Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 469 . mál.


795. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu sparnaðar og aukna hlutdeild almennings í atvinnurekstri.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Tómas Ingi Olrich,


Pétur H. Blöndal, Einar Oddur Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagasetningu er hafi það að markmiði að efla sparnað í þjóðfélaginu, auðvelda almenningi að eignast hlut í atvinnurekstri og tryggja þannig dreifða eignaraðild í atvinnulífinu. Í því skyni verði starfsfólki fyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkaði eða hafa verið einkavædd boðið að stofna sérstaka sparnaðarreikninga með hæstu ávöxtun, sem bundnir verði til þriggja til sjö ára, hjá viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Reikningarnir verði á nafni starfsmanna og verði föst fjárhæð af launum þeirra lögð inn á þá. Að loknum umsömdum binditíma eigi starfsmaðurinn rétt á að nýta sér það fé sem safnast hefur til þess að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu sem hann vinnur hjá á því gengi sem var á hlutabréfum þess þegar sparnaðartímabilið hófst. Kjósi hann hins vegar að verja fénu til annarra nota verði honum það frjálst.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hafa einstaklingar tekið vaxandi þátt í hlutabréfakaupum hér á landi og er það mjög í samræmi við alþjóðlega þróun. Enginn vafi er á því að nú er stærri hluti sparnaðar fólks bundinn í hlutabréfaeign en áður.
    Þessi þróun er afar æskileg. Með þátttöku í atvinnulífinu aukast áhrif almennings og stuðlar hún jafnframt að þeirri valddreifingu sem flestir telja æskilega. Enginn vafi er heldur á því að vaxandi eignarhlutdeild almennings í fyrirtækjum veitir stjórnendum aðhald og krafan um upplýsingar eykst.

Reynslan frá Bretlandi.
    Víða er þátttaka almennings í atvinnulífinu orðin mjög almenn. Bretland er gott dæmi um það. Einkavæðing stórra ríkisfyrirtækja hefur opnað fólki þar leið til þátttöku í atvinnulífinu af þessu tagi. Eignatekjur eru þess vegna orðnar mun stærri hluti af tekjuöflun almennings en áður var.
    Þessi þróun er litin jákvæðum augum af stjórnvöldum í Bretlandi og hafa þau stuðlað að henni á ýmsan hátt, svo sem með skattalegum aðgerðum líkt og raunar hefur verið gert hér á landi. Jafnframt hefur verið komið á margs konar sparnaðarformum til þess að auðvelda almenningi að eignast hlutabréf. Á það ekki síst við starfsfólk einstakra fyrirtækja. Sérstaklega hefur verið hugað að því að starfsfólk einkavæddra ríkisfyrirtækja eigi þess kost að eignast hlutabréf í fyrirtækjunum sem það vinnur hjá. Víðast hvar hefur þetta gengið vel og eru dæmi um að allt að 98% starfsmanna eigi hlut í því fyrirtæki sem þeir starfa hjá. Sú aðferð sem hér er gert ráð fyrir að verði tekin upp hefur einmitt verið reynd í Bretlandi með mjög góðum árangri.
    Þrátt fyrir að tekist hafi verið á um einkavæðingu í Bretlandi er enginn vafi á því að almenn sátt er um þá stefnu að auka hlutdeild almennings í atvinnulífinu með hlutafjárkaupum.

Æskileg þróun.
    Þessi þróun er afar æskileg. Fyrir því má nefna margs konar rök:
    Með auknu hlutafé batnar efnahagur fyrirtækjanna enda er hægt að nýta það til þess að greiða niður skuldir eða efla fyrirtækið á annan máta.
    Eignadreifing verður meiri. Þetta á ekki síst við í stórum fyrirtækjum með markaðsráðandi stöðu.
    Sparnaður í þjóðfélaginu eykst en á því er mikil þörf hér á landi.

Til styrktar atvinnulífinu.
    Það fer ekki á milli mála að íslenskt atvinnulíf er að jafnaði of skuldugt. Alþjóðlegur samanburður leiðir í ljós að hér á landi standa fyrirtækin á afar veikum grunni og geta því illa brugðist við breytilegum aðstæðum. Fyrirtækjarekstur er í eðli sínu áhættusamur og kallar því á að fyrirtækin séu öflug og geti tekist á við óvænt mótlæti og það sem ekki er síður mikilvægt, að fjárfesta í nýrri tækni og nýjum tækifærum. Áhyggjuefni er að fjárfestingar atvinnulífsins hafa dregist mikið saman, raunar svo mjög að um tíma vógu þær varla upp á móti heildarafskriftum. Nú horfir heldur betur að þessu leyti.
    Ljóst er að fjárfrekar fjárfestingar eru fram undan ef hér á að vera unnt að halda uppi lífskjörum sem við getum sætt okkur við. Af þessari fjárfestingu getur hins vegar ekki orðið nema til komi aukið áhættufjármagn inn í fyrirtækin í formi hlutafjár.

