Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 312 . mál.


710. Svar


umhverfisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um ástand flórgoðastofnsins.

    Á vegum stofnana umhverfisráðuneytisins hafa verið í gangi tvíþættar athuganir á útbreiðslu og ástandi flórgoðastofnsins. Annars vegar hefur Náttúrufræðistofnun Íslands stundað rannsóknir og tekið saman upplýsingar um dreifingu og fjölda flórgoða á landinu í heild. Hins vegar hefur Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn fylgst með fjölda og dreifingu flórgoða á og við Mývatn í rúmlega tuttugu ár.
    Athugun á flórgoðastofninum á árunum 1990–92 benti til þess að einungis um 300 pör væru í landinu í heild. Í kjölfar þessarar athugunar fól umhverfisráðuneytið Náttúrufræðistofnun Íslands að kanna ítarlegar stöðu stofnsins í landinu og gera tillögur um verndaraðgerðir. Jafnframt voru rannsóknir á flórgoðastofninum á Mývatni auknar vegna tengsla á milli dreifingar flórgoða í ætisleit á Ytriflóa í Mývatni og kísilgúrdælingar úr vatninu. Ráðuneytið taldi mikilvægt að fylgjast með þessu sambandi þar sem 60–70% af stofninum heldur sig við Mývatn.
    Umhverfisráðuneytið leitað til þessara tveggja stofnana ráðuneytisins og fylgja svör þeirra hér á eftir, annars vegar eru svör Náttúrufræðistofnunar Íslands við spurningum sem settar eru fram í fyrirspurninni og hins vegar er greinargerð frá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn.
    
    Hvaða upplýsingar liggja fyrir um þróun stofnstærðar flórgoða?
    A. Á árunum 1990–92 var í fyrsta sinn gerð heildarúttekt á íslenska flórgoðastofninum og fólst hún í talningu fugla á öllum þekktum varpstöðum. Talningin var gerð að frumkvæði Dr. Ólafs K. Nielsen og naut hann aðstoðar liðsmanna Fuglaverndarfélags Íslands og nemenda og kennara við líffræðiskor Háskóla Íslands. Í kjölfar þessarar úttektar fékkst í fyrsta sinn öruggt mat á stofnstærð tegundarinnar hér á landi. Í ljós kom að flórgoðum hafði fækkað mikið í öllum landshlutum en alls reyndist varpstofninn um 300 pör. Árið 1975 taldi Dr. Arnþór Garðarsson að íslenski flórgoðastofninn væri um 500 pör. Sú tala byggðist fyrst og fremst á góðu stofnmati frá Mývatni en Arnþór taldi að þar væru heimkynni um helmings stofnsins.
    B. Auk heildartalningar hafa fuglar verið taldir stopult á einstökum varpstöðum. Frá fáeinum stöðum eru þó til meira eða minna samfelldar talningar sem ná til margra ára. Til dæmis eru til upplýsingar um ástand flórgoðastofnsins á Mývatni allt frá 1958, þar af samfellt frá 1975, og frá Ástjörn við Hafnarfjörð síðan 1955. Samkvæmt stofnvísitölum sem byggðar eru á árvissum talningum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn hefur flórgoðum fjölgað við Mývatn á allra síðustu árum, eftir samfellda og marktæka fækkun 1975–90. Fyrrgreindar talningar á Mývatni benda jafnframt til mikillar fækkunar flórgoðahreiðra við Ytriflóa á síðustu 20 árum. Brýnt er að fylgjast betur með fjölda varppara við Mývatn, t.d. með árvissum talningum á völdum svæðum við vatnið.
    C. Upplýsingar frá fuglaskoðurum, fuglafróðum heimamönnum o.fl. veita vísbendingar um hvar flórgoðar urpu áður fyrr og hversu algengir þeir voru og gefa grófa mynd af stofnbreytingum. Þessi gögn ná í flestum tilvikum aðeins nokkra áratugi aftur í tímann en sums staðar allt að 60–70 ár. Ofangreindar upplýsingar benda eindregið til mikillar fækkunar flórgoða í öllum landshlutum.
    D. Á vegum Náttúrufræðistofnunar hefur flórgoða verið leitað í Skagafirði og víðar til að meta hvort útbreiðslutölur eru of- eða vanmetnar á svæðum þar sem erfitt getur verið að finna fuglinn. Nú er verið að vinna út þessum upplýsingum í tengslum við gerð verndaráætlunar fyrir flórgoða (sjá síðar).

