Ferill 507. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 507 . mál.


851. Tillaga til þingsályktunar



um takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, að móta tillögur um aðgerðir og nauðsynlegar lagabætur til að takmarka fjölda hrossa og hrossabeit í úthaga með tilliti til jarðvegsverndar og hóflegrar nýtingar gróðurlendis. Tillögurnar verði kynntar Alþingi fyrir þinglok vorið 1998.

Greinargerð.


    Hrossum hér á landi hefur fjölgað ár frá ári frá 1970 að telja. Þá voru hross á vetrarfóðrum talin vera rúm 33 þúsund en á árinu 1995 var tala hrossa komin yfir 78 þúsund og er nú að líkindum um 80 þúsund. Yfir helmingur þessa fjölda er í tveimur kjördæmum, á Suðurlandi (um 26 þúsund) og á Norðurlandi vestra (um 20 þúsund).
    Þessi mikla fjölgun hrossa hefur á ýmsum stöðum leitt til ofbeitar og landskemmda og með frekari fjölgun hrossa stefnir víða í algjört óefni. Tvær mikilvægar athuganir liggja nú fyrir þessu til staðfestingar, annars vegar víðtæk könnun Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins á jarðvegsrofi á Íslandi (skýrsla í febrúar 1997), hins vegar mat sömu stofnana á ástandi hrossahaga (skýrslur á ráðunautafundi 1997). Verður hér gerð nokkur grein fyrir þessum úttektum þar eð þær snerta með beinum hætti efni þeirrar tillögu sem hér er flutt.

Forkönnun á hrossahögum.


    Kannanir voru gerðar á hrossahögum í 19 sýslum landsins á árunum 1995–96 og stóð Landgræðsla ríkisins að þeim í samráði við Rannsóknastofnun landbúnaðarins, félagssamtök hestamanna, bændasamtökin og ýmsa fleiri aðila. Þar var um eins konar forkönnun að ræða og land flokkað eftir ástandi samkvæmt kvarða sem þróaður hefur verið hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Hrossahagar. Aðferð til að meta ástand lands. Höf.: Borgþór Magnússon, Ásrún Elmarsdóttir og Björn H. Barkarson. Apríl 1997). Skráðar voru allar jarðir þar sem matsmaður taldi að ástand lands væri slæmt, mjög slæmt eða land óhæft til beitar. Með þessum hætti var unnt að skoða margar jarðir á stuttum tíma. Í þessari forkönnun voru alls gerðar athugasemdir við ástand og nýtingu lands í vörslu 522 aðila sem samtals áttu 17.730 hross samkvæmt forðagæsluskýrslum. Þar af var ástand stórra svæða talið óviðunandi hjá 254 aðilum og voru þeir bæði í þéttbýli og dreifbýli. Um niðurstöður vísast í mynd og töflu sem birtar eru sem fylgiskjal II með tillögunni og fengnar eru úr samantekt eftir Björn H. Barkarson hjá Landgræðslu ríkisins. Þar kemur m.a. fram að ástand hrossahaga er verst í þremur sýslum, Skagafjarðarsýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Næsta skref könnunarinnar verður að skoða nánar þær jarðir þar sem athugasemdir voru gerðar í samvinnu við umráðaaðlila lands og hrossa svo og viðkomandi búnaðarsambönd. Verður reynt að benda bændum og hrossaeigendum þar sem beitarmál eru í ólestri á æskileg úrræði, m.a. að fækka óþarfa hrossum, friða land tímabundið og stjórna hrossabeit þannig að gróður haldi velli. Almennt þykir æskilegt að gróðurnýting í högum fari ekki yfir 50%.

Jarðvegsrof og hrossabeit.


