Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 421 . mál.


723. Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á brennsluorku olíu.

Flm.: Gísli S. Einarsson.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera rannsókn á orsökum þeirra breytinga sem verða á brennsluorku olíu þegar hún streymir í gegnum svokallaðan orkuplúsbrennsluhvata.

Greinargerð.


    Mælingar hafa verið gerðar á mismunandi brennsluvélum, bæði hér á landi og erlendis og sýnt hefur verið fram á með nokkrum rökum að bruni olíunnar er betri þegar brennsluhvati er notaður. Sumar mælingar hafa sýnt fram á 3–7% olíusparnað.
    Vísindamenn telja að mælingar sem gerðar hafa verið á brennsluvélum skýri ekki fullkomlega hvað er að gerast og því þurfi að framkvæma rannsóknir til þess að geta skýrt breytingarnar með eðlis- og efnafræðilegum rökum.
    Brennsluhvatinn er í nokkrum fiskiskipum og telja margir að um góðan árangur hafi verið að ræða, m.a. minni sótmengun, hreinni vélar og betri bruna. Nokkrir vöru- og fólksflutningabílar hér á landi nota búnaðinn með góðum árangri. Yfirvöld í nokkrum borgum víða um heim hafa látið setja brennsluhvatann í samgöngutæki borganna sem knúin eru dísilvélum til að minnka mengun.
    Olíukostnaður íslenska fiskiskipaflotans er u.þ.b. 4 milljarðar kr. á ári; ef 5% sparnaður næst er um verulega fjármuni að ræða og þótt prósentan væri lægri er til mikils að vinna.
    Keppikefli okkar Íslendinga er samkvæmt margyfirlýstri stefnu að draga úr ónauðsynlegri mengun. Eðlilegur þáttur í þeirri viðleitni hlýtur að vera að veita fé til rannsóknar af því tagi sem hér um ræðir.
    Líklegt er að meðalskuttogari noti um 1,5 milljónir lítra af eldsneyti á ári. Samsvarandi olíukostnaður er um 16–23 millj. kr. á ári, og sparnaður um 4–5% gæfi því 700–1.100 þús. kr. lækkun á olíureikningi fyrir skuttogara.
    Minnkun koltvíildis í útblæstri er talin verða töluverð við notkun brennsluhvata. Mikil nauðsyn er að fram fari rannsókn af því tagi sem hér um ræðir ef unnt er með notkun slíks búnaðar að ná fram virkni gegn gróðurhúsáhrifum á skjótan hátt eins og líkur benda til.
    Fullyrða má að hagræn áhrif geta orðið mikil ef niðurstöður verða þær sem vísbendingar gefa ástæðu til að ætla.
    Umhverfisáhrif eru slík af minnkun eldsneytisnotkunar að álykta ber að rannsókn sem hér um ræðir verði að fara fram hið fyrsta.
    Fylgigögn með þessari greinargerð vitna um það sem sett er fram sem rök fyrir því að þingsályktunartillaga þessi fái skjóta afgreiðslu.



Fylgiskjal I.



Umsögn tveggja prófessora við verkfræðideild Háskóla Íslands
um orkuplúsbrennsluhvata.

