Ferill 492. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 492 . mál.


827. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Jón Baldvin Hannibalsson,

Kristín Halldórsdóttir, Hjálmar Árnason, Svavar Gestsson,

Sighvatur Björgvinsson, Bryndís Hlöðversdóttir.

1. gr.


    Á eftir 2. mgr. 1. gr. kemur ný málsgrein sem hljóðar svo:
    Einstaklingum er óheimilt að takast á hendur persónulega ábyrgð á efndum fjárskuldbindinga hlutafélags eða setja persónulegar eigur sínar að veði til tryggingar efndum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmið frumvarpsins er að leggja bann við því að einstaklingar, hvort heldur er persónulega eða fyrir hönd einkafirma síns, geti svo gilt sé að lögum tekist á hendur ábyrgð á efndum fjárskuldbindinga hlutafélags. Viðsemjandi getur ekki byggt rétt á slíkum yfirlýsingum.
     Að baki þessari breytingu á gildandi lögum hvíla einkum sjónarmið um neytendavernd vegna yfirburðaaðstöðu ýmissa aðila, svo sem banka- og lánastofnana. Auk þess telja flutningsmenn að núverandi ástand leiði til mismununar milli viðsemjenda félagsins og jafnframt að bann það sem hér er lagt til muni hafa jákvæð áhrif á viðskiptalífið, því að ábyrgðaryfirlýsingar af því tagi sem hér um ræðir eru ein helsta meinsemd íslensks viðskiptalífs.
    Hlutafélög teljast til svonefndra fjárhagslegra félaga, þ.e. markmið þeirra er að stuðla að fjárhagslegum ávinningi þeirra. Af öðrum tegundum fjárhagslegra félaga má m.a. nefna samvinnufélög og sameignarfélög. Í hlutafélögum ber enginn hluthafa persónulega ábyrgð á efndum þeirra skuldbindinga sem félagið tekst á hendur. Ábyrgð þeirra takmarkast við það fé sem þeir hafa lagt fram til félagsins í formi hlutafjár. Þrátt fyrir þetta er algengt hérlendis að viðsemjendur hlutafélaga og einkahlutafélaga, einkum lánastofnanir, geri þá kröfu í samningum við félögin að einstaklingar gangist í persónulega ábyrgð fyrir efndum. Hugsunin að baki hlutafélagaforminu er sú að fjárfestar geti takmarkað áhættu sína af atvinnurekstri; áhættan verði ekki meiri en sem nemur framlögðu hlutafé. Með þessu móti geta fjárfestar takmarkað áhættu sína fyrir fram. Það fær því ekki samrýmst hugsuninni að baki rekstri hlutafélaga og einkahlutafélaga að einstaklingar ábyrgist jafnframt efndir félaganna með sérstakri yfirlýsingu.
    Á meðan löggjöfin heimilar slíkar ábyrgðaryfirlýsingar telja flutningsmenn að hætta sé á því að öðrum viðsemjendum félagsins sé mismunað. Á meðan aðstaða sumra viðsemjenda er slík að þeir geta krafist ábyrgðaryfirlýsinga er staða annarra ekki nándar nærri eins sterk. Lánardrottinn sem hefur undir höndum yfirlýsingu um persónulega ábyrgð stendur ólíkt betur að vígi en aðrir ef rekstur félagsins fer að ganga illa, því að þá er líklegt að forsvarsmenn félagsins reyni fyrst að gera upp við þá aðila sem þeir eða venslamenn þeirra eru í ábyrgðum gagnvart, áður en kemur að uppgjöri við aðra. Mýmörg dæmi eru um þetta í íslensku viðskiptalífi. Markmiðið með þessari lagasetningu er því öðrum þræði að reyna að koma í veg fyrir mismunun lánardrottna félagsins. Þá er rétt að benda á að sjaldnast er hægt að jafna saman aðstöðu banka- og lánastofnana með sérfræðingahópa sína annars vegar og lántakenda hins vegar. Þar er sjaldnast nokkurt jafnræði með aðilum. Það er því æskilegt að löggjafinn reyni að koma í veg fyrir að sú aðstaða komi upp að stofnanir fái nýtt sér þennan aðstöðumun umfram það sem eðlilegt má telja.
