Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 272 . mál.


834. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um árangur af skatteftirliti og skattrannsóknum.

    Frá árinu 1993 hefur átak verið gert til þess að bregðast við skattsvikum. Í því efni þarf að rifja upp starf sérstakrar nefndar sem skilaði skýrslu árið 1993 um aðgerðir til þess að draga úr skattsvikum. Tillögum þeirrar nefndar hefur í öllum meginatriðum verið hrundið í framkvæmd. Síðasta ár hefur starfað sérstök framkvæmdanefnd sem er ætlað að koma í veg fyrir skattsvik og er hún m.a. skipuð skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra. Þá er að nefna að skattyfirvöld hafa markvisst skipulagt árlegar eftirlitsáætlanir til samræmingar á aðgerðum. Loks er þess að geta að árið 1993 voru ákveðnar sérstakar fjárveitingar til aukins skatteftirlits. Um var að ræða u.þ.b. 20 stöðugildi.
    Fyrirspurninni er svarað lið fyrir lið. Í nokkrum tilvikum eru upplýsingar hvorki tiltækar né vinnsla þeirra möguleg. Á þetta einkum við um skiptingu skattbreytinga eftir tegundum einstakra brota. Slíkt er ekki skráð hjá skattyfirvöldum.

     Hverjar voru heildarhækkanir á opinberum gjöldum árlega sl. fjögur ár í kjölfar skattrannsókna og eftirlits, sundurliðað eftir lögaðilum, einstaklingum og tegundum skattsvika? Hve hátt hlutfall er það af áætluðum skattsvikum?
    Ekki er unnt að svara með vissu hve hátt hlutfall endurákvarðanir í kjölfar rannsóknarmála eru af heildarskattsvikum. Erfitt er að meta heildarskattsvik vegna margra óvissuþátta. Í almennu skatteftirliti skattstjóra verða skattahækkanir helst til vegna undanskots tekna og eigna, offærðs frádráttar og rangs innskatts. Fjárhæðir vegna þess voru ekki taldar með í áætluðu umfangi skattsvika við gerð skattsvikaskýrslunnar 1993 en þar voru bornar saman fjárhæðir samkvæmt landsframtölum og þjóðhagsreikningum til að leita eftir vanframtöldum tekjum, þ.e. skattsvikum.
    Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru heildarhækkanir gjalda á grundvelli rannsókna og eftirlits sem hér segir:
    
    Skattrannsóknir.
Heildargjaldabreytingar vegna skattrannsókna voru sem hér segir í m.kr.: árin 1993–96:
1993 1994 1995 1996 Samtals
Gjaldabreytingar (höfuðstóll) 25 217 198 542 982
Skaðabætur samkvæmt dómi 38 13 51
Dráttarvextir 157
Breytingar yfirskattanefndar -22
Nettó hækkun
1.168
    Heildarhækkun skatta þessi fjögur ár var 1.033 m.kr. auk dráttarvaxta, 157 m.kr. Til frádráttar koma lækkanir fyrir yfirskattanefnd, 22 m.kr. Alls nemur hækkun opinberra gjalda að teknu tilliti til breytinga því 1.168 m.kr.
    Gjaldabreytingar þessar voru gerðar með 169 úrskurðum ríkisskattstjóra og skattstjóra og tveimur dómum þar sem ríkissjóði voru dæmdar skaðabætur. Gjaldabreytingar þessar eru hækkanir að frádregnum úrskurðuðum lækkunum og eru því nettófjárhæðir. Ávallt er nokkuð um lækkanir í rannsóknarmálum en það á sér stað þegar rannsóknarþolar hafa sætt áætlun opinberra gjalda áður en til rannsóknar kemur.
    Mesta hækkun í einstöku máli er 108 m.kr. auk dráttarvaxta. Meðaltal skattbreytinga nettó, að viðbættum dráttarvöxtum, er um 7 m.kr.
    Fjárhæðir gjaldabreytinga ríkisskattstjóra í rannsóknarmálum sundurgreint eftir rekstrarformi skattaðila eru sem hér segir:

    Endurákvörðun ríkisskattstjóra.
1993 1994 1995 1996
Rekstrarform M.kr. Hlutfall M.kr. Hlutfall M.kr. Hlutfall

M.kr.

