Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 412 . mál.


713. Frumvarp til laga



um breytingu á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


    Við 61. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Rafmagnsveitum ríkisins er heimilt að stofna eða eiga hlut í félögum með það að markmiði að hagnýta þá þekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála, m.a. með sölu tækniþekkingar og annarrar sérþekkingar til innlendra og erlendra aðila og vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. Til að stofna eða eiga hlut í fyrirtækjum þarf heimild ráðherra hverju sinni. Áður en ráðherra veitir slíka heimild skal leitað álits fjármálaráðherra.

2. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Tilgangur þessa lagafrumvarps er að afla lagaheimildar fyrir Rafmagnsveitur ríkisins til að stofna eða kaupa hlut í félögum með það meðal annars að markmiði að ná með sem skilvirkustum hætti að nýta þá þekkingu og búnað sem Rafmagnsveiturnar búa yfir til eflingar útflutnings á sérþekkingu í þágu fyrirtækisins sjálfs og til eflingar atvinnulífs í landinu. Hafa Rafmagnsveiturnar, bæði einar sér og í samstarfi við aðra, staðið að markaðssetningu á íslenskri sérþekkingu tengdri orkumálum en ástæða er til að opna fyrir þann möguleika einnig að Rafmagnsveiturnar geti stofnað félög eða tekið þátt í félögum um tiltekin verkefni, bæði vegna samstarfs við aðra aðila og ekki síður til takmörkunar á áhættu þar sem það á við. Þá er það einnig mikilvægt að Rafmagnsveiturnar geti staðið að og tekið þátt í rannsóknar- og þróunarverkefnum með sama hætti.
    Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins verður Rafmagnsveitum ríkisins heimilt að hagnýta þá sérþekkingu og þann búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til útflutnings sem ekki eingöngu nýtist fyrirtækinu sjálfu heldur einnig þeim öðrum aðilum sem eru og hafa verið í samstarfi við Rafmagnsveiturnar. Sem dæmi um slíkt er þróun og uppbygging fjarmæli- og aflgæslubúnaðar þar sem Rafmagnsveiturnar hafa á undanförnum áratug haft frumkvæði að því að byggja upp búnað og kerfi sem nýtast þeim og öðrum sambærilegum fyrirtækjum vel. Að því verki hafa einnig komið rafeinda- og hugbúnaðarfyrirtæki og á þann hátt hafa Rafmagnsveiturnar stuðlað að þróun hátæknibúnaðar á Íslandi. Rafmagnsveiturnar hafa einnig haft frumkvæði að því að þreifa fyrir sér með útflutning á umræddum búnaði og kerfum. Á öðrum sviðum tæknimála hefur fyrirtækið á sama hátt stutt íslenskar verkfræðistofur í verkefnaöflun erlendis, m.a. í Eystrasaltsríkjunum.
    Fyrirtækinu verður heimilað að selja tækniþekkingu og aðra sérþekkingu til aðila hér á landi og erlendis með því að stofna og eiga hlut í félögum. Í því sambandi má nefna að fyrirtækið hefur rekið rafmagnsverkstæði sem er sérhæft í viðgerð spenna og ræður yfir búnaði sem ekki er til á öðrum rafmagnsverkstæðum í landinu. Vegna þessa hefur verkstæðið tekið að sér viðgerðir á spennum fyrir önnur raforkufyrirtæki og fleiri aðila. Rafmagnsveiturnar telja þetta fyrirkomulag óheppilegt og hafa því óskað eftir heimild til að fá að stofna hlutafélag til þess að taka yfir starfsemi verkstæðisins. Gera má ráð fyrir að hlutafélagið verði fyrst í stað alfarið í eigu Rafmagnsveitnanna, en stefnt er að því að fleiri aðilar komi að því þótt það kunni að verða síðar.
    Gert er ráð fyrir að verkefni, sem fyrirtækið ræðst í á grundvelli lagaheimildarinnar, stuðli að hagkvæmari rekstri fyrirtækisins og skili því arði. Í því sambandi er einnig rétt að nefna að samkvæmt samningi ríkissjóðs og Rafmagnsveitnanna frá 9. janúar 1995 er gert ráð fyrir að hluta af arði þess verði varið til rannsóknar- og þróunarverkefna. Er gert ráð fyrir að sú heimild, sem fyrirtækinu er veitt með þessari grein, nýtist því meðal annars í slíkum verkefnum. Þar sem Rafmagnsveiturnar eru ríkisfyrirtæki og lúta umsjón ráðherra samkvæmt orkulögum er talið rétt að leita þurfi hverju sinni heimildar hans til að stofna félög eða kaupa hlut í félögum. Jafnframt þykir rétt til að stuðla að samræmi að leitað sé álits fjármálaráðherra hverju sinni.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á orkulögum,

nr. 58/1967, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að Rafmagnsveitum ríkisins verði heimilt að stofna eða eiga hlut í félögum til að hagnýta þekkingu sína og starfsreynslu á sviði orkumála. Í greinargerð kemur fram að sérþekking fyrirtækisins á ýmsum sviðum hátækni geri það vel í stakk búið til að takast á við ýmis verkefni á markaðinum og því sé eðlilegt að stofnað verði fyrirtæki utan um slíka starfsemi.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.