Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 495 . mál.


832. Frumvarp til laga



um skjaldarmerki Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    Skjaldarmerki Íslands er silfurlitur kross á heiðbláum feldi með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd skjaldarins, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd skjaldarins. Efri reitirnir skulu vera rétthyrndir, jafnhliða ferhyrningar og neðri reitirnir jafnbreiðir efri reitunum, en þriðjungi lengri.
    Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir sem getur í Heimskringlu: Griðungur, hægra megin skjaldarins, bergrisi, vinstra megin, gammur, hægra megin, ofan við griðunginn, og dreki, vinstra megin, ofan við bergrisann.
    Skjöldurinn hvílir á stuðlabergshellu.

2. gr.

    Stjórnvöldum ríkisins er heimilt að nota skjaldarmerkið.

3. gr.

    Skjaldarmerkið er til auðkennis starfi, stöðu og skilríkjum stjórnvalda.

4. gr.

    Skjaldarmerkið getur verið á prentuðum gögnum og skjölum, enda sé það sett á virðulegan stað og samræmis gætt milli leturstærðar og merkis.

5. gr.

    Skjaldarmerkið skal hafa á stjórnsýsluskjölum þegar þau hafa sérstakt réttargildi eða augljóst á að vera að um mikilvægt opinbert skjal sé að ræða.

6. gr.

    Heimilt er að hafa skjaldarmerkið á almennum bréfsefnum stjórnvalda.

7. gr.

    Heimilt er að hafa skjaldarmerkið í veggskjöldum í híbýlum og á húsum stjórnvalda.

8. gr.

    Heimilt er að nota skjaldarmerkið til auðkennis tækjum og búnaði á vinnustað stjórnvalda.
    Stjórnvöldum er heimilt að nota skjaldarmerkið í tengslum við stöðu sína og embætti.

9. gr.

    Hönnun skjaldarmerkis skal hljóta samþykki forsætisráðuneytisins.
    Ekki er heimilt að gera viðbætur við skjaldarmerkismyndina.
    Óheimilt er að nota skjaldarmerkið með öðrum táknmyndum, nema með leyfi forsætisráðuneytisins.

10. gr.

    Óheimilt er að nota skjaldarmerkið í firmamerki, vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vörum eða þjónustu.

11. gr.

    Nú notar maður skjaldarmerkið á söluvarning eða umbúðir hans og skal þá fenginn dómsúrskurður um að honum sé óheimilt að nota skjaldarmerkið eða hafa vörur til sölu sem auðkenndar eru með því. Auk þess má skylda hann til þess, ef nauðsyn krefur, að ónýta vörurnar eða umbúðir þeirra svo framarlega sem þær eru þá í vörslu hans eða hann á annan hátt hefur umráð yfir þeim.

12. gr.

    Óheimilt er að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af skjaldarmerkinu.

13. gr.

    Óheimilt er að hafa skjaldarmerkið á boðstólum sem minjagripi, barmmerki eða þess háttar.

14. gr.

    Forsætisráðuneytið getur sett með reglugerð sérstök ákvæði til skýringar ákvæðum laga þessara.

15. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári.
    Mál út af brotum þessum fara að hætti opinberra mála.

16. gr.