Hlutfall
Hlutafélög 2,1 8,4% 130 59,8% 67,7 34,2% 337 62,2%
Sameignarfélög 0 0,0% 0 0,0% 0 0,0% 2,3 0,4%
Félagasamtök 0 0,0% 4,6 2,1% 0 0,0% 9,5 1,8%
Einstakl. í rekstri 22,9 91,6% 76,1 35,0% 127,9 64,6% 169 31,2%
Aðrir 0 0,0% 6,7 3,1% 2,3 1,2% 23,9 4,4%
Samtals 25,0 100,0% 217,5 100,0% 197,9 100,0% 541,7 100,0%

     Skatteftirlit. Heildargjaldabreytingar vegna skatteftirlits voru sem hér segir í m.kr.:
1993 1994 1995 1996 Samtals
Gjaldabreytingar 1.619 1.562 1.116 685 4.982

    Heildarhækkun þessi fjögur ár var 4.982 m.kr. Fjárhæðir þessar eru nettófjárhæðir allra hækkana að teknu tilliti til lækkana við kæruafgreiðslu og lækkana yfirskattanefndar. Breytingarnar taka til allra skattbreytinga einstaklinga og lögaðila. Ekki er fyrirliggjandi sundurliðun gjaldabreytinga á lögaðila og einstaklinga.
    Eftirlitsstarf skattstjóra felst einkum í endurskoðun skattframtala fyrir og eftir álagningu. Um getur verið að ræða endurákvörðun að frumkvæði skattstjóra sjálfs eða annars vegar hafa endurákvarðanir verið ákveðnar á grundvelli eftirlitsáætlana og hins vegar samkvæmt staðarþekkingu skattstjóra.
    Skatteftirlitið hefur m.a. beinst að eftirliti með frádráttarliðum í rekstri, þar með taldri færslu einkaneyslu, færslu eftirlaunaskuldbindinga og óheimilli færslu rekstrartapa til frádráttar rekstrarhagnaði. Þá fer einnig fram eftirlit með virðisaukaskattsskilum fyrirtækja, bæði innskatti og útskatti. Komi í ljós við eftirlit hjá skattstjóra að skattskyld velta sé í einhverjum mæli vanframtalin er þeim málum vísað til skattrannsóknarstjóra ríkisins.

    Hversu mörgum málum er ólokið hjá skattrannsóknarstjóra og um hvaða fjárhæðir er þar að ræða?
    Í árslok 1996 voru í rannsókn hjá embætti skattrannsóknarstjóra 231 mál, auk þess voru um 20 mál á frumstigi athugunar. Samtals voru því óafgreidd hjá embættinu 251 mál. Skattrannsóknarstjóra hafa jafnframt borist 919 ábendingar um skattsvik en af þeim hafa 70 leitt til frekari rannsókna.
    Útilokað er að segja með nákvæmni hversu háar fjárhæðir er um að ræða í óloknum málum. Bæði er að rannsóknir hafa ekki hafist í sumum þeirra, rannsóknum hefur ekki miðað svo í öðrum tilfellum að segja megi til með nákvæmni um undanskot og í mörgum tilfellum á eftir að leita álits rannsóknarþola á ávirðingum. Ef hins vegar meðaltal gjaldabreytinga hjá ríkisskattstjóra undanfarin fjögur ár væri notað sem nálgun og tekið tillit til að u.þ.b. fimmtungur mála leiddi ekki til gjaldabreytinga eða frekari aðgerða skattrannsóknarstjóra gætu um 200 rannsóknarmálum verið ólokið. Meðaltal gjaldabreytingar hvers máls hjá ríkisskattstjóra síðustu fjögur ár er um 6,8 m.kr. Þannig má álykta að umtalsverðar fjárhæðir eigi eftir að koma til álagningar og innheimtu.
    Í árslok 1996 var ólokið gjaldabreytingum í 74 málum hjá ríkisskattstjóra sem þangað höfðu verið send af skattrannsóknarstjóra. Sé miðað við meðaltal gjaldabreytinga síðustu fjögur ár má áætla að óúrskurðaðar gjaldabreytingar gætu numið um 500 m.kr.

