Ferill 431. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 431 . mál.


735. Tillaga til þingsályktunar



um erlendar skuldir þjóðarinnar.

Flm.: Pétur H. Blöndal.



    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera áætlun um hvernig náð verði niður erlendum skuldum þjóðarinnar fyrir árið 2015.

Greinargerð.


    Samanlagðar hreinar erlendar skuldir allra þjóða heims eru núll. Þær þjóðir sem eiga inni hjá öðrum þjóðum njóta vaxtanna en þær þjóðir sem skulda lenda í því að verja einhverjum hluta þjóðartekna sinna til greiðslu vaxta og það kemur niður á lífskjörum þeirra.
    Skuldir þjóða eru af ýmsum toga. Sumar eru með ábyrgð opinberra aðila, aðrar eru teknar á ábyrgð fyrirtækja eða einstaklinga. Ekki er eðlismunur á slíkum skuldum fyrir hag þjóðarbúsins í heild nema hvað fyrirtæki og einstaklingar geta flutt af landi brott og skuldirnar með þeim og eins geta skuldir þeirra tapast ef þeir verða gjaldþrota.
    Lánum hefur ýmist verið varið til fjárfestinga eða neyslu. Vextir af erlendum lánum sem varið hefur verið til neyslu koma niður á lífskjörum þjóðarinnar þar til lánin eru að fullu greidd. Slík neyslulán, hvort sem þau eru notuð til einka- eða samneyslu, bæta lífskjörin um stundarsakir þegar lánin eru tekin en rýra þau þaðan í frá.
    Þær erlendu skuldir, sem hafa verið teknar til að standa undir fjárfestingum, má greina í tvennt. Ef fjárfestingin gefur af sér arð sem er hærri en vextirnir sem greiða þarf af skuldinni bæta fjárfestingin og skuldin hag þjóðarinnar. Ef arðurinn stendur ekki undir vöxtunum er fjárfestingin til skaða fyrir hag þjóðarinnar.
    Á undanförnum áratugum höfum við Íslendingar farið út í fjölmargar fjárfestingar sem ekki skila arði, hvað þá að þær geti staðið undir vöxtum af erlendum lánum sem tekin voru til þeirra. Enn fremur hefur bæði einkaneysla og samneysla verið fjármögnuð með erlendum lánum. Þessi óráðsía gerir það að verkum ásamt öðru að lífskjör eru hér miklu lakari en ella. Sérstaklega var þetta áberandi á verðbólguáratugnum 1970–80 þegar milljarðatugir voru fluttir frá sparifjáreigendum til skuldara sem notuðu féð í vonlausar fjárfestingar sem sýndu eigandanum verðbólgugróða en skiluðu þjóðarheildinni stórtapi. Einnig hefur verið ráðist í opinberar stórframkvæmdir sem ekki hafa staðið undir vöxtum af erlendum lánum. Nægir þar að nefna Kröfluvirkjun og Blönduvirkjun.
    Sömu grundvallaratriði gilda um fjármál heimila og þjóða. Það getur verið skynsamlegt að stofna til skulda til þess að ráðast í skynsamlegar og arðbærar fjárfestingar. Hins vegar er mikilvægt að nota ekki lántökur til daglegrar neyslu (nema hjá námsmönnum sem eru að fjárfesta) og það kemur niður á lífskjörum að fara út í fjárfestingar sem skila litlum eða engum arði. Einnig er mikilvægt að raunvextir og skattalög séu þannig að heimilum sé umbunað fyrir að gæta aðhalds og ráðdeildar í hvívetna og þess sé jafnframt gætt í opinberum rekstri.


Prentað upp.


    Vergar erlendar skuldir þjóðarinnar eru um 225 milljarðar kr. eða 860 þús. kr. á hvern Íslending, börn og gamalmenni meðtalin. Tillagan gerir ráð fyrir að þessar skuldir lækki um 13 milljarða kr. á ári að jafnaði. Þegar tekið hefur verið tillit til u.þ.b. 2% erlendrar verðbólgu sem rýrir skuldirnar um 4,5 milljarða kr. fyrstu árin þyrfti að greiða niður erlendar skuldir með 8–9 milljarða kr. jákvæðum viðskiptajöfnuði á hverju ári að jafnaði. Vextir, sem þjóðin greiðir af erlendum lánum, eru um 17 milljarðar kr. og þeir munu lækka þegar skuldin lækkar þannig að e.t.v. má fara hægar í sakirnar til að byrja með.
    Nokkur úrræði má nota til þess að grynnka á erlendum skuldum án þess að skerða innlenda fjárfestingu um of. Hafa nokkur þeirra þegar verið tekin í gagnið:
    Frjáls fjármagnsflutningur til útlanda og uppbygging innlends verðbréfamarkaðar sýnir hvaða fjárfesting stendur undir þeim vöxtum sem greiða þarf.
    Einkavæðing og minni ríkisforsjá og ríkisábyrgð leiða til betri fjárfestinga því að hinn erlendi lánveitandi verður að treysta því og tryggja sér að fjárfestingin skili honum þeim vöxtum sem hann krefst en getur ekki snúið sér til ríkisins í skjóli ríkisábyrgðar.
    Stór hluti af erlendum skuldum þjóðarinnar eru skuldir ríkissjóðs eða 137 milljarðar kr. af 225 milljörðum kr. Þessum skuldum má ná niður með tekjuafgangi sem þyrfti að vera 7 milljarðar kr. á hverju ár ef ekkert annað kæmi til.
    Með skattalögum má með skattfrelsi auka innlendan sparnað og mynda þannig mótvægi við erlendar skuldir og enn fremur má treysta meira á innlendan sparnað við opinberar framkvæmdir.
                  Stöðva má og jafnvel snúa við skuldasöfnun heimilanna með því að leggja niður vaxtabótakerfið sem hvetur einstaklinga til skuldasöfnunar og eyðileggur verðskyn þeirra gagnvart vöxtum. Styrk til húsbyggjenda má hafa í öðru formi.
    Með fræðsluherferð má gera fólki grein fyrir gildi sparnaðar og mikilvægi þess fyrir einstaklinginn og heimili að láta vexti vinna með sér en ekki á móti.
    Þvingaður sparnaður einstaklinga með lífeyrissjóðunum mun hjálpa til við að ná þessu marki, en sjóðsöfnun innan þeirra mun halda áfram fram yfir 2015.
    Varast ber að lækka erlendar skuldir með því að minnka arðbæra innlenda fjárfestingu. Þess í stað er hægt að minnka samneyslu og einkaneyslu með auknu aðhaldi og sparnaði.
    Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að gerð verði langtímaáætlun um afkomu ríkissjóðs og jafnframt verði gerðar áætlanir og stefnumörkun um það hvernig því marki verði náð að þjóðin eignist erlendis inneignir umfram skuldir upp úr árinu 2015.