    Lögin öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 9. mars 1995 skipaði forsætisráðherra nefnd sem falið var að gera tillögur að reglum um meðferð og notkun skjaldarmerkis Íslands, ríkisskjaldarmerkisins, auk þess að endurskoða lög nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga.
    Í nefndinni áttu sæti Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður, Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður og Þorvaldur Garðar Kristjánsson, fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis, skipaðir án tilnefningar, Andrés Pétursson upplýsingafulltrúi, tilnefndur af Útflutningsráði Íslands, og Magnús Oddsson ferðamálastjóri, tilnefndur af Ferðamálaráði Íslands.
    Formaður nefndarinnar var Þorvaldur Garðar Kristjánsson og ritari Kristján Andri Stefánsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu.
    Hér er gerð grein fyrir frumvarpi að lögum um skjaldarmerki Íslands sem nefndin skilaði af sér. Um önnur störf nefndarinnar er vísað til frumvarps til laga um breyting á lögum um þjóðfána Íslendinga.
    Skjaldarmerki Íslands á sér langa sögu. Heimildir herma um skjaldarmerki fyrir 1262. Tilgátur eru um að bætt hafi verið við það merki hluta af skjaldarmerki Noregs og þannig myndað skjaldarmerki „Íslandskonungs“ sem notað var af Noregskonungi sem konungi Íslands. Eigi er vitað nákvæmlega hvenær þorskur, stundum flattur, stundum óflattur, varð merki Íslands. En það merki finnst þegar á 14. öld og hausaður þorskur með kórónu yfir er orðinn innsigli eyjarinnar Ísland undir lok 16. aldar. Um aldir er þorskurinn í skjaldarmerki Íslands. Á síðari hluta 19. aldar var hafinn áróður fyrir því að hætta að nota þorskmerkið sem tákn landsins en nota í þess stað hvítan fálka á bláum grunni.
    Með konungsúrskurði frá 3. október 1903 var ákveðið að skjaldarmerki Íslands skyldi vera „hvítur íslenskur fálki á bláum grunni“. En fálkamerkið var ekki lengi í notkun. Eftir að breytt var til um skjaldarmerki Íslands árið 1919 er það af fálkanum að segja að árið 1920 var gefinn út úrskurður um sérstakan íslenskan konungsfána og í honum skyldi vera íslenskur fálki. Og árið eftir stofnaði konungur Hina íslensku fálkaorðu með fálkamynd sem einkennismerki orðunnar eins og nafn hennar bendir til.
    Landvættaskjaldarmerkið var tekið upp með konungsúrskurði 12. febrúar 1919 sem er á þennan veg: „Skjaldarmerki Íslands skal vera krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands. Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir þannig: dreki, gammur, uxi og risi.“ Ríkharður Jónsson gerði teikningu af skjaldarmerkinu. Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir sem um getur í Heimskringlu Snorra Sturlusonar.
    Þegar leið að stofnun lýðveldisins 1944 voru menn tilkvaddir til að gera tillögu um breytingar á skjaldarmerkinu. Breyting var í öllu falli nauðsynleg vegna þess að kóróna var yfir skildinum en hún hlaut að hverfa við afnám konungdæmisins. En haldið var við hugmyndina um þá hollvætti landsins sem liggur að baki gerð skjaldbera skjaldarmerkisins. Var gerð ný teikning af skjaldarmerkinu þar sem kórónan var felld burtu og lögun skjaldarins breytt. Skjaldberarnir voru teiknaðir með öðrum hætti en áður og einnig undirstaðan sem skjöldurinn hvílir á. Tryggvi Magnússon listmálari gerði teikninguna og er frummyndin geymd í Þjóðminjasafninu. Nú er kveðið á um gerð merkisins í forsetaúrskurði um skjaldarmerki Íslands, nr. 35 17. júní 1944.
    Nefndinni var ekki falið að gera tillögu um nýtt skjaldarmerki eða breytingar á merkinu heldur að gera tillögur að reglum um meðferð þess og notkun.
    Ekkert er að hafa í forsetaúrskurðinum um hvernig farið skuli með skjaldarmerkið. Ekki er heldur mikið um það efni í lögum, reglugerðum eða stjórnvaldstilskipunum. Raunar er þar ekki fyrir að fara nema tveimur ákvæðum í lögum. Annað er í samkeppnislögum nr. 8/1993, 2. og 3. mgr. 29. gr. Er þar bannað við framboð vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið og lögin taka til að nota í heimildarleysi íslenska ríkisskjaldarmerkið. Það er líka óheimilt að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af skjaldarmerki íslenska ríkisins. Hitt ákvæðið er að finna í almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, 1. mgr. 95. gr., sbr. lög nr. 101/1976. Þar er lögð refsing við að smána opinberlega viðurkennt þjóðarmerki en þar undir heyrir ríkisskjaldarmerkið. Af þessu ræður af líkum að við lítt er að styðjast þegar setja skal almennar reglur um notkun og meðferð skjaldarmerkisins nema þær venjur sem mótast hafa, einkum á vettvangi framkvæmdarvaldsins. Hefur því nefndin í störfum sínum mjög tekið mið af þeim reglum sem um þetta gilda í nágrannalöndum okkar.
    Frumvarp þetta á að stuðla að slíkri meðferð skjaldarmerkisins sem samboðin er því mikilvægi er þetta ríkistákn hefur og er ætlað að standa vörð um þá helgi sem það hefur í þjóðarvitund. Kveðið er á um hvaða stjórnvöld megi nota merkið. Stjórnvöldum er í sjálfsvald sett hvort þau nota skjaldarmerkið í opinberum störfum sínum nema framkvæmdarvaldinu er gert að hafa merkið á stjórnsýsluskjölum sem hafa sérstakt réttargildi. Kveðið er á um tiltekin not og meðferð skjaldarmerkisins. Lagt er bann við að aðrir en stjórnvaldshafar noti skjaldarmerkið. Einstaklingum og fyrirtækjum er óheimil hvers konar notkun merkisins, svo sem til markaðssetningar, að viðlagðri ábyrgð að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er orðréttur forsetaúrskurður um skjaldarmerki Íslands sem gjörður var á Þingvelli við Öxará 17. dag júnímánaðar 1944.

Um 2. gr.