    Við undirritaðir prófessorar við Háskóla Íslands lýsum yfir samstarfsvilja við Formex ehf. um rannsóknir á því að greina orsakir þeirra breytinga sem verða á brennsluorku olíu þegar hún streymir í gegnum orkuplúsbrennsluhvata. Nýlega var gert samkomulag við Formex ehf. um rannsóknarverkefni sem lýst er í fylgiriti. Rannsóknir þær sem við leggjum til að verði gerðar er að reyna að greina hugsanlegar orsakir efnabreytinga sem geta orðið á brennsluefninu þegar það streymir í gegnum orkuplúsefnahvatann og með þeim hætti reyna að meta hversu mikil breyting verði á gerðum brennsluefnisins.
    Sá hluti, sem við leggjum til að gerður verði við Háskóla Íslands, er að greina breytingar á efni með sýnatöku, bæði fyrir og eftir efnahvatann, og mæla með nákvæmum mælitækjum þessar breytingar.
    Uppsetning tækja er tiltölulega auðveld og flest nauðsynleg mælitæki eru til staðar við Háskóla Íslands. Þó má reikna með að nauðsynlegt sé að kaupa rekstrarvörur fyrir um 300 þús. kr. Helsti kostnaður er þó launakostnaður rannsóknarmanna, áætlaður í 7–9 mánuði sem 1,3–1,5 millj. kr.
    Mælingar hafa verið gerðar á ýmsum brennsluvélum, bæði hér á landi og erlendis og sýnt hefur verið fram á það með nokkrum rökum að bruni olíunnar er betri þegar brennsluhvati er notaður og hafa ýmsar mælingar sýnt um 3–7% olíusparnað, án þess að undirritaðir geti metið þær með nokkrum áreiðanleika, enda ekki viðstaddir þessar tilraunir. Hins vegar teljum við að allar svona mælingar á brennsluvélum skýri ekki fullkomlega hvað er að gerast og því þurfi að framkvæma rannsóknir til þess að geta skýrt einhverjar breytingar frá náttúrufræðilegum rökum.

Valdimar K. Jónsson.


Bragi Árnason.

Fylgiskjal II.


Umsögn umhverfisráðuneytis.
(21. desember 1995.)

    Í ljósi nýrra upplýsinga frá umhverfisstofnun Bandaríkjanna, EPA, sem bárust fyrr á þessu ári fór ráðuneytið þess á leit við Hollustuvernd ríkisins að stofnunin léti ráðuneytinu í ljós álit sitt og umsögn um brennsluhvata sem byggjast á tinkúlum og seglum.
    Fram hefur komið að EPA hefur viðurkennt slíkan búnað „The Fithch Fuel Catalyst“. Hollustuvernd ríkisins sendi erindi til EPA þar sem spurst er fyrir um hvað sé fólgið í umræddri viðurkenningu stofnunarinnar.
    Helstu niðurstöður eru að:
—        EPA viðurkennir „The Fithch Fuel Catalyst“ sem útblásturstengdan búnað,
—        búnaðurinn hefur ekki skaðleg áhrif á mengunarvarnabúnað bifreiða,
—        ábyrgð bifreiðaframleiðenda helst á upphaflega útblástursbúnaðinum ef viðurkenndur viðbótabúnaður er settur í bílinn,
—        viðurkenning EPA gildir fyrir allar bensínknúnar bifreiðar, sem uppfylla lágmarkskröfur í Bandaríkjunum um mengandi efni í útblæstri til og með árgerð 1995, og dísilknúnar bifreiðar sem knúnar eru vélum sem sérstaklega eru ætlaðar í bifreiðar,
—        þessar kröfur eru þær sömu og bifreiðar þurfa að uppfylla samkvæmt viðauka 6 A í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum.
    Hollustuvernd ríkisins hafa verið kynntar upplýsingar frá framleiðendum um niðurstöður mengunarmælinga í útblæstri bifreiða sem búnar eru með þeim búnaði sem hér um ræðir. Stofnunin hefur ekki tök á því að meta þau gögn sérstaklega eða taka afstöðu til búnaðarins umfram það sem fram kemur í viðurkenningu EPA.
    Að lokum vill ráðuneytið ítreka að það er ekki hlutverk ráðuneytisins og stofnana þess að fjalla um gæði og/eða virkni einstakra framleiðsluvara sem bjóðast á almennum markaði, heldur að gera kröfur um tiltekin lágmörk eða hámörk eftir því sem við á samkvæmt lögum og reglugerðum.

Fyrir hönd ráðuneytisins,



Ingimar Sigurðsson.


Sigurbjörg Sæmundsdóttir.






Fylgiskjal III.


Fréttatilkynning frá verkefnisstjórn samstarfsverkefnis


LÍÚ, TFF og Vélskóla Íslands.