    Að hverju hafa skatteftirlit og rannsóknir helst beinst á þessum árum? Sérstaklega er átt við í hve miklum mæli þær hafi beinst að svartri atvinnustarfsemi, meintum virðisaukaskattssvikum, ólöglegum frádráttarliðum og að eigin neysla forsvarsmanna sé færð á rekstur fyrirtækisins.
    Í skýrslu skattsvikanefndar frá september 1993 er hugtakið „svört atvinnustarfsemi“ skilgreint sem sá hluti efnahagskerfisins sem er dulinn. Dulin starfsemi er margvísleg. Bæði er þar um að ræða ólöglega starfsemi, svo og aðra starfsemi sem er talin lögleg en skattskilum er áfátt.
    Skattsvikanefndin hefur skilgreint helstu svið svartrar atvinnustarfsemi þannig að um geti verið að ræða vinnu sem haldið er leyndri, svo og nótulaus viðskipti.
    Aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi hafa m.a. beinst að tilteknum áhættugreinum, svo sem byggingar- og verktakastarfsemi, bifreiðaþjónustu, veitingarekstri, flutningastarfsemi og lausaverslun. Samkvæmt skýrslu skattsvikanefndar frá september 1993 eiga fyrirtæki í þessum greinum þátt í um 50–60% af allri svartri atvinnustarfsemi í landinu.
    Mjög oft eru mörkin á milli svartrar atvinnustarfsemi og annarra skattsvika mjög óljós og illskilgreinanleg. Aðgerðir gegn fyrirtækjum í framangreindum starfsgreinum hafa leitt í ljós veruleg skattsvik sem unnt er að segja að falli fremur undir svarta atvinnustarfsemi en almenn skattsvik. Verulegur hluti rannsóknarskýrslna skattrannsóknarstjóra, sem ekki varða bein vanskil á opinberum gjöldum, falla undir skilgreininguna svört atvinnustarfsemi.
    Skipting rannsóknarskýrslna á starfsgreinar fram til 31. desember 1996 er sem hér segir:
    Byggingar- og verktakastarfsemi     
61

    Verslun-, veitinga- og hótelrekstur     
54

    Útgerðarfyrirtæki     
11

    Flutningastarfsemi     
5

    Iðnaðarstarfsemi     
31

    Þjónustustarfsemi     
27

    Annar rekstur     
67

    Vanskilamál (greind sérstaklega í 5. lið)     
53

     Alls:     
309

    Eftirlit skattstjóra beinist að öllum þáttum skattskila einstaklinga og rekstraraðila. Skatteftirlitinu má í grófum dráttum skipta í tvennt, þ.e. skatteftirlit sem byggist á vali skattstjóra eða er hluti samræmdrar eftirlitsáætlunar fyrir landið í heild. Ekki er hægt að nefna sérstaklega einstaka þætti skatteftirlits og skattsvika. Eðli máls samkvæmt beinist skatteftirlitið að öllum þáttum skattskilanna. Fái skattstjórar upplýsingar um svarta atvinnustarfsemi senda þeir málið til skattrannsóknarstjóra sem tekur ákvörðun um framhald málsins.
    Hvað virðisaukaskattinn varðar sjá sérstakar deildir skattstjóranna um álagningu og eftirlit með skilum. Þar er áherslan lögð á eftirlit með innskatti, útborgunum úr ríkissjóði og nýjum aðilum á skrá. Þessi tegund eftirlits er aðallega samtímaeftirlit, þ.e. eftirlit næstu mánuði eftir að virðisaukaskattsskýrslum er skilað. Einnig fer árlega fram samanburður virðisaukaskattsskila við skattframtöl og ársreikninga.

    Hvað hafa verið kveðnir upp margir dómar í skattsvikamálum sl. fjögur ár og hve mörgum hefur lokið með sektarúrskurðum hjá yfirskattanefnd? Óskað er sundurgreiningar á tegundum skattsvika, annars vegar í málum sem dæmt hefur verið í og hins vegar þar sem málum hefur lokið með sektarúrskurði.

Héraðsdómar:
1993.
    Alls voru kveðnir upp 7 héraðsdómar í skattsvikamálum. Í þessum 7 héraðsdómum var dæmd refsing samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    2 dómar vegna brota á lögum um söluskatt.
—    2 dómar vegna brota á lögum um virðisaukaskatt.
—    3 dómar vegna brota á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
—    3 dómar vegna brota á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
—    1 dómur vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
—    Í 3 dómum með tilvísun til 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna bókhaldsbrota).
    Refsimeðferð í tveimur málum frá skattrannsóknarstjóra ríkisins var lokið með framangreindum dómum.