    Frá árinu 1990 hefur verið unnið að heimildasöfnun og kortlagningu á jarðvegsrofi hérlendis undir forustu dr. Ólafs Arnalds hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Með útgáfu á niðurstöðum er fenginn nýr og betri grunnur en áður til að byggja á við landgræðslu og jarðvegsvernd.Víða í skýrslunni Jarðvegsrof á Íslandi (febrúar 1997) er vikið að áhrifum hrossabeitar á gróður og jarðveg. Verður hér á eftir vitnað orðrétt í skýrsluna á nokkrum stöðum:
    „Athygli vekur hve rofdílar eru algengir á grónu landi, en þeir eru fyrst og fremst afleiðing beitar. Þá sýnir rannsóknin að víða á sér stað alvarlegt rof í hlíðum landsins og að gæta þarf hófs við nýtingu þeirra. Sérstaklega er varasamt að beita hrossum á viðkvæmt gróðurlendi hlíðanna.“ (bls. 10)
    „Það er nokkuð algeng skoðun hér á landi að jarðvegsvernd og landgræðsla felist fyrst og fremst í því að stöðva hraðfara gróðureyðingu. Jarðvegsvernd felst ekki síður í sjálfbærri landnýtingu þar sem ekki er gengið á landsins gæði. Friðun auðna og rofsvæða er eðlilegur þáttur í landgræðslustarfi, ásamt því að stuðla að skynsamlegri nýtingu, fræðslu, uppgræðslu, aukinni ábyrgð landeigenda og frumkvæði þeirra. Heildstæða jarðvegverndaráætlun þarf að byggja á víðtækri þekkingu á gróðri, jarðvegi og jarðvegsrofi. Hún kallar á hvaðeina sem stuðlar að skynsamlegri nýtingu lands, verndun náttúruauðs og endurheimt landgæða, þar á meðal rannsóknir, stjórnun beitar, fræðslustarf, áætlanagerð og lagasetningu.“ (bls. 23)
    „Á óvart kemur hve mikið rof er sums staðar í annars vel grónum dölum Borgarfjarðarsýslu. Rofið er oftast fólgið í rofdílum og jarðsili (rofdílar í grónum hlíðum) en þessar rofmyndir má fyrst og fremst rekja til beitar og er full ástæða til að hvetja til þess að hlíðar Borgarfjarðardala séu nýttar með varúð, sérstaklega snemma vors þegar jarðvegur er gljúpastur.“ (bls. 56)
    „Jarðsil er einnig víða alvarlegt á Snæfellsnesi og í Dalasýslu. Þessar sýslur eru annars mjög vel grónar og því ber að taka þessar niðurstöður sem aðvörun um að verulegt gróðurlendi geti tapast að fullu á næstu áratugum ef þess verður ekki gætt að beita hlíðarnar hóflega. Beit stóðs í hlíðum ætti að vera bönnuð alls staðar á landinu.“ (bls. 57)
    „Hrossabeit er farin að spilla högum í Húnavatnssýslum og gæti kastað rýrð á hina grænu ásýnd þeirra. Nokkuð víða er alvarlegt rof í hlíðum sökum hrossabeitar, sérstaklega í austursýslunni, en áður hefur verið fjallað um að slíkt rof getur auðveldlega valdið miklu tjóni á stuttum tíma, auk þess sem jarðsil í hlíðum eykur hættu á skriðuföllum.“ (bls. 62)
    „Láglendi Skagafjarðar er vel gróið en hrossabeit veldur skemmdum á gróðri og jarðvegi á mörgrum jörðum. Ljóst er að beit hrossa er orðin mun meiri í Skagafirði en skynsamlegt getur talist. Beitarhólfin eru þó flest of lítil til þess að þau komi fram á kortlagningu í mælikvarðanum 1:100 000.“ (bls. 62)
    Eyjafjörður: „Víða er mikið jarðsil í hlíðum, sem margar hverjar eru brattar og því mjög viðkvæmar. Áður var vikið að því að tengsl eru á milli skriðufalla, jarðsils og beitarþunga. Skriðuföll eru hluti af eðlilegri þróun í náttúrunni en tíðni margfaldast eftir því sem gengið er nær gróðrinum (sjá umfjöllun um jarðsil í 8. kafla). Flestir hreppar Eyjafjarðar skarta grænni gróðurkápu en Eyfirðingar ættu að huga vel að hlíðunum, eins og nýleg hrina skriðufalla sannar. Óhófleg hrossabeit í þessum hlíðum samræmist ekki skynsamlegri landnýtingu.“ (bls. 63)
    „Á Sléttu, í Þistilfirði og við Bakkaflóa á sér stað mikil frostlyfting. Því eru þúfur oft áberandi og jarðsil mikið. Slík vistkerfi eru mjög viðkvæm og þola illa hrossabeit.“ (bls. 63)
    „Hlíðar Austfjarðafjallanna eru víða illa grónar en þó standa eftir stakar torfur til vitnisburðar um gróðurlendi sem áður verndaði fyrir vatni og vindum. Í þessum hlíðum hefur átt sér stað mikið rof og þær eru mjög viðkvæmar fyrir beit. Draga ber úr beitarálagi undir eins og rofsár taka að myndast í þeim.“ (bls. 70)
    „Flestir afrétta Sunnlendinga eru metnir óhæfir til beitar. . . .  Hrossabeit á láglendi er sums staðar það mikil á Suðurlandi að hún er tekin að valda eyðingu jarðvegs. Við kortlagningu eru ofbeitt hrossahólf einkum flokkuð sem rofdílasvæði með rofeinkunn 3.“ (bls. 76)
    „Á Suðvesturlandi er rof yfirleitt lítið, ef Krísuvíkursvæðið og suðvesturhorn Reykjanesskagans er undanskilið. Mjög hefur dregið úr jarðvegsrofi eftir að sauðfé fækkaði og mörg rofsvæði hafa nú verið að fullu grædd af bæjarfélögum og áhugamannasamtökum. Hins vegar er hrossabeit farin að spilla landi á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í Mosfellsbæ og á Kjalarnesi.“ (bls. 76)
    „Gróður og jarðvegur í hlíðum mynda vistkerfi sem er allajafna svo viðkvæmt að ekki ætti að beita þungum dýrum þar í miklum mæli, allra síst á vorin þegar jarðvegur er gljúpur. Vetrarbeit í hlíðum er mjög skaðleg og það er skoðun höfunda að setja ætti reglur sem takmarka hrossabeit í bröttum hlíðum.“ (bls. 95)
    „Á mörgum afréttarsvæðum er ekki um annað að ræða en að hætta beit því nýtingin getur ekki talist réttlætanleg um fyrirsjáanlega framtíð. Dæmi um slík svæði eru flestir afréttir Rangárvallasýslu og Árnessýslu og afréttir norðanlands, allt frá Eyvindarstaðaheiði austur að Jökulsá á Brú.“ (bls. 108)
    Framangreindar tilvitnanir, sem tengjast hrossabeit og gróður- og jarðvegseyðingu sem henni getur fylgt, fela í sér mikilsverðar ábendingar fyrir löggjafar- og framkvæmdarvald.