Jákvæð niðurstaða af notkun Cleanburn-brennsluhvata.
    Síðustu missiri hafa ýmis bætiefni og búnaður, sem ætlað er að draga úr eldsneytisnotkun, komið á markaðinn hérlendis. Notkun þeirra er hafin í fiskiskipum hérlendis í mjög litlum mæli. Útgerðarmenn hafa haldið að sér höndum, eða hafa ákveðnar efasemdir um ágæti bætiefna og búnaðar. Því var talin full ástæða til að gera faglega og eins nákvæma úttekt og unnt er hérlendis af óháðum aðilum til að fá svör við ýmsum spurningum þessu viðkomandi.
    Því var það að LÍÚ, tæknideild Fiskifélags Íslands og Fiskveiðisjóðs Íslands (TFF) og Vélskóli Íslands réðust í samstarfsverkefni, sem hafði það að markmiði að kanna sem flesta þætti notkunar á bætiefnum og búnaði, í náinni samvinnu við útgerðarfélög. Fyrsta hlutaverkefnið í þessu samstarfsverkefni var prófun á Cleanburn í samvinnu við Granda hf., þar sem gerðar voru samanburðarmælingar á stórri hjálparvél í Snorra Sturlusyni RE 219. Um var að ræða tvíþættar mælingar, annars vegar mælingar á eldsneytiseyðslu og hins vegar mengandi snefilefnum í útblæstri.
    Hvað viðkemur ávinningi í olíunotkun þá mælist hann enginn við um 20% álag, en jafnt vaxandi eftir það og mældist um 2,6% við 43% álag. Ekki reyndist unnt að fá marktækar mælingar á hærra álagi, en leiða má að því líkur að við 64% álag náist allt að 5% ávinningur í olíunotkun. Samanburðarmælingar á eldsneytisnýtingu voru tvíþættar, annars vegar skráningar í veiðiferðum og hins vegar mælingar í höfn. Hvor aðferðin sem er styður hina og eru samfallandi. Mælingar á mengandi snefilefnum sýndu merkjanlega lækkun þeirra.
    Umrædd samanburðarmæling er aðeins fyrsta skrefið í samstarfsverkefninu, en styrkveiting frá umhverfisráðuneytinu varð til þess að því var hleypt af stað. Framhaldið ræðst af því hvort frekari styrkveitingar fáist.
    Olíukostnaður íslenska fiskiskipaflotans er nálægt 4 milljörðum á ári. Ef til dæmis 5% olíusparnaður næst með notkun bætiefna og búnaðar er um verulegar upphæðir að ræða, og jafnvel þótt sparnaðarprósentan sé lægri, en á móti einhver kostnaður við kaup á bætiefnum og búnaði. Einnig hefur verið bent á minni viðhaldskostnað á vélbúnaði við notkun bætiefna og búnaðar. Þá hlýtur það einnig að vera keppikefli sérhverrar þjóðar að draga sem mest úr mengunaráhrifum nú á tímum vaxandi tillits til umhverfissjónarmiða.
    Ekki er langt frá lagi að meðalskuttogari noti um 1,5 milljónir lítra af eldsneyti á ári og tilheyrandi olíukostnaður er um 16–23 millj. kr. eftir því hvaða eldsneyti er notað. Olíusparnaður á bilinu 4–5% gæti þá samkvæmt þessu gefið 650–1.150 þús. kr. lækkun á olíureikningi fyrir meðalskuttogara.

Fylgiskjal IV.


Útdráttur úr skýrslu frá Fiskifélagi Íslands.


