Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 446 . mál.


758. Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97.)1. gr.

    43. gr. orðast svo:
    Í fjármálaráðuneytinu skal haldin skrá yfir viðurkennda bókara. Öðrum en þeim sem teknir hafa verið á skrá er óheimilt að kalla sig viðurkenndan bókara eða með öðrum hætti gefa til kynna að þeir hafi hlotið viðurkenningu ráðherra samkvæmt þessari grein.
    Sá sem óskar að fá viðurkenningu sem bókari og verður tekinn á skrá skv. 1. mgr. skal fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
    Vera heimilisfastur hér á landi.
    Vera lögráða og hafa forræði á búi sínu.
    Hafa staðist próf skv. 3. mgr.
    Fjármálaráðherra skal hlutast til um að reglulega séu haldin námskeið og próf fyrir þá sem vilja fá viðurkenningu sem bókarar. Í viðurkenningu ráðherra felst að viðkomandi aðili hefur staðist próf í bókfærslu, helstu atriðum reikningsskila og lögum og reglugerðum um skattskil.
    Til að annast námskeið og próf skipar ráðherra þriggja manna prófnefnd. Ráðherra getur, að fenginni umsögn prófnefndar, falið öðrum að annast námskeið og próf samkvæmt lögum þessum. Ákvæði um tilhögun námskeiða, námsgreinar og kennslu, svo og námskeiða- og prófagjöld skulu sett í reglugerð. Við ákvörðun á fjárhæð þeirra skal við það miðað að þau séu eigi hærri en kostnaður við námskeið og próf.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Engin ákvæði eru í íslenskum lögum um starfsemi þeirra sem hafa atvinnu af því að færa bókhald og annast gerð reikningsskila og skattskila fyrir fyrirtæki. Þannig eru engar kröfur gerðar í lögum til menntunar eða hæfni þeirra sem selja slíka þjónustu. Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að búin verði til ný lögvernduð stétt manna heldur er gert ráð fyrir að stjórnvöld hlutist til um að haldin verði námskeið og síðan próf þar sem þeir sem þess óska geta sannreynt fagþekkingu sína í bókfærslu, reikningsskilum og skattarétti og fengið síðan opinbera staðfestingu á þeirri þekkingu. Ef þeir þannig standast þær kröfur sem gerðar eru og fullnægja að öðru leyti almennum hefðbundnum hæfisskilyrðum fá þeir sérstaka viðurkenningu ráðherra á faglegri hæfni sinni. Jafnframt eru þeir teknir á sérstaka skrá sem gert er ráð fyrir að haldin sé í fjármálaráðuneytinu yfir þá einstaklinga sem hlotið hafa viðurkenningu sem bókarar með þessum hætti.
    Sá kostur er ekki valinn í frumvarpi þessu að kveða á um sérstaka lögverndun, með sama hætti og gildir til að mynda um endurskoðendur, fasteignasala og bifreiðasala. Ástæðan er sú að verkefni þau sem hér um ræðir eru núna framkvæmd af hópi manna sem alls ekki er samstæður eða sambærilegur innbyrðis. Þykir því rétt að fara varlega í lögverndun á þessu stigi. Má í þessu sambandi nefna sem dæmi að ekki mun vera óalgengt að bændur víða um land taki að sér í hjáverkum að þjónusta nágranna sína á þessu sviði og mundi lögverndun í mörgum tilvikum koma í veg fyrir það fyrirkomulag.
    Með frumvarpinu er fyrst og fremst horft til þeirra sem kaupa bókhaldsþjónustu. Með þeirri opinberu viðurkenningu sem hér er lögð til má gera ráð fyrir að sá sem vill kaupa þjónustu af hæfum aðila geti gengið að því vísu að fá slíka þjónustu ef fyrir liggur að viðkomandi þjónustuaðili hefur staðist þau próf sem lögð eru til í þessu frumvarpi. Þannig má ætla að viðskipti á þessu sviði færist til þeirra sem hlotið hafa opinbera staðfestingu á faglegri þekkingu sinni. Þær breytingar sem hér eru lagðar til koma þó fleirum til góða, þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að hver sem þess æskir geti sótt námskeið og tekið próf til að fá viðurkenningu sem bókarar. Má gera ráð fyrir að auk þeirra sem reka bókhaldsfyrirtæki muni margir þeirra sem vinna sem launþegar við færslu bókhalds hjá fyrirtækjum nýta þetta tækifæri til að sannreyna þekkingu sína og bæta við hana eftir atvikum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra skipi þriggja manna prófnefnd sem sjái um námskeið og próf. Jafnframt er opnað fyrir þann möguleika að þetta hlutverk verði falið öðrum aðila. Þannig má t.d. hugsa sér að Háskóla Íslands yrði falið að annast námskeiðshald og umsjón prófa.
    Frumvarpið felur það í sér að hver sá er vill geti fengið viðurkenningu eða staðfestingu á faglegri þekkingu sinni og þar með fengið heimild til að nota menntunarheitið „viðurkenndur bókari“. Heitið „viðurkenndur bókari“ felur það í sér að ráðherra hefur staðfest að bókarinn hefur staðist próf þar sem reyndi á þekkingu í bókfærslu, helstu atriðum reikningsskila og lögum og reglugerðum varðandi skattskil. Viðurkenning ráðherra er þannig staðfesting á því að viðkomandi hefur fullnægt ákveðnum almennum hæfisskilyrðum, þ.e. að viðkomandi sé heimilisfastur hér á landi, lögráða og hafi forræði á búi sínu, auk þess að hafa staðist próf þau sem hér er kveðið á um. Er gert ráð fyrir að öðrum en þeim sem uppfylla framangreind skilyrði og færðir hafa verið á sérstaka skrá sem haldin verður í ráðuneytinu verði óheimilt að kalla sig viðurkennda bókara.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/1994,


um bókhald, með síðari breytingum.


    Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins munu þeir sem vilja öðlast opinbera viðurkenningu sem bókarar þreyta til þess sérstakt próf í reikningshaldi og greiða sjálfir allan kostnað við námskeið og próftöku. Er því ekki gert ráð fyrir að frumvarp þetta hafi í för með sér viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð.