Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 444 . mál.


756. Frumvarp til lagaum breytingar á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)1. gr.

    Í stað „15%“ í 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: 8%.

2. gr.

    Í stað orðanna „Stofnfjársjóði fiskiskipa“ í 6. gr. laganna kemur: Lífeyrissjóði sjómanna.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
    1. tölul. fellur brott og breytist töluröð annarra liða til samræmis við það.
    Í stað orðanna „Stofnfjársjóði fiskiskipa“ í 3. tölul., er verði 2. tölul., kemur: Lífeyrissjóði sjómanna.

4. gr.

    Í stað 2. mgr. 9. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Við skiptingu fjár milli þeirra samtaka sem um er rætt í 2. tölul. 1. mgr. annars vegar og 3. tölul. 1. mgr. hins vegar skal taka mið af fjölda félagsmanna er við fiskveiðar vinna. Skulu aðilar koma sér saman um skiptingu fjár milli hlutaðeigandi samtaka og tilkynna Lífeyrissjóði sjómanna um samkomulagið.
    Komi upp ágreiningur um skiptingu fjár skv. 2. mgr. getur aðili óskað eftir því við sjávarútvegsráðherra að skipaður verði gerðardómur til að leysa úr ágreiningnum. Gerðardómur vegna ágreinings um skiptingu fjár skv. 2. tölul. 1. mgr. skal skipaður fimm mönnum, tveim tilnefndum af Sjómannasambandi Íslands, einum tilnefndum af Alþýðusambandi Austfjarða, einum tilnefndum af Alþýðusambandi Vestfjarða og einum tilnefndum af dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur og er sá jafnframt formaður gerðardómsins. Gerðardómur um skiptingu fjár skv. 3. tölul. 1. mgr. skal skipaður þremur mönnum, einum tilnefndum af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, einum tilnefndum af Vélstjórafélagi Íslands og einum tilnefndum af dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur og er sá jafnframt formaður gerðardóms. Úrskurður gerðardóms er bindandi. Kostnaður af starfi gerðardóms skal greiddur af aðilum máls.
    Sjávarútvegsráðherra getur sett reglur um starfsemi gerðardóms samkvæmt þessari grein.
    

5. gr.

    Í stað orðanna „Stofnfjársjóði fiskiskipa“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: Lífeyrissjóði sjómanna.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
    Í stað orðanna: „Fiskveiðasjóður Íslands“ kemur: Lífeyrissjóður sjómanna.
    Orðin „Stofnfjársjóðs fiskiskipa og“ falla brott.
    Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Aðilar greiðslumiðlunar skv. 8. og 9. gr. skulu koma sér saman um skiptingu kostnaðar sem leiðir af umsýslu Lífeyrissjóðs sjómanna fyrir greiðslumiðlunina. Náist ekki samkomulag um skiptingu kostnaðar skal ráðherra setja reglugerð um slíka skiptingu.
    