    Með því að heimila viðsemjendum að krefjast ábyrgðaryfirlýsinga einstaklinga er að mati flutningsmanna verið að ýta undir óeðlilega viðskiptahætti. Það eru óeðlilegir viðskiptahættir að viðsemjandi félags geti komist hjá því að þurfa að kynna sér raunverulega fjárhagsstöðu félags, með því einu að tryggja sér yfirlýsingu þriðja aðila. Það hljóta að teljist eðlilegri vinnubrögð að viðsemjandinn kynni sér fjárhagsstöðu félagsins og taki ákvörðun um viðskiptin á grundvelli þeirrar skoðunar, í stað þess að óska eftir veðbókarvottorði og ábyrgð þriðja aðila. Núverandi skipan mála hefur að mati flutningsmanna tilhneigingu til þess að grafa undan ábyrgðartilfinningu aðila í viðskiptum. Verði þetta frumvarp að lögum leggst sú kvöð á viðsemjendur hlutafélags í meira mæli en áður að þeir kynni sér raunverulega fjárhagsstöðu félagsins. Þannig færist eftirlit með fjárhagsstöðu félaga yfir til viðskiptalífsins, sem er til mikilla bóta því að hið opinbera hefur því miður einungis haft eftirlit að nafninu til með hlutafélögum, einkahlutafélögum og innborguðu hlutafé og í litlu sem engu sinnt þeim skyldum sem á því hefur hvílt.
    Með þessari breytingu er gerð tilraun til að sporna gegn starfsemi svokallaðra pappírshlutafélaga, þar sem ætlunin er aldrei að greiða inn hlutafé. Markmiðið með stofnun slíkra félaga er oft það eitt að komast yfir verðmæti með samningum án þess að ætlunin sé nokkurn tíma að efna þá, en jafnframt að notfæra sér ábyrgðarleysi hlutafélagaformsins. Slík félög komast sjaldnast af stað í rekstur án þess að þau geti opnað reikning hjá lánastofnun, en til þess að svo geti orðið þurfa einstaklingar yfirleitt að ganga í ábyrgð hjá viðkomandi lánastofnun. Bann við slíkum ábyrgðaryfirlýsingum gerði slíkum félögum erfitt um vik.
    Enn fremur vilja flutningsmenn benda á þá staðreynd að einstaklingar eiga örðugt um vik með að gera sér grein fyrir raunverulegri fjárhagsstöðu hlutafélags og meta áhættu sem fólgin er í útgáfu ábyrgðaryfirlýsingar, sérstaklega þegar um utanaðkomandi aðila er að ræða, t.d. ættingja forsvarsmanna félagsins. Dæmi um hörmungar sem dunið hafa yfir fjölskyldur og einstaklinga vegna slíkra yfirlýsinga þekkir hvert mannsbarn og ekki ástæða til að rekja þau hér.
    Það er mat flutningsmanna að með frumvarpi því sem hér er lagt fram sé ekki vegið að eðlilegu samningsfrelsi í landinu. Samningsfrelsi borgaranna er og verður ein meginregla viðskiptalífsins, en sú regla sætir þó undantekningum sem hafa verið réttlættar með ýmsum hætti. Má í því sambandi nefna ákvæði laga um nauðsyn þess að vernda vissa einstaklinga fyrir eigin gjörðum eins og finna má dæmi um í ákvæðum lögræðis- og samningalaga, þar sem kveðið er á um lágmarkshæfi einstaklinga til að gera samninga. Þá hafa undantekningar frá meginreglunni verið réttlættar með félagslegum þörfum en um það eru dæmi í vinnumarkaðslöggjöf. Þá hefur einnig verið vitnað til neytendaverndar líkt og finna má mörg dæmi um í samkeppnislögum og jafnan hvílir að baki slíkri réttlætingu hugmyndafræði um að verið sé að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Sú hugmyndafræði á við í þessu tilviki. Af þessu má ljóst vera að takmarkanir á samningafrelsi eru langt frá því að vera nýlunda í íslenskri löggjöf þó að flutningsmenn séu þeirrar skoðunar að ætíð þurfi að ígrunda og rökstyðja vel alla löggjöf sem er í andstöðu við meginregluna um samningafrelsi borgaranna. Það frelsi telst til almennra mannréttinda.
    Að lokum er vert að nefna að bann við slíkum yfirlýsingum getur leitt til verri kjara félags á lánamarkaði vegna aukinnar áhættu lánastofnunar. Það er mat flutningsmanna að sagan hafi kennt okkur að samfélagið hafi greitt þann mun of dýru verði, því að þegar ábyrgðir hafa fallið hafa í kjölfarið fylgt hörmungar fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem ekki hafa verið vaxtamunarins virði.
    Við þessa breytingu vakna spurningar um gildi ábyrgðaryfirlýsinga sem þegar hafa verið gefnar, þ.e. um afturvirkni laga. Með tilliti til grundvallarreglna um að lög séu ekki afturvirk verður að telja eðlilegt að breytingarnar hafi ekki áhrif á yfirlýsingar sem gefnar voru fyrir gildistöku laganna.