1994.
    Alls voru kveðnir upp 5 héraðsdómar í skattsvikamálum árið 1994. Í 4 héraðsdómum var dæmd refsing samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    2 dómar vegna brota á lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
—    2 dómar vegna brota á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
—    2 dómar vegna brota á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
    Einu máli var vísað frá vegna meints aðildarskorts, en Hæstiréttur hnekkti síðar þeirri frávísun og lagði fyrir héraðsdómara að leggja dóm á málið.
    Refsimeðferð í tveimur málum frá skattrannsóknarstjóra ríkisins var lokið með framangreindum dómum.
1995.
    Alls voru kveðnir upp 17 héraðsdómar í skattsvikamálum árið 1995. Í þessum 17 héraðsdómum var dæmd refsing samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    1 dómur vegna brota á lögum um söluskatt.
—    11 dómar vegna brota á lögum um virðisaukaskatt.
—    2 dómar vegna brota á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
—    2 dómar vegna brota á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
—    7 dómar vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
—    Í 5 dómum með tilvísun til 262. gr. eða annarra ákvæða almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna meiri háttar brota, bókhaldsbrota og fjárdráttar).
    Refsimeðferð í fimm málum frá skattrannsóknarstjóra ríkisins var lokið með framangreindum dómum.

1996.
    Alls voru kveðnir upp 20 héraðsdómar í skattsvikamálum árið 1996. Í 19 héraðsdómum var dæmd refsing samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    17 dómar vegna brota á lögum um virðisaukaskatt.
—    9 dómar vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
—    Í 15 dómum með tilvísun til 262. gr. eða annarra ákvæða almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna meiri háttar brota/bókhaldsbrota/fjárdráttar).
    Í einum dómi var sýknað sökum fyrningar, en refsinæmi verknaðar þó viðurkennt í dómnum.
    Refsimeðferð í 21 máli frá skattrannsóknarstjóra ríkisins var lokið með framangreindum dómum.

Hæstaréttardómar:
1993.
    Alls voru kveðnir upp 4 hæstaréttardómar í skattsvikamálum. Þar af gekk héraðsdómur í 3 málum fyrir árið 1993. Í þessum 4 hæstaréttardómum var dæmd refsing samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    3 dómar vegna brota á lögum um söluskatt.
—    1 dómur vegna brota á lögum um virðisaukaskatt.
—    1 dómur vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
—    Í 3 dómum með tilvísun til 247. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna fjárdráttar).

1994.
    Alls voru kveðnir upp 3 hæstaréttardómar í skattsvikamálum. Í 2 hæstaréttardómum var dæmd refsing samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
     —    1 dómur vegna brota á lögum um virðisaukaskatt.
     —    1 dómur vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
     —    Í báðum dómum með tilvísun til 262. gr. eða annarra ákvæða almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna meiri háttar brota/bókhaldsbrota/fjárdráttar).
    Í einum dómi var máli vísað aftur til héraðsdóms til uppkvaðningar efnisdóms um málið.

1995.
    Alls voru kveðnir upp 2 hæstaréttardómar í skattsvikamálum árið 1995. Í þessum 2 hæstaréttardómum var dæmd refsing samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    Í báðum dómum vegna brota á lögum um virðisaukaskatt.
—    Í 1 dómi með tilvísun til 262. gr. eða annarra ákvæða almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna meiri háttar brota/bókhaldsbrota/fjárdráttar).

1996.
    Alls voru kveðnir upp 2 hæstaréttardómar í skattsvikamálum. Í þessum 2 hæstaréttardómum var dæmd refsing samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    Í báðum dómum vegna brota á lögum um virðisaukaskatt.
—    1 dómur vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
—    Í báðum dómum með tilvísun til 262. gr. eða annarra ákvæða almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna meiri háttar brota/bókhaldsbrota/fjárdráttar).

    Heildartölulegar niðurstöður fyrir dóma í skattsvikamálum vegna alls þess tímabils sem um ræðir, þ.e. frá 1. janúar 1993 til 31. desember 1996, eru því eftirfarandi:

