Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 432 . mál.


736. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun kennsluhátta.

Flm.: Hjálmar Árnason, Pétur H. Blöndal, Ísólfur Gylfi Pálmason.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða kennsluhætti í skólum landsins. Í nefndinni sitji fulltrúar kennarasamtaka, skólastjórnenda, samtaka nemenda, samtaka foreldra, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og menntamálaráðuneytis.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur orðið ör þróun í samskiptatækni á ýmsum sviðum. Skal þar bent á tölvur, alnetið, myndbönd og fleira. Þessi nýja tækni felur m.a. í sér möguleika fyrir einstaklinga til að stunda nám á eigin vegum. Námsmöguleikar hafa með öðrum orðum breyst og aukist frá því sem var fyrir tiltölulega fáum árum. Hin nýja tækni felur í sér að einstaklingur getur leitað sér fanga í námi sínu á öðrum tímum og með öðrum hætti en lengi tíðkaðist. Námsfólk þarf ekki að vera bundið af stað eða tíma við ýmiss konar nám.
    Ýmsir halda því fram að kennsluhættir í skólum hafi lítið breyst frá tímum forn-Grikkja þegar karlar stóðu á kassa og messuðu yfir lýðnum. Ekki skal tekin afstaða til þeirrar skoðunar en í alla staði er eðlilegt að velta því fyrir sér með hvaða hætti nám fer fram. Benda má á að í daglegu umhverfi flestra barna er mikið af upplýsingum, sumar þeirra settar fram á lifandi hátt. Þegar svo nemendur koma inn í skólastofurnar blasir allt annað umhverfi við. Segja má að skólar og skipulag þeirra hafi um margt ekki náð að fylgja eftir þeirri þróun sem orðið hefur í umhverfinu hvað varðar tækni. Margt veldur en niðurstaðan er sú að námsumhverfi skólanna er ekki í takt við annað umhverfi nemenda. Skipulag skóla er í grundvallaratriðum enn byggt á hefðbundnum kennsluháttum en ekki þeirri tækni sem rutt hefur sér til rúms. Þetta skipulag gerir í raun ráð fyrir því að nám fari tæpast fram án nærveru kennara. Tillagan gerir ráð fyrir því að nefndin endurskoði kennsluhætti og skipulag skóla í þessu ljósi og skili tillögum til breytinga. Í þessu sambandi þarf hugsanlega að endurskilgreina hlutverk og starf kennara sem og samband þeirra við foreldra. Jafnframt verður að sinna félagslega þættinum en hin nýja tækni felur í sér hættu á félagslegri einangrun. Af framansögðu er ljóst að mikilvægt er að sem flestar stéttir er tengjast námi barna taki þátt í því starfi sem nefndinni er ætlað að sinna.