Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 191 . mál.


855. Frumvarp til sóttvarnalaga.



(Eftir 2. umr., 2. apríl.)



I. KAFLI


Skilgreiningar.


1. gr.


    Almennar sóttvarnir eru þær ráðstafanir sem lög þessi kveða á um að ávallt skuli beita vegna smitsjúkdóma.
    Opinberar sóttvarnir eru þær ráðstafanir sem skal beita vegna hættulegra smitsjúkdóma:
    þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi,
    þegar hætta er á útbreiðslu farsótta innan lands,
    þegar smitaður einstaklingur skapar hættu á útbreiðslu smits með framferði sínu.

2. gr.


    Lög þessi fjalla um smitsjúkdóma sem valdið geta farsóttum og ógnað almannaheill, svo og aðrar alvarlegar næmar sóttir. Með smitsjúkdómum er átt við sjúkdóma eða smitun sem smitefni, örverur og eiturefni (toxín) þeirra eða sníkjudýr valda.

3. gr.


    Ráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum sóttvarnaráðs, hvaða smitsjúkdómar eru skráningarskyldir og hvaða sjúkdómar eru tilkynningarskyldir, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. Af skráningarskyldum smitsjúkdómum eru þeir sjúkdómar tilkynningarskyldir sem ógnað geta almannaheill.
    Með skráningarskyldu er átt við skyldu til að senda sóttvarnalækni ópersónugreindar upplýsingar, en með tilkynningarskyldu er átt við skyldu til að senda honum persónugreindar upplýsingar um sjúkdómstilvik.
    Sóttvarnalæknir er ábyrgur fyrir því að haldin sé smitsjúkdómaskrá. Skráin tekur til smitsjúkdóma og ónæmisaðgerða, sbr. 2. tölul. 5. gr., og er til stuðnings sóttvarnastarfi og faraldsfræðirannsóknum. Gæta skal fyllsta trúnaðar um allar einkaupplýsingar sem fram koma í smitsjúkdómaskrá og gilda um skrána sömu reglur og um aðrar sjúkraskrár.

II. KAFLI


Yfirstjórn sóttvarna.


4. gr.


    Embætti landlæknis ber ábyrgð á framkvæmd sóttvarna undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.
    Til embættis landlæknis skal ráða lækni, sóttvarnalækni, til að sinna sóttvörnum. Læknir þessi skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra.     Sóttvarnalæknir skal í starfi sínu hafa samvinnu við héraðslækna, aðra starfsmenn og stofnanir heilbrigðisþjónustunnar, heilbrigðisnefndir og yfirdýralækni eftir því sem við á.
    Héraðslæknar eru ábyrgir fyrir sóttvörnum, hver í sínu héraði, undir stjórn sóttvarnalæknis.
    Héraðslæknar og sóttvarnalæknir skulu hafa samstarf um framkvæmd nauðsynlegra sóttvarna og njóta aðstoðar lögregluyfirvalda ef með þarf.

5. gr.


    Verksvið sóttvarnalæknis er aðallega eftirfarandi:
    Að skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um land allt, m.a. með útgáfu leiðbeininga um viðbrögð við farsóttum.
    Að halda smitsjúkdómaskrá til að fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma með öflun nákvæmra upplýsinga um greiningu þeirra frá rannsóknastofum, sjúkrahúsum og læknum.
    Að koma upplýsingum um útbreiðslu smitsjúkdóma, innan lands sem utan, með reglubundnum hætti og eftir þörfum til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.
    Að vera læknum og öðrum, sem við sóttvarnir fást, til ráðgjafar.
    Að hafa umsjón með forvörnum gegn smitsjúkdómum, m.a. upplýsingum og fræðslu til almennings um þessi efni.

6. gr.


    Ráðherra skal skipa sjö manna ráð, sóttvarnaráð, til fjögurra ára í senn. Þar skulu eiga sæti sérfræðingar á sviði smitsjúkdómalækninga, bakteríufræði, veirufræði, kynsjúkdóma og faraldsfræði/heilbrigðisfræði, heilsugæslulæknir og hjúkrunarfræðingur með sérþekkingu á sviði sóttvarna. Ráðherra skipar formann úr hópi ráðsmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Þegar fjallað er um mál í sóttvarnaráði, sem tengjast starfssviði Hollustuverndar ríkisins eða embættis yfirdýralæknis, skulu fulltrúar þeirra stofnana sitja fundi ráðsins, eftir því sem við á, með málfrelsi og tillögurétti.
    Sóttvarnaráð mótar stefnu í sóttvörnum og skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.
    Ráðið skal hafa aðsetur hjá embætti landlæknis og skal sóttvarnalæknir vera ritari þess.

III. KAFLI


Almennar sóttvarnaráðstafanir.