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


    Eignum Styrktar- og lánasjóðs fiskiskipa og Framkvæmdasjóðs, sem verið hafa í vörslu Fiskveiðasjóðs, skal varið til rannsókna á kjörhæfni veiðarfæra og áhrifum þeirra á lífríki sjávar. Skal ráðherra semja við fjármálastofnanir um varðveislu og innheimtu verðbréfa sjóðanna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt frumvarpi til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er gert ráð fyrir að starfsemi Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs verði sameinuð 1. janúar 1998. Af þeim sökum er nauðsynlegt að gera breytingar á gildandi lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að Lífeyrissjóði sjómanna verði falið að annast miðlun á því fé sem runnið hefur til sérstaks greiðslumiðlunarreiknings hjá Stofnfjársjóði. Þá er með frumvarpinu lagt til að tveir sjóðir, sem hafa verið vistaðir hjá Fiskveiðasjóði, verði lagðir niður. Er það annars vegar Styrktar- og lánasjóður fiskiskipa og hins vegar Framkvæmdasjóður.
    Samkvæmt gildandi lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins er 15% af hráefnisverði þilfarsskipa 10 brl. og stærri haldið eftir af veðsetningu eða gjaldeyrisskilum og sú upphæð lögð inn á sérstakan bankareikning. Fénu er því ráðstafað með þrennum hætti: Í fyrsta lagi greiðast 7% af hráefnisverði fiskiskipa inn á stofnfjársjóðsreikning viðkomandi skips hjá Fiskveiðasjóði Íslands og rennur það fé til greiðslu afborgana og vaxta af veðlánum skipsins. Í öðru lagi greiðast 6% inn á vátryggingarreikning skipsins hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna til greiðslu tryggingariðgjalda. Í þriðja lagi greiðast 2% af hráefnisverði inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa. Á árinu 1996 námu þessar greiðslur til Stofnfjársjóðs fiskiskipa um 1.079 millj. kr. Fyrir opna báta og báta minni en 10 brl. er haldið eftir 10% af hráefnisverði og það fé lagt inn á greiðslumiðlunarreikninginn hjá Stofnfjársjóði. Heildargreiðslur vegna þessara báta námu um 392 millj. kr. á árinu 1996. Því fé, sem safnast á greiðslumiðlunarreikning, er síðan skipt mánaðarlega í samræmi við ákvæði 8. og 9. gr. laganna til greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða, iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu og félagsgjalda til samtaka sjómanna og útgerðarmanna. Samtals miðlaði greiðslumiðlunarreikningur Stofnfjársjóðs því um 1.471 millj. kr. á árinu 1996. Af þeirri fjárhæð fóru 1.192 millj. kr. til Lífeyrissjóðs sjómanna en sjóðurinn endurmiðlaði um 35% af þeirri fjárhæð eða rúmlega 400 millj. kr. til annarra lífeyrissjóða.
    Með frumvarpi um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er gert ráð fyrir að bankinn yfirtaki allar skuldbindingar Fiskveiðasjóðs Íslands. Í því felst m.a. að bankinn mun innheimta útistandandi lán Fiskveiðasjóðs vegna fiskiskipa. Ekki þykir eðlilegt að þessi innheimta verði tryggð með sérstökum lögum eftir að fjárfestingarbankinn hefur tekið til starfa enda er að því stefnt með lagasetningunni að afnema þann greinarmun sem gerður hefur verið á milli einstakra atvinnugreina. Í frumvarpinu um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. er lagt til að lög um Stofnfjársjóð fiskiskipa verði afnumin. Í framhaldi af þeirri tillögu er með þessu frumvarpi lagt til að niður verði felld sú lagaskylda sem hvílt hefur á viðskiptabönkum að halda eftir 7% af hráefnisverði fiskiskipa í samræmi við 5. gr. gildandi laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun.
    Hins vegar er með frumvarpi þessu gert ráð fyrir að greiðslumiðlunarþátturinn í starfsemi Stofnfjársjóðs fiskiskipa haldi áfram óbreyttur frá því sem verið hefur. Ekki þykir hins vegar eðlilegt að láta fjárfestingarbankann annast þá þjónustu og er því lagt til að Lífeyrissjóði sjómanna verði falið það hlutverk enda fær sjóðurinn um 50% þeirra fjármuna sem miðlað er með þessum hætti.
    Ljóst er að talsverður kostnaður fylgir því að reka þessa greiðslumiðlun. Samkvæmt áætlun Fiskveiðasjóðs nam heildarkostnaður sjóðsins á árinu 1996 um 10,7 millj. kr. vegna greiðslumiðlunarinnar. Á sama tíma voru vaxtatekjur sjóðsins af greiðslumiðlunarreikningnum áætlaðar um 3,7 millj. kr. Kostnaður umfram tekjur var því áætlaður um 7 millj. kr. á árinu 1996. Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að aðilar greiðslumiðlunarinnar komi sér saman um skiptingu kostnaðar af þessari starfsemi.
    Hjá Fiskveiðasjóði Íslands eru vistaðir tveir sjóðir sem stofnaðir voru með lögum nr. 55/1942, um Framkvæmdasjóð ríkisins. Með lögum nr. 9/1944, um nýbyggingu fiskiskipa, var tekin ákvörðun um að veita fé úr Framkvæmdasjóði í sérstakan sjóð er nefnist Styrktar- og lánasjóður fiskiskipa. Hlutverk þess sjóðs hefur verið að veita lán vegna tímabundinna og óvæntra áfalla í útgerð. Á undanförnum árum hafa þessi lán einkum verið veitt til eigenda smábáta. Hafa lánin numið mest 300 þús. kr. og eru þau tryggð með veði í viðkomandi báti. Lánin hafa verið veitt til fimm ára og með vöxtum sem nema 70% af meðalvöxtum viðskiptabankanna. Heildareignir Styrktar- og lánasjóðs fiskiskipa nema um 17 millj. kr. Af þeirri fjárhæð eru útlán sjóðsins um helmingur.
    Á árunum 1945 til 1948 veitti ríkissjóður fé til Framkvæmdasjóðs en þessi sjóður veitti lán til útgerðarfyrirtækja allt fram til ársins 1974. Frá þeim tíma hafa eignir sjóðsins verið varðveittar á bankareikningum. Eignir sjóðsins nema nú rúmlega 1,5 millj. kr. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þessir sjóðir verði lagðir niður og að eignum þeirra verði ráðstafað til rannsókna á kjörhæfni veiðarfæra og áhrifum þeirra á lífríki sjávar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að viðskiptabankarnir haldi einungis eftir 8% af hráefnisverði fiskiskipa við veðsetningu eða gjaldeyrisskil í stað 15% samkvæmt gildandi lögum.
    

