Ferill 401. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 401 . mál.


697. Beiðni um skýrslu



frá menntamálaráðherra um samkeppnisstöðu frjálsra leikhópa gagnvart opinberu leikhúsunum.

Frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Árna M. Mathiesen, Einari K. Guðfinnssyni,


Pétri H. Blöndal, Vilhjálmi Egilssyni, Árna R. Árnasyni,


Guðjóni Guðmundssyni, Össuri Skarphéðinssyni, Gunnlaugi M. Sigmundssyni,


Sólveigu Pétursdóttur, Kristni H. Gunnarssyni, Arnbjörgu Sveinsdóttur,


Kristínu Ástgeirsdóttur og Láru Margéti Ragnarsdóttur.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að menntamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um samkeppnisstöðu frjálsra leikhópa gagnvart opinberum leikhúsum. Í skýrslunni komi fram:
    Fjárframlög á árunum 1995 og 1996, ásamt áætluðum framlögum ríkis og sveitarfélaga 1997 til leiklistarstarfsemi í landinu, sundurliðað á leikhús og leikhópa.
    Samanburður á skattlagningu milli þeirra aðila sem stunda leiklistarstarfsemi í landinu.
    Ábyrgð hins opinbera á rekstri og lánum til aðila sem stunda leiklistarstarfsemi í landinu.
    Kostnaður opinberra leikhúsa sem ekki er færður til gjalda í reikningum þeirra heldur gjaldfærður annars staðar af hinu opinbera ef einhver er. Dæmi um slíkan kostnað gæti verið: Ýmiss konar stoðþjónusta, svo sem bókhald, endurskoðun og launavinnsla, uppbætur á lífeyri, kostnaður vegna fastafjármuna, eins og afskriftir og markaðshúsaleiga, og virðisaukaskattur á eigin þjónustu, t.d. ræstingar og húsvörslu.
    Önnur mismunun ef einhver er.
    Aðsóknartölur leikhúsa árin 1995 og 1996, áætlun um aðsókn 1997 og aðsóknartölur það sem af er leikárinu 1996–97.
    Kostnaður hins opinbera á hvern miða.

Greinargerð.


    Mikil umræða hefur verið á undanförnum árum, ekki að ástæðulausu, um jafnræði á milli opinberra aðila og einkaaðila. Hefur sú umræða að mestu leyti snúist um rekstrarumhverfi fyrirtækja í hefðbundnum atvinnugreinum. Í þeirri umræðu hefur mikið verið vitnað í hina svokölluðu jafnræðisreglu en kjarni hennar er að aðilum sem eins er ástatt um sé ekki mismunað.
    Frjálsir leikhópar hafa undanfarið verið mjög áberandi í menningarlífi landsmanna og fyrir stuttu fékk einn slíkur menningarverðlaun DV fyrir framgöngu sína. Framganga þeirra hefur stóraukið leikhúslíf og hefur í allan vetur verið hægt að velja úr rúmlega tuttugu, og allt upp í þrjátíu leiksýningum, á höfuðborgarsvæðinu og leikhópar víðsvegar um landið hafa einnig sýnt mikinn kraft og frumkvæði. Hér er um mikinn vaxtarbrodd að ræða í atvinnulífinu og er ungt fólk áberandi á þessu sviði.

    Sökum þess að hér er ekki um hefðbundna atvinnustarfsemi að ræða þrátt fyrir að margir hafi af henni lífsafkomu sína þá hefur lítil umræða verið um samkeppnisstöðu þeirra sem hafa verið að hasla sér völl á þessu sviði. Skemmtiiðnaður er ein öflugasta atvinnugreinin í mörgum löndum heims og án efa sú sem er í hvað hröðustum vexti. Ísland er engin undantekning þar á og mikilvægt að hið opinbera standi ekki í vegi fyrir þeirri þróun.