1. Skyldur einstaklinga.


7. gr.


    Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er.
    Hver sá sem hefur ástæðu til að halda að hann hafi smitast af smitsjúkdómi sem ógnað geti öðrum mönnum er skyldur að leita læknis án tafar. Leiði læknisrannsókn í ljós að um slíkan sjúkdóm sé að ræða er viðkomandi skyldur að fylgja fyrirmælum læknis um meðferð og ráðstafanir til að fyrirbyggja smitun.
    Ef læknir telur mikilvægt að rekja smit til að hefta frekari útbreiðslu þess ber sjúklingi skylda til að veita nauðsynlegar upplýsingar um það af hverjum hann gæti hafa smitast, svo og hverja hann kann að hafa smitað. Komi læknirinn því ekki við ber honum að vísa sjúklingi til stofnunar sem aðstöðu hefur til að rekja smit. Skylt er hlutaðeigendum að hlýða fyrirmælum læknis um nauðsynlegar rannsóknir til varnar útbreiðslu smits frá sjúklingi.

2. Skyldur lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.


8. gr.


    Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn skulu í starfi sínu hafa vakandi auga með smitsjúkdómum og útbreiðslu þeirra.

9. gr.


    Læknir, sem kemst að því í starfi sínu að einstaklingur hefur smitast af smitsjúkdómi sem samkvæmt lögum þessum er tilkynningarskyldur eða hefur rökstuddan grun um að svo sé, skal þegar í stað tilkynna það viðkomandi héraðslækni eða sóttvarnalækni.
    Hliðstæð skylda hvílir á forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana. Rannsóknastofur, sem fást við rannsóknir á sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma sem lög þessi taka til, skulu hafa starfsleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
    Hlutaðeigandi aðilum er skylt að aðstoða viðkomandi héraðslækni og sóttvarnalækni, m.a. með því að veita upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegar vegna sóttvarna.

10. gr.


    Hafi læknir, sem hefur sjúkling til meðferðar sem haldinn er smitsjúkdómi, rökstuddan grun eða vitneskju um að sjúklingurinn fylgi ekki fyrirmælum sem honum voru sett um umgengni og meðferð skal hann tilkynna það þegar í stað til viðkomandi héraðslæknis eða sóttvarnalæknis.

3. Skyldur heilbrigðisfulltrúa og heilbrigðisnefnda og dýralækna.


11. gr.


    Heilbrigðisfulltrúar og formenn heilbrigðisnefnda, samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og dýralæknar skulu tilkynna viðkomandi héraðslækni eða sóttvarnalækni jafnskjótt og þeir hafa orðið varir við hugsanlega smithættu. Héraðslæknir eða sóttvarnalæknir skal á sama hátt tilkynna viðkomandi heilbrigðisnefnd eða dýralækni, eftir því sem við á, strax og þeim verður kunnugt um smithættu. Sóttvarnalæknir skal gefa heilbrigðisnefndum nauðsynlegar upplýsingar og ráð og hafa eftirlit með því að til viðeigandi ráðstafana sé gripið.
    Heilbrigðisnefndir, heilbrigðisfulltrúar og dýralæknar skulu aðstoða við sóttvarnir og gefa nauðsynleg fyrirmæli um viðeigandi ráðstafanir ef hætta er á að dýr, matvæli, vatn, skolplagnir, loftræsting eða annað í umhverfinu dreifi eða geti dreift smitnæmum sjúkdómum.

IV. KAFLI


Opinberar sóttvarnaráðstafanir.


1. Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innan lands.


12. gr.


    Ef tilkynningar til sóttvarnalæknis um smitsjúkdóma benda til að farsótt sé yfirvofandi skal hann þegar í stað gera heilbrigðisráðherra viðvart.
    Ráðherra ákveður að tillögu sóttvarnaráðs hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Sóttvarnalæknir eða héraðslæknar geta beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram ef þeir telja að hvers konar töf sé hættuleg, en gera skulu þeir ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.

2. Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi.


13. gr.


    Um sóttvarnaráðstafanir, sem grípa má til vegna hættu á farsóttum frá útlöndum eða frá Íslandi til útlanda, skal setja reglugerð í samræmi við efni þeirra alþjóðasamninga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem Ísland er aðili að.

3. Aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum.


14. gr.


