Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 448 . mál.


760. Tillaga til þingsályktunar



um athugun á nýtingarmöguleikum gróðurhúsalofttegunda.

Flm.: Árni R. Árnason, Guðjón Guðmundsson,


Sigríður A. Þórðardóttir, Pétur H. Blöndal.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta athuga til hlítar möguleika á að nýta gróðurhúsalofttegundir til eldsneytisframleiðslu og í hvers konar iðnaði eða iðnaðarferlum.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að athugað verði til hlítar hverjir möguleikar eru á að nýta gróðurhúsalofttegundir til eldsneytisframleiðslu og í hvers konar iðnaði eða iðnaðarferlum.
    Að undanförnu hefur orðið mikil almenn umræða um útstreymi gróðurhúsalofttegunda hérlendis og hvers muni að vænta miðað við fyrirætlanir og ráðagerðir um aukna stóriðju og orkuframleiðslu. Vísað hefur verið til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og nauðsynjar á að vernda umhverfi og náttúru og að verjast mengun með árangursríkum hætti.
    Í svari umhverfisráðherra, í þingskjali nr. 513 frá þessu þingi, birtust upplýsingar um útstreymi gróðurhúsalofttegunda á undanförnum árum og áætlun um það í nálægri framtíð. Þar kom m.a. fram að reiknað í koltvíoxíð-ígildum (CO 2 ) var útstreymið:
—    Árið 1990 samtals 2.860 þús. tonn, þar af koltvíoxíð (CO 2 ) 2.147 þús. tonn eða 75,1%,
—    árið 1995 samtals 2.744 þús. tonn, þar af koltvíoxíð 2.282 þús. tonn eða 83,2% og
—    árið 2000 áætlað samtals 3.036 þús. tonn, þar af koltvíoxíð 2.457 þús. tonn eða 80,9%, og var þá tekið tillit til stækkunar álvers ÍSAL við Straumsvík.
    Þá kom og fram spá um aukningu þessa útstreymis ef verður af þeim hugmyndum um stóriðju sem nú eru uppi, þ.e. um álver og stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga, álver á Keilisnesi og magnesíumverksmiðju á Reykjanesi. Sú spá gerði ráð fyrir aukningu, reiknaðri í koltvíoxíð-ígildum, um 3.706 þús. tonn. Samtals yrði útstreymi því 6.743 þús. tonn, þar af koltvíoxíð 3.712 þús. tonn eða 55%. Þess ber þó að geta að í því skjali gætti ónákvæmni varðandi upplýsingar um magnesíumverksmiðju á Reykjanesi og raunhæfar upplýsingar breyta talsverðu um niðurstöðu þessarar spár. Enn fremur kom fram að Ísland er aðili að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og er í hópi ríkja sem hafa sameiginlega skuldbundið sig til að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda verði árið 2000 ekki meiri en hún var árið 1990. Nú er talið að til þess þurfi þau sameiginlega að draga úr útstreyminu um 50% frá því sem nú er.
    Af hálfu stjórnvalda er unnið að ýmsum aðgerðum sem ætlað er að hvetja til orkusparnaðar og notkunar eldsneytis sem losi minna af þessum lofttegundum við brennslu. Til umfjöllunar er áætlun um stóraukna landgræðslu og skógrækt, bæði í þeim tilgangi að styrkja og auka gróðurþekju landsins og þeim að auka koltvíoxíðbindingu í gróðri um 100 þús. tonn fram til ársins 2000. Ekki er ljóst um heildarárangur af þessum aðgerðum, en þess er vart að vænta að hann muni vega upp á móti framangreindri aukningu útstreymis. Af þeim sökum er fullkomin ástæða til að kanna til hlítar alla möguleika sem kunna að vera til að nýta þessar lofttegundir. Skulu hér nefnd nokkur dæmi um möguleika sem athuga þarf:
—    Fram hefur komið að koltvíoxíð má nýta ásamt vetni til framleiðslu metanóls sem er hentugt eldsneyti fyrir bíla og skip í stað bensíns og olíu. Metanól er hentugra en vetnið sjálft og brennur með minni losun gróðurhúsalofttegunda en bensín og olíur. Ef verður af magnesíumverksmiðju á Reykjanesi mun vetnisframleiðsla hérlendis, sem nú er lítil og því ekki hagkvæm, verða nægileg til að ná hagkvæmni. Frá stóriðju og jarðvarmavirkjunum má væntanlega fá mikið af koltvíoxíði. Því er ástæða til að rannsökuð verði framleiðsla á metanóli, hvaða nýjungar hafi komið fram í framleiðsluaðferðum, hvort slík hagkvæmni náist að metanól gæti orðið samkeppnisfært við bensín og brennsluolíur, og þá með tilliti til þess að koltvíoxíðútstreymi kann að verða skattlagt vegna mengunar. Slík gjaldtaka er orðin meira en hugsanleg.
—    Fyrirtækið Ískem, sem m.a. Iðntæknistofnun og Hitaveita Suðurnesja eiga aðild að, hefur kannað möguleika á nýtingu ýmissa gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum í nokkrum iðnaðarferlum. Þær athuganir hafa leitt í ljós margvíslega möguleika á þessu sviði sem ástæða er til að verði kannaðir til hlítar.
—    Margar gróðurhúsalofttegundir eru fluttar inn til fjölbreytilegra nota. Rétt er að ganga úr skugga um hverjar þeirra megi framleiða hér innan lands, t.d. sem aukaafurðir annarrar starfsemi eða með því að vinna þær úr útblæstri.