Héraðsdómar:
    Heildarfjöldi: 49.
    Sakfellingar: 48.
    Frávísun: 1 (sökum villu dóms um skort á aðild).
    Sýkna: 1 (sökum fyrningar).
    Dæmdar refsingar: 47, þar af:
—    í 3 dómum vegna brota á lögum um söluskatt,
—    í 32 dómum vegna brota á lögum um virðisaukaskatt,
—    í 7 dómum vegna brota á lögum um tekjuskatt og eignarskatt,
—    í 7 dómum vegna brota á lögum um tekjustofna sveitarfélaga,
—    í 17 dómum vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda,
—    í 23 dómum með tilvísun til 262. gr. eða annarra ákvæða almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna meiri háttar brota/bókhaldsbrota/fjárdráttar).
1993 1994 1995 1996 Samtals
Héraðsdómar alls 7 5 17 20 49
Vegna:
söluskatts 2 1 3
virðisaukaskatts 2 2 11 17 32
tekjuskatts og eignarskatts 3 2 2 7
tekjustofna sveitarfélaga 3 2 2 7
staðgreiðslu opinberra gjalda 1 7 9 17
bókhaldslaga/fjárdráttar 3 5 15 23

Hæstaréttardómar:
    Heildarfjöldi: 12.
    Sakfellingar: 11.
    Heimvísun: 1 (sökum villu héraðsdóms um skort á aðild).
    Sýkna: Engin.
    Dæmdar refsingar: 11, þar af:
—    í 3 dómum vegna brota á lögum um söluskatt,
—    í 6 dómum vegna brota á lögum um virðisaukaskatt,
—    í 3 dómum vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda,
—    í 8 dómum með tilvísun til 262. gr. eða annarra ákvæða almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (vegna meiri háttar brota/bókhaldsbrota/fjárdráttar).
1993 1994 1995 1996 Samtals
Hæstaréttardómar alls 4 3 2 2 11
Vegna:
söluskatts 3 3
virðisaukaskatts 1 1 2 2 6
staðgreiðslu opinberra gjalda 1 1 1 3
bókhaldslaga/fjárdráttar 3 2 1 2 8

Úrskurðir yfirskattanefndar í sektarmálum:

1993.
    Alls voru kveðnir upp níu úrskurðir í sektarmálum af hálfu yfirskattanefndar á árinu 1993. Þau mál áttu öll rætur sínar að rekja til fyrrum rannsóknardeildar ríkisskattstjóra og kröfugerðar skattrannsóknarstjóra við embætti ríkisskattstjóra.
    Í öllum níu úrskurðunum var kröfum um sekt synjað, ýmist sökum fyrningar eða of mikils dráttar á því að hlutast væri til um refsimeðferð í málunum.

1994.
    Alls voru kveðnir upp sjö úrskurðir í sektarmálum af hálfu yfirskattanefndar árið 1994. Þau mál áttu öll rætur sínar að rekja til kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, þar af þrjú vegna hans eigin rannsókna, eitt vegna rannsóknar á vegum fyrrum rannsóknardeildar ríkisskattstjóra og þrjú vegna aðgerða skattstjóra.
    Í einum úrskurði var kröfu um sekt synjað vegna mistaka við rannsókn á vegum rannsóknardeildar ríkisskattstjóra og endurákvörðunar ríkisskattstjóra.
    Í þremur úrskurðum var kröfu um sekt vísað frá vegna þess að ekki var talið að nægilegur grundvöllur hefði verið lagður að ákvörðun um sekt þar sem ekki hefði farið fram sjálfstæð rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.
    Í þremur úrskurðum var fallist á kröfu um sekt og var sektin í öllum úrskurðunum ákvörðuð samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einnig tilvísunarákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til áðurnefndra laga nr. 75/1981.

1995.
    Alls voru kveðnir upp tíu úrskurðir í sektarmálum af hálfu yfirskattanefndar árið 1995. Þau mál áttu öll rætur sínar að rekja til kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og voru öll vegna hans eigin rannsókna.
    Í einum úrskurði var kröfu um sekt synjað vegna mistaka við endurákvörðun ríkisskattstjóra.
    Í þremur úrskurðum var kröfu um sekt vísað frá vegna þess að ekki náðist í skattaðila þannig að hann gæti tjáð sig um meðferð málsins fyrir yfirskattanefnd.
    Í sex úrskurðum var fallist á kröfu um sekt og var í þeim úrskurðunum ákvörðuð sekt samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    Í öllum sex úrskurðunum skv. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einnig tilvísunarákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til áðurnefndra laga nr. 75/1981.
—    Í þremur úrskurðum skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
—    Í einum úrskurði skv. 1., 2. og 4. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. einnig tilvísunarákvæði 11. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, til áðurnefndra laga nr. 45/1987.