    Nú telur sóttvarnalæknir er honum berst tilkynning um smitsjúkdóm að grípa þurfi til frekari ráðstafana en læknir hefur þegar gert til þess að fyrirbyggja eða hefta útbreiðslu smitunar sem ógnað getur almannaheill. Skal hann þá í samráði við héraðslækni sjá til þess að til slíkra aðgerða sé gripið. Takist ekki samstarf við viðkomandi aðila getur hann, ef þurfa þykir, leitað aðstoðar lögregluyfirvalda vegna aðgerða til varnar smiti. Héraðslæknir getur einnig gripið til slíkra aðgerða í forföllum sóttvarnalæknis.
    Með aðgerðum er átt við læknisrannsókn, einangrun hins smitaða á sjúkrahúsi og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. Áður en gripið er til þvingunaraðgerða skal ætíð reynt að leysa mál með öðrum hætti.
    Ákvörðun sóttvarnalæknis eða héraðslæknis um aðgerðir af þessu tagi má kæra til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Kæra frestar ekki framkvæmd.

15. gr.


    Ef maður, haldinn smitsjúkdómi, fellst ekki á að fylgja reglum um umgengni við aðra eða rökstuddur grunur er um að hann hafi ekki fylgt slíkum reglum getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli lagður inn á sjúkrahús í einangrun eða að hann skuli einangraður með öðrum hætti.
    Telji sóttvarnalæknir nauðsynlegt að einstaklingur sé settur í einangrun skv. 14. gr. eða 1. mgr. þessarar greinar og framkvæmdin er í andstöðu við hinn smitaða skal sóttvarnalæknir svo fljótt sem verða má bera ákvörðunina skriflega undir héraðsdóm í því umdæmi þar sem hinn smitaði dvelst þegar einangrunar er krafist. Í kröfu sóttvarnalæknis skal koma fram ítarleg lýsing á málavöxtum og nauðsyn einangrunar og tiltekinn sá tími sem einangrun er ætlað að vara, auk annarra gagna sem málið kunna að varða. Dómari skal taka málið fyrir án tafar og skipa þeim er sætir einangrun talsmann, ef hann óskar þess, samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um verjendur og skal gefa honum kost á að bera fram ósk um hver verði skipaður. Dómari getur aflað gagna af sjálfsdáðum. Dómari kveður síðan upp úrskurð um hvort einangrun skuli haldast eða falla niður. Einangrun má ekki vara lengur en 15 sólarhringa í senn, en ef sóttvarnalæknir telur nauðsynlegt að hún vari lengur skal hann að nýju bera kröfu um slíkt undir héraðsdóm. Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki framkvæmd einangrunar.
    Dómsathöfnum þeim, sem um ræðir í 2. mgr., má skjóta til Hæstaréttar með kæru og fer um hana eftir almennum reglum um kæru í einkamálum eftir því sem við á. Kæra frestar ekki framkvæmd einangrunar.

V. KAFLI


Ýmis ákvæði.


16. gr.


    Starfrækja skal göngudeildir vegna tilkynningarskyldra smitsjúkdóma sem veita meðferð og rekja smitleiðir.
    Á sjúkrahúsum, sem heilbrigðisráðherra ákveður, skal vera aðstaða til einangrunar þeirra sem eru til rannsóknar eða meðferðar vegna smitsjúkdóma eða gruns um smitsjúkdóm.
    Heilbrigðisráðherra getur falið ákveðnum rannsóknastofum að ábyrgjast greiningu örvera eða sníkjudýra úr sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma og fylgjast með ónæmisástandi einstaklinga gegn þýðingarmiklum smitnæmum sjúkdómum.

17. gr.


    Allur kostnaður, sem hlýst af framkvæmd laga þessara, skal greiðast eins og annar sjúkra- og lækniskostnaður. Greiðsluhlutdeild sjúklinga skal fylgja almennum reglum um það efni. Heimilt er þó að undanþiggja greiðsluhlutdeild sjúklinga sem leita til sérdeilda sem stunda forvarnir og sjúklinga sem boðaðir eru til skoðunar vegna leitar að smitberum.

18. gr.


    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um fyrirkomulag skráninga og tilkynninga skv. 3. gr., starfsemi rannsóknastofa sem fást við rannsóknir á sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma sem lögin taka til skv. 9. gr., opinberar sóttvarnaráðstafanir skv. 12. gr., starfsemi göngudeilda skv. 16. gr. og hvaða deildir geti veitt þjónustu, sjúklingum að kostnaðarlausu, skv. 17. gr. Þá er ráðherra heimilt að setja reglur ef grípa þarf til sérstakra ráðstafana vegna sóttvarna við náttúruhamfarir og að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

19. gr.


    Með mál sem rísa kunna út af brotum á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
    Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.

20. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Þá falla úr gildi eftirfarandi lög:
    Berklavarnalög, nr. 66 31. desember 1939.
    Lög um ráðstafanir til varnar gegn fýlasótt, nr. 70 7. maí 1940.
    Sóttvarnarlög, nr. 34 12. apríl 1954.
    Farsóttalög, nr. 10 19. mars 1958.
    Lög um varnir gegn kynsjúkdómum, nr. 16 28. apríl 1978, sbr. breyting á þeim lögum nr. 7 7. apríl 1986.