Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 406 . mál.


852. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um eftirgjöf afnotagjalda Ríkisútvarpsins til aldraðra og öryrkja.

    Óskað var umsagnar Ríkisútvarpsins sem svaraði einstökum töluliðum fyrirspurnarinnar á þessa leið:

    Hversu margir elli- og örorkulífeyrisþegar misstu undanþágu frá greiðslu afnotagjalda Ríkisútvarpsins árið 1995?
    Fyrir utan látna voru örfáir sem féllu út en 1.412 fengu niðurfellingu í viðbót við þá 8.163 sem fyrir voru.

    Hversu margir úr sama hópi misstu undanþáguna árið 1996?
    Fyrir utan látna voru örfáir sem féllu út en 598 fengu niðurfellingu til viðbótar við þá 9.575 sem fyrir voru.

    Hvaða breytingum er gert ráð fyrir árið 1997 og hvers vegna?
    Niðurfellingar til handa öldruðum og öryrkjum miðast við upplýsingar um frekari uppbót á örorku- eða ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Á miðju ári 1996 var reglum breytt á þann hátt að þessi bótaréttur var skertur og leiddi það til þess að hópur þeirra sem notið hafa niðurfellingar á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins minnkaði verulega. Ríkisútvarpið ákvað að fresta gjaldtöku vegna þessa fram yfir áramótin 1996/1997. Í byrjun árs 1997 voru 2.800 undanþágur felldar niður samkvæmt nýjum upplýsingum frá Tryggingastofnun. Hins vegar var ákveðið að innheimta ekki gjöld hjá þeim sem fæddir eru 1910 eða fyrr og voru það um 800 aðilar. Taka ber fram að einhver hluti þess hóps sem missti undanþáguna greiðir áfram engin afnotagjöld þar sem aðstæður hafa breyst frá því að undanþága var veitt, t.d. þeir sem búa á heimili þar sem einhver annar greiðir afnotagjald eða ef viðkomandi býr nú á vistheimili eða hæli sem nýtur undanþágu.
    Nú þegar hefur þeim sem njóta niðurfellingar fjölgað um 200 frá áramótum og af þeim 1.930 sem fengu reikninga í janúar fengu 1.430 reikninga í mars.

    Hverjar verða breytingar á útgjöldum Ríkisútvarpsins eða ríkissjóðs á þessu ári samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum um eftirgjöf afnotagjalda?
    Í tekjuáætlun Ríkisútvarpsins fyrir árið 1997 er gert ráð fyrir um 1.000 nýjum, fullinnheimtum afnotagjöldum vegna þessa og nema þau um 24 millj. kr. Af þeim rennur 14% virðisaukaskattur til ríkissjóðs, sem gerir um 3 millj. kr. Aukakostnaður vegna þessara afnotagjalda fellur inn í heildarkostnað við innheimtu afnotagjalda hjá um 80.000 gjaldendum.