Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 422 . mál.


726. Frumvarp til laga



um bann við kynferðislegri áreitni.

Flm.: Guðný Guðbjörnsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Hjálmar Árnason,


Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Össur Skarphéðinsson.



I. KAFLI


Breyting á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla,


nr. 28/1991.


1. gr.


    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra greina til samræmis við það:
    Kynferðisleg áreitni á vinnustað og í skóla er bönnuð. Atvinnurekendur og yfirmenn skulu gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk og nemar verði ekki fyrir kynferðislegri áreitni eða annarri ósæmilegri framkomu á vinnustað eða í skólum.
    Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu, hvort sem hún er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt til kynna að viðkomandi hegðun sé óvelkomin.

2. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna (sem verður 14. gr.), í lok IV. kafla, kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra greina til samræmis við það:
    Vinnuveitendum, yfirmönnum, samstarfsmönnum og kennurum er óheimilt að láta kvartanir starfsfólks eða nema um kynferðislega áreitni eða kynjamismunun bitna á starfi þeirra eða námi, starfsöryggi, starfskjörum eða mati á árangri í starfi eða námi.

II. KAFLI


Breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,


nr. 46/1980.


3. gr.


    C-liður 65. gr. laganna orðast svo: stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna. Ákvæði þetta á m.a. við bann við kynferðislegri áreitni og annarri ósæmilegri framkomu sem beinist að kynferði einstaklinga.

III. KAFLI


Gildistaka.


4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Kynferðisleg áreitni hefur verið mikið til umfjöllunar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Flest aðildarríki Evrópusambandsins hafa gripið til ráðstafana á þessu sviði, svo sem lagasetningar, fræðsluherferðar eða leiðbeinandi reglna fyrir vinnustaði og menntastofnanir. Í Belgíu, Hollandi og Frakklandi hafa verið sett sérstök lög um kynferðislega áreitni og slík löggjöf er nú í undirbúningi í Austurríki og Hollandi. Í Svíþjóð og nokkrum öðrum Evrópuríkjum eru ákvæði um kynferðislega áreitni í jafnréttislögum og/eða í lögum um vinnuvernd, t.d. í Noregi. Innan Evrópusambandsins er nú unnið að sérstakri tilskipun um kynferðislega áreitni sem væntanlega mun einnig taka til Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í 6. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, nr. 28/1991, segir að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um vinnuaðstæður og vinnuskilyrði. Kærunefnd jafnréttismála hefur túlkað þetta ákvæði þannig að atvinnurekanda beri að sjá til þess að kynferðisleg áreitni viðgangist ekki á vinnustað. Í sænsku jafnréttislöggjöfinni eru hins vegar skýr ákvæði um kynferðislega áreitni, sbr. 6. og 22. gr. sænsku jafnréttislaganna (1991:433), sem hefur orðið til þess að stofnanir hafa í vaxandi mæli sett sér starfsreglur um það hvernig beri að stemma stigu við og taka á kynferðislegri áreitni.
    Ekki þykir nauðsynlegt að svo stöddu að setja sérstaka löggjöf um kynferðislega áreitni, en tímabært þykir að setja ákvæði um kynferðislega áreitni í jafnréttislög og í vinnuverndarlöggjöfina eins og hér er lagt til. Í Svíþjóð og Noregi hefur slík lögfesting haft þau áhrif að stofnanir hafa orðið að taka á þessum málum af meiri festu en áður. Þegar slík ákvæði hafa verið lögfest verður brýnt að stofnanir komi sér upp skipulagðri meðferð eða leiðbeinandi starfsreglum fyrir mál af þessum toga og að markviss fræðsla um kynferðislega áreitni verði í boði, sbr. fyrirliggjandi þingsályktunartillögu á 121. löggjafarþingi. Starfsreglur stofnana um kynferðislega áreitni hafa yfirleitt bæði fyrirbyggjandi tilgang og er ætlað að leysa þau mál sem upp koma og ekki eru kærð.
    Kynferðisleg áreitni var gerð refsiverð samkvæmt íslenskum lögum með breytingu á 198. gr. almennra hegningarlaga í lögum nr. 40/1992, en í lok greinarinnar segir: „Önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að 2 árum.“
    Ekki er að finna í lögum nr. 40/1992 eða í greinargerð með þeim nánari skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Hennar er hins vegar þörf. Ekki er gerð tillaga hér um að breyta þessu ákvæði almennra hegningarlaga þar sem rétt þykir að fá meiri reynslu á hvernig þetta ákvæði nýtist. Þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til munu hins vegar skilgreina kynferðislega áreitni frekar og væntanlega verður sú skilgreining þá lögð til grundvallar skýringu og túlkun þessa ákvæðis almennra hegningarlaga. Frá árinu 1992 hefur lítið reynt á 198. gr. hegningarlaganna. Nýlega hafa þó fallið tveir dómar um kynferðislega áreitni. Athyglisvert er að í báðum dómunum er um karlmenn að ræða, þ.e. karlmenn að áreita karlmenn. Það er athyglisvert vegna þess að allar tiltækar kannanir benda til að konur verði mun oftar fyrir kynferðislegri áreitni en karlar.
    Kynferðisleg áreitni hefur neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu einstaklingsins, sjálfsvirðingu hans og sjálfsímynd. Í skilgreiningunni á kynferðislegri áreitni sem sett er fram í 1. gr. frumvarpsins er áhersla lögð á það megineinkenni kynferðislegrar áreitni að hegðunin er óvelkomin. Það er því mat einstaklingsins sem ræður því hvaða hegðun er viðurkennd og hvaða hegðun er óvelkomin. Kynferðisleg hegðun verður áreitni ef henni er haldið áfram þrátt fyrir að það hafi verið gefið skýrt til kynna að hún sé óvelkomin. Þó getur eitt tilvik talist kynferðisleg áreitni ef það er nægilega alvarlegt.
    Rannsóknir í háskólum á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum benda til að 10–20% kvenna verði fyrir kynferðislegri áreitni í háskólum, en allt upp í 40% þegar um æðri námsgráður er að ræða. Meðal karla eru tölurnar töluvert lægri. Samkvæmt könnun jafnréttisnefndar Helsinkiháskóla árið 1995 töldu 10,8% starfsfólks og 5,5% stúdenta sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Af þeim voru 78% starfsfólksins og 70% stúdentanna konur.
    Bandarískar rannsóknir á vinnustöðum benda almennt til að um 40% kvenna og um 15% karla verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum en evrópsku tölurnar eru almennt töluvert lægri eða 10–20% meðal kvenna. Skýringarnar á þessum mun eru að hluta til menningarlegar, en einnig getur verið um mismunandi skilgreiningar að ræða.
    Í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um jafnrétti kynjanna frá árinu 1993 er gert ráð fyrir að í vinnuverndartilgangi verði staðið að könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum á Íslandi og umfangi hennar (liður 2.3.2). Á grundvelli könnunarinnar og þeirrar þekkingar, sem liggur fyrir hjá öðrum þjóðum, verði unnið markvisst að því að sporna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Þessi könnun hefur nú verið gerð og ekki þykir ástæða til að bíða lengur með að lögfesta bann við og skilgreiningu á kynferðislegri áreitni eins og hér er lagt til.
    Umræðan í þjóðfélaginu bendir ótvírætt til að töluvert vanti á að fólk skilji að kynferðisleg áreitni er einelti og mannréttindabrot sem ekki á að líða, hver sem í hlut á. Flest nágrannalanda okkar hafa brugðist markvisst við og hér er lagt til að svo verði gert.