1996.
    Alls voru kveðnir upp sjö úrskurðir í sektarmálum af hálfu yfirskattanefndar árið 1996. Þau mál áttu öll rætur sínar að rekja til kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og voru öll vegna hans eigin rannsókna.
    Í tveimur úrskurðum var kröfu um sekt synjað, öðrum vegna þess að bú skattaðila hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta og nokkur mistök höfðu átt sér stað við endurákvörðun ríkisskattstjóra en hinum vegna lágrar fjárhæðar þótt ásetningur til brota hafi verið næsta einbeittur, en við álagsbeitingu látið sitja.
    Í einum úrskurði var kröfu um sekt vísað frá vegna þess að ekki náðist í skattaðila þannig að hann gæti tjáð sig um meðferð málsins fyrir yfirskattanefnd.
    Í einum úrskurði var kröfu um sekt vísað aftur til skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem skattaðili dró til baka áður gefið samþykki sitt til þess að yfirskattanefnd felldi úrskurð á mál hans.
    Í þremur úrskurðum var fallist á kröfu um sekt og var í þeim úrskurðunum ákvörðuð sekt samkvæmt ákvæðum sem hér segir:
—    Í öllum þremur úrskurðunum skv. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, þar af í tveimur skv. 1. mgr. þeirrar greinar og einum skv. 5. mgr. þeirrar greinar, sbr. einnig í hinum tveimur fyrrnefndu tilvísunarákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til áðurnefndra laga nr. 75/1981.
—    Í öllum þremur úrskurðunum skv. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, þar af í tveimur skv. 1. mgr. þeirrar greinar og einum skv. 6. mgr. þeirrar greinar.
    Heildarniðurstöður fyrir úrskurði yfirskattanefndar í skattsvikamálum vegna tímabilsins frá 1. janúar 1993 til 31. desember 1996 eru því eftirfarandi:
    Heildarfjöldi: 33.
    Heimvísun: 1 (sökum þess að skattaðili dró til baka áður gefið samþykki sitt til þess að yfirskattanefnd felldi úrskurð á mál hans).
    Frávísanir: 7 (4 sökum þess að ekki náðist í skattaðila þannig að hann gæti tjáð sig um meðferð málsins fyrir yfirskattanefnd).
    Synjanir: 13 (vegna fyrningar, ýmissa annmarka á fyrri stigum málsins, lágra fjárhæða o.fl.).
    Úrskurðir um sekt: 12, þar af:
—    í 11 úrskurðunum skv. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einnig tilvísunarákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til áðurnefndra laga nr. 75/1981,
—    í 1 úrskurði skv. 5. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,
—    í 5 úrskurðum skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
—    í 1 úrskurði skv. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
—    í 1 úrskurð skv. 1., 2. og 4. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. einnig tilvísunarákvæði 11. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, til áðurnefndra laga nr. 45/1987.

    Hvað hefur skattrannsóknarstjóri rannsakað mörg mál þar sem um hefur verið að ræða bein vanskil á opinberum gjöldum, og þá hvaða gjöldum og í hvers konar rekstri? Hve háar fjárhæðir voru í vanskilum í þeim tilvikum, hve mikið innheimtist af þeim og hve oft var um gjaldþrota fyrirtæki að ræða?

    Rannsóknir skattrannsóknarstjóra á vanrækslu á skilum virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda hófust á árinu 1994. Frá því að embættið hóf aðgerðir gegn vanrækslu á skilum hefur rannsókn verið lokið með skýrslu í alls 53 fullrannsökuðum málum. Í árslok 1996 voru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra um 20 mál er vörðuðu bein vanskil á þessum sköttum.

Starfsemi skattaðila Fjöldi skýrslna Vanskil alls
í m.kr.
Meðaltal vanskila
í m.kr.*
Fjöldi gjaldþrota
aðila
Útgerðarfyrirtæki 13

