Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 191 . mál.


811. Nefndarálitum frv. til sóttvarnalaga.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur, skrifstofustjóra frá heilbrigðisráðuneyti. Þá komu til fundar Haraldur Briem yfirlæknir, Helgi Guðbergsson læknir, Ólafur Walter skrifstofustjóri og Ragnheiður Harðardóttir lögfræðingur frá dómsmálaráðuneyti, Þorgeir Örlygsson formaður tölvunefndar og Sigrún Jóhannesdóttir ritari nefndarinnar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá héraðslækninum í Reykjavík, Landspítalanum, Samtökunum 78, landlækni, Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Félagi íslenskra heimilislækna, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélagi Íslands, Haraldi Briem yfirlækni og tölvunefnd.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til sú breyting á 2. gr. að auk þess að skilgreina þar hvað átt er við með smitsjúkdómum í lögunum verði almennt gildissvið laganna afmarkað í greininni en ekki í 3. gr. eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þá er lagt til að skilgreining á smitsjúkdómum verði rýmkuð og nái ekki einungis til sjúkdóma eða smitunar sem örverur, eiturefni (toxín) þeirra eða sníkjudýr valda heldur einnig til smitefna. Þetta er lagt til með hliðsjón af nýjum upplýsingum og þeirri staðreynd að ný tegund smitsjúkdóms er talin kunna verða að farsótt meðal manna í nánustu framtíð. Um er að ræða afbrigði af svonefndum Creutzfeldt Jakob sjúkdómi (CJD). Talið er að orsök sjúkdómsins sé smitefni sem nefnt er príon. Þetta smitefni er hins vegar ekki lífvera í þeim skilningi sem hingað til hefur verið lagður í hugtakið. Lífverur innihalda kjarnasýrur og fjölga sér með skiptingu erfðaefnis. Príon eru prótín en innihalda að því er virðist ekki kjarnasýrur og eru mjög þolin gegn hita og sótthreinsiefnum. Ekki er vitað með hvaða hætti þetta nýja sjúkdómsafbrigði smitar en getum hefur verið leitt að því að sjúkdómurinn hafi borist í menn með riðumenguðu nautakjöti. Meðgöngutími sjúkdómsins er langur og óttast menn að mörg ár kunni að líða áður en afleiðingar faraldurs verða ljósar. Því hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Evrópusambandið farið þess á leit við þjóðir heims að þær fylgist með þessum sjúkdómi. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin rétt að sjúkdómar sem smitefni valda verði taldir til smitsjúkdóma í lögunum til þess að ekki geti orkað tvímælis að Creutzfeldt Jakob sjúkdómurinn og sjúkdómsafbrigði hans falli undir lögin. Þá vill nefndin vekja athygli á að með lagatextanum er prentað fylgiskjal um flokkun smitsjúkdóma eftir meginsmitleiðum. Skv. 3. gr. frumvarpsins skal ráðherra ákveða með reglugerð, að fengum tillögum sóttvarnaráðs, hvaða smitsjúkdómar eru tilkynningarskyldir og hvaða sjúkdómar eru skráningarskyldir, sjá nánar 2. lið. Umrætt fylgiskjal átti að prenta sem fylgiskjal með frumvarpinu í heild til leiðbeiningar um þá sjúkdóma sem flokka ætti í reglugerð og er það því ekki fylgiskjal með lögunum. Vegna tillögu um rýmkun á skilgreiningu á hugtakinu smitsjúkdómur vill nefndin vekja athygli á að við setningu reglugerðar verði sjúkdómurinn Creutzfeldt Jakob (CJD) og sjúkdómsafbrigði hans (vCJD) flokkuð þar á meðal.
