Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 280 . mál.


669. Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um eftirgjöf afnotagjalda Ríkisútvarpsins til aldraðra og öryrkja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margir elli- og örorkulífeyrisþegar misstu undanþágu frá greiðslu afnotagjalda Ríkisútvarpsins árið 1995?
    Hversu margir úr sama hópi misstu undanþáguna árið 1996?
    Hvaða breytingum er gert ráð fyrir árið 1997 og hvers vegna?
    Hverjar verða breytingar á útgjöldum Ríkisútvarpsins eða ríkissjóðs á þessu ári samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum?

    Ákvörðun um eftirgjöf afnotagjalda Ríkisútvarpsins til aldraðra og öryrkja er tekin af Ríkisútvarpinu sjálfu, ekki Tryggingastofnun ríkisins, en sú ákvörðun byggist væntanlega á 2. mgr. 24. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985, sem bætt var við þá grein með 1. gr. laga um breytingu á þeim lögum, nr. 40/1986.
    Annað mál er að Tryggingastofnun ríkisins veitir Ríkisútvarpinu upplýsingar um það hverjir eru á lífeyrisuppbótum hjá stofnuninni á hverjum tíma, en það er alfarið mál Ríkisútvarpsins hvernig þær upplýsingar eru notaðar í samræmi við fyrrgreind lög. Umbeðnar upplýsingar ættu því að liggja hjá Ríkisútvarpinu, en sú stofnun heyrir undir menntamálaráðherra.
    Í 1. gr. laga nr. 40/1986, um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, segir: „Í reglugerð má ákveða að þeir, sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri skv. 19. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971 [nú 17. gr. 117/1993], með síðari breytingum, verði undanþegnir afnotagjöldum.“
    Í reglugerð menntamálaráðuneytis nr. 357/1986, um Ríkisútvarpið, er framangreindri heimild útvarpslaganna ekki beitt að fullu heldur er hún þrengd eins og segir í 7. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar: „Veita skal þeim elli- og örorkulífeyrisþega, sem býr einn og fær uppbót á lífeyri sinn samkvæmt reglugerð nr. 351/1977, um tekjutryggingu, heimilsuppbót og heimildarhækkanir samkvæmt 19. gr laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, undanþágu frá greiðslu útvarpsgjalds . . .
    Í framangreindri reglugerð nr. 351/1977, um tekjutryggingu, heimilisuppbót og heimildarhækkanir, svo og í 19. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, er algjörlega skýrt hvað er „uppbót á lífeyri (tekjutrygging)“, hvað er „heimilisuppbót“ og síðan hvað er „frekari uppbót (heimildaruppbót)“.
    Þar sem útvarpslög og reglugerð um Ríkisútvarpið nota sama orðalagið og 19. gr. almannatryggingalaga, nr. 67/1971, þ.e. „uppbót á lífeyri“, er hér tvímælalaust átt við tekjutryggingu.
    Þar sem tekjutryggingarþegum hefur í heild farið fjölgandi á undanförnum árum má ætla að fjöldi elli- og örorkulífeyrisþega, sem misst hafa undanþágu frá greiðslu afnotagjalda Ríkisútvarpsins, sé óverulegur, en sá missir verður ekki grundvallaður á breytingum á greiðslu „frekari uppbótar“ sem er sérstakt hugtak og heyrir nú undir lög um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, meðan fjallað er um „uppbót á lífeyri“ eftir sem áður í 17. gr.
laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, sem er um tekjutryggingu.