159,0

12,2 4
Verktakastarfsemi 14 154,9 11,1 10
Veitingastarfsemi 9 44,2 4,9 2
Iðnaðarfyrirtæki 4 30,1 7,5 4
Tækniþjónusta 4 12,4 3,1 2
Fjölmiðlun 3 15,4 5,1 2
Annar rekstur 6 34,6 5,8 6
Samtals 53 450,6 8,5 30
*Einungis höfuðstóll vanskila, þ.e. án kostnaðar, álags og dráttarvaxta.
    Höfuðstóll vanskila samkvæmt 53 rannsóknarskýrslum er alls um 451 m.kr. Gróflega áætlað er skiptingin á milli virðisaukaskatts og staðgreiðslu þannig að virðisaukaskattur svarar fyrir um 60% og staðgreiðsla um 40% af vanskilunum. Ljóst er hins vegar að skuldir þessara aðila eru margfallt hærri en höfuðstóll vanskila gefur til kynna, einkum vegna áfallinna en ógreiddra dráttarvaxta, álags og kostnaðar.
    Allmargir þeirra sem ekki hafa staðið skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti koma málum sínum í lag eftir að rannsókn og/eða refsimeðferð af hálfu skattrannsóknarstjóra hefur hafist. Vanskilaaðilar hafa augljósan ávinning af því að greiða þegar svo háttar til. Greiðslur, sem borist hafa þegar þannig stendur á, hafa numið röskum 200 m.kr. á tímabilinu. Mjög vafasamt er að greiðslur hefðu fengist nema vegna fyrrgreindra aðgerða.
    Kveðnir hafa verið upp tíu dómar í vanskilamálum sem send hafa verið frá skattrannsóknarstjóra. Í átta tilvikum hafa aðilar greitt skuld sína að fullu og þar með ekki sætt ákæru af hálfu ríkissaksóknara eða dregið úr ákæruatriðum. Sektir nema alls 22,6 m.kr. í þeim vanskilamálum sem dómar hafa þegar fallið í. Alls voru átján vanskilamál óafgreidd í opinberri meðferð um sl. áramót.

Afgreiðsla vanskilamála frá skattrannsóknarstjóra
sem kærð hafa verið til Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Kærur til RLR Afgreitt með dómi Afgreitt án dóms Óafgreitt
Starfsemi skattaðila Fjöldi Hlutfall Fjöldi Hlutfall Fjöldi Hlutfall Fjöldi Hlutfall
Útgerðarfyrirtæki 9 25,0% 2 5,6% 3 8,3% 4 11,1%
Verktakastarfsemi 8 22,2% 4 11,1% 1 2,8% 3 8,3%
Veitingastarfsemi 9 25,0% 1 2,8% 4 11,1% 4 11,1%
Iðnaðarfyrirtæki 3 8,3% 3 8,3% 0 0,0% 0 0,0%
Tækniþjónusta 3 8,3% 0 0,0% 0 0,0% 3 8,3%
Annar rekstur 4 11,1% 0 0,0% 0 0,0% 4 11,1%
Samtals 36 100,0% 10 27,8% 8 22,2% 18 50,0%

6.    Hver er ábyrgð löggiltra endurskoðenda vegna rangra skila og upplýsinga, af ásetningi eða af gáleysi, á skattframtölum sem þeir gera fyrir aðra? Eru dæmi um að löggiltir endurskoðendur hafi sætt refsingu vegna brota á skattalögum?
    Í 5. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er kveðið á um að hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi láti skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi skattframtöl annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda skuli sæta refsingu skv. 1. mgr. greinarinnar.
    Engar sérreglur um ábyrgð endurskoðenda er að finna í gildandi lögum eða samkvæmt almennum reglum vegna rangra upplýsinga í framtölum. Á grundvelli framangreinds ákvæðis, sambærilegra reglna í öðrum skattalögum og samkvæmt grunnreglum skaðabótaréttar getur endurskoðandi bakað sér bótaábyrgð valdi hann tjóni með saknæmum hætti, þ.e. af ásetningi eða gáleysi.
    Endurskoðendur eru opinberir sýslunarmenn, sbr. 7. gr. laga nr. 67/1976, um löggilta endurskoðendur. Í því felst m.a. að þeir teljast opinberir starfsmenn og geta bakað sér refsiábyrgð samkvæmt almennum hegningarlögum sem slíkir. Ekki er kunnugt um dóma þar sem endurskoðandi hefur sætt refsingu vegna brota á skattalögum.

