Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 399 . mál.


791. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um framkvæmd laga um fangelsi og fangavist.

    Á landinu eru 138 fangapláss í fimm fangelsum. Þau eru:
    Fangelsið Litla-Hrauni: 87 fangapláss.
    Hegningarhúsið í Reykjavík: 16 fangapláss.
    Fangelsið Kópavogsbraut 17, Kópavogi: 12 fangapláss.
    Fangelsið Kvíabryggju: 14 fangapláss.
    Fangelsisdeildin í lögreglustöðinni á Akureyri: níu fangapláss.

    Hvernig er staðið að framkvæmd 13. gr. laga um fangelsi og fangavist þar sem kveðið er á um að í fangelsum skuli vera aðstaða og tæki til fjölbreyttrar vinnu? Hvernig er aðstaðan í hverju fangelsi fyrir sig?
    Í fangelsinu á Litla-Hrauni er aðstaða til vinnu góð eftir að nýr vinnuskáli var tekinn í notkun og eldra atvinnuhúsnæði endurbætt. Helstu þættir fangavinnunnar eru steypuvöruframleiðsla, bílnúmeragerð, framleiðsla á vörubrettum, samsetning og glerjun glugga, öskjuframleiðsla, kortagerð úr endurunnum pappír, járnsmíði, skrúfubútaframleiðsla og línuuppsetning, auk starfa við ræstingu, þvotta og viðhald húsa og lóðar.
    Í Hegningarhúsinu í Reykjavík er engin sérstök aðstaða til vinnu.
    Í fangelsinu Kópavogsbraut 17, Kópavogi er aðstaða til vinnu. Þar er m.a. þvottahús sem annast þvotta fyrir fangelsin í Reykjavík. Þá er unnið að ýmsum smáverkefnum.
    Í fangelsinu Kvíabryggju er góð aðstaða til vinnu.
    Í fangelsisdeildinni á lögreglustöðinni á Akureyri er engin sérstök aðstaða til vinnu.

    Hversu margir fangar stunda fulla vinnu eða vinna hluta úr degi?
    Á Litla-Hrauni stunduðu 42 fangar vinnu þann 11. mars 1996.
    Í Hegningarhúsinu hafa tveir fangar vinnu við ræstingar, þrif og önnur tilfallandi störf í fangarými.
    Í fangelsinu Kópavogsbraut 17, Kópavogi voru sjö vinnandi fangar 11. mars 1997.
    Á Kvíabryggju vinna allir fangar.
    Í fangelsisdeildinni á Akureyri starfar einn fangi við þrif á sameiginlegu fangarými.
    Hversu margir fangar eru án vinnu
         
    
    vegna veikinda eða annarra persónulegra ástæðna,
         
    
    vegna þess að aðstæður eru ekki fyrir hendi í fangelsum til að standa við umrætt ákvæði laganna?

    Þann 1l. mars 1997 voru afplánunarfangar 118, gæsluvarðhaldsfangar tíu og þrír afplánuðu vararefsingu fésekta. Af þeim stunduðu um 80 vinnu eða nám í fangelsunum. Sex fangar voru utan fangelsa í vinnu, fjórir í áfengismeðferð og tveir á sjúkrahúsi. Um 70% fanga voru því í vinnu, námi eða á sjúkrastofnun. Sumir fangar eru ekki vinnufærir og öðrum er ekki haldið til vinnu vegna agabrota í fangelsinu. Atvinnuástand er verst í fangelsunum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Þann 11. mars 1997 var 31 fangi vistaður í þessum fangelsum. Af þeim voru tíu með einhverja vinnu og einn á sjúkrastofnun. Miðað við að allir aðrir sem vistaðir eru í fangelsunum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri séu vinnufærir vantar vinnu fyrir 20 fanga. Þótt atvinnuástand sé almennt þokkalegt á Litla-Hrauni og Kvíabryggju koma tímabil þar sem erfitt er að finna vinnu við hæfi hvers og eins. 11. mars 1997 voru 18 fangar á Litla-Hrauni án vinnu af persónulegum ástæðum eða vegna þess að þeir voru óvinnufærir eða gátu ekki unnið vegna agabrota. Í því fangelsi er algengt að tveir til fjórir fangar séu ekki í vinnu fyrstu dagana eftir komu í fangelsið þar sem ekki eru ávallt í boði störf við hæfi hvers og eins.

    Hvernig er staðið að launagreiðslum til refsifanga, annars vegar hvað varðar greidd laun á vinnustund og hins vegar skil á launatengdum gjöldum af greiddum launum?
    Á Litla-Hrauni er tímakaup fanga 175–250 kr. og er þá tekið mið af arðsemi vinnunnar og vinnuhæfni fanga. Þeim föngum sem stunda nám eru einnig greidd laun.
    Í Hegningarhúsinu í Reykjavík og fangelsinu Kópavogsbraut 17, Kópavogi er tímakaup fanga 175 kr. á klst.
    Á Kvíabryggju er vinnan að hluta til ákvæðisvinna og geta fangar þá haft á bilinu 350–700 kr. á tímann. Þegar ekki er ákvæðisvinna er tímakaup 200 kr.
    Í fangelsum er ekki staðið skil á launatengdum gjöldum, en á Kvíabryggju er greitt gjald til verkalýðsfélagsins á staðnum.