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um að Lífeyrissjóður sjómanna taki við greiðslumiðlunarhlutverki Stofnfjársjóðs fiskiskipa. Eins og rakið var í almennum athugasemdum hér að framan er þessi tillaga gerð þar sem stærstum hluta þeirra fjármuna sem fara um greiðslumiðlun Stofnfjársjóðs fiskiskipa er miðlað til Lífeyrissjóðs sjómanna. Því þykir eðlilegt að Lífeyrissjóði sjómanna verði falið þetta hlutverk.

Um 3. gr.


    Með þessari grein er lagt til að 1. tölul. 5. gr. verði felldur brott en þar er kveðið á um að 7% af hráefnisverði fiskiskipa renni til Stofnfjársjóðs fiskiskipa. Röð síðari töluliða greinarinnar breytist í samræmi við það.
    

Um 4. gr.


    Á árinu 1996 var alls miðlað um 1.470.729 þús. kr. af greiðslumiðlunarreikningi hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa. Í samræmi við ákvæði 8. og 9. gr. gildandi laga var þeim fjármunum skipt á eftirfarandi hátt milli einstakra aðila:
    
    1. Lífeyrissjóður sjómanna     
1.192.000
    þús. kr.
    2. Slysa- og tryggingariðgjöld smábáta     
184.111
    þús. kr.
    3. Landssamband smábátaeigenda     
19.586
    þús. kr.
    4. Sjómannasamband Íslands, Alþýðusamband
     Austfjarða og Alþýðusamband Vestfjarða     
22.622
    þús. kr.
    5. Vélstjórafélag Íslands     
5.027
    þús. kr.
    6. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands     
10.054
    þús. kr.
    7. Landssamband íslenskra útvegsmanna     
37.703
    þús. kr.
                             
Samtals 1.470.729     þús. kr.

    Af því fé sem miðlað er til Lífeyrissjóðs sjómanna af greiðslumiðlunarreikningi endurmiðlar sjóðurinn um 35% til annarra lífeyrissjóða eða sem svarar til rúmlega 400 millj. kr. miðað við árið 1996. Eins og áður hefur verið rakið er gert ráð fyrir að þessi starfsemi verði óbreytt að öðru leyti en því að Lífeyrissjóði sjómanna verði falið að miðla þessum fjármunum í stað Stofnfjársjóðs fiskiskipa.
    Í 2. og 3. mgr. er kveðið á um skiptingu fjár milli Sjómannasambands Íslands, Alþýðusambands Austfjarða og Alþýðusambands Vestfjarða annars vegar og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands hins vegar. Er lagt til að meginreglan verði sú að þessi félög skuli koma sér saman um skiptinguna og að við þá skiptingu verði tekið mið af fjölda félagsmanna sem starfa við fiskveiðar. Náist ekki samkomulag um skiptinguna er lagt til að hver aðili um sig geti óskað eftir því að skipaður verði gerðardómur. Er þetta breyting frá gildandi lögum en samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra geti sett reglur um skiptingu fjárins. Lagt er til að formaður verði skipaður af dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur. Niðurstaða gerðardóms verður bindandi fyrir báða aðila og kostnaður af starfi hans greiðist af aðilum máls. Að öðru leyti eru ekki lagðar til ítarlegar leiðbeiningar um starfsemi gerðardómsins en hann hlýtur eðli máls samkvæmt að starfa eftir almennum reglum sem gilda um slíka dóma. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett slíkar reglur reynist það nauðsynlegt.
    

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 6. gr.