    Hvar á landinu er hann nú að finna?
    Í byrjun þessarar aldar urpu flórgoðar á láglendi um land allt, en voru þó afar strjálir á Vestfjörðum og Austfjörðum. Um 90% af flórgoðastofninum verpa nú á Norður- og Austurlandi, þar af eru um 2/3 hlutar stofnsins við Mývatn. Talsvert varp er í Skagafirði, við Víkingavatn í Kelduhverfi og á Héraði (tugir para á hverju svæði). Annars er flórgoðinn afar strjáll varpfugl og verpa nú einungis um 20–30 pör á öllu svæðinu frá Héraði suður, vestur og norður um til Skagafjarðar. Á meðfylgjandi korti er sýnd útbreiðsla tegundarinnar skv. 10x10 km reitakerfi. Gerður er greinarmunur á þeim stöðum þar sem flórgoði verpur í dag (fylltir hringir) og þar sem hann hefur hætt varpi (opnir hringir). Tekið skal skýrt fram að þekking á fyrri útbreiðslu flórgoðans er brotakennd og hefur hann án efa verið mun útbreiddari en kortið gefur til kynna.
Graphic file Blank.Blank with height 295 p and width 395 p Center aligned
    Hvaða upplýsingar liggja fyrir um þróun stofnsins á Suðurlandi?
    Á fyrri hluta þessarar aldar var flórgoði talinn algengur varpfugl á Suðurlandsundirlendi, allt frá Ölfusi austur í Landbrot. Stofnstærð flórgoðans á Suðurlandi á þeim tíma er óþekkt en hefur að öllum líkindum verið mörg hundruð pör í byrjun þessarar aldar. Ekki er vitað hvenær flórgoða fór að fækka á Suðurlandi en hann var orðinn sjaldgæfur varpfugl þar um 1960. Fækkunin hefur haldið áfram og nú verpa einungis 5–10 pör á öllu þessu svæði. Eini þekkti varpstaður flórgoðans frá Hreppum í Árnessýslu að Borgarfirði er við Ástjörn sunnan Hafnarfjarðar. Þar verpa 4–5 pör árlega.