    Lagðar eru til breytingar á 3. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að 1. mgr. verði felld brott í samræmi við þær breytingar sem raktar eru í 1. lið og í öðru lagi eru lagðar til orðalagsbreytingar á 2. mgr. Í þriðja lagi er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við greinina þar sem skilgreint verði hvað átt er við með skráningarskyldu og tilkynningarskyldu, en ráðherra skal, að fengnum tillögum sóttvarnaráðs, ákveða með reglugerð hvaða smitsjúkdómar samkvæmt lögunum eru skráningarskyldir og hvaða sjúkdómar eru tilkynningarskyldir. Samkvæmt ákvæðinu er með skráningarskyldu átt við skyldu til að senda sóttvarnalækni ópersónugreindar upplýsingar en með tilkynningaskyldu átt við skyldu til að senda honum persónugreindar upplýsingar um sjúkdómstilvik. Nefndin leggur áherslu á að skýrar reglur séu í lögunum um svo viðkvæmar upplýsingar sem hér um ræðir. Í fjórða lagi er lagt til að bætt verði við ákvæði 4. mgr. sem kveður á um að gæta skuli fyllsta trúnaðar um allar einkaupplýsingar sem fram koma í smitsjúkdómaskrá sem sóttvarnalæknir er ábyrgur fyrir að sé haldin. Til að taka af öll tvímæli er hér lagt til að sömu reglur skuli gilda um upplýsingar sem fram koma í smitsjúkdómaskrá og þær upplýsingar sem fram koma í sjúkraskrám almennt. Skv. 8. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, gildir sú meginregla um sjúkraskrár og skýrslur sálfræðinga eða félagsráðgjafa að þær eru undanþegnar þeirri reglu að veita skuli aðgang að þeim að liðnum 80 árum frá því að slíkar upplýsingar um einkamálefni einstaklinga urðu til. Í fimmta lagi er lagt til að heimild ráðherra í 5. mgr. til að setja nánari reglur um fyrirkomulag tilkynninga og skráninga skuli felld brott úr greininni. Heimildina verði þess í stað að finna í 18. gr., sem og önnur fyrirmæli um skyldu eða heimildir ráðherra til að setja nánari reglur um einstök atriði, sbr. 5. lið.
    Lögð er til sú breyting á 7. gr. að í stað þess að nota orðalagið sóttnæmisútbreiðsla frá sjúklingi í lokamálslið 3. mgr. verði talað um útbreiðslu smits og er þetta í samræmi við annan texta frumvarpsins.
    Lögð er til breyting á ákvæðum 2. mgr. 15. gr. er lúta að málsmeðferð þegar einstaklingur hefur verið settur í einangrun geng vilja sínum vegna hættu á útbreiðslu smits. Komi sú staða upp að sóttvarnalæknir telji nauðsynlegt að einstaklingur skuli settur í einangrun skv. 14. gr. eða 1. mgr. greinarinnar, og framkvæmdin er í andstöðu við hinn smitaða, skal sóttvarnalæknir svo fljótt sem verða má bera ákvörðunina skriflega undir héraðsdóm í því umdæmi þar sem hinn smitaði dvelst þegar einangrunar er krafist. Orðalagið „svo fljótt sem verða má“ er í samræmi við ákvæði 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um rétt þeirra einstaklinga sem sviptir eru frelsi af öðrum ástæðum en vegna gruns um refsiverða háttsemi. Í frumvarpinu er miðað við að sóttvarnalæknir skuli bera framangreinda ákvörðun undir héraðsdóm ef hann telur nauðsynlegt að einangrun vari lengur er tvo sólarhringa. Nefndin leggur áherslu á að hér gildi ótvíræðar reglur og að engin tiltekin tímamörk séu sett heldur skuli bregðast við eins fljótt og mögulegt er, sbr. framangreint. Þá er lögð til sú breyting á ákvæðinu að dómari skuli skipa þeim sem sætir einangrun talsmann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um verjendur ef hann óskar þess og skal gefa honum kost á að bera fram ósk um hver verði skipaður. Með þessu vill nefndin tryggja enn frekar en gert er í frumvarpinu réttarstöðu þess einstaklings sem hefur verið settur í einangrun gegn vilja sínum.
    Lögð er til sú breyting á 18. gr. að þar verði að finna upptalningu á þeim atriðum sem ráðherra skuli setja nánari reglur um, auk heimilda ráðherra til að setja reglur, sbr. umfjöllun um 5. mgr. í 1. lið.
    Guðni Ágústsson og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 1997.Össur Skarphéðinsson,

Siv Friðleifsdóttir.

Sigríður A. Þórðardóttir.


form., frsm.Guðmundur Hallvarðsson.

Sólveig Pétursdóttir.

Pétur H. Blöndal.Margrét Frímannsdóttir.