Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 447 . mál.


759. Tillaga til þingsályktunar



um átaksverkefni til eflingar iðnaði sem nýtir ál við framleiðslu sína.

Flm.: Árni R. Árnason, Guðjón Guðmundsson,


Sigríður A. Þórðardóttir, Pétur H. Blöndal.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að beita sér fyrir átaksverkefni til að efla og auka iðnað er nýtir ál sem hráefni eða aðvinnsluefni.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að gert verði átak til að efla og auka iðnað er notar ál sem hráefni eða aðvinnsluefni.
    Allt frá því að álverið í Straumsvík hóf starfsemi sína hafa vonir staðið til þess að hér á landi hæfist framleiðsla á vörum úr áli eða framleiðsla sem nýtir ál við vinnslu annarra hráefna. Þótt liðnir séu um þrír áratugir eru hugmyndir um þess konar framleiðslu enn að mestu óljósar og framleiðsla af þessu tagi afar lítil. Ál framleitt á Íslandi er enn sem komið er, líkt og flestar aðrar afurðir Íslendinga, hráefni fullvinnsluiðnaðar annarra landa.
    Ál er notað sem hráefni í margvíslega framleiðslu, og vörur úr áli eða álblöndum eru gríðarlega fjölbreyttar. Hluti framleiðslunnar hefur þróast á þann veg að um mjög stórtæka starfsemi er að ræða, t.d. völsun. Hugsanlegt er að ýmsar þess háttar framleiðslugreinar geti verið samkeppnisfærar ef miðað er við lítil eða meðalstór umsvif, og þarf að athuga til hlítar slíka möguleika. Til þess að þróun íslensks áliðnaðar geti hafist fyrir alvöru virðist ljóst að vinna þurfi skipulega við að byggja upp þekkingu á notkunarmöguleikum, aðferðum og tækni, markaðsmöguleikum og öðrum grundvallaratriðum. Þá þekkingu þarf síðan að gera aðgengilega m.a. með því að bjóða upp á nám á þessu sviði. Aðeins á grunni slíkrar þekkingar getur hugkvæmni manna og athafnavilji beinst að iðnaðarframleiðslu úr áli sem hráefni eða aðvinnsluefni.
    Það er skoðun flutningsmanna að nauðsynlegt sé að skapa möguleika á að slíkur iðnaður geti þróast hér á landi, hann geti hér sem annars staðar orðið arðvænleg viðbót fyrir þjóðarbúið og eftirsóknarverður til þess að dreifa fjárhagslegri áhættu. Hjá ÍSAL er til staðar mikil þekking á álmörkuðum. Fyrirtækið hefur byggt upp búnað og aðstöðu til efnagreininga á áli sem er einstæð hérlendis, og hefur lýst sig reiðubúið til að veita nokkra aðstoð við þess háttar undirstöðustarf. Einn af kostum framleiðslu úr áli hérlendis er nálægð álvers sem getur afhent hráefnið bráðið beint í vinnsluferil sé framleiðslan innan 5–6 klst. akstursfjarlægðar frá álveri. Þannig sparast kostnaður við endurbræðslu álsins sem mun vera umtalsverður. Ljóst er að fleiri slíkir möguleikar eru fram undan, jafnvel að hér rísi stóriðjuver í bræðslu annarra málma sem mest eru notaðir ásamt áli í framleiðslu fjölbreyttra iðnaðarafurða.
    Til þess að þetta geti orðið þarf að greina möguleikana, hvernig og í hvaða umfangi er líklegt að þeir geti orðið tæknilega og fjárhagslega hagkvæmir og hvaða þekkingu þarf til að nýta þá. Fræðslu um þessi atriði verður að bjóða fram á námsbrautum iðn- og tæknigreina svo og í endurmenntunarferlum þeirra. Að auki þarf að kynna hvað þarf til að hefja slíka iðnframleiðslu og hvað þarf til starfsemi hennar. Tillagan gerir ráð fyrir að átaksverkefnið byggist á grunnrannsóknum á þessu sviði og sú þekking sem þannig verði til verði sem aðgengilegust. Átaksverkefnið verði til þess að gefa áliðnaði aukna áherslu og styðji þannig iðnað, iðnþróun og nýsköpun hér á landi og virki sem öflug hvatning til þess að til verði iðnaður sem nýti ál sem hráefni og aðvinnsluefni. Í slíku verkefni gæti væntanlega nýst sú þekking sem aflast hefur með nokkrum þróunarverkefnum á sviði áliðnaðar sem Iðntæknistofnun hefur á undanförnum árum átt aðild að. Líklegt má telja að vel sé til árangurs fallið að fá til þátttöku í slíku grundvallarstarfi aðila sem starfrækja hér stóriðju í álframleiðslu og í framtíðinni aðila sem starfrækja hér annars konar stóriðju.
    Undirbúningsfélag hefur undanfarin missiri unnið að athugunum á byggingu og starfsemi magnesíumvers á Reykjanesi. Niðurstöður hagkvæmniathugunar liggja væntanlega fyrir á næstu vikum. Í slíku starfi sem hér er lagt til að verði unnið þarf að kanna sérstaklega þá möguleika sem fólgnir kunna að vera í byggingu og starfsemi magnesíumvers hérlendis. Magnesíum er léttur og sterkur málmur, léttari en ál og sterkari en járn og því mjög hentugt til blöndunar við ál til að steypa mjög fjölbreyttar framleiðsluvörur. Hvati að verulega aukinni magnesíumframleiðslu í heiminum eru ákvæði bandarískra laga um minni eldsneytisnotkun bifreiða sem koma til framkvæmda á næstu árum. Helsta leið bifreiðaframleiðenda til að fullnægja þeim ákvæðum er að létta bifreiðar með því að nota í mikinn hluta þeirra ál- og magnesíumblöndur. Árangurinn er minni mengun, einkum verulega minna magn gróðurhúsalofttegunda í útblæstri bifreiða. Ef af byggingu magnesíumvers verður á Reykjanesi er mjög líklegt að fýsilegt þyki að staðsetja þar málmsteypu sem framleiði hluta fyrir bifreiðaframleiðslu. Það gæti orðið góður kostur af hagrænum og tæknilegum ástæðum svo sem nálægð við álver, magnesíumver, orkulindir og útflutningshafnir. Aðild okkar að EES gæti einnig gert staðsetningu hér fýsilega, t.d. fyrir bandarískar bílaverksmiðjur sem hyggja á markaðssetningu í Evrópu eða bílaverksmiðjur sem hyggja á markaðssetningu á meginlöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Af þessum ástæðum er brýn nauðsyn að hefja nú þegar undirbúning að námsefni og fræðslu um tækni, aðferðir, markaðsmál og hvers konar möguleika sem þessu kunna að fylgja. Ef vel tekst til gæti samsetning atvinnuvega Íslendinga gjörbreyst og atvinnulíf orðið fjölbreyttara og ekki síst gefið enn fleiri möguleika og tækifæri til að nýta menntun og hugkvæmni uppvaxandi kynslóða og byggja upp tækniþekkingu sem er okkur nú fjarlæg og ókunn. Rétt eins og störf í álverum og magnesíumverum mundu störf í þeim greinum sem hér er átt við verða að taka mið af mengunarvörnum og umhverfisvernd.