    Grein þessi kveður á um hverjum sé heimilt að nota skjaldarmerkið. Er það einungis heimilt stjórnvöldum ríkisins. Þetta nær til allra greina ríkisvaldsins samkvæmt þrískiptingu þess sem mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar.
    Þannig tekur heimildin til löggjafarvaldsins, þ.e. Alþingis og stofnana þess, svo sem umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar.
    Þá nær heimildin til dómsvaldsins, þ.e. Hæstaréttar, héraðsdómstóla og annarra dómstóla.
    Enn fremur nær heimildin til framkvæmdarvaldsins, þ.e. stjórnarráðsins og stofnana sem undir það heyra. Undanskilið er þó hvaðeina á vegum framkvæmdarvaldsins sem ekki lýtur að sjálfri stjórnsýslunni. Þannig er um þjónustustofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins sem einungis stunda almennan atvinnurekstur. Sama er um skóla, mennta- og vísindastofnanir ríkisins, sjúkrahús og heilsugæslustofnanir svo eitthvað sé nefnt.
    Engir opinberir aðilar utan stjórnvalda ríkisins geta notað skjaldarmerkið þó að stjórnsýslu hafi með höndum, svo sem sveitarfélög og stofnanir þeirra.

Um 3. gr.


    Samkvæmt grein þessari geta stjórnvöld notað skjaldarmerkið til auðkennis við skyldustörf sín. Í 4.—8. gr. er að finna ákvæði um helstu tilvik þessarar notkunar.

Um 4. gr.


    Samkvæmt þessari grein er stjórnvaldi í sjálfsvald sett að nota skjaldarmerkið eftir því sem þykir hæfa og tilefni er til. Um er að ræða hin margvíslegu skjöl sem stjórnvöldum fylgja. Þar með er talið bækur, bæklingar og stjórnarerindi sem ríkið gefur út enda sé um opinber málefni að ræða.
    Þá eru sett skilyrði fyrir notkun skjaldarmerkisins. Gætt skal virðingar við merkið og það notað af smekkvísi. Þannig skal skjaldarmerkið yfirleitt vera ofar eða fremst (þ.e. til vinstri handar skrifarans) eða á miðju miðað við annan texta eða efni. Skjaldarmerkið skal eftir því sem unnt er standa eitt sér miðað við texta og stærð þess skal vera í samræmi bæði við mikilvægi þess sem ríkismerkis og við kröfuna um að myndin sé skýr. Samræmis skal og gætt milli leturstærðar og merkisins.

Um 5. gr.


    Hér er mælt fyrir um skyldu til að nota skjaldarmerkið. Ekki nær þetta þó til löggjafarvaldsins eða dómsvaldsins heldur til framkvæmdarvaldsins að því er stjórnsýslu varðar. Skjaldarmerkið skal hafa á skjölum sem hafa sérstakt réttargildi. Fyrst og fremst er átt við flokk skjala, svo sem tilskipanir, opinberar tilkynningar, stjórnarerindi, úrskurði, embættisskipanir, vottorð, heimildarbréf, leyfisveitingar og þess háttar, ef augljóst á að vera að um opinber skjöl sé að ræða er hafi nokkurt mikilvægi.

Um 6. gr.


    Hér er tekið fram að heimilt sé að hafa skjaldarmerkið á almennum bréfsefnum stjórnvalda. Það er til að bannað sé að nota skjaldarmerki á þann veg, svo sem í Noregi. Ekki tíðkast það heldur hér á landi að löggjafinn eða dómarar noti merkið þannig. Aftur á móti hafa öll ráðuneytin skjaldarmerkið á bréfhaus sínum nema forsætisráðuneytið. Sömuleiðis nota sumar ríkisstofnanir merkið á sama hátt.
    Með tilliti til þessa þykir rétt að heimila formlega þessa notkun skjaldarmerkisins og allar greinar ríkisvaldsins sitji þá við sama borð í þessum efnum ef það skyldi þykja ástæða til að taka upp þessa skipan þar sem ekki hefði áður tíðkast.

Um 7. gr.


    Hér er það heimilað sem tíðkast samkvæmt venju, svo sem hjá sendiherrum og ræðismönnum.

Um 8. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. er stjórnvöldum almennt heimilað að nota skjaldarmerkið á vinnustað, svo sem á húsbúnað og tæki á skrifstofum sínum, eftir því sem ástæða þykir til og smekkvísi valdsmanna býður.
    Í 2. mgr. er stjórnvöldum heimilað að nota skjaldarmerkið í tengslum við stöðu sína og embætti. Hér er átt við húsbúnað til gestamóttöku, borðbúnað og matseðla, enn fremur nafnspjöld, boðskort og persónulegar orðsendingar, svo sem jólakort, nýjársóskir og þess háttar. Þessi notkun skjaldarmerkisins gengur í sömu átt og viðgengist hefur hjá stjórnarráðinu. Þetta er nú formlega heimilað. En samkvæmt hlutarins eðli er þessi heimild til notkunar skjaldarmerkisins bundin við forsvarsmenn stjórnvalda, svo sem ráðherra og forstöðumenn stjórnsýslustofnana. Það þykir hins vegar rétt að þessi skipan nái einnig til löggjafarvalds og dómsvalds svo að allir geti setið við sama borð ef svo sýnist.

