Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 397 . mál.


691. Fyrirspurn



til umhverfisráðherra um reglugerðir á grundvelli laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur.

Frá Hjörleifi Guttormssyni.



    Hvaða reglugerðir hafa verið settar á grundvelli 7. gr. laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur?
    Útgefnar reglugerðir samkvæmt þeirri grein óskast birtar með svarinu.


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Reglugerðir, sem setja skal skv. 7. gr. laganna, eru tíundaðar í greininni en hún er svohljóðandi:
    „Umhverfisráðherra setur í reglugerðir á grundvelli laga þessara, að fenginni umsögn ráðgjafanefndar, sbr. 6. gr., m.a. nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirtalin atriði:
    flokkun erfðabreyttra lífvera í áhættuflokka;
    einangrunarráðstafanir í samræmi við flokkun erfðabreyttra lífvera í áhættuflokka;
    ákvæði, í samráði við félagsmálaráðherra, um aðbúnað starfsfólks, aðstöðu, búnað og tæki sem notuð eru við starfsemi með erfðabreyttar lífverur;
    greinargerð um hugsanlegar afleiðingar;
    skrár sem skylt er að halda vegna notkunar á erfðabreyttum lífverum;
    skilyrði fyrir sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera;
    flutning erfðabreyttra lífvera og vöru sem inniheldur þær;
    markaðssetningu erfðabreyttra lífvera og vöru sem inniheldur þær;
    mengunarvarnir, geymslu, losun og meðferð úrgangsefna;
    rannsóknarsvæði;
    efni umsókna og meðferð þeirra, tilkynningar til lögbærra yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu og leyfisveitingar samkvæmt lögum þessum;
    merkingar og vöruumbúðir;
    neyðaráætlanir um slysavarnir;
    fræðslu fyrir almenning;
    ábyrgðartryggingar;
    önnur atriði sem nauðsynlegt er að setja reglur um í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að, viðbætur eða breytingar á þeim.“