Hrossafjöldi verði í samræmi við landgæði.


    Einkennandi fyrir hrossabúskap hérlendis síðustu áratugi er að hrossum hefur farið fjölgandi ár frá ári eins og lesa má úr töflu í fylgiskjali I. Álit þeirra sem rannsóknir stunda og fylgst hafa með ástandi jarðvegs og gróðurlenda er að hrossastofninn sé orðinn of stór miðað við núverandi beitarhætti. Eflaust mætti sums staðar létta á ofbeittum högum með bættri stjórnun beitar án þess að grípa til fækkunar hrossa, en það breytir ekki þeirri meginstaðreynd að stofninn er þegar orðinn of stór miðað við gróðurlendi og fer stækkandi að óbreyttu.
    Dr. Ólafur Dýrmundsson, landnýtingarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, hefur margoft bent á þann vanda sem fylgir mikilli fjölgun hrossa í landinu. Í viðtali í Eiðfaxa, 1. tbl. 1997, sem ber yfirskriftina „Landskemmdir af völdum hrossabeitar“ segir Ólafur m.a. eftirfarandi:
    „Ef landið er ofsetið þá verður hreinlega að fækka hrossunum, það verður að grisja stofninn þar sem þess er þörf. Þá þurfa hestamenn í þéttbýli að gæta hófs bæði í hrossarækt og hrossaeign almennt. . . .  Ég tel að félög hrossabænda og hestamanna þurfi að taka þessi beitarvandamál fastari tökum en verið hefur. Að vísu hafa margir einstaklingar úr röðum þessara aðila tekið undir okkar skoðanir á þessum málum. Meðal annars þarf að gæta hófs í hrossafjölgun og leggja áherslu á gæði hrossanna en ekki fjöldann. Samtök hestamanna hafa líka tekið undir það almennt að gæta hófs um beitina. Þó hefur mér fundist skorta á, einkum hjá Félagi hrossabænda, að kveða upp úr um að stöðug fjölgun hrossa þjóni engum tilgangi og hún geti verið skaðleg á sumum stöðum. Að gæta verði hófs í ásetningi folalda og að grisja miskunnarlaust og segja þetta opinberlega. Ekki að líta á þetta sem eitthvert feimnismál. Eitt er víst að þessi vandamál sem nú eru komin upp má flest rekja til þess að menn hafa séð gull og græna skóga í fjölgun hrossa.“
    Þess má geta að haldi fjölgun hrossa áfram með viðlíka hætti og sl. tíu ár (4,2% á ári að meðaltali) yrði hrossafjöldinn í landinu kominn í um 200 þúsund að 20 árum liðnum.

Markmiðið um sjálfbæra landnýtingu er alvörumál.


