Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 425 . mál.


729. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir.



1. gr.


    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, 8.531 kr. á mánuði. Sé um aðra heimilismenn að ræða skulu bæturnar greiddar enda séu þeir undir 20 ára aldri. Heimilt er einnig að greiða lífeyrisþega heimilisuppbót ef sýnt þykir að hann hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýli við aðra heimilismenn. Eigi hann rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar lækkar heimilisuppbótin eftir sömu reglum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að tveimur nýjum málsliðum, 2. og 3. málsl., verði bætt við 1. mgr. 9. gr. Þannig er kveðið á um að greiða skuli einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar og er einn um heimilisrekstur, heimilisuppbót þrátt fyrir að um aðra heimilismenn sé að ræða, enda séu þeir undir 20 ára aldri. Þá verði einnig heimilt að greiða lífeyrisþega heimilisuppbót ef sýnt þykir að hann hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýli við aðra heimilismenn.
    Í framkvæmd er núgildandi ákvæði túlkað á þann veg að sá einn eigi rétt á heimilisuppbót sem býr einn í íbúð. Öllum sem eru ásamt öðrum í heimili er synjað um heimilisuppbót þó svo að þeir hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Nefna má sem dæmi einstæða móður sem verður öryrki. Hún fær ekki heimilisuppbót þar sem hún býr með barni sínu. Ekkja eða ekkill, ellilífeyrisþegi eða öryrki, sem enn er með barn heimilisfast hjá sér og er t.d. í námi, fær ekki heimilisuppbótina þótt hún eða hann hafi engan framfærslueyri annan en bæturnar frá Tryggingastofnun.
    Ákvæði fyrri málsliðarins sem bætt er við gerir mögulegt að einhleypir lífeyrisþegar með barn eða börn á framfæri geti fengið heimilisuppbótina. Miðað er við tuttugu ára aldur barna sem er í samræmi við annað í lögunum. Þá hættir barn t.d. að fá greiddan menntunarbarnalífeyri og/eða menntunarmeðlag.
    Ekki er sanngjarnt að líta á meðlagsgreiðslur, barnalífeyri og mæðralaun sem fjárhagslegt hagræði fólks af sambýli við börn sín eins og nú er gert við framkvæmd laganna. Verði frumvarpið samþykkt ætti einhleypur lífeyrisþegi í sambýli við börn sín undir 20 ára aldri að geta notið heimilisuppbótar, uppfylli hann önnur skilyrði sem sett eru í lögunum. Það var áreiðanlega ekki tilgangurinn með lagasetningunni í upphafi að einstæðir foreldrar bæru hér skarðan hlut frá borði.
    Ákvæði síðari málsliðarins sem bætt er við opnar fyrir möguleika á því að greiða tekjulágum lífeyrisþegum, sem búa með öðrum í íbúð, heimilisuppbót í þeim tilvikum er það þykir sannað að þeir hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Sem dæmi um þetta má nefna að ellilífeyrisþegi sem hefur sjúkling sem þarfnast umönnunar búandi á heimili sínu, t.d. dóttur eða son, hefur oftar fjárhagslega byrði en hagræði af sambýlinu.