    Eins og rakið var í almennum athugasemdum má búast við að Lífeyrissjóður sjómanna muni hafa nokkurn kostnað af því að annast greiðslumiðlun í samræmi við ákvæði 8. og 9. gr. laganna. Því er með c-lið greinarinnar lagt til að aðilar greiðslumiðlunarinnar komi sér saman um skiptingu kostnaðar. Ekki eru settar leiðbeiningar í frumvarpinu um það hvernig eigi að standa að slíkri kostnaðarskiptingu. Náist ekki samkomulag milli aðila er lagt til að ráðherra setji reglugerð um skiptingu kostnaðar er mundi þá taka mið af kostnaði Lífeyrissjóðs sjómanna við að annast greiðslumiðlunina og hlutdeild einstakra aðila í greiðslumiðlunarkerfinu.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 1998 eða á sama tíma og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. tekur til starfa og lög um Fiskveiðasjóð Íslands og Stofnfjársjóð fiskiskipa falla úr gildi skv. 19. gr. frumvarps til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Undanfarið hafa málefni er varða umgengni um auðlindir hafsins fengið aukna athygli. Má nefna lög um umgengni um auðlindir sjávar sem samþykkt voru á síðasta ári en að undirbúningi þeirrar lagasetningar vann sérstök nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði. Nefnd þessi starfar enn og eitt af verkefnum hennar er að fjalla um gerð og búnað veiðarfæra og notkun þeirra.
    Rannsóknir á veiðarfærum og hönnun þeirra með tilliti til þess að einungis veiðist þeir fiskar sem sóst er eftir, er mikilvægt verkefni. Mikil þróun hefur átt sér stað á þessu sviði undanfarin ár. Hafrannsóknastofnunin hefur kannað ýmsar leiðir til að auka kjörhæfni veiðarfæra, má þar nefna seiðaskiljur og smáfiskaskiljur, leggpoka, leggglugga o.fl. Ráðuneytið hefur mikinn áhuga á að slíkar rannsóknir verði efldar og bindur miklar vonir við að þróun á þessu sviði skili miklum árangri í betri umgengni um auðlindina. Nú er almenn skylda að nota seiðaskilju við úthafsrækjuveiðar og hefur sú stefna verið mörkuð að opna lokuð svæði fyrir veiðum ef smáfiskaskilja er notuð í vörpunni. Þrátt fyrir að þessum áfanga sé náð er ljóst að enn má ná betri árangri við að auka kjörhæfni veiðarfæra, með frekari þróun ýmissa tegunda af skiljum og öðrum breytingum á veiðarfærum. Gildir það ekki einungis fyrir togveiðarfæri þótt mest áhersla hafi verið lögð á að auka kjörhæfni þeirra. Rannsóknir á veiðarfærum eru dýrar m.a. vegna þess að þær verður að mestu leyti að framkvæma á sjó og oft er um tiltölulega dýran búnað að ræða. Myndarlegt átak í þessum efnum getur komið Íslendingum í fremstu röð á þessu sviði og ekki einungis fært umgengni um fiskstofnana til betri vegar heldur komið íslenskum framleiðendum slíks búnaðar til góða, ekki síst með tilliti til útflutnings. Með hliðsjón af framansögðu er lagt til að eignum þessara tveggja sjóða sem verið hafa í vörslu Fiskveiðasjóðs verði varið til átaks í þessum efnum samkvæmt sérstakri verkefnaáætlun sem unnin verður af Hafrannsóknastofnuninni.
    Lagt er til að heimilt verði að semja við fjármálastofnanir um vistun á þessu fé. Hér er fyrst og fremst átt við innheimtu á útistandandi veðlánum Styrktar- og lánasjóðs fiskiskipa en þau eru um helmingur af eignum sjóðsins.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 24/1986


um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan


sjávarútvegsins, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Stofnfjársjóður fiskiskipa verði lagður niður og þær innheimtur sem hann hefur annast verði lækkaðar og þeim komið annars staðar fyrir. Breyting þessi er lögð til í tengslum við fyrirhugaðan samruna Fiskveiðasjóðs inn í Fjárfestingarbanka atvinnuveganna.
    Í fyrsta lagi verði gjald það er til þessa hefur runnið til Stofnfjársjóðs fiskiskipa og numið 15% lækkað í 8%. Lækkunin felst í því að hætt verður að innheimta 7% af hráefnisverði fiskiskipa til að greiða afborganir og vextir af veðlánum skipsins. Þau 8% sem eftir eru munu áfram skiptast þannig að 6% verði lögð inn á vátryggingareikning hjá LÍÚ til greiðslu tryggingaiðgjalda og 2% inn á greiðslumiðlunarreikning sem verði hjá Lífeyrissjóði sjómanna í stað Stofnfjársjóðs fiskiskipa sem ætlað er að leggja niður.
    Í öðru lagi verða tveir sjóðir, sem hættir eru starfsemi að mestu, Styrktar- og lánasjóður fiskiskipa og Framkvæmdasjóður ríkisins, lagðir niður og eftirstöðvum af eignum þeirra, samtals um 18–19 m.kr., varið til rannsókna á áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar.
    Ekki verður séð að breytingar þessar muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.