Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 359 . mál.


699. Svar



kirkjumálaráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um stöðu jafnréttismála innan þjóðkirkjunnar.

    Hvaða nefndir hafa verið skipaðar um málefni kirkjunnar sl. þrjú ár og hvernig hafa þær verið skipaðar? Hverjir hafa setið í viðkomandi nefndum og hverjir hafa verið formenn þeirra? Hvert er hlutfall kvenna og karla:
         
    
    í hverri nefnd,
         
    
    meðal formanna nefndanna?

    Í nefndum á vegum þjóðkirkjunnar, skipuðum af yfirstjórn þjóðkirkjunnar, er fjöldi nefndarmanna alls 135, þar af eru 36 konur eða 26,6%.
    Formenn þeirra nefnda eru alls 32 og þar af eru sjö konur eða 21,8%.

    Hvert er hlutfall kynja:
         
    
    meðal presta þjóðkirkjunnar,
         
    
    aðstoðarpresta,
         
    
    sérþjónustupresta,
         
    
    í Prestafélagi Íslands,
         
    
    í stjórn prestafélagsins,
         
    
    á kirkjuþingi,
         
    
    meðal prófasta,
         
    
    sóknarbarna þjóðkirkjunnar,
         
    
    sóknarnefndamanna,
         
    
    formanna sóknarnefnda?

    a.     Sóknarprestar eru alls 98, þar af eru konur 17 eða 17,3%.
    b.     Aðstoðarprestar eru 12, þar af eru fjórar konur eða 22,3%.
    c.     Sérþjónustuprestar eru alls 18, þar af eru konur fjórar eða 22,2%.
    d.     Í Prestafélagi Ísland eru alls 136 prestar, þar af 20 konur eða 14,7%.
    e.     Í stjórn Prestafélags Íslands eru fimm í aðalstjórn, allt karlar, og tveir í varastjórn, þar af ein kona eða 14,2%.
    f.     Á kirkjuþingi eiga sæti 21 fulltrúi, þar af þrjár konur eða 14,2%.
    g.     Prófastar eru 16 talsins, þar af er ein kona eða 6,3%.
    h.         Innan þjóðkirkjunnar eru 244.060 manns, þar af eru karlar 122.245 og konur 121.815 eða 49,9%.
    i.     Heildarfjöldi í sóknarnefndum er 1.280, karlar 728 og konur 552 eða 43%.
    j.     Formenn sóknarnefnda eru samtals 284. Þar af eru karlar 188 og konur 96 eða u.þ.b. 34%.

    Hyggst kirkjumálaráðherra beita sér fyrir því að konur fái aðild að kristnihátíðarnefnd? Ef já, þá hvenær? Ef nei, hvers vegna ekki?
    Framangreind nefnd var skipuð á vegum forsætisráðuneytisins. Samkvæmt upplýsingum þaðan eru ekki ráðgerðar breytingar á skipan nefndarinnar. Þar sem tilteknir embættismenn eiga sæti í nefndinni stöðu sinnar vegna ræðst kynferðið af því hverjir gegna þeim stöðum á hverjum tíma. Í upphafi voru konur í meiri hluta í nefndinni þótt síðan hafi orðið veruleg breyting á.
    
    Hefur þjóðkirkjan sett sér jafnréttisáætlun? Ef svo er, hvenær var hún sett og hver eru helstu markmið hennar?
    Eins og stendur hefur jafnréttisáætlun ekki verið sett. Í tillögum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna er stefnt að því að heildarþátttaka kvenna í nefndum og ráðum á vegum þjóðkirkjunnar verði 30% í lok gildistíma áætlunarinnar, og verið er að leggja grunn að gerð áætlunar hjá þjóðkirkjunni út frá þessari stefnumörkun.

    Hefur þjóðkirkjan komið sér upp skipulögðum farvegi til að takast á við kvartanir um kynferðislega áreitni?
    Nei. Í þessu sambandi skal þó bent á 11. gr. frumvarps til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem er nú til meðferðar á Alþingi, en þar er kveðið á um úrskurðarnefnd sem skal fjalla um kirkjuaga og lausn ágreiningsmála á kirkjulegum vettvangi. Í 12. gr. er kveðið á um áfrýjunarnefnd sem skjóta má niðurstöðum úrskurðarnefndar til. Verði frumvarpið að lögum mun verða lögfest leið til að koma að kvörtunum vegna siðferðis- og agabrota og fá úrlausn þeirra mála á kirkjulegum vettvangi.

    Hvaða stöðu og stuðnings nýtur kvennakirkjan innan þjóðkirkjunnar?
    Kvennakirkjan er frjáls samtök án tengsla við yfirstjórn kirkjunnar.