    Hverjar telja sérfræðingar ráðuneytisins vera helstu skýringar á fækkun tegundarinnar?
    Skýringar á fækkun flórgoðans hér á landi eru ekki þekktar með vissu en sterkar vísbendingar eru um að framræsla og minkur hafi átt þar stærstan hlut að máli. Nám kísilgúrs í Mývatni, netaveiði og fleiri atriði koma einnig við sögu.
     Framræsla hófst í stórum stíl upp úr 1940. Hún hefur gjörbreytt lífsskilyrðum flórgoðans víða um land, einkum þó á Suðurlandsundirlendi og í Borgarfirði. Margir fyrrverandi varpstaðir flórgoðans hafa verið eyðilagðir með framræslu, víðáttumikil votlendissvæði eru nú þurrlendi og tjarnir verið skertar með því að „hleypa“ úr þeim eða þær verið mengaðar með því veita í þær vatni úr framræsluskurðum. Það getur varla talist tilviljun að flórgoði heldur enn velli í þeim héruðum þar sem hvað mest er eftir af óskertu votlendi (í Mývatnssveit, Skagafirði og Héraði) en er nánast útdauður á Suðurlandi þar sem búið er að raska yfir 90% votlendis með framræslu. Sömu sögu má reyndar segja frá Vesturlandi.
    Á svipuðum tíma og framræsla hófst af fullum þunga fór minkur að breiðast um landið. Þessir tveir þættir gjörbreyttu íslensku votlendi og lífsskilyrðum fugla á næstu 30 árum. Eftir því sem þrengt var að flórgoðum með framræslu hafa afföll á flórgoðum vegna minks sennilega aukist. Vitað er að minkur stendur flórgoðum fyrir þrifum á nokkrum stöðum, minkdrepnir fuglar hafa fundist og varp misfarist ár eftir ár. Þó skal tekið fram að ekkert bendir til þess að minkur sé flórgoða sérstaklega skeinuhættur í Mývatnssveit, enda hefur tekist að halda mink þar í skefjum. Þá fækkaði flórgoða á Sléttu fyrir daga minks og framræslu.
    Aðalsvæði flórgoðans við Mývatn er við Ytriflóa en þar hefur kísilgúr verið dælt úr botni vatnsins um 30 ára skeið. Flórgoðahreiðrum við Ytriflóa hefur fækkaði mikið á þessum tíma (77%) og hlutfallslega miklu meira en annars staðar við Mývatn (talningar Jon Feldså 1970–75 og Ólafs K. Nielsen 1990). Dreifing flórgoða í fæðisleit á Ytriflóa var kortlögð nákvæmlega árin 1993, 1995 og 1996 á vegum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Þær athuganir sýndu ótvírætt að flórgoðar halda sig mest á svæðum sem kísilgúr hefur ekki verið dælt af. Jafnframt kom í ljós að hluti af þýðingarmesta flórgoðasvæðinu er á fyrirhuguðu dælingarsvæði.
    Sums staðar farast flórgoðar í silunganetum, til dæmis drukkna nokkrir tugir fugla í netum á Mývatni ár hvert og einnig talsvert í Vestmannsvatni í Aðaldal. Notkun nælonneta til silungsveiða hófst skömmu fyrir 1960 eða á sama tíma og ríkisstyrkt framræsla stóð í hvað mestum blóma og minkur breiddist óðfluga út.
    Hugsanlegt að breytingar á lífsskilyrðum flórgoðans við Mývatn, sem sennilega hefur ávallt verið höfuðvígi hans hér á landi, endurspeglist í stofnsveiflum annars staðar á landinu. Þannig mætti hugsa sér að góð viðkoma flórgoða á Mývatni hafi leitt til þess að hann breiddist út til jaðarsvæða þar sem skilyrði til varps hafi ekki verið eins góð og á Mývatni. Þegar skilyrði á Mývatni versnuðu hefur útflutningur fugla þaðan dregist saman og í kjölfarið hefur fuglum fækkað utan Mývatns. Þessi kenning er ósönnuð en með vöktun stofnsins má fara nærri um hvort hún reynist á rökum reist.
    Flórgoðinn er að mestu leyti farfugl og dvelst hér frá því í apríl fram í september. Vetrarstöðvarnar eru ekki þekktar með vissu vegna þess hversu fáir fuglar hafa verið merktir hér á landi. Ósennilegt er að skýringa á fækkun flórgoðans sé að leita á vetrarstöðvum þar sem flórgoðastofnar í nágrannalöndum (Noregi og Skotlandi) hafa vaxið á undanförnum áratugum.

    Er fyrirhugað að rannsaka sérstaklega áhrif minks á viðkomu tegundarinnar?
    Í drögum að verndaráætlun sem Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur nú að fyrir ráðuneytið er lagt til að halda mink í skefjum á þeim varpstöðum flórgoðans þar sem talið er að minkur standi varpi fyrir þrifum. Gert er ráð fyrir að meta árangur aðgerða með því að fylgjast samhliða með varpárangri fuglanna.

    Hvaða aðrar rannsóknir eru fyrirhugaðar á flórgoða?
    Stofnvísitala flórgoða í aðalheimkynnum hans hér á landi (við Mývatn) verður metin með árlegum talningum, eins og undanfarin 20 ár. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um aðrar rannsóknir en vísað er til væntanlegrar verndaráætlunar (sbr. 7. lið).

    Er fyrirhugað að gera sérstaka verndaráætlun fyrir tegundina, og sé svo, hvenær er áætlað að hún liggi fyrir?
    Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur nú að viðamikilli samantekt á þekktum heimildum um ástand og þróun flórgoðastofnsins hér á landi. Jafnframt hefur stofnunin lagt drög að verndaráætlun fyrir flórgoða sem byggð er á þessum heimildum og niðurstöðum rannsókna. Samráð er haft við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn um gerð verndaráætlunarinnar. Í áætluninni er gerð grein fyrir búsvæðavali og þeim breytingum á varpsvæðum flórgoðans og hættum sem skýrt gætu hnignun stofnsins. Bent er á hugsanlegar verndaraðgerðir á einstökum varpsvæðum sem m.a. munu fela í sér tillögur um endurheimt votlendis, friðun einstakra svæða og umgengnisreglur á varptíma. Þá er gerð áætlun um frekari vöktun flórgoðastofnsins og fæðudýra hans. Þessari tillögu að verndaráætlun verður skilað til umhverfisráðuneytisins nú í vor.

