji stöðu sína sem hluti af heild og að hagkerfið byggist æ meira á almennum reglum á kostnað sérreglna. Þessi breyting hefur átt sér stað hér á landi eins og annars staðar á undanförnum árum.
    Sérstaða landbúnaðar hérlendis hefur m.a. markast af því að hann hefur búið að hluta til við lokað hagkerfi og lokað stjórnsýslukerfi án mjög mikilla tengsla við aðra þætti. Menntunarmálin hafa verið undir landbúnaðarráðuneyti, peninga- og lánamál hafa verið í sérstökum stofnunum og stjórnsýsluákvarðanir hafa flestar verið teknar einungis í samvinnu við þá aðila sem gæta hagsmuna þeirra sem starfa í greininni sjálfri.
    Þetta er í sjálfu sér ekkert ósvipuð staða og gilt hefur fyrir aðrar atvinnugreinar hérlendis en þó hafa orðið breytingar á þessu sviði á undanförnum árum, einkum í sjávarútvegi. Það er brýnt fyrir íslenskan landbúnað að taka virkan þátt í aðlögun atvinnugreinarinnar að almennum reglum í stað sérreglna.
    Samkvæmt þingsályktunartillögunni skal nefnd sú sem vinna á að stefnumótun í landbúnaði vera skipuð fulltrúum þingflokka, sérhæfðum aðilum úr menntamálaráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti, fulltrúum úr sérskólum landbúnaðarins, og er þar átt við skólastjórnendur, kennara og nemendur, fulltrúum frá hagsmunasamtökum í landbúnaði og öðrum samtökum á vinnumarkaði, fulltrúum skólakerfisins, þ.e. bæði framhaldsskóla og háskóla, og aðilum frá rannsóknastofnunum tengdum landbúnaði.
    Það er ljóst af þessari upptalningu að flutningsmenn gera ráð fyrir vandaðri nefndarskipun til að vinna að þessu málefni. Vinna við stefnumótun felur í sér að mörkuð er framtíðarsýn sem nær t.d. frá tíu árum til þrjátíu ára. Hér er því ekki verið að skoða hlutina til fárra ára heldur verið að búa til umgjörð á sviði menntunar í landbúnaði sem gæti gagnast atvinnugreininni og þjóðlífinu öllu til langs tíma.
    Það er mat flutningsmanna að margvísleg tækifæri séu á þessu sviði, en þau eru fyrst og fremst háð því að hugsað sé til langs tíma og byggt á vandaðri menntun. Samþykkt þessarar þingsályktunartillögu á að stuðla að því.