Um 9. gr.


    Ákvæði er í 1. mgr. til að tryggja að skjaldarmerkið sé rétt til búið. Það á við hvort heldur mynd skjaldarmerkis er prentuð eða greipt, þrykkt eða máluð á málm, tré eða annað efni, svo og ofið í dúk. Engin frávik eða breytt útfærsla á landvættunum má eiga sér stað né á fánaskildinum og undirstöðunni sem hann hvílir á. Landvættirnir verða að vera rétt staðsettir en dæmi eru þess að svo sé ekki á skjaldarmerki sem notað er. Þá má ekki bregða út af réttum litum skjaldarmerkisins né annarri gerð þess. Enn fremur skal umgerð skjaldarmerkis vera smekkleg og lýtalaus, svo sem þegar um veggskildi er að ræða. Forsætisráðuneytinu er falin umsjá þess að allt sé með felldu í þessum efnum og samræmis sé gætt hjá þeim sem skjaldarmerkið nota.
    Í 2. mgr. eru bannaðar viðbætur við mynd skjaldarmerkisins. Skjaldarmerkið sjálft getur þá verið rétt til búið en teikningu skeytt við það að einhverju leyti svo sem dæmi eru til. Slíkt er ekki heimilt.
    Í 3. mgr. er fjallað um notkun skjaldarmerkisins samhliða öðrum merkjum eða táknum svo sem ef ríkisstofnun notaði skjaldarmerki ásamt sérmerki sínu. Slíkt er óheimilt nema með leyfi forsætisráðuneytisins. Afskipti ráðuneytisins eru til að sjá svo um að í engu sé skert virðing skjaldarmerkisins og það sé notað af smekkvísi.

Um 10. gr.


    Grein þessi kveður á um bann við að nota skjaldarmerkið til markaðssetningar í verslun og viðskiptum. Það leiðir reyndar af ákvæði 2. gr. um að einungis stjórnvöldum ríkisins sé heimilt að nota skjaldarmerkið við framkvæmd starfa sinna. En rétt þykir að taka þetta beinlínis fram í samræmi við 2. mgr. 29. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Um 11. gr.


    Nokkur brögð eru að því að einkaaðilar noti skjaldarmerkið á söluvarning, einkum minjagripi og þess háttar. Þar sem notkun skjaldarmerkisins er einungis heimiluð stjórnvöldum ríkisins er hér kveðið á um hvernig með skuli farið ef út af er brugðið. Er þá lagt til að lögfest verði samsvarandi ákvæði og er nú að finna í 6. mgr. 12. gr. laga um þjóðfánann ef ekki er farið að settum reglum. Ekki er gert ráð fyrir að viðurlög þessi taki til þess söluvarnings sem fyrir er þegar ákvæði þessi taka gildi. Hins vegar er bannað að framleiða vöruna áfram með skjaldarmerkinu og lagt blátt bann við að taka upp skjaldarmerkið á aðra vöru.

Um 12. gr.


    Grein þessi bannar að flytja inn og selja vöru með mynd af skjaldarmerkinu. Þetta ákvæði er að finna í samkeppnislögum nr. 8/1993, 3. mgr. 29. gr. Þykir rétt að fella þetta inn í lög um skjaldarmerki Íslands sem annað er skjaldarmerkið varðar.

Um 13. gr.


    Hér er lagt bann við að hafa skjaldarmerkið til sölu sem minjagrip, barmmerki eða þess háttar. Leiðir þetta af því að einungis stjórnvöldum er heimilt að nota skjaldarmerkið, sbr. 2. gr. Á þetta jafnt við hvort heldur um er að ræða skjaldarmerkið eitt sér eða það er áfest eða hluti af öðrum söluvarningi.

Um 14. gr.


    Ekki þykir ástæða til að setja bein fyrirmæli um að reglugerð sé sett heldur bíða reynslunnar af framkvæmd laganna og heimila reglugerð ef þurfa þykir.

Um 15. gr.


    Ákvæði um viðurlög við brotum á lögum þessum og málsmeðferð eru í samræmi við lögin um þjóðfána Íslendinga.

Um 16. gr.


    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um skjaldarmerki Íslands.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að reglur um notkun skjaldarmerkis Íslands verði settar í ein lög, en til þessa hefur forsetaúrskurður gilt um gerð merkisins.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.