Stærri fyrirtæki — aukin valddreifing.
    Flest bendir til þess að fyrirtæki muni stækka hér á landi sem annars staðar. Alþjóðleg samkeppni sem ekki þekkir nein landamæri fer vaxandi. Stöðugt aukast kröfur um Ýtrustu hagræðingu og lækkun kostnaðar. Svar fyrirtækjanna felst meðal annars í auknum samruna er leiðir til lægri kostnaðar og öflugri eininga. Hér á landi sjáum við glögg merki um þetta í langflestum atvinnugreinum. Þannig hafa einingarnar stækkað mjög í sjávarútvegi og umræður um óeðlilega samþjöppun kvótaeignar hafa að sama skapi aukist á undanförnum mánuðum. Svipaða sögu er að segja af fjármagnsmarkaðnum og á sviði fjölmiðlunar. Jafnframt þessu eru hefðbundin skil á milli atvinnugreina að þurrkast út. Fyrirtæki í einni atvinnugrein hasla sér völl í öðrum greinum atvinnulífsins og bendir allt til þess að sú þróun verði enn örari á næstunni. Þá gerir tæknin það einfaldlega að verkum að skilin á milli fjölmiðlunar og fjarskipta verða óskýr og þess vegna augljóst að á þeim sviðum muni að öllu óbreyttu verða um að ræða verulegan samruna eininga.
    Ein leiðin til þess að stuðla að aukinni vald- og eignadreifingu er því sú að örva fleira fólk til þátttöku í atvinnulífinu. Þannig verður minni hætta á því að eignir og völd safnist á hendur fáeinna fyrirtækja, sjóða og samsteypa. Sú leið sem hér er hvatt til gæti verið liður í því að dreifa valdi og eignum, til dæmis í sjávarútvegi, fjármálamarkaði og fjölmiðlum.

Aukinn sparnaður — forsenda aukinnar fjárfestingar.
    Sparnaður hér á landi var mikill lengst af, sbr. línurit sem birtust í skýrslu Seðlabanka Íslands sem út kom síðasta haust og fjallar um þróun, horfur og stefnu í peningamálum. Nú hefur orðið breyting á því. Í alþjóðlegu samhengi er ljóst að innlendur sparnaður er lítill. Eftirtektarvert er að þetta gerist þrátt fyrir að raunvextir séu hærri en almennt þekkist. Þetta er vissulega mjög alvarlegt. Innlendur sparnaður er vitaskuld ein forsenda þess að unnt sé að örva bráðnauðsynlega fjárfestingu í atvinnulífinu. Það gengur auðvitað ekki til lengdar að fjármagna fjárfestingu með erlendu lánsfé. Íslenskur sparnaður þarf að aukast og peningunum þarf að veita út í atvinnulífið.
    Þetta er mun brýnna nú en áður, þar sem ýmis þenslumerki sjást í efnahagslífinu. Innflutningur neysluvöru hefur aukist gríðarlega sem og skuldir heimilanna. Aukinn kaupmáttur virðist fremur skila sér í auknum kaupum á neysluvörum en til almenns sparnaðar. Margt bendir til þess að fleiri sparnaðarform gætu verið svarið við þessu.

Jákvæð þróun.
    Hér á landi hefur almenningur tekið æ meiri þátt í kaupum á hlutafé. Fyrir um áratug keyptu sárafáir einstaklingar hlutabréf en árið 1990 varð hins vegar veruleg breyting og um 16 þúsund einstaklingar nýttu sér skattalegt hagræði hlutabréfakaupa. Síðan dró úr þessum kaupum næsta ár á eftir. Frá þessum tíma má segja að hraður og öruggur stígandi hafi verið í þessum kaupum. Þannig keyptu um 16 þúsund einstaklingar hlutabréf á árinu 1995 og á síðasta ári keyptu um 20 þúsund manns hlutabréf í hinum ýmsu fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði skattayfirvalda um frádráttarbærni vegna hlutabréfakaupa. Þetta sést vel á meðfylgjandi súluriti.
    Athyglisvert getur verið að velta fyrir sér hvað þetta þýðir í raun. Talið er að um 150 þúsund manns séu framtalsskyldir. Af þeim greiðir um þriðjungurinn tekjuskatt, eða um 50 þúsund manns. Miðað við þær upplýsingar sem hér er stuðst við lætur því nærri að um það bil 40 prósent þeirra sem greiddu tekjuskatt hafi á síðasta ári keypt hlutabréf í skráðum félögum.

Góðærið til fólksins — með arðgreiðslum.
    Margt hefur verið ritað um mikilvægi þess að almenningur eignist hlut í atvinnulífinu. Fyrir því má færa margvísleg rök, auk þeirra sem að framan eru rakin. Einkanlega er þó ástæða til þess að nefna að aukin þátttaka almennings í atvinnurekstri gefur fólki tækifæri til þess að fá beinan arð af fyrirtækjunum þegar vel gengur. Þannig mun góðæri í atvinnulífinu skila sér til alls almennings. Jafnframt þessu eykst gagnkvæmur skilningur á milli vinnuveitenda og launþega, sem vitaskuld er gríðarlega þýðingarmikið, og tryggir þar með efnahagslegan stöðugleika, til lengri tíma litið. Þannig má færa fyrir því rök að þessi aðferð skapi atvinnulífinu stöðugra og betra starfsumhverfi sem muni skila sér í bættum lífskjörum þegar fram í sækir.

Fylgiskjal I.


Upplýsingar úr greinargerð Seðlabanka Íslands um þróun og


horfur í peningamálum, greiðslujafnaðar- og gengismálum.


(29. október 1996.)




(Repró, 2 bls., 4 myndir.)







Fylgiskjal II.


Fjöldi þeirra sem nýttu sér skattalegt hagræði


hlutabréfakaupa á undanförnum árum.


(Spá Kaupþings hf.)




(Repró, súlurit.)