Greinargerð um ástand flórgoðastofnsins á Mývatni og Víkingavatni.


Inngangur.

    Tilefni þessarar greinargerðar er fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar á Alþingi (312. mál 121. löggjarþings) um ástand flórgoðastofnsins og bréf Umhverfisráðuneytisins (dags. 7. febrúar 1997) til Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Hér verður leitast við að svara fyrirspurninni hvað snertir rannsóknasvæði stöðvarinnar, en þar eru tvö stærstu flórgoðavörp á Íslandi. Náttúrufræðistofnun mun gera sjálfstæða grein fyrir ástandi flórgoðastofnsins í heild.

Rannsóknir.
    Eftirfarandi rannsóknir eru nú stundaðar á flórgoðastofninum við Mývatn og Víkingavatn:
    Fjöldi fugla á vorin (Mývatnssveit, Víkingavatn).
    Fjöldi unga og fullorðinna fugla síðsumars (Mývatnssveit, Víkingavatn).
    Dreifing flórgoða í ætisleit á Ytriflóa Mývatns.
    Þéttleiki og árgangastærð hornsílis í Mývatni og Víkingavatni.

Fuglatalningar í Mývatnssveit.
    Síðan 1975 hafa vatnafuglar verið taldir í Mývatnssveit á hverju vori. Farið er um öll votlendissvæði og skráðir þeir vatnafuglar sem sjást. Ekki sjást allir flórgoðarnir, en vegna þess að talningaraðferðir eru staðlaðar og ná til alls svæðisins er hægt að nota tölurnar sem mælikvarða á langtímabreytingar (1. mynd). Talningar eru endurteknar í byrjun ágúst.
Graphic file Blank.Blank with height 191 p and width 295 p Center aligned
















1. mynd. Fjöldi flórgoða sem sást í vatnafuglatalningum

í Mývatnssveit vorin 1975–96.


    Flórgoða fækkaði á árunum 1975–91, en hefur síðan fjölgað aftur. Fjöldinn var í hámarki síðastliðið ár (1996), en þá sáust 255 fuglar. Talning Ólafs K. Nielsen á flórgoðahreiðrum í Mývatnssveit árið 1990 (munnl. uppl.) bendir til þess að um 42% flórgoðanna sjáist í vatnafuglatalningunni, a.m.k. þegar stofninn er lítill, en það hlutfall gæti breyst með stækkandi stofni. Vortala flórgoða er um 60% af fjölda fullorðinna fugla sem sjást í byrjun ágúst (tafla 1).

    Tafla 1. Fjöldi fullorðinna flórgoða í Mývatnssveit í talningum tveggja ára.

    Ár     Vor (þar af á Ytriflóa %)     Ágúst (þar af á Ytriflóa %)
    1995     240 (22,5)     383 (66,0)
    1996     255 (38,8)     422 (73,5)
    Norðmaðurinn Jon Fjeldså birti upplýsingar um staðsetningu 170 flórgoðaóðala í hluta Mývatnssveitar á árunum 1970–75. Af þeim voru 90 við Ytriflóa. Ólafur K. Nielsen fór um sama svæði árið 1990, heimsótti 163 óðalanna, og fann hreiður á 109 þeirra. Bendir það til a.m.k. þriðjungs fækkunar. Fækkunin var nær bundin við Ytriflóa og nam þar 77% (Skýrsla sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir 1991). Hreiður hafa ekki verið talin eftir að fjölgaði í stofninum, en fyrirhugað er að gera það næsta vor.

Talningar á Víkingavatni.
    Mikil flórgoðabyggð er á Víkingavatni í Kelduhverfi. Reglubundnar talningar hófust þar 1993 og hreiður voru kortlögð árið 1995. Fjöldi fugla hefur verið afar breytilegur, mest um 90 vorið 1993 en minnst 37 vorið 1995. Of snemmt er að segja til um langtímabreytingar á flórgoðavarpinu á Víkingavatni, en ætlunin er að fylgjast vel með því næstu árin, enda aðstæður hvergi betri til flórgoðarannsókna.

Dreifing flórgoða á Ytriflóa.