    Með rannsóknum á jarðvegi og ástandi gróðurs hérlendis hefur nú verið lagður sæmilegur grunnur til að meta þessa þætti og stunda eðlilega vöktun af hálfu notenda lands og eftirlitsaðila. Rannsóknir þarf þó að efla til mikilla muna og m.a. tengja þær ráðgjöf um beitarstjórnun og bætta meðferð landsins.
    Búskaparhættir hafa gjörbreyst hér á landi frá því sem áður var samfara stóraukinni ræktun til heyskapar og beitar. Vetrarbeit sauðfjár heyrir að mestu sögunni til og hrossum er gefið meira en áður var. Nautgripir ganga að mestu á ræktuðu landi og sauðfé er einnig beitt á ræktað land vor og haust. Mestu munar um stórfellda fækkun sauðfjár úr um 900 þúsund á vetrarfóðrum árið 1978 niður í 460 þúsund árið 1995. Þó er enn víða stundaður sauðfjárbúskapur þar sem engar forsendur er til þess út frá ástandi bithaga. Á sama tíma hefur fjöldi hrossa hátt í þrefaldast og hafa hross aldrei verið svo mörg í landinu að vitað sé. Talið er að þau taki a.m.k. eins mikið í úthagabeit og sauðfé, en dreifing og plöntuval er með öðrum hætti. Þótt heildarfjöldi hrossa liggi fyrir er þörf á markvissri úttekt á hrossabúskap og hrossaeign með tilliti til landkosta jarða og afrétta.
    Þær breytingar á búskaparháttum sem að ofan er lýst hafa ekki orðið með hliðsjón af ástandi gróðurlendis í úthaga og á afréttum heldur hafa þar önnur öfl verið ráðandi. Stjórnlaus fjölgun hrossa er skýrt dæmi um þetta. Menn þurfa einnig að gera ráð fyrir að veðurfar geti snúist til hins verra og að mat á beitarþoli og ásetningur verða að miðast við það sem landið getur sæmilega borið í hörðum árum.
    Virk stjórntæki, leiðsögn og skýr stefna þurfa að koma til ef tryggja á sjálfbæra þróun gróðurríkis landsins og eðlilega undirstöðu fyrir beit. Við þá stefnumótun þarf vissulega að líta á beitarálag alls búfénaðar sem og annarra grasbíta í heild.
    Með þeirri tillögu sem hér er flutt er sjónum sérstaklega beint að hrossabúskap í landinu og lýst eftir tillögum frá stjórnvöldum til að takmarka frekari fjölgun hrossa og ofbeit af þeirra völdum.


Fylgiskjal I.


Úr Hagtölum landbúnaðarins 1996.



Fjöldi hrossa í einstökum landshlutum árið 1995.



Landshlutar
Hross


Reykjanessvæði     
9.150

Vesturland     
10.626

Vestfirðir     
1.161

Norðurland vestra     
19.930

Norðurland eystra     
6.834

Austurland     
4.636

Suðurland     
25.864

Samtals     
78.201



Fjöldi hrossa árin 1970–95.



Ár
Hross


1970          
33.472

1975          
46.925

1978          
51.019

1980          
52.346

1984          
52.245

1985          
54.132

1986          
56.406

1987          
59.319

1988          
63.531

1989          
69.238

1990          
72.030

1991          
74.067

1992          
75.171

1993          
76.726

1994          
78.517

1995          
78.201



Fylgiskjal II.


Björn H. Barkarson:

Úr Forkönnun á hrossahögum. Ráðunautafundur 1997.



Fjöldi jarða eftir sýslum og stærð lands sem fékk


athugasemd í forkönnun 1995 og 1996.











(1 súlurit myndað)







Hrossaeign þeirra aðila sem fengu athugasemd


vegna ástands lands í forkönnun 1995 og 1996.



Fjöldi aðila


Allt landið

0 hross

1–20 hross

>20 hross

Hross alls



Stór hluti jarðar     
2
6 53 3.658
Stór hólf     
19
65 109 6.866
Fáeinir hektarar     
17
60 69 3.762
Smá hólf     
10
52 60 3.444
Alls          
48
183 291 17.730


Fylgiskjal III.

Svör við könnun Búnaðarfélags Íslands á húsakosti fyrir hross


(hlutfall sveitarfélaga sem svöruðu 51%).


(Freyr, 9. tbl. 1995. Húsakostur fyrir hross, bls. 365.)



Fjöldi hrossa

Hús

Gott skjól

Hvorugt


Landshluti

svör

%

%

%



Suðvesturland     
7.240
100
Vesturland     
5.814
86 1 13
Vestfirðir     
530
98 1 1
Norðvesturland     
8.973
70 12 18
Norðausturland     
1.715
94 4 2
Austurland     
1.178
84 3 13
Suðurland     
9.862
59 26 15
Samtals     
35.312
78 11 11


Fylgiskjal IV.

Fjöldi hrossa í landinu 1970–1994 og horfur framundan.


(Landgræðslufréttir. Landgræðsla ríkisins. 1. tbl. 5 árg. 1995.)







(1 súlurit myndað)












Fjöldi hrossa í landinu 1970–94 og áætlun um fjölda til 2010 miðað við meðalfjölgun


síðustu fimm ára (ljósar súlur) og miðað við meðalfjölgun síðustu tíu ára (dökk viðbót).