7.    Eru uppi áform um að bæta skattskil, t.d. með auknum mannafla við skatteftirlit og skattrannsóknir?
    Skatteftirlit síðari ára hefur skilað ótvíræðum árangri eins og rakið er í svörum við spurningum hér að framan. Að meginefni til er áformað að halda áfram á sömu braut. Ástæða er til að hafa eftirfarandi í huga í þessu sambandi:
    Í fyrsta lagi hafa á síðari árum verið sett lög sem heimila og styrkja möguleika skattyfirvalda til eftirlits og aðgerða. Nægir í því sambandi að nefna stofnun embættis skattrannsóknarstjóra árið 1993, lög um bókhald og ársreikninga árið 1995, breytingu á hegningarlögum vegna skatta- og bókhaldsbrota árið 1995 og að skattsektarákvæði hafa verið hert. Ráðuneytið telur að ekki séu efni til þess að gera sérstakar breytingar hvað þetta varðar.
    Í öðru lagi er nú unnið að endurskoðun reglugerðar um tekjukatt og eignarskatt sem að stofni til er frá árinu 1963. Ákvæði reglugerðarinnar þarf að ýmsu leyti að sníða að nútímanum þar sem áhersla er m.a. lögð á það að skilgreina kostnaðarþætti til útgjalda í atvinnurekstri og þar með til skattfrádráttar, frádráttarbærni lífeyrissjóðsiðgjalda o.s.frv. Unnið er að heildarendurskoðun þessarar reglugerðar og er talið að það muni verða til þess að fækka ágreiningsmálum og draga úr undandrætti frá skatti.
    Í þriðja lagi hefur skipulagi skatteftirlits verið breytt í ýmsum efnum. Frá árinu 1993 hefur embætti ríkisskattstjóra gert eftirlitsáætlun fyrir öll skattumdæmi þar sem samræmi er í vali á þeim atvinnugreinum sem til skoðunar eru. Á hverju ári síðan hefur embætti ríkisskattstjóra unnið, í samráði við skattstjórana, slíka heildaráætlun og árangur hvers embættis er skráður og metinn í lok hvers árs. Ráðuneytið telur að hér hafi nokkuð áunnist og að áfram þurfi að halda á þessari braut.
    Þá hefur starf skattstofanna við eftirlit verið styrkt. Þannig eru nú starfandi sérstakar skatteftirlitsdeildir við Skattstofuna í Reykjavík og í Hafnarfirði. Stofnaðar voru áþekkar eftirlitsdeildir hjá öðrum skattstofum en vegna smæðar og manneklu hefur rekstur þeirra gengið verr en vænst var. Því ákvað fjármálaráðherra í lok árs 1996 að fyrst um sinn yrðu kraftar sameinaðir þannig að þeir fjármunir, sem veittir hafa verið til eiginlegs eftirlitsstarfs á skattstofum utan Reykjavíkur, yrðu sameinaðir og tíu manna eftirlitsdeild hjá ríkisskattstjóraembættinu var sett á laggirnar. Of snemmt er að segja til um reynslu og árangur af þessu starfi.
    Í fjórða lagi er nú unnið að því að einfalda framtalsgerð fyrirtækja og einstaklinga. Á árinu 1998 verður tekið upp staðlað samræmt framtalseyðublað fyrir allan atvinnurekstur og ákveðið er að framtöl einstaklinga verði smám saman árituð upplýsingum sem þegar liggja fyrir í tölvukerfum ríkisins. Þetta einfaldar framtalsgerð einstaklinga og dregur úr villuhættu. Einnig mun þessi tæknibreyting gefa skattkerfinu færi á að ráðstafa meiri fjármunum og mannafla í eiginlegt skatteftirlit. Óhjákvæmilega krefst þessi breyting endurmenntunar starfsfólks og ráðningar fólks með sérþekkingu.
    Í fimmta lagi hefur skattkerfið reynt að halda uppi eftirliti með skráningu tekna, t.d. með svokölluðu sjóðvélaátaki og með heimsóknum í fyrirtæki þar sem hætta er talin vera á undanskotum og ólögmætri starfsemi. Störf embætta skattrannsóknarstjóra og skattstofa hafa stundum leitt til húsrannsóknar, yfirtöku bókhaldsgagna og lokunar á starfsemi. Eftirlitsmenn skattstofanna hafa ekki heimild til að ganga eins langt og skattrannsóknarstjóri í þessu efni en þeim er ætlað að sinna eftirliti með heimsóknum í fyrirtæki. Þessar aðgerðir skila beinum og óbeinum árangri vegna þeirra varnaðaráhrifa sem þær fela í sér. Afar mikilvægt er að eftirlit sem þetta sé virkt og verður lögð áhersla á það eins og frekast er kostur.
    Í sjötta og síðasta lagi skal bent á að viðræður standa yfir milli fulltrúa fjármálaráðuneytisins og skattstofanna um breytingar á skipulagi skattkerfisins. Þær viðræður geta leitt til tillagna sem koma til álita við næstu fjárlagagerð.