Graphic file Blank.Blank with height 324 p and width 206 p Center aligned     Dreifing flórgoða í ætisleit á Ytriflóa var kortlögð nákvæmlega með hornamæli árin 1993, 1995 og 1996. Flórgoðar halda sig mest á svæðum sem kísilgúr hefur ekki verið dælt af, en sum þýðingarmestu flórgoðasvæðin eru á fyrirhuguðu dælingarsvæði (sjá 2. mynd, sjá einnig skýrslu Árna Einarssonar um dreifingu fugla á Ytriflóa 1993). Fylgst verður náið með dreifingu flórgoðanna á þennan hátt á Ytriflóa næstu árin.

Hornsíli.
    Hornsíli er aðalfæða flórgoðans. Fylgst er með hornsílastofninu í Mývatni með veiðum í gildrur tvisvar á sumri, þ.e. fyrir og eftir hrygningu. Gögn eru til um ástand hornsílastofnsins allt frá árinu 1989, en ekki hefur verið reynt að bera þau saman við tölur um fjölda flórgoða enn sem komið er. Mjög miklar sveiflur eru í fjölda hornsíla í Mývatni. Í Víkingavatni hefur verið fylgst með hornsílastofninum með gildrum einu sinni á ári í þrjú ár samfleytt. Fjöldi hornsíla og flórgoða hefur enn ekki verið borinn saman, enda gagnarunan varla nógu löng ennþá. Fyrirhugað er að halda hornsíla-
vöktun áfram í báðum vötnunum.
                                  

2. mynd. Dreifing flórgoða í ætisleit

                                  

á Ytriflóa Mývatns.

    2. mynd sýnir dreifingu flórgoða í ætisleit á Ytriflóa Mývatns samkvæmt athugunum sumarið 1996. Endanleg mörk kísilgúrnámu í Mývatni samkvæmt námaleyfi útg. 7. apríl 1993 eru einnig sýnd.

Orsakir breytinga í Mývatni.
    Sveiflur í fiska- og fuglastofnum Mývatns má yfirleitt rekja til breytinga í átuskilyrðum í Mývatni og Laxá. Þessar sveiflur eru mjög miklar, en orsakir þeirra eru enn ókunnar. Einstakar hæðir og lægðir verða varla raktar til umsvifa mannanna, en sá möguleiki er talinn fyrir hendi að hið sveiflótta ástand tengist á einhvern hátt umhverfisbreytingum af manna völdum í vatninu. Orsakasamhengi er ekki ljóst, en núverandi sveiflumynstur er talið hafa byrjað árið 1970.
    Kísilgúr er nú dælt af því svæði sem kalla má kjarna íslenska flórgoðastofnsins. Hin mikla fækkun flórgoðahreiðra við Ytriflóa Mývatns, þar sem kísilgúrdælingin fer fram, vekur athygli. Nærtækast er að ætla að samband sé þar á milli enda hafa lífsskilyrði í Ytriflóa breyst mjög mikið við kísilgúrdælinguna. Aðrar mögulegar skýringar á fækkun flórgoða á Ytriflóa, sem ræddar hafa verið, ss. minkur og landris, fá ekki staðist. Nákvæm kortlagning á því hvar flórgoðar kafa eftir æti í Ytriflóa gefur til kynna að fuglarnir kafi helst á grunnum svæðum sem kísilgúr hefur ekki enn verið dælt af. Á næstu árum mun kísilgúr verða dælt af svæði í sunnanverðum Ytriflóa sem mikið er sótt af flórgoðum í ætisleit.
    Að lokum er rétt að benda á að upplýsingar um eðli og ástand lífríkis í Mývatni er að finna á vefsíðum Náttúrurannsóknastöðvarinnar.
    Slóðin er www.hi.is/HI/Stofn/Myvatn/

Samantekt.
    Flórgoða fækkaði við Mývatn árin 1975–90, en hefur fjölgað síðan. Flórgoðavarp hefur minnkað óvenju mikið við Ytriflóa Mývatns samanborið við 1970–75 og er kísilgúrtaka úr flóanum líklegasti orsakavaldur, enda heldur flórgoðinn sig nú einkum utan dælingarsvæðanna. Ítarlega er fylgst með þróun flórgoðastofnsins og ætis fyrir hann í Mývatni og Víkingavatni í Kelduhverfi.