    Skýrsla þessi gerir grein fyrir samanburðarmælingum á hjálparvél í Snorra Sturlusyni RE 219, þar sem áhrif svonefnds Cleanburn-brennsluhvata voru könnuð með tilliti til eldsneytisnýtingar. Umrætt verkefni er liður í samstarfsverkefni sem hleypt var af stokkunum fyrr á þessu ári en að því standa tæknideild LÍÚ, tæknideild Fiskifélags Íslands og Fiskveiðasjóðs Íslands og Vélskóli Íslands.
    Umrædd samanburðarmæling var unnin í náinni samvinnu aðila verkefnisins, útgerðar Granda hf. og vélstjóra skipsins, kostuð af þessum aðilum og styrkt sérstaklega af umhverfisráðuneytinu.
    Samanburðarmælingar byggja einkum á nákvæmum mælingum á olíunotkun og rafmagnsálagi fyrir og eftir ísetningu búnaðar, bæði í veiðiferðum og mælingum í höfn. Þungamiðja mælinganna er á sviðinu 200–400 KW í rafmagnsálagi, sem svarar til 23–43% álags á hjálparvél. Á þessu sviði mældist ávinningur í olíunotkun 0,4–2,6%, jafnt vaxandi með álagi. Með allgóðri vissu má framlengja upp í hærra álag og hefur verið reiknaður út 5,2% ávinningur í olíunotkun við 64% álag á vél.
    Ekki reyndist unnt að mæla við hærra álag, né heldur að fá marktækar skráningar á hærra álagi í veiðiferðum, og er það annmarki. Því væri æskilegt að gera frekari mælingar á vélum þar sem unnt er að ná 100% lestun.



Fylgiskjal V.


Úr skýrslu Eimskipa um orkunotkun í Sundahöfn.



Brennsluhvati (Cleanburn).
    Brennsluhvati er tæki sem sett er inn í olíulögn milli síu og olíuverks dísilvélar. Þetta tæki hefur þau áhrif á eldsneytið að það brennur betur, sem leiðir til betri nýtingar og minni mengunar. Sjá nánari lýsingu á tækinu í fskj. nr. 6.
    Gæðalið 22 ákvað í tengslum við hugsanlegan olíusparnað að gera tilraunir með þetta tæki og var í framhaldi af því ákveðið að kaupa tvö. Annað var sett í dráttarbíl en hitt í gámalyftara.
    Fyrir valinu urðu Scania R 143 HL. dráttarbíll og tæki nr. 22–181 sem er Hyco Boss 145 gámalyftari.
    Áður en brennsluhvatanum var komið fyrir í viðkomandi vél var gerð nákvæm mæling bæði á olíueyðslu og mengun í útblæstri og eru þær tölur eftirfarandi:

Scania R 143 HL. dráttarbíll.

M. í útblæstri

Fyrir ísetn.

E. 30 mín.

E. 3.000 km

%



NOx          
300
200 200 -33,3
HC               
50
50 30 -40,0
CO 2
         
0,01
0,01 0,02 0,0
Eldsneytiseyðsla hefur minnkað um u.þ.b. 8%


Hyco Boss 145 gámalyftari.

M. í útblæstri

Fyrir ísetn.

E. 50 stundir

E. 550 stundir.

%



NOx          
500
400 350 -30,0
HC               
105
100 100 -4,8
CO               
2
1,5 2 0,0
Eldsneytiseyðsla hefur minnkað um u.þ.b. 7%.

    Gæðaliðið hefur gert ráðstafanir til þess að brennsluhvati verði settur í eyðslufrekustu tækin á næstu mánuðum.
Fylgiskjal VI.


Upplýsingar frá ÍSAGA ehf. um brennsluhvata CEU 100 A.
(13. febrúar 1997.)

    Markmiðið með að nota brennsluhvatann var að minnka sótmagnið í reykgasinu frá gufukatli þar sem við brennum svartolíu. Brennsluhvatinn er í hringdælukerfi þar sem svartolían er hituð upp í 80°C.
Við höfum nú notað brennsluhvatann frá áramótum í kolsýruverksmiðju okkar í Þorlákshöfn og er árangurinn mjög góður. Áður en brennsluhvatinn var settur upp var sóttalan um og yfir þrír, en með brennsluhvatanum er sótið nú rétt rúmlega tveir. Miðað er við Bosch-skala. Þessi minnkun á sóti lengir tímabilið milli hreinsana verulega, úr einum mánuði í þrjá, og hefur mikinn sparnað í för með sér. Nýtni ketilsins hefur aukist um 5–8%.

Guðmundur Ásgeirsson,
tæknilegur framkvæmdastjóri.