Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 387 . mál.


679. Tillaga til þingsályktunarum rannsóknir og sjómælingar innan efnahagslögsögunnar.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson, Árni R. Árnason,


Vilhjálmur Egilsson, Egill Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson,


Kristján Pálsson, Árni M. Mathiesen.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að framkvæmdar verði rannsóknir og sjómælingar á hafsvæðinu innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar fyrir sunnan landgrunn Íslands frá Reykjaneshrygg að Færeyjahrygg með tilliti til nýtingar auðlindarinnar til fiskveiða o.fl.

Greinargerð.


    Því hefur verið haldið fram að auðlindin innan efnahagslögsögunnar sé fullnýtt, en ekki hefur verið hægt að færa sönnur á það þar sem djúpin umhverfis landið, þar með talið hafsvæðið fyrir Suðurlandi, utan landgrunns, milli Reykjaneshryggs og Færeyjahryggs, eru lítt könnuð. Ef skoðuð eru sjókort af suðurdjúpi má sjá að tugir sjómílna eru á milli dýpistalna og má af því draga þá ályktun að hafsvæðið hafi ekki verið skipulega mælt eða rannsakað. Mikilvægt er nú, þegar ásókn í hefðbundnar fisktegundir er meiri en fiskstofnarnir þola og afkastamikil fiskiskip eru illa nýtt, að íslenska ríkið hafi frumkvæði að rannsóknum á djúpunum með það fyrir augum að finna ný fiskimið og nýtilega fiskstofna þar sem ekki er við því að búast að einstök útgerðarfyrirtæki hafi bolmagn til að leggja í slíkan kostnað.
    Við erum enn að upplifa það að útlendingar eru að finna fiskimið innan og við okkar efnahagslögsögu, sbr. „Franshól“ þar sem Íslendingum fannst fjarstæða að nokkur fiskur væri, en aflaverðmæti af Franshól voru hundruð milljóna króna og líklegt má telja að fleiri sambærileg veiðisvæði muni finnast við frekari rannsóknir. Til slíkra rannsókna þarf gott sérútbúið skip, ef vel á til að takast, og nauðsynlegt er að slíkt skip nýtist einnig við eftirlits- og björgunarstörf.
    Við hönnun á nýju varðskipi fyrir Landhelgisgæsluna er æskilegt að tekið verði tillit til framangreinds verkefnis þar sem skip til þess verður að vera sérstaklega útbúið tækjum o.fl. Sem dæmi má nefna að þegar Danir hönnuðu nýju varðskipin sín, svokallaðan „THETIS class“, var höfð í huga olíuleit Dana við Austur-Grænland og hafa þau skip m.a. stundað rannsóknir á því svæði auk